150. löggjafarþing — 84. fundur
 30. mars 2020.
breytingartillögur stjórnarandstöðunnar við dagskrármál.

[10:03]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Sem fyrr óska ég hæstv. forsætisráðherra góðs gengis í því að fást við þau stóru viðfangsefni sem verið er að takast á við núna og bíða. Við í Miðflokknum höfum einsett okkur að vinna með ríkisstjórninni og liðka fyrir því að öll mál sem til úrbóta horfa komist sem hraðast áfram og reyna að bæta þau ef þörf er á eins og kostur er. Raunar held ég að þetta sé afstaða allra flokkanna í stjórnarandstöðu, að þeir hafi sýnt að þeir séu reiðubúnir að vinna með stjórninni, enda eðlilegt við þessar aðstæður að menn vinni sem mest saman.

Nú hafa stjórnarandstöðuflokkarnir sett saman dálítinn lista af breytingartillögum við eitt þeirra mála sem eru til umræðu hér í dag. Það snýr að fjárfestingum og raunar höfðu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sagt áður að það sem kynnt var fyrir nokkrum dögum í Hörpu væri einhvers konar upphafspunktur eða byrjun á aðgerðum, þörf yrði á meiri aðgerðum. Nú hefur komið glögglega í ljós, held ég að mér sé óhætt að segja, í millitíðinni að strax er þörf á meiri aðgerðum. Þarna reynum við í stjórnarandstöðunni að leggja eitthvað af mörkum með því að bæta aðeins við, ekkert mjög verulega, enda er þetta fyrst og fremst viðbætur við það sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Fyrir vikið spyr ég í ljósi þess að við hljótum öll að vilja vinna saman við þessar aðstæður og við höfum reynt að gera það í stjórnarandstöðunni: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúin að leyfa sínu þingliði, þingliði meiri hlutans, að styðja þær breytingartillögur séu þær mönnum að skapi? Mun hæstv. forsætisráðherra a.m.k. gefa sínum þingflokki (Forseti hringir.) leyfi til að styðja við þær breytingartillögur sem horfa mjög til úrbóta?



[10:06]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir bæði fyrirspurnina og góð samskipti í kringum allar þær aðgerðir sem við höfum haft til umræðu á vettvangi þingsins undanfarnar vikur. Ég ítreka það sem hv. þingmaður sagði, það er rétt að við höfum átt mjög gott samtal undanfarnar vikur í kringum þennan veirufaraldur við bæði Miðflokkinn og aðra stjórnarandstöðuflokka og ég þakka fyrir það. Það er ekki sjálfgefið.

Hv. þingmaður reifar sérstaklega viðbótartillögur vegna fjárfestinga frá stjórnarandstöðuflokkunum upp á 30 milljarða kr., eins og ég hef skilið það. Ég hef litið svo á að þetta samtal ætti að eiga sér stað í fjárlaganefnd. Raunar hef ég heyrt að þar sé verið að leggja til viðbætur upp á 5 milljarða í nafni nefndarinnar allrar, þ.e. að fjárlaganefnd hafi komið sér saman um 5 milljarða viðbætur, en til viðbótar komi 30 milljarða tillaga frá ýmsum stjórnarandstöðuflokkum. Um það vil ég segja að við erum nú stödd í lok marsmánaðar 2020 og ég hef lagt á það áherslu að það sem við erum að leggja í fjárfestingar núna geti nýst á þessu ári. Þess vegna er fjárfestingapakkinn samsettur eins og hann er samsettur, til að mynda með tiltölulega miklu vægi samgönguframkvæmda því að þær er auðvelt að ráðast í mjög hratt og eru tilbúnar en aðra hluti tekur lengri tíma að hrinda í framkvæmd. Ég tel að breytingartillögurnar sem nefndin er að gera séu mjög góðar.

Hv. þingmaður spyr hvort ég muni leyfa þingliði mínu, eins og hann orðar það, að taka afstöðu til tillagna. Ég lít svo á að hver þingmaður sé bara bundinn af eigin sannfæringu en ég hef lagt á það áherslu að tillögur séu raunhæfar að því leyti að þær komist til framkvæmda á þessu ári og það sé eðlilegt jafnvægi milli ólíkra tegunda framkvæmda í pakkanum. Það eru stóru leiðarljósin hjá okkur í þessum málum.



[10:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa haft þetta sama leiðarljós, að um sé að ræða verkefni sem eru framkvæmanleg á árinu og hafa fjölbreytilegar tillögur. Þeir hafa einfaldlega lagt áherslu á að bæta við það sem kemur frá ríkisstjórninni verkefnum sem eru brýn og geta haft mjög mikil áhrif á atvinnusköpun og möguleika okkar á að byggja okkur upp í framhaldinu. Það hlýtur að vera að við slíkar aðstæður, þegar mikið er kallað eftir samvinnu, að þá sé a.m.k. opnað á þann möguleika að stjórnarandstaðan geti lagt fram tillögur, ekki bara reynt að koma með ábendingar í nefndum, eins og við höfum vissulega gert, en að ríkisstjórn, stjórnvöld, séu tilbúin til að skoða það að taka vel í hugmyndir sem koma frá stjórnarandstöðu og að þingmenn stjórnarliðsins séu a.m.k. ekki beittir flokksaga til að fá menn einfaldlega til að hafna öllu.



[10:09]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess að sú 15 milljarða tillaga sem lögð var fram af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er nú orðin u.þ.b. 20 milljarðar tel ég sýnt að þar hafi sannarlega verið hlustað eftir tillögum minni hlutans en ekki bara því sem hv. þingmaður kallar ábendingar. Ég lít svo á að tillögur til viðbótar komi ekki endilega frá meiri hlutanum frekar en aðrar breytingar sem nefndir þingsins eru að gera núna, heldur lít ég á þetta sem samvinnuverkefni.

Ég vil hins vegar árétta það sem hér er sagt varðandi tillögur um viðbætur til heilbrigðiskerfisins, sem skila sér inn í tillögur fjárlaganefndar, að þar liggur líka fyrir skýr yfirlýsing ríkisstjórnar um að annað fjáraukalagafrumvarp verði lagt fyrir á þessu ári. Þar verður bættur kostnaður sem fellur til í heilbrigðiskerfinu af þessum veirufaraldri. Það liggur algjörlega fyrir og hann er ekki fyrirsjáanlegur eins og staðan er núna. Það vitum við öll sem hér erum. Leiðarljósin í þessu eru fyrst og fremst þau að við sjáum fram á að fjármunirnir nýtist á þessu ári. Það er ástæðan fyrir því að til að mynda er lagður til milljarður í tengivegi í þessum tillögum (Forseti hringir.) en ekki umframkostnaður. Vegna þess að hv. þingmaður spyr um vilja þingmanna þá árétta ég að hv. þingmenn eru alltaf bundnir af sannfæringu sinni.