150. löggjafarþing — 86. fundur
 2. apríl 2020.
kostnaður við kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga.

[10:36]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra var forsætisráðherra í stutta stund kom hann færandi hendi á HeForShe-viðburð í New York með bleika köku sem hann skreytti sjálfur. Á viðburðinum sagðist ráðherra vonast til þess að síðar meir yrði hans minnst fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til að auka jafnrétti kynjanna. Stuttu síðar sprengdi uppreist æra ríkisstjórn hæstv. ráðherra og hann varð fjármálaráðherra á ný. Eftir stendur að hæstv. ráðherra heldur því a.m.k. fram á tyllidögum að hann styðji jafnrétti kynjanna, að hann sé fyrir hana. Hæstv. ráðherra hefur haft hvert tækifærið á fætur öðru til að sýna það í verki að hann meti störf kvenna raunverulega til jafns við karla. Hann hefur haft mörg ár til þess sem karl í valdastöðum en þrátt fyrir þau fögru fyrirheit, þrátt fyrir fagurgala um jöfn laun fyrir sambærilega vinnu og þrátt fyrir bleiku kökuskreytinguna er það á vakt hæstv. ráðherra sem ekki nást kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga. Það er á vakt hæstv. ráðherra sem ljósmæður þurfa að sæta gerðardómi og það var líka á hans vakt sem fjármálaráðherra sem hjúkrunarfræðingar máttu þola gerðardóm í stað samninga fyrir fimm árum síðan.

Nú þegar kjarasamningar þessarar framlínusveitar eru enn og aftur lausir og hafa verið lausir í heilt ár svarar hæstv. ráðherra fyrirspurn hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um daginn á þá leið að hann viti ekki hvað það kosti ríkissjóð að semja við hjúkrunarfræðinga. Hæstv. ráðherra sem fer með samningsumboð ríkisins í kjaramálum var sem sagt ekki einu sinni meðvitaður um hvað það kostar að ganga að kröfum þessarar grundvallarkvennastéttar í landinu. Það er auðvitað með ólíkindum.

Herra forseti. Ég er hingað komin í þeirri von að hæstv. ráðherra hafi fundist það nógu vandræðalegt síðast að vita ekki svarið við þessari mikilvægu spurningu og geti svarað henni nú. Hvað kostar það að ganga að launakröfum hjúkrunarfræðinga?



[10:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta vera að svara þessum ósmekklega útúrdúr um HeForShe-átakið sem ég og við í ríkisstjórninni höfum af fullum hug tekið þátt í. Það hófst reyndar í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þar höfum við hreinlega lagt verulega mikið af mörkum með fjöldamörgum viðburðum og höfum fengið mikið hrós fyrir þannig að ég átta mig ekki á því hvaða erindi upprifjun á því átaki á inn í umræðuna í dag. Mér finnst þetta ósmekklegt.

Varðandi kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga hefur ríkið verið í viðræðum við hjúkrunarfræðinga frá því áður en samningarnir urðu lausir. Samningslotan sem núna stendur yfir hefur skilað verulega miklu, sömuleiðis sérstakt átak sem hefur verið í gangi á undanförnum árum á Landspítalanum. Þar hefur t.d. verið unnið í þremur mismunandi átökum á stofnuninni til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og gera starfið meira aðlaðandi. Það er að skila sér núna í því að í miðlægum nýjum kjarasamningum er að verða grundvallarbreyting á vaktafyrirkomulagi, ekki bara hjúkrunarfræðinga heldur annarra stétta. Í raun er komið samkomulag um þessa breytingu sem var megináhersluatriði hjúkrunarfræðinga í þessari kjaralotu á þeim tíma sem við erum hér að tala saman. Um þetta er komið samkomulag sem mun leiða til þess að vaktavinnufólk mun þurfa að vinna færri vinnustundir í hverri viku og vaktafyrirkomulagið verður tekið til endurskoðunar.

Við höfum verið með ólík tímabundin átök á Landspítalanum sem Landspítalinn sem stofnun hefur borið ábyrgð á að framkvæma. Það sem er í umræðunni núna er átak sem við getum kallað sérstakt vaktaálag sem er að renna sitt skeið. Það hefur þær óheppilegu afleiðingar í tíma að það kemur út eins og launalækkun en allan tímann var ljóst að um var tímabundið átak var að ræða. Verkefnið núna er að búa þannig um kjarasamningagerðina að allir hjúkrunarfræðingar geti notið góðs (Forseti hringir.) af niðurstöðunni og fengið þegar upp er staðið betri kjör.



[10:40]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. ráðherra er skiljanlega viðkvæmur gagnvart spurningum um heilindi hans í jafnréttismálum, en er nema von að kona spyrji? Ráðherrann var rétt í þessu að mæla fyrir fjárfestingarátaki sem stenst engar kröfur um kynjuð fjárlög. Hann ætlar að eyða mörgum milljörðum í hefðbundin karlastörf en fæst svo ekki til að ræða af yfirvegun um sjálfsagða og löngu tímabæra kjarabót hjúkrunarfræðinga, 97% kvennastéttar. Ráðherrann hefur skýlt sér á bak við þá afsökun að gangi hann að launakröfum hjúkrunarfræðinga séu aðrir kjarasamningar ríkisins mögulega í uppnámi. En nú vitum við að hjúkrunarfræðingar eru með um 12% lægri meðallaun en aðrar starfsstéttir með álíka menntun og við vitum líka að vinna hjúkrunarfræðinga felur í sér meira álag og ábyrgð en vinna flestra annarra. Þetta er vaktavinna þar sem líf eru í húfi og aldrei eins og nú, eins og meira að segja ráðherra hlýtur að vera ljóst í miðjum mannskæðum heimsfaraldri. Hvað þarf til svo að hæstv. ráðherra hætti að skreyta kökuna með lélegum afsökunum og gefi hjúkrunarfræðingum sanngjarna sneið af kökunni?



[10:42]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í kjarasamningalotunni sem nú stendur yfir hafa lífskjarasamningarnir sett ákveðið viðmið og ríkið hefur nú þegar náð samningum við u.þ.b. helming ríkisstarfsmanna og þá háskólamenntuðu sem starfa hjá ríkinu. Um þessi grundvallaratriði hafa þegar tekist samningar. Í lotunni sem nú stendur yfir við hjúkrunarfræðinga hefur sömuleiðis tekist samkomulag, vil ég meina, um þau grundvallaratriði sem mest áhersla var lögð á. Ef hv. þingmaður vill raunverulega skoða hvernig kjör hjúkrunarfræðinga hafa þróast í minni tíð sem fjármálaráðherra hlakka ég til að sjá þann samanburð vegna þess að kaupmáttur og launaþróun þessarar stéttar hefur verið betri í minni tíð sem fjármálaráðherra en nokkru sinni áður. Það er sú einkunn sem ég mun fá vilji hv. þingmaður raunverulega fara í þennan samanburð. (Gripið fram í.) Verkefnið núna er að ljúka samningsgerðinni þannig (Forseti hringir.) að það spili saman við þá stofnanasamninga sem hafa verið í gildi (Gripið fram í.) þannig að niðurstaðan sé …

(Forseti (SJS): Ekki frammíköll.)

— kjarabót fyrir hjúkrunarfræðinga. Það er markmiðið. (Gripið fram í: Það er ekki lækkun launa. Þú svarar ekki, hann svarar ekki …)

(Forseti (SJS): Fyrirspurninni hefur verið svarað.) (JÞÓ: Nei.)

(Forseti (SJS): Fyrirspurninni hefur verið svarað. Ég bið hv. þingmenn að halda aftur af sér. Ráðherrar ráða sínum svörum og þingmenn sínum spurningum.)