150. löggjafarþing — 86. fundur
 2. apríl 2020.
túlkun skaðabótalaga.

[10:51]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á Alþingi höfum við sett þau lög að við erum búin að klæða tryggingafélögin í samfesting, við erum búin að setja á þau belti og axlabönd. Nýjasta dæmið er að nú á að setja á þau ameríska örorkumatsbleiu þannig að ekki komist nokkur aur í gegn í vasa tjónþola. Hvernig getur verið löglegt að örorkunefnd hunsi dóm Hæstaréttar, að örorkunefnd búi til ný lög og fari í ameríska örorkumatstöflu þegar alltaf hefur verið miðað við danska töflu hingað til?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þessi nefnd komin með þetta mikil völd og þá í umboði hennar? Við þurfum að læra af reynslunni, við vitum að núna er ástand eins og var í bankahruninu og nú í þessu hruni að hætta er á því að stéttir sem eru með mikið álag slasist. Er reiknað með einhverjum stórum slysamálum fram undan og er verið að tryggja að viðkomandi sem lenda í slysum séu tryggðir? Já. En fá þeir það bætt? Nei, en það er kominn tími til. Það er annað í því samhengi: Við verðum að átta okkur á því að á sama tíma og tryggingafélögin hafa lögfræðingaskara til að verja sig og þvílíka fjármuni fær fólk ekki gjafsókn til að berjast við þau. Það fær ekki gjafsókn og ég spyr: Hvað er dómsmálaráðherra að gera í þeim málum? Er hún að leyfa þessari nefnd að taka málstað tryggingafélaganna gegn tjónþolum?



[10:53]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Athygli mín var vakin í gær með opnu bréfi sem mér barst í Morgunblaðinu og ég setti strax af stað könnun um þetta í ráðuneytinu og mun auðvitað fylgja henni eftir. Þetta er nokkuð sem þarf að skoða vel og vandlega og þarf að vera í lagi. Við viljum tryggja að þessi mál fari eftir réttum boðleiðum. Ég ætla mér að fara betur ofan í þetta svo ég þekki málið betur, alla kanta á því, ekki bara það sem kom fram í bréfinu í gær heldur einnig baksöguna og annað. Ég ætla að gefa mér tíma í það næstu daga en ég hef sett af stað könnun og get fullvissað hv. þingmann um að ég mun fylgja málinu eftir.



[10:54]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og vona heitt og innilega að hún sjái til þess að þetta mál verði skoðað ofan í kjölinn vegna þess sem við vitum af reynslunni af bankahruninu. Við vitum hvað varð um t.d. einn bótasjóðinn. Hann hvarf og við vitum líka hvar hann endaði. Þetta er okkur til varnar og það hlýtur að vera kominn tími á að þeir sem eru þarna úti og lenda í vinnu- eða umferðarslysum — það ömurlegasta sem fólk getur lent í í miðri kreppu er að berjast við að ná heilsu en á sama tíma berjast við ofurefli tryggingafélags. Það sem er eiginlega furðulegast í þessu öllu er að þau vaða í peningum og lögfræðingum en tjónþoli má þakka fyrir að fá smáaura eða ekki neitt og síðan aftur og aftur neitun um gjafsókn frá dómsmálaráðuneytinu. Þetta þarf að endurskoða, það þarf að vera hreinlega í lögunum (Forseti hringir.) að gjafsókn sé hluti af bótakerfi tryggingafélaga þannig að allir sem lenda í tjóni geti leitað réttar síns fyrir dómstólum.



[10:56]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Þetta mál skiptir máli og þess vegna þarf að skoða það. Síðan gætum við tekið hér sérstaka umræðu um gjafsókn, hvernig henni ætti að vera háttað, hvernig hún er í dag og hvernig hún hefur þróast. Það er alveg efni í sérstaka umræðu.

En þetta er mál sem skiptir máli og ég tek undir með hv. þingmanni, fólk á ekki að þurfa að berjast við ofurefli kerfisins heldur eiga línurnar að vera skýrar, sérstaklega fyrir fólk sem hefur lent í stóru slysi og er að berjast fyrir lífi sínu eða framförum. Það er mikilvægt að kerfið sé skýrt og að fólk viti hverju það er að mæta.