150. löggjafarþing — 86. fundur
 2. apríl 2020.
matvælaframleiðsla og fæðuöryggi.

[11:11]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í mál sem snertir fæðuöryggi þjóðarinnar og landbúnaðarframleiðslu. Við sáum yfirlýsingu birta í gær, held ég að hafi verið, þar sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Matvælastofnunin og að mig minnir Alþjóðaviðskiptastofnunin birtu sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvatt er sérstaklega til þess að viðskipti með matvæli gangi vel fyrir sig og, sem er einna mikilvægast, að tryggt sé að matvælaframleiðsla sé vernduð sem og starfsmenn matvælafyrirtækja.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort gripið hafi verið til einhverra sérstakra aðgerða til að vernda þau fyrirtæki sem eru í matvælaframleiðslu á Íslandi og þá starfsmenn þeirra fyrirtækja líka. Er búið að kortleggja, t.d. eftir svæðum, hvaða fyrirtæki mestu skipta þegar að þessu kemur? Er búið að kortleggja hvernig hægt er að tryggja að nóg sé til af matvælum þar sem framleiðsla matvæla á Íslandi haldist áfram óskert?

Þetta eru mikilvæg atriði, ekki síst í ljósi þess að víða um heim hefur fólk áhyggjur af því í dag að löndin kunni að einangrast enn þá meira, að matvæli geti ekki flætt milli landa, að einhver lönd verði ekki sjálfum sér nóg þegar kemur að matvælaframleiðslu. Því er gríðarlega mikilvægt að við tökum öll þau skref, beitum öllum þeim ráðum sem við getum til að íslensk matvælaframleiðsla, hvort sem það er á landi eða í sjó, sé tryggð með öllum tiltækum ráðum.

Ég fór yfir þær aðgerðir sem ráðherra hefur boðað í aðgerðaplani sínu. Ég fagna því að það eigi að veita nýsköpunarstyrki til garðyrkju, mjög gott mál, en það þarf að gera fleira. Þó að grænmeti sé hollt og gott lifum við ekki eingöngu á því. Það þarf að gera fleira og því spyr ég ráðherrann út í þau atriði sem ég nefndi hér áðan. Ég spyr líka hvort komið hafi til tals að breyta lögum þannig að hægt sé að bjóða garðyrkjunni lægra raforkuverð.



[11:14]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Það gat nú verið að það væri hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem kæmist inn með þessum hætti í fyrirspurn en ég fagna því sérstaklega af því að málefnið sem hann ræðir er gríðarlega mikilvægt og hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar. Þar hafa m.a. þessar aðgerðir verið kynntar sem er mjög góð samstaða um í ríkisstjórn og ráðherrar og ráðuneyti hafa unnið saman að með það að meginmarkmiði að tryggja framboð fæðu eða fæðuöryggis hér á landi. Meðal annars af þeim sökum höfum við í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu átt ágætt samstarf við heilbrigðisráðuneytið út af sóttvarnaráðstöfunum til að skilgreina þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki á sviði m.a. matvælaframleiðslu. Þar liggur fyrir ákveðinn listi sem, ef ég man rétt, kom í fréttum í gær, var birtur. Þar er því ákveðin trygging komin fyrir því að fyrirtæki geti gengið. Svo veit ég til þess að fyrirtækin eru búin að setja upp sína sóttvarnaáætlun, hvert og eitt. Ég met það svo að eins vel og kostur er sé búið að tryggja það að framleiðsla matvæla á Íslandi gangi í því ástandi sem nú er.

Þegar hv. þingmaður talar hér um gæði og ágæti grænmetisframleiðslunnar þá tek ég undir það með honum. Í burðarliðnum er samningur við garðyrkjuna sem tekur m.a. á því atriði sem hv. þingmaður var að nefna, sérstaklega varðandi raforkunotkun. Það er ekki tímabært að fjalla ítarlega um það. Við erum bara í miðju samtali við garðyrkjuna núna. Ég vonast eftir því að geta lokið samningum við hana helst í þessari viku, ef ekki núna þá fljótlega í næstu viku. Þetta er staðan þar og við leggjum mikið upp úr þessu.

Ég vil að síðustu segja um fæðuöryggið að við erum líka að taka ákveðin skref í aðgerðum sem snúa að því að hafa fyllri og betri upplýsingar um stöðu þeirra mála, (Forseti hringir.) sem við höfum ekki haft hingað til, og erum að leggja út í sameiginlega vinnu með Bændasamtökunum um að byggja upp það sem kallað er mælaborð landbúnaðarins, þannig að við höfum þessa hluti á hreinu.



[11:16]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar jafnframt að spyrja ráðherrann hvort það hafi komist til tals í ljósi aðstæðna í heiminum í dag að breyta lögum þegar kemur að landbúnaði með þeim hætti að hægt verði að fara í meiri samvinnu og samstarf innan landbúnaðarins. Það er gríðarlega mikilvægt í litlu og strjálbýlu landi að við höfum alveg skýrar reglur um það hvernig fyrirtækin geta starfað saman sem og það að við getum fengið sem mest út úr þeirri framleiðslu sem við höfum.

Mig langar líka að velta upp hvort ekki sé örugglega tryggt, fyrst verið er að horfa á það hvað landbúnaðurinn er mikilvægur, að hér sé til taks allt sem þarf til að reka landbúnað, olía og allt þess háttar.

Svo langar mig líka að spyrja hvort ráðherra hafi farið yfir það í ráðuneyti sínu hver áhrifin almennt eru á íslenskan landbúnað af faraldrinum sem geisar. Við vitum t.d. að loðdýraræktin er búin að eiga í vanda með verð í nokkur ár og nú þegar útlit var fyrir að verð á skinnum færi á að hækka kemur þessi faraldur og menn eru kýldir niður aftur. Hefur ráðherra skoðað það sérstaklega?



[11:17]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru margir þættir sem við höfum verið að ræða og fara yfir. Við eigum í daglegum samskiptum við landbúnaðinn og sjávarútveginn um þessar mundir, fáum upplýsingar, reynum að bregðast við þeim erindum sem til okkar er beint og greiða úr þeim málum sem upp eru að koma.

Hv. þingmaður spyr beint hvort starfsaðstæður matvælafyrirtækja hafi komið upp og um möguleika á þéttara samstarfi o.s.frv. Það hefur komið til tals, nú þegar eru ákveðnar heimildir í 15. gr. samkeppnislaga sem hægt er að nýta ef vilji stendur til þess. Menn hafa verið að ræða aðra hluti og það er til umfjöllunar nú.

Ég bendi á það sömuleiðis að til meðferðar í þinginu er frumvarp til nýrra samkeppnislaga þar sem möguleiki er til að bregðast við þeim óskum sem ég veit að hafa verið uppi í greininni. Það er þá þingsins að taka á því ef og þegar það kemur upp.

Varðandi loðdýrabændur hefur komið til tals á vettvangi ríkisstjórnarinnar hvaða leiðir geti verið færar í því efni.