150. löggjafarþing — 91. fundur
 20. apríl 2020.
launahækkun þingmanna og ráðherra.

[15:10]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Okkur verður tíðrætt um samstöðu þessa dagana. Hæstv. forsætisráðherra talaði um samstöðu þegar hún hvatti fyrirtæki í sjávarútvegi til að falla frá milljarðakröfum sínum á ríkissjóð vegna þess að, með leyfi forseta:

„Það er ekki góð leið til að efla samstöðu í samfélaginu. Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum það ferðalag sem við erum stödd í. Þó að ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi að draga kröfurnar til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra, hvort sem við erum að reka fyrirtæki, erum launafólk, þingmenn eða hver sem við erum. Fram undan eru brattar brekkur, ekki bara hvað varðar takmarkanir á samkomum, það eru brattir tímar fram undan í efnahagslífinu.“

Forseti. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra og vil því ræða ábyrgð og samstöðu ráðherra og þingmanna með almenningi við hæstv. fjármálaráðherra. Gríðarlegar efnahagsþrengingar blasa við og valda mörgum miklum tekjumissi og jafnvel atvinnumissi en á sama tíma stendur til að framkvæma launahækkun þingmanna og ráðherra um næstu mánaðamót. Sú framkvæmd mun fela í sér afturvirkar greiðslur fyrir fjóra mánuði ásamt því að laun ráðherra hækka um rúm 100.000 á mánuði, laun forsætisráðherra um 130.000 og laun okkar þingmanna um tæp 70.000. Til samanburðar má nefna að heildarlaunahækkun hjúkrunarfræðinga næstu fjögur ár, verði samningur þeirra við ríkið samþykktur, er því næst sú sama og ein hækkun á þingfararkaupi. Launahækkun hæstv. forsætisráðherra er næstum tvöföld sú upphæð. Ég segi eins og hæstv. forsætisráðherra: Það er ekki góð leið til að efla samstöðu í samfélaginu. Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum það ferðalag sem við erum stödd í.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist ekki eðlileg og sjálfsögð krafa að þingmenn og ráðherrar falli frá þessum launahækkunum sínum.



[15:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta hv. þingmann þegar hún segir að það standi til að framkvæma einhverja launahækkun. Það er ekki verið að taka neina ákvörðun um þessi mál, bara ekki yfir höfuð. Alþingi tók hins vegar ákvörðun fyrir bráðum ári síðan að fresta launahækkun sem átti að koma til framkvæmda um mitt síðasta sumar til áramóta. Í lögum stendur að laun þeirra sem hv. þingmaður vísar til hafi hækkað 1. janúar. Það stendur í lögum. Ég hef ekki verið að taka neina ákvörðun um þessi efni, ekki nokkra einustu, nema þá að ég lagði til við þingið fyrir nokkru að við myndum fresta hækkunum sem hefðu komið til framkvæmda í sumar um sex mánuði. Það er þá í annað skiptið sem sú tillaga kemur fram á einu ári, að við frestum launahækkunum til þingmanna sem hafa engar verið frá árinu 2016.

Ég vek athygli á því að við birtum á vef fjármálaráðuneytisins fyrir nokkrum dögum yfirlit yfir launaþróun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna og settum í samhengi við launahækkanir annarra síðastliðinn rúman áratug. Það er alveg augljóst af þeim samanburði, sem er sá samanburður sem var lagður til grundvallar í samtali við vinnumarkaðinn á sínum tíma, að þingmenn og ráðherrar eru eftirbátar annarra þegar kemur að launahækkunum undanfarinn rúman áratug.

En það sem ég er orðinn leiður á að ræða þetta mál hér í þingsal. Að menn skuli ekki geta komið sér saman um það yfir höfuð að finna eitthvert fyrirkomulag sem lætur þessa hluti ganga sinn vanagang yfir árin. Við lögðum niður Kjaradóm. Við lögðum niður kjararáð. Það er stutt síðan við ákváðum að festa viðmið um þessi efni í lög. En það er ekki einu sinni búið að framkvæma eina einustu breytingu á lögunum síðan þetta var ákveðið, áður en (Forseti hringir.) menn í þingsal koma hingað upp og ætla að slá sig til riddara með því að taka málin upp að nýju.

Ég spyr bara: Hvernig í ósköpunum á yfir höfuð að vera hægt að finna eitthvert fyrirkomulag (Forseti hringir.) þegar okkur gengur svona illa með þriðja fyrirkomulagið á rúmum áratug?



[15:15]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég vildi geta sagt að mér þætti leiðinlegt að hafa pirrað hæstv. fjármálaráðherra en mér þykir það bara ekkert leiðinlegt. Hæstv. fjármálaráðherra (Gripið fram í.) pirrast yfir minnstu hlutum, en mér finnst leiðinlegur þessi orðhengilsháttur, að ég noti ekki rétt orð og það á einhvern veginn að lagfæra það. Þetta snýr ekki að því hvaða orð maður notar. Það stendur vissulega í lögum að það eigi að vera launahækkun þingmanna og ráðherra 1. janúar. Ég veit vel að það hefur átt sér stað. Spurning mín snýr hins vegar ekki að því. Þetta eru ekki eðlilegir tímar. Við erum ekki að tala um að þetta séu eðlilegir tímar og að við eigum rétt á okkar eðlilegu launahækkun. Ég veit að ráðherra tók ekki ákvörðun um þessar launahækkanir, þetta er vísitöluhækkun, en við þurfum samt að taka ákvörðun um hvort við ætlum að vera í sama báti og almenningur er akkúrat núna eða hvort við eigum að fá okkar launahækkanir á meðan aðrir fá skerðingar. Það er spurningin sem ég vil spyrja. Hver er afstaða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til þeirrar kröfu að þingmenn og ráðherrar hækki ekki í launum á sama tíma og við stefnum beinustu leið í djúpa efnahagskreppu? Það er raunin, þessi launahækkun felur í sér að við hækkuðum í launum. Hún var ekki framkvæmd á réttum tíma þannig að það á að framkvæma hana núna 1. maí. Þá fáum við peninga á bankareikning okkar og við erum að hækka í launum. Er eðlilegt (Forseti hringir.) á þessum tímum að við hækkum í launum? Eigum við ekki að vera í sama báti, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, með öllum almenningi í landinu? Það er spurning mín.



[15:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara að það væri alveg á hreinu þar sem þessari fyrirspurn er beint til mín að ég er ekki að taka neina ákvörðun, hef ekkert lagt til við þingið annað en að fresta næstu launahækkun. Það var þingið sjálft sem ákvað þá hækkun sem tók gildi um áramót þó að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hún hafi ekki enn verið greidd út en það er ekki samkvæmt minni ákvörðun.

Það er sanngjörn spurning sem er borin hér upp. Hvað finnst mér um það að æðstu embættismenn ríkisins tækju á sig launaskerðingar núna við þessar aðstæður til að sýna gott fordæmi og fylgja öðrum í samfélaginu? Mér finnst það vel koma til greina, en það nýjasta sem við höfum reyndar gert í þeim efnum er að semja núna síðast við hjúkrunarfræðinga um launahækkanir, þar áður við sjúkraliða og þar áður við BHM og önnur opinber stéttarfélög. Á almenna markaðnum hefur þessi spurning verið borin upp og af hálfu stéttarfélaganna var því hafnað. Engin slík hreyfing er í gangi nema hvað snertir þá sem eru að tapa starfi sínu. Það er mjög alvarlegt mál og þau mál erum við að ræða hérna í fjölmörgum þingmálum í þingsal.

Mér finnst hins vegar vel koma til greina, (Forseti hringir.) ef tekst eitthvert alvörusamtal um það að fara í launafrystingar eða lækkanir, að þá ættu hinir opinberu embættismenn, þeir sem eru í æðstu stjórn ríkisins, að leiða þá breytingu, þá þróun.