150. löggjafarþing — 95. fundur
 30. apríl 2020.
barnalög, 1. umræða.
stjfrv., 707. mál (skipt búseta barns). — Þskj. 1215.

[13:57]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á barnalögum en í frumvarpinu er lagt til að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman geti samið um skipta búsetu barns við tilteknar aðstæður, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir breytingum á ýmsum öðrum lögum til að tryggja þau réttaráhrif sem fylgja skiptri búsetu barns. Breytingar eru til að mynda lagðar til á barnaverndarlögum, lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um skráningu einstaklinga og lögum um tekjuskatt.

Ef farið er yfir efnisatriði frumvarpsins er í fyrsta lagi lagt til nýtt ákvæði um heimild til að semja um skipta búsetu barns. Í dag hefur föst búseta barns tiltekin réttaráhrif og er réttarstaða lögheimilisforeldris samkvæmt núgildandi lögum önnur en réttarstaða umgengnisforeldris. Munurinn er fyrst og fremst sá að lögheimilisforeldri hefur ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni barns og hefur einnig rétt til innheimtu og móttöku meðlags og opinbers stuðnings af ýmsu tagi sem umgengnisforeldri hefur ekki. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að foreldrar barns í skiptri búsetu fari sameiginlega með forsjá barns en réttarstaða þeirra verður önnur en þeirra foreldra sem ekki eru með skipta búsetu en hafa einnig sameiginlega forsjá.

Áhrif skiptrar búsetu eru fyrst og fremst þau að öll ákvarðanataka foreldra barns í skiptri búsetu verður sameiginleg. Þá er barn skráð í þjóðskrá með búsetu hjá báðum foreldrum, þ.e. útfærslan verður að lögheimili er á einum stað og búsetuheimili á öðrum stað. Með breytingunum munu báðir foreldrar með skipta búsetu barns jafnframt geta átt rétt á opinberum stuðningi í formi barnabóta og vaxtabóta. Markmið þeirra breytinga sem eru lagðar til er að stuðla að sátt og jafnari stöðu þeirra foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða sameiginlega að ala það upp saman á tveimur heimilum og vilji er til að hafa skipta búsetu. Ekki er gert ráð fyrir að búseta barns verði að vera nákvæmlega jöfn á báðum heimilum en gert er ráð fyrir því að barn búi álíka jafnt til skiptis hjá foreldrum sínum. Að öðru leyti er það í höndum foreldranna að útfæra það fyrirkomulag sem hentar best þörfum barnsins. Þá er ekki kveðið á um að barn skuli hafa náð tilteknum aldri til að skipt búseta komi til álita.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að uppfylla þurfi ákveðin skilyrði svo að skipt búseta geti komið til álita. Fyrirkomulagið gerir ráð fyrir að foreldrar geti alfarið unnið saman í öllum málum er varða barnið. Samningur um skipta búsetu barns gerir því ríkar kröfur til foreldra um samstarf, virðingu, tillitssemi og sveigjanleika. Þá er gerð krafa um nálægð heimila til að tryggja samfellu í daglegu lífi barns. Miðað er við að hagsmunir barnsins verði ávallt hafðir að leiðarljósi og í hverju tilviki fyrir sig verði lagt einstaklingsbundið mat á það hvort skipt búseta sé barni fyrir bestu. Þegar um skipta búsetu barns er að ræða verður ekki hægt að óska eftir staðfestingu á samningi um meðlag eða krefjast úrskurðar sýslumanns um meðlag eða njóta milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu meðlags. Þá verður ekki hægt að óska eftir staðfestingu samnings eða úrskurði um umgengni eða sérstök útgjöld eða úrskurði sýslumanns um utanlandsferð.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samningur um skipta búsetu verði háður staðfestingu sýslumanns en sýslumanni ber að leiðbeina foreldrum um skilyrði sem þarf að uppfylla, sem ég hef farið hér yfir, til að skipt búseta komi til greina og hvaða réttaráhrif hún hafi í för með sér. Þá ber sýslumanni samkvæmt frumvarpinu að synja um staðfestingu á skiptri búsetu ef skilyrði eru ekki uppfyllt. Sýslumaður getur einnig fellt niður samning um skipta búsetu að ósk annars foreldris eða beggja. Við brottfall samnings er lögheimili barns óbreytt nema um annað sé samið og þá fellur samningur um skipta búsetu barns úr gildi ef annað foreldrið höfðar mál um forsjá eða lögheimili þess.

Í öðru lagi um efnisatriði frumvarpsins felur það í sér almennar breytingar á ákvæðum um framfærslu barns og meðlag sem munu auka samningsfrelsi foreldra. Í frumvarpinu er lagt til að afnema skyldu til að staðfesta samning foreldra um meðlag við skilnað, sambúðarslit eða við ákvörðun um forsjá og lögheimili barns. Þess í stað er lögð áhersla á að foreldrar sem búa ekki saman beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu þess. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að foreldri sem barn býr ekki hjá geti tekið þátt í framfærslu barns, annaðhvort með greiðslu kostnaðar við framfærsluna eða með greiðslu meðlags. Að taka þátt í framfærslu með greiðslu kostnaðar þýðir samkvæmt frumvarpinu að foreldrar semji um að það foreldri sem barn býr ekki hjá taki að sér beint og milliliðalaust að greiða tiltekinn kostnað sem fellur til með reglubundnum hætti. Þar má nefna daggæslu eða tómstundir sem dæmi. Lögheimilisforeldri tekur væntanlega að sér greiðslu annarra daglegra útgjalda og foreldrar geta einnig valið að það foreldri sem barn býr ekki hjá greiði til hins foreldrisins tiltekna fjárhæð sem er þá skilgreind sem meðlag. Í þeim tilvikum ber lögheimilisforeldri að nýta meðlagið til að standa straum af kostnaði vegna barnsins ásamt því að taka þátt í framfærslunni fyrir sitt leyti. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að munur sé á því hvor leiðin er valin þegar kemur að innheimtuúrræðum. Þannig geta foreldrar einungis óskað eftir staðfestingu sýslumanns ef gerður er samningur um greiðslu meðlags og slíkir samningar eru eingöngu aðfararhæfir. Þá er ekki unnt að leita til Tryggingastofnunar um greiðslur nema samið hafi verið um greiðslu meðlags. Ef foreldrar semja aftur á móti um skipta búsetu barns er gengið út frá því að foreldrar séu sammála um hvort þeirra greiði einstaka kostnaðarliði eða hvernig þeir deila kostnaði vegna framfærslunnar, enda gert ráð fyrir því að foreldrar geti verið samstiga í öllum málum við uppeldi barnsins í því úrræði.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að barnalög beri skýrlega með sér þær forsendur sem verða að liggja til grundvallar samningum foreldra um tiltekið fyrirkomulag forsjár, búsetu og umgengni. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að foreldrar geti samið með ýmsum hætti og er mikilvægt að foreldrar átti sig á því hvenær heimild til að semja um skipta búsetu barns á við. Samhliða því að lögfesta forsendur til að semja um skipta búsetu er líka mikilvægt að víkja forsendum annarra samninga í lögunum. Lögbundnar forsendur veita mikilvægar vísbendingar um hvernig meta skuli hagsmuni barns hverju sinni. Samanburður á forsendum samninga er einnig til þess fallinn að hjálpa foreldrunum að átta sig á réttarstöðunni og velja þá leið sem hentar barni best. Í frumvarpinu er því til viðbótar forsendum skiptrar búsetu gert ráð fyrir að lögfesta almennar forsendur samninga um sameiginlega forsjá og jafna umgengni en forsendur slíkra samninga er nú aðeins að finna í lögskýringargögnum.

Þá felur frumvarpið í sér nýtt ákvæði um samtal að frumkvæði barns og skýrari ákvæði um rétt barns til að tjá sig. Í frumvarpinu er því það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu eða umgengni. Með breytingunum hefur barn kost á að tjá sig og tjá foreldri afstöðu sína og geta foreldrar eftir atvikum samið um eða gert kröfur um breytingar á fyrirliggjandi ákvörðun. Með þessu nýja ákvæði í barnalögum er stefnt að því að styrkja rétt barnsins til að beita sér í málum sem líkleg eru til að hafa grundvallaráhrif á velferð þess og líðan. Markmiðið með samtali er að leiðbeina barni og foreldrum og leitast við að stuðla að fyrirkomulagi sem sé barni fyrir bestu, að teknu tilliti til sjónarmiða barnsins. Ekki er gerð krafa um tiltekinn lágmarksaldur barns en gengið er út frá því að barnið taki sjálfstæða ákvörðun og hafi frumkvæði að því að nýta þennan rétt. Þá þarf sýslumaður að meta þarfir barns á ólíkum aldurs- og þroskaskeiðum.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að breyta orðalagi 33. gr. a og 43. gr. barnalaga til að styrkja rétt barnsins til að tjá sig við sáttameðferð og úrlausn ágreiningsmála.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. apríl 2021 en í frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að fram að gildistöku verði unnið að breytingum á fleiri lögum og reglugerðum sem heyra undir félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti til að tryggja að fullu þau réttaráhrif sem felast í skiptri búsetu barns.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég tel að í frumvarpinu séu mörg framfaraskref, bæði fyrir börn og foreldra. Ég legg áherslu á að það er ekki hægt að dæma skipta búsetu heldur verður slíkur vilji að vera uppi hjá báðum foreldrum og er það þá lausn og styrkir jafna stöðu foreldra, kjósi þau svo að ala barnið upp á tveimur heimilum til jafns, í sátt um alla þætti í uppeldi barnsins.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.



[14:06]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, með síðari breytingum, um skipta búsetu barns. Þetta er bara frábært frumvarp að flestu eða öllu leyti. Það besta í því er um réttindi barnsins og þetta er mikið framfaraskref. En það eru ákveðin atriði sem ég hef samt áhyggjur af og kemur strax í 1. gr., með leyfi forseta:

„Ef forsjárforeldrar hafa samið um lögheimili og fasta búsetu barns hjá öðru þeirra hefur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins …“

Þarna undir er val á leikskóla, grunnskóla, reglubundið tómstundastarf og annað. Nú getur reglubundið tómstundastarf verið mjög fjölbreytt og mjög kostnaðarsamt. Væri ekki nær að foreldrar kæmu sér strax saman um hvað sé eðlilegt í þessu samhengi? Nú gerum við okkur fulla grein fyrir því að fjárhagsstaða foreldra getur verið gjörólík og þess vegna er mjög mikilvægt að það sé ekki strax hlaupið á vegg og byrji strax ágreiningur vegna þess að þarna gæti annar aðilinn þurft að neita, það foreldri getur ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem þarna á að fara í. Ég spyr líka vegna þess að við vitum að eins og staðan er í dag eru margir einstæðir foreldrar sem eru ekki með forræði barna sinna og eru í þeirri aðstöðu að þurfa að borga meðlag og eru mjög skuldsettir og eru í ömurlegri aðstöðu, geta eiginlega ekki veitt börnum sínum eitt eða neitt. Þess vegna þurfum við að tryggja einhverjar lausnir strax og ég spyr ráðherrann hvort hún sé með einhverjar lausnir fyrir þessa einstaklinga sem eru nú þegar í dag í þeirri aðstöðu að vera svo fjárhagslega aðþrengdir að þeir (Forseti hringir.) geta ekki séð um framfærslu barna sinna og geta ekki veitt þeim eitt eða neitt, (Forseti hringir.) eru í þeirri ömurlegu stöðu að geta ekki sinnt börnunum sínum almennilega fjárhagslega.



[14:08]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek undir að hér eru ýmsar góðar breytingar. En auðvitað vakna ýmsar spurningar og það sem hv. þingmaður nefnir hér varðandi þá stöðu þegar ekki er skipt búseta, einungis sameiginleg forsjá, þá hefur lögheimilisforeldri meira ákvörðunarvald, eins og kemur skýrlega fram í töflu sem er aftast í frumvarpinu til að átta sig á mismunandi réttarstöðu. Ég er ekki að leggja til neinar breytingar á þeirri stöðu þegar foreldrar vilja ekki fara í skipta búsetu, eins og ég er að leggja til að verði hægt. Það er kannski önnur umræða sem þarf að fara í. En ég er samt að leggja til breytingar til að auka samningsfrelsi foreldra ef þeir vilja haga málum með öðrum hætti þó að þeir séu ekki með sameiginlega búsetu. Það sé mögulegt að þeir þurfi ekki að semja um meðlag ef vilji er ekki til þess og það sé bara sátt um að fjárhagsstaða annars sé betri og hins verri, það sé hægt að komast að niðurstöðu um slíkt. Ég vona auðvitað að þessi leið gagnist mörgum því að það er ljóst að þrátt fyrir að ágreiningur sé uppi hjá ýmsum foreldrum er fjöldi foreldra í fullri sátt og hafa þá betri rétt, þá hefur lögheimilisforeldrið ekki þennan ríkari rétt heldur er allur réttur sameiginlegur og samvinna algjört lykilatriði.



[14:10]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör en ég hef samt áhyggjur að því sem kemur fram strax í 1. gr., þarna ætti að vera samráð strax. Mig langar líka í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra um einstæða foreldra, við vitum að í meiri hluta eru það karlmenn og að það eru þarna úti einstaklingar sem eru svo illa skuldsettir vegna meðlaga að þeir eiga sér ekki viðreisnar von, hvorki fjárhagslega né geta þeir hjálpað börnum sínum á einn eða neinn hátt. Það þarf auðvitað að taka á þeim vanda, við getum ekki sópað honum undir teppið með þessum lögum. Ég spyr þess vegna ráðherra: Er eitthvað í deiglunni að taka á þeim vanda? Þetta er ömurlegt fyrir þá einstaklinga sem eru í slíkri stöðu og líka ömurlegt fyrir börnin.



[14:11]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek bara undir með hv. þingmanni að það þarf að skoða þetta. Upphaflega var lagt upp með að koma hér með víðtækari breytingar á meðlagskerfinu. Sú vinna vannst aftur á móti hægar og ég taldi enga ástæðu að bíða með þessar góðu breytingar hér og bíða eftir hinni breytingunni sem þarf vissulega að gera, að skoða meðlagskerfið í stærra samhengi og hvernig það hefur reynst, hvaða breytingar þarf að gera vegna þessa, bæði vegna lögheimilisforeldra og hinna ýmsu réttaráhrifa á mismunandi stöðu fólks. Sú vinna þarf að fara fram. En þó að uppleggið hafi verið að koma með slíkar breytingar í þessu frumvarpi, stærri breytingar á meðlagskerfinu en lagðar eru til hér, m.a. um aukið samningsfrelsi, þá ákveð ég að leggja fram þessar breytingar af því að þær voru tilbúnar og eru þarfar og mikið er kallað eftir þeim og hafa verið í vinnslu lengi og að vinna síðan hitt áfram.



[14:12]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru margar áhugaverðar og góðar breytingar hérna. Það eru þó nokkur atriði sem þyrfti að skerpa dálítið á. Mér fannst mjög góð breyting í 8. gr. þar sem segir að eftir atvikum skuli gefa barni kost á að tjá sig við sáttameðferð í samræmi við aldur þess og þroska, dálítið í samræmi við barnasáttmálann. En það er ekki alveg nóg. Það er ekki nóg að leyfa barni að tjá sig heldur þarf einnig að hlusta á það. Þetta varðar t.d. ákveðna umboðsaðila fyrir börn og í fyrirspurnum mínum til ráðherra út af sáttameðferð og biðtíma sem þar er hef ég spurt hvort börn séu í rauninni í hálfgerðri yfirheyrslu, hvort verið sé að reyna að afla upplýsinga hjá þeim eða hvort bara sé verið að leita eftir sjónarmiðum þeirra. Börnin eru ekki með neinn gæslumann til að hafa eftirlit með því hvort verið sé að reyna að afla sönnunargagna eða ákveðinnar staðfestingar á atvikum með því að spyrja barnið leiðandi spurninga. Það kom berlega fram í svörum ráðherra að svo er ekki, en tvímælalaust þörf á.

Það er áhugavert að setja þetta í samhengi við mörg atriði sem varða málsmeðferðina í sáttameðferð foreldra og aðkomu barns þar að. Að flestu leyti eru þetta mjög jákvæð skref og tiltölulega varfærnisleg en þó mjög nytsamleg. Að lokum sýnist mér þetta vera dálítið í áttina að barnasáttmálanum, sérstaklega hvað varðar þriðju valfrjálsu bókunina í sáttmálanum þar sem aðkoma barns er mun tryggari og barninu eru gefnar víðtækari heimildir og mun skýrari. (Forseti hringir.) Af hverju tökum við þá ekki skrefið til fulls og að leyfum börnum að fara alla leið til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem Ísland er með fulltrúa, til að leita lausn mála sinna þar?



[14:15]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég tek undir og ítreka að mér hefur þótt biðtíminn á fjölskyldusviði sýslumanns óboðlegur. Ég hef lagt mikið kapp á það að setja bæði sérstaka fjármuni í að stytta biðlista, óska eftir nýju skipulagi til að reyna að efla þá skrifstofu sýslumannsins og taka verkefni frá sýslumönnum á höfuðborgarsvæðinu og færa þau og er að undirbúa fleira slíkt til að létta á álaginu á sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu til þess að þjónustan geti verið betri og þá sérstaklega á fjölskyldusviði.

Mig langaði bara að nefna þetta af því að þetta er stórt atriði varðandi þjónustu við börn, að það taki of langan tíma. Ég heyri það sem hv. þingmaður segir um sérstakan umboðsaðila. Auðvitað á sáttamaðurinn að gæta hlutleysis og gæta að hagsmunum barnsins og það er mjög mikilvægt, og tekið fram sérstaklega í þessu frumvarpi, að þrátt fyrir að hér sé verið að leggja til breytingar sem auka jafnræði foreldra sem ákveða að fara með uppeldið saman að öllu leyti þá gengur jafnrétti foreldra ekki framar hagsmunum barns. Hagsmunir barns eru lykilatriði. Hérna er verið, eins og hv. þingmaður segir, að auka réttindi barna, auka tækifæri þeirra til að tjá sig og ég held að nú komist mikilvæg reynsla á þetta. Við þurfum einhvers staðar að byrja. Við þurfum að átta okkur á því hvernig við eigum að kynna þetta betur fyrir börnum, svo að þau viti af þessum rétti sínum. Ég held að þetta séu mikilvæg skref til að byrja á og svo getum við séð hvort ganga eigi lengra en síðan er það nefndin sem tekur þetta til skoðunar, býst ég við, í takt við það sem hv. þingmaður nefnir.



[14:16]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum undirgengist og þessar valkvæðu bókanir eru nánari útskýringar á því hvernig á að framfylgja barnasáttmálanum. Mér finnst frekar mikil hræsni að segja við krakkana: Þið kunnið ekki alveg á réttindi ykkar en við ætlum að kynna þau aðeins fyrst áður en þið fáið í raun öll réttindin sem við erum búin að samþykkja að framfylgja. Að sjálfsögðu ættum við að byrja þá að taka öll þau skref sem við höfum aðgang að og höfum skrifað undir. Við ættum að sjálfsögðu að staðfesta þriðju valfrjálsu bókunina til þess að geta byrjað að kenna á öll þau réttindi sem börn eiga að hafa samkvæmt barnasáttmálanum.



[14:18]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að við séum að taka stórt skref með þessu nýja ákvæði, sem er ekki í núgildandi lögum, um samtal að frumkvæði barns. Ég tek auðvitað undir að við eigum að taka þau skref sem við höfum skuldbundið okkur til að taka og ég tel að við séum að gera það að miklu leyti með þessu nýja ákvæði í lögunum sem og auknum réttindum til að koma sjónarmiðum sínum að víðar og þegar ágreinings gætir. Ég hlakka til að sjá hvernig þetta reynist og vona að það reynist vel. Ég er ekki ósammála þingmanninum varðandi það að setja ákvæði og kynna börnum svo hver réttindi þeirra eru. En það er mjög mikilvægt að við fylgjum þessu samt sem áður eftir og áttum okkur á því hvernig við komum skilaboðum nægilega vel á framfæri til barna þannig að þau þekki þann rétt sinn sem verður lögbundinn með þessum nýju ákvæðum.



[14:19]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þetta frumvarp. Það skiptir mjög miklu máli og er algjörlega í samræmi við það frumvarp sem var fjallað um á síðasta þingi er varðar skipta búsetu. Þarna er margt nýtt sem er mjög til bóta líka, t.d. samkomulag milli foreldra um einn leikskóla og einn skóla. Ég held að það sé lykilatriði því að þrátt fyrir góðan hug okkar foreldranna viljum við varla gera barninu það að þvælast milli landshluta aðra hverja viku og fara algerlega í skipt líf. Ég held að það sé þrátt fyrir allt ekki endilega í þágu hagsmuna barna.

Hér er gengið út frá þeirri meginreglu að það sé samstaða og það er mjög gott, enda getur meiri hluti foreldra verið í góðu samstarfi. Þá er líka gott að ekki sé hægt að dæma skipta búsetu og tala ég hér af minni reynslu úr mínu starfi, sem ég er í tímabundnu leyfi frá, í lögmennskunni. Það er stundum sérstakt að hægt sé að dæma sameiginlega forsjá þegar það er mjög djúpstæður ágreiningur, það hefur stundum orkað tvímælis.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það af hverju ekki er hægt að leita réttar síns ef ágreiningur kemur upp. Þrátt fyrir mikinn kærleika milli foreldra og mikla samvinnu getur komið upp sú staða skyndilega að annað foreldrið neitar hinu um að fara í sumarleyfi. Þá er synd að ekki sé hægt að leita aðstoðar því að það er kannski ekki þörf á því að brjóta upp allt fyrirkomulagið varðandi skipta búsetu þrátt fyrir að það komi einhver snurða á þráðinn. Mér finnst miður að það sé nauðsynlegt að fara þá bara í einhliða uppsögn á samkomulaginu og (Forseti hringir.) brjóta í rauninni allt til grunna ef upp kemur örlítill ágreiningur.



[14:21]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek undir það sem hér var sagt um mikilvægi þessa nýmælis og hvernig því sé háttað. Ég held að hér séum við komin að niðurstöðu sem við vorum öll að leita að þar sem hagsmunir barnsins eru í húfi, þar sem þeir eru í forgangi, en við tryggjum jafnari stöðu foreldra samt sem áður. Það sem hv. þingmaður kemur hér inn á og spyr um er þegar eitthvað kemur upp á í samstarfi foreldra, ef svo má kalla, og hvort þá þurfi forsendur fyrir skiptri búsetu endilega að vera fullkomlega brostnar. Það þarf í raun ekki að vera og hægt er að leita til sýslumanns áður en litið er svo á að samningur sé brostinn og fá ráðgjöf eða sáttameðferð og eitthvert samtal um það sem mögulega er ágreiningur um. En síðan má auðvitað búast við því að ef ágreiningurinn er mikill sé ekki lengur vilji fyrir svona úrræði. Þarna verðum við að búast við því að það sé ríkur vilji til að finna lausnir og finna niðurstöðu þó að einhver ágreiningur sé uppi á milli foreldranna sjálfra. Við leggjum fram þetta úrræði sem algerlega valfrjálst úrræði og þá eru afskipti kerfisins minni, foreldrar njóta þeirra réttinda að vera algerlega jöfn í aðkomu að uppeldi barnsins og þá verðum við að treysta því að þau finni út úr sínum ágreiningsmálum. Þau geta annars fengið samningnum hnekkt vegna þess að forsendur séu brostnar. En ég held að það sé alveg rétt að þau geti leitað einhvers konar ráðgjafar vegna minni háttar ágreinings svo að samningurinn fari ekki út um þúfur.



[14:23]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Þeir sem sitja í þeirri nefnd sem málið fer til ræða þetta þá frekar og spyrja út í þetta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í stuðning við foreldra fatlaðra barna sem eiga tvö heimili og þar þurfa að vera hjálpartæki. Mun ríkið styðja bæði heimili varðandi hjálpartæki sem eru nauðsynleg börnunum? Þetta skiptir mjög miklu máli af því að það hefur verið mikið óréttlæti í kerfinu eins og það er núna þar sem jafnvel er jöfn umgengni, sameiginleg forsjá, en það er bara annað heimilið sem fær allan stuðning. Þá erum við að tala um hjálpartæki, fjárhagslegan stuðning, umönnunarbætur og þess háttar og hvort stutt verði með fullnægjandi hætti við bæði heimilin, sérstaklega þegar kemur að hjálpartækjum, það er jú ekki hægt að skipta þeim í tvennt. Og að lokum: Geta foreldrar ákveðið að allar bætur, barnabætur og allar stuðningsbætur, fari eingöngu til annars foreldris í svona aðstæðum?



[14:25]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna hér stöðu foreldra sem eiga barn með fötlun af því að það er rétt að þar fellur til mikill kostnaður og þarf mikinn útbúnað sem aðeins annað foreldri fær miðað við núgildandi löggjöf. Þetta kemur auðvitað einkum upp þegar lögheimilisforeldri er í svona afgerandi betri stöðu þrátt fyrir annan vilja foreldranna. Þetta er einmitt ein af þeim breytingum sem félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið þurfa að koma með í kjölfarið og það er ástæða þess að frumvarpið tekur ekki gildi fyrr en um mitt næsta ár, eða 1. apríl 2021. Það er til að geta brugðist við svona aðstæðum. Það verður þá ekki tekið á því í þessum lögum heldur þarf að breyta lögum sem heyra undir aðra ráðherra og reglugerð svo réttaráhrif og vilji þessa frumvarps, sem stendur algerlega til þess, standist í svona aðstæðum. Ég bind miklar vonir við að réttur beggja foreldra fatlaðra barna verði þá jafn ríkur og jafn skiptur þegar kemur að stuðningi við kaup á tækjum og öðru af því að ég veit að þessi dæmi eru ljóslifandi og hef fengið nokkrar sögur af þeim.



[14:26]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir að óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með að vera að mæla fyrir þessu frumvarpi. Ég tek undir það hversu mikilvægt frumvarpið er. Ég hef haldið nokkrar ræður síðan ég kom inn á þing um stöðu fjölskyldna þar sem barn býr á tveimur heimilum og þetta er mikilvægt skref. En þetta er alls ekki lausnin á öllum málum, eins og ágætlega hefur verið farið yfir, og ég vona svo innilega að þinginu hlotnist að afgreiða það fljótt og vel því að það skipti mjög miklu máli.

Eins og kemur ágætlega fram í greinargerð með frumvarpinu þá er þetta auðvitað langur vegur sem búið er að fara og þræða hér í gegnum þingsályktanir og starfshópa og samstarf milli mismunandi ráðuneyta. Þess vegna ætla ég að leyfa mér í ræðunni að fara líka út í mál sem ég hef nefnt einhvern tímann áður og skrifað um sem koma kannski ekki beint inn á þetta frumvarp en snertir lífsgæði barna og fjölskyldna í landinu. Við virðumst eiga svo erfitt með að ná utan um þetta. Hér voru nefnd áðan málefni fatlaðra barna eða heimila þar sem barn býr við einhvers konar fötlun. Þá ertu kominn með velferðarráðuneytið. Það er ágætlega tekið á því í greinargerðinni hvað þarf að ræða við mörg ráðuneyti og breyta lögum til að tryggja að fullu þau réttindi sem börn og fjölskyldur eiga. Það eru öll ráðuneyti fyrir utan forsætisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti undir og það er fjöldi stofnana sem heyra undir öll þessi ráðuneyti. Það gerir málið svolítið flókið hjá okkur.

Mér finnst oft þegar umræða skapast um þessi mál, þ.e. sameiginlega forsjá sem ég held að hafi verið mjög skynsamleg breyting á sínum tíma, að hún snúist svolítið um réttindi foreldra og að báðir foreldrarnir eigi rétt. Ég vil vissulega leggja fyrst og fremst áherslu á réttindi barnanna en ekki síður skyldur foreldranna. Það er nefnilega þannig að þeim ágætu réttindum foreldra að vera foreldri fylgja miklar skyldur og okkur virðist ekki hafa tekist nægilega vel upp með það að gera foreldrum kleift að uppfylla skyldur sínar þegar foreldrar skilja og búa hvort á sínu heimilinu. Það er ekki bara að það vanti að bæta lög, þó að ég held að þetta frumvarp sé vissulega til bóta, heldur er þetta oft tæknilegur vandi úti í kerfunum okkar. Ég ætla sérstaklega að nefna Þjóðskrá í þessu samhengi sem fyrir mörgum áratugum bjó til kerfi og ákvað að það væri sniðugt að setja númer á fjölskyldur í landinu. Einhverra hluta vegna hafa flestar aðrar stofnanir sem hafa tekið við upplýsingum frá Þjóðskrá ákveðið að nota þetta ágæta fjölskyldunúmer sem eitthvert alfa og omega í að keyra kerfi sín áfram. Þetta hefur valdið því að upplýsingar um börn koma aðeins inn á lögheimili barnsins, sem er bara hjá öðru foreldrinu, þrátt fyrir að um sé að ræða foreldra með sameiginlega forsjá. En þó er ekki einu sinni víst að lögheimilisforeldri fái bréfið um barnið sitt. Það gæti verið maki lögheimilisforeldrisins ef svo vill til að makinn sé eldri og kennitalan þar af leiðandi sýni eldri aðilann. Þetta er algjörlega fáránlegt. Ég á hér eina fyrirspurn á hæstv. heilbrigðisráðherra um upplýsingar sem Sjúkratryggingar hafa sent út sem ættu að varða persónuvernd barna, sem fara heim til annars foreldris á lögheimili sem er þó ekki blóðforeldri viðkomandi og hvorugt foreldranna fær upplýsingar um þetta.

Afsakið, ég er aðeins að fara út fyrir það sem er í frumvarpinu, en ég vil ekki síst að brýna hæstv. ráðherra áfram í þessari vinnu því að þetta mál er mikilvægt. Það þarf einhver að halda utan um þessi mál í öllum kerfunum okkar vegna þess að þau eru úti um allt, í öllum ráðuneytum og hjá svo mörgum stofnunum. Ég veit að með þeim breytingum sem gerðar voru á tölvukerfi Þjóðskrár átti að laga þetta og vonandi er það búið. En það er ekki nóg með að kerfið þar þurfi að breytast heldur þurfa allir sem taka við upplýsingum líka að breyta kerfunum sínum og verklagi. Það er auðvitað algjörlega út úr kú að þeir foreldrar sem fara með forsjá barna fái ekki upplýsingar beint til sín og auðvitað ættum við að geta leyst stóran hluta af þessu rafrænt í dag.

Ég vildi leggja sérstaklega áherslu á þetta og brýna ráðherra áfram í þessum mikilvægu málum og jafnframt brýna þingið í að klára þetta mál sem er til mikilla bóta og skiptir miklu máli. Það er vissulega mikilvægt púsl í þetta púsluspil. En við megum ekki gleyma því að vera stöðugt vakandi yfir réttindum barna og ekki síst skyldum foreldra og hvernig við gerum foreldrum kleift að uppfylla skyldur sínar.



[14:32]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með það sem ég náði ekki að klára í andsvörum áðan um barnaréttarnefndina og þriðju valfrjálsu bókunina við mannréttindasáttmálann. Mér finnst það mjög kaldhæðnislegt að við séum með fulltrúa í barnaréttarnefndinni en leyfum ekki íslenskum borgurum að sækja álit til hennar. Þó var það voða mikið kappsmál að koma fulltrúa þangað, enda er það ágætisapparat til að vinna með og mjög nauðsynlegt, ég skil vel kappsmálið þess vegna. En þá skil ég ekki af hverju borgarar landsins mega ekki leita til nefndarinnar því að þegar allt kemur til alls þá eru börn með öll þau réttindi sem eru skilgreind í mannréttindasáttmálanum sjálfum. Barnasáttmálinn er síðan ákveðin viðbót við mannréttindasáttmálann því að það eru sérstök atriði sem þarf að huga að vegna þess aðstöðumunar sem börn búa við gagnvart kerfum varðandi réttindi sín samkvæmt mannréttindasáttmálanum sjálfum. Það þarf sérstaklega að huga að því að þau fái þau réttindi eins og allir aðrir hafa. Mér finnst svolítið áhugavert að það mál sé fast í nefnd enn og aftur því að meira að segja barnamálaráðherra studdi það þegar ég spurði hann um það í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir nokkru síðan.

Nú sjáum við þetta frumvarp sem tekur skref í áttina að því að uppfylla barnasáttmálann en samt vantar þessi augljósu atriði sem maður skilur ekki að séu ekki tekin með miðað við þá áherslu sem við höfum, á hinn bóginn lagt á að fara í þá átt. Við fengum fulltrúa í nefndina, það var stofnanaleiðin, fengum sæti og virðingu og ýmislegt svoleiðis á mjög mikilvægum stað varðandi mannréttindi í heiminum, en á hinn bóginn segjum við: Nei, fyrirgefið, börn á Íslandi mega ekki fara og leita álits hjá barnaréttarnefndinni, þó að við séum búin að koma því vel og kirfilega á framfæri að við styðjum vinnu þessarar nefndar með því að senda fulltrúa til hennar.

Hér útskýrði hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir að við erum með mjög fjölbreytt fyrirkomulag í forsjár- og umgengnismálum. Það er sameiginleg forsjá, jöfn umgengni, skipt búseta og möguleg sambandsform þar sem er verið að skipta umgengni og lögheimili og forsjá barna á einhvern hátt ásamt því að taka verður tillit til sjónarmiða barnanna eins og er verið að bæta við núna á mjög skýran hátt og er mjög jákvætt. Þá velti ég fyrir mér hvort þessi síló sem farið er yfir í fylgiskjalinu, um forsjá hjá öðru foreldri, sameiginlega forsjá, skipta búsetu og jafna umgengni, séu nægilega sveigjanleg fyrir alla. Ef aðilar geta að mestu leyti uppfyllt skilyrðin fyrir sílóinu um skipta búsetu nema í einum, tveimur tilfellum þar sem þeir myndu vilja haga því öðruvísi, skemmir það þá allt samningsferlið sem slíkt? Er gert ráð fyrir því í forminu sem þarf að fylla út hjá sýslumanni að hægt sé að taka þá eiginleika sem fylgja skiptri búsetu en hafa líka eiginleika jafnrar umgengni, einhverja aðra eiginleika þessara sambúðar- og umgengnisforma?

Ég hlakka til þegar nefndin tekur þetta mál til umfjöllunar og hlakka til að sjá umsagnir sem það varða. Ég er því miður ekki í nefndinni sem fær þetta mál en hlakka til að sjá afgreiðslu nefndarinnar á málinu. Það lítur mjög jákvætt út og ég hlakka til að sjá umsagnir um það og samhengi við t.d. þriðju valfrjálsu bókun barnasáttmálans.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.