150. löggjafarþing — 100. fundur
 7. maí 2020.
verðbólguspár.

[10:45]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú er að koma í ljós hverjir eru í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Öryrkjar fá hungurlús, 20.000 kr., þeir þurfa bara að herða sultarólina. Síðan er verið að ráðast á unglinga og eldri borgara sem eru búnir að spara sér til að fara í frí. Þeir eiga gefa eftir fjármuni afturvirkt til ferðaskrifstofa. Við erum með stórfurðulegar sektargreiðslur þar sem við sektum þá sem eru með 200.000 kr. útborguð laun um 80.000 kall, en gerum það sama fyrir þann sem er með 800.000 kr. Þeir sem eru á hæstu launum geta brotið af sér fjórum, fimm, sex, sjö sinnum oftar áður en þeir komast í sömu spor og þeir sem á lægstu launum eru. En svo erum við að hjálpa fyrirtækjum. Það stendur ekkert á því að hjálpa fyrirtækjunum en heimilin, nei.

Og hvernig er staðan nú? Það var sagt að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af verðbólgu. En staðan er sú að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af verðbólgu. Nýjasta spá Seðlabankans er 1,4% verðbólga. Ef við tökum bara síðustu spá sem var ekki nema 0,10%, en það endaði í 0,5%, fimm sinnum meira. Þá er Seðlabankinn að spá núna 7% verðbólgu. Og hvað þýðir þetta á mannamáli? Hagstofan reiknar vitlaust, það er verið að reikna verðbólgu af ferðum en það var enginn að fara í ferðalög. Og af hárgreiðslu, það var enginn að fara í hárgreiðslu á þeim tíma en allt var þetta tekið inn í, rangar tölur. Þær notaðar til að ná af heimilum 20–30 milljörðum. Þetta þarf bara að gera fimm sinnum eða tíu sinnum þá er búið að ná af heimilum björgunarpakka ríkisstjórnarinnar upp á 200–300 milljarða. Er þetta það sem verið er að stefna í?

Ég spyr: Hvernig væri nú að hæstv. fjármálaráðherra sæi til þess að Hagstofan, það er mannanna verk að reikna út verðbólgu, geri þetta rétt?



[10:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað ég get sagt við þessari fyrirspurn. Ég tel að Hagstofan sé að reikna verðbólguna mjög faglega og njóti stuðnings af alþjóðlega viðurkenndum aðferðum til þess. Við höfum reyndar ákveðið eftir samtal við vinnumarkaðinn að fá einn færasta sérfræðing í heiminum til að skoða sérstaklega samsetningu vísitölu neysluverðs. Ég vænti þess að niðurstöður hans verði aðgengilegar áður en langt um líður. Mér skilst að sú vinna sé langt komin. Þá getur hv. þingmaður, sem virðist vera mikill sérfræðingur á þessu sviði, kannski speglað sig eitthvað í niðurstöðum sérfræðingsins sem er alþjóðlega viðurkenndur aðili.

Hv. þingmaður hélt hér ræðu um að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar væri ekki rétt og eingöngu væri verið að vinna í þágu fyrirtækja en ekki nægilega vel í þágu öryrkja, unglinga og einhverra annarra sem greiða skatta. Ég ætla bara að biðja hv. þingmann um að hugleiða það aðeins hvers virði störfin eru sem hafa verið til staðar í landinu hjá fyrirtækjunum, þessi mögulega 30.000–40.000 störf sem eru að tapast núna í augnablikinu. Hvers virði eru þau fyrir getu okkar til þess að geta rekið hér þéttriðið velferðarkerfi? Kannski höfum við fengið núna í fyrsta skipti ótrúlegt skólabókardæmi upp í hendurnar sem maður gæti varla látið sér detta í hug í kennslustund. Við höfum séð það núna kristaltært hvað það þýðir að tapa þessum störfum. Það þýðir að við höfum ekki efni á almannatryggingum, ekki efni á skólakerfinu. Við höfum ekki efni á því að reka spítalana, borga þingmönnum laun eða öðrum opinberum starfsmönnum. Við þurfum að taka fyrir því lán. Það er ekki að furða þó að stjórnvöld leggi áherslu á það að endurheimta þessi störf, skapa ný, þannig að við getum staðið vörð um heilbrigðiskerfið og velferðarþjónustuna í landinu.



[10:49]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. Það er sérfræðingum að þakka að lán heimilanna hafa hækkað um 20–30 milljarða. Þetta eru allir sérfræðingarnir. Á sama tíma segir fjármálaráðherra og allir: Það er engin verðbólga. Það er ekkert að ske.

Hvernig í ósköpunum stendur á þessum útreikningum? Þú svaraðir því ekki. Er í lagi að redda störfum? Já, það er flott, en á kannski að taka heimilin af sama fólkinu sem er með verðtryggð lán? Á það ekkert að stoppa? Má það vera í frjálsu falli? Hvernig væri að setja stopp tímabundið? Af hverju er svo erfitt að taka húsnæði út úr verðtryggingunni, setja tímabundið stopp í sex mánuði þannig að það sé bæði tryggt að húsnæðið sé ekki boðið ofan af fólki og líka að það missi ekki allt sem það á í íbúð sinni vegna þess að lánin hafa stökkbreyst?



[10:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að það er hægt að miða við vísitölu án húsnæðisliðar. Það er eitt af því sem við lýstum yfir í tengslum við gerð lífskjarasamninganna að við myndum koma fram með frumvarp þess efnis. Frumvarp með slíku ákvæði hefur legið inni í þingflokkum stjórnarflokka.

Ég held hins vegar að menn eigi dálítið að gæta sín á því að kalla eftir þeirri breytingu. Mjög sterkar vísbendingar eru uppi um að vísitala án húsnæðisliðar myndi þróast með óhagstæðari hætti en vísitala með húsnæðislið einmitt við þær aðstæður sem nú hafa skapast. Það yrði þá til tjóns fyrir heimilin sem við hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að gæta að.