150. löggjafarþing — 100. fundur
 7. maí 2020.
fjáraukalög 2020, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 724. mál. — Þskj. 1253, nál. 1333 og 1336, breytingartillaga 1334, 1335, 1337, 1338, 1339, 1340, 1341, 1342, 1343, 1344 og 1345.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[22:26]

[22:21]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um fjáraukalög upp á 13 milljarða sem eru u.þ.b. 1% af ríkisútgjöldunum sem að mínu mati dugar engan veginn til að mæta þeirri þörf og því ákalli sem á sér stað í þessu samfélagi sem þarf að kljást við eina dýpstu kreppu í 100 ár.

Hér er ekki verið að hækka atvinnuleysisbætur. Hér er lítið sem ekkert hugað að heimilunum. Hér eru engar verklegar framkvæmdir. Litlu fyrirtækin virðast vera gleymd. Hér er ekki verið að setja ný störf eða varnir gagnvart núverandi störfum í forgang. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar eru fyrst og fremst að niðurgreiða uppsagnir.

Samfylkingin styður að sjálfsögðu allar góðar tillögur en við viljum ganga miklu lengra. Hér höfum við lagt fram tillögur ásamt öðrum í stjórnarandstöðunni um að bæta í álagsgreiðslur, auka styrki til lítilla fyrirtækja, ekki síst í ferðaþjónustunni. Við viljum setja aukna fjármuni til öryrkja og eldri borgara og SÁÁ, Kvikmyndasjóðs, fjölmiðla, landsbyggðarinnar o.s.frv.

Þetta eru allt gerlegar tillögur og ég veit að í hjarta sínu eru margir þingmenn stjórnarflokkanna samþykkir þeim en ég veit sömuleiðis, því miður, að hver einasta tillaga stjórnarandstöðunnar verður felld. (Forseti hringir.) Er það sérstaklega miður í ástandi eins og þessu, herra forseti.



Brtt. 1337 felld með 30:19 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórE.
14 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SIJ,  ÞórdG,  ÞSÆ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:23]
Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Hér leggur hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson til að atvinnuleysisbætur hækki og að námsmönnum verði tryggður réttur til þeirra nú í sumar. Stúdentar vilja vinna en þeir geta það ekki ef vinna er ekki í boði. Vissulega er verið að skapa sumarstörf fyrir námsmenn, mögulega 3.000 störf, en það hrekkur skammt þegar atvinnuleysið er meira en það. Hér er lagt til að stúdentar fái öryggisnet yfir sumarið til að tryggja að fólk hafi öruggt viðurværi og geti haldið áfram námi í haust. Þetta er sjálfsögð og mikilvæg tillaga fyrir hóp sem við viljum standa vörð um.



[22:24]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um annan fjáraukann sem hefur komið til í tengslum við aðgerðir vegna faraldursins og þegar liggur fyrir að sá þriðji mun koma. Fjáraukinn nú er upp á 13–14 milljarða.

Á fordæmalausum tímum gerist margt fordæmalaust. Stjórnarandstaðan gerir hér breytingartillögur upp á yfir 60 milljarða, þar af Samfylkingin 37 og Píratar 25. Í fjáraukanum eru, eins og áður sagði, 13–14 milljarðar. Þetta eru sannarlega fordæmalaus yfirboð.

Ég segi nei.



[22:25]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Meðal þess sem er lagt til í þessari breytingartillögu er að námsmönnum verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta í sumar. Mig langar að nota þetta tækifæri, um leið og ég geri grein fyrir atkvæði mínu, til að benda á að þær aðgerðir sem nú er verið að grípa til eru sambærilegar við þær sem voru lagðar til í síðustu kreppu. Kerfinu var samt breytt í tíð þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, á þann veg að námsmenn fengju þá ekki greiddar atvinnuleysisbætur í námsleyfum skóla og það hefur verið þannig allt frá þeim tíma. Mig langaði bara til að þetta kæmi fram við þetta tækifæri en ég mun sem sagt ekki styðja þessa breytingartillögu.



Brtt. 1338 felld með 30:15 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HVH,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórE.
4 þm. (HKF,  JSV,  ÞorbG,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
14 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SIJ,  ÞórdG,  ÞSÆ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:27]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu sem kveður á um aukinn stuðning við smærri fyrirtæki og mig langar að færa alveg sérstaklega í tal fjölmiðla sem gert er ráð fyrir að fái aukinn stuðning samkvæmt þessari tillögu okkar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilsvert hlutverk fjölmiðla á tímum sem þessum og það þarf heldur ekki að minna þingheim á þann mikla vanda sem fjölmiðlar standa frammi fyrir á tímum þegar hrun blasir við í tekjum þeirra.

Ég treysti því á að þingheimur muni bregðast vel og drengilega við.



Brtt. 1339 felld með 31:19 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
13 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:30]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um álagsgreiðslur til þeirra sem eru í framlínunni, til heilbrigðisstarfsmanna, m.a. á hjúkrunarheimilum, sjúkraflutningafólks o.s.frv., af því að við teljum að allir eigi að sitja við sama borð þegar kemur að álagsgreiðslum til þeirra sem hafa brugðist við vegna Covid-vanda. Að sjálfsögðu eigum við að láta þar alla framlínustarfsmenn sitja við sama borð, ekki bara þá sem eru inni á þar til gerðum heilbrigðisstofnunum, heldur öllum heilbrigðisstofnunum.

Að sjálfsögðu greiðum við atkvæði með þeim tillögum.



[22:31]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ekki erum við bara að greiða atkvæði um álag til heilbrigðisstarfsmanna heldur einnig sérstaklega 100.000 kr. einskiptisgreiðslu fyrir öryrkja og eldri borgara. Það væri frábært ef það hefði verið hægt að samþykkja það.

Svo er 100 millj. kr. stuðningur til SÁÁ sem hefur núna misst niður svo til alla álfasölu vegna Covid. Þess ber að geta að eldri borgarar hafa ekki fengið neitt og þessar 100.000 kr. einskiptisgreiðslur til öryrkja og eldri borgara hefðu skilað mjög miklu til þeirra og sýnt lit en því miður lítur út fyrir að það verði ekki samþykkt



[22:32]
Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Í tónlistinni er oft upprunalega útgáfan betri en „cover“-lagið. Þannig er t.d. með þá tillögu að greiða álagsgreiðslur til framlínufólks í velferðarkerfinu. Þetta var lagt til við síðasta aðgerðapakka. Það var fellt á þeim tíma, dúkkaði síðan aftur upp í tillögum stjórnarliða — til færri starfsmanna en í upprunalegu útgáfunni. Hér er lagt til að færa það til fyrra horfs sem er betra en virðist því miður ekki njóta hljómgrunns hjá þeim sem tóku þetta lag upp í nýrri útgáfu.



Brtt. 1340 felld með 31:19 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
13 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:33]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þetta eru breytingar frá stjórnarandstöðunni sem setja ekkert á hliðina. Tillagan lýtur að því að setja fjármuni í nýsköpun, m.a. í Tækniþróunarsjóð og Kvikmyndasjóð. Það er með ólíkindum að þingheimur treysti sér ekki til að setja fé í þessa tvo lykilsjóði. Kvikmyndaiðnaðurinn hefur verið að kalla eftir auknum stuðningi frá stjórnvöldum og ekki fengið. Sú upphæð sem rennur til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar lækkaði um 30% á milli ára í síðustu fjárlögum en í þeirri tillögu sem við greiðum líka atkvæði um eru aukin framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem maður hefði haldið að væri stuðningur við. Mér sýnist þó svo ekki vera.

Þarna er tillaga um framlög til sóknaráætlana landshluta sem maður hefði haldið að sumir þingmenn gætu stutt. Allt kemur þó fyrir ekki. Þarna er lítil upphæð til Ungra frumkvöðla o.s.frv.

Þetta eru tillögur sem maður hefði haldið að á tímum neyðarástands væri hægt að sameinast um en eins og með allar aðrar tillögur stjórnarandstöðunnar sjáum við að hv. þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) fella allar okkar tillögur á sama tíma og við samþykkjum þeirra tillögur. Þetta er sorglegt, herra forseti.



[22:36]
Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um breytingartillögu Miðflokksins við fjáraukalagafrumvarpið. Hún er í tveimur liðum, annars vegar að fella niður tryggingagjaldið fram að áramótum sem mun skapa störf. Það mun styrkja fyrirtækin í því að halda núverandi starfsfólki og ráða nýtt starfsfólk. Auk þess er tillaga um að bæta við sumarstarfaúrræðið og útvíkka það þannig að það eigi einnig við um félagasamtök og einkaframtakið og verði útvíkkað fram á haust og inn í veturinn. Við leggjum til aukna fjárveitingu í þetta til að reyna að verja störfin. Mikilvægasta verkefni stjórnvalda í þessum erfiðu kringumstæðum er að verja störfin og geta fjölgað störfum.

Þessi tillaga gengur út á það og ég hvet þingheim til að styðja hana.



Brtt. 1343,1–2 felld með 31:19 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
13 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:39]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég styð þessa tillögu sem gengur út á að veita aukið fé, samtals 2 milljarða kr., til að skapa störf með svokallaðri sumarstarfaleið. Ég held að mjög margt hér í landinu sé ógert og hægt að nýta fólk til ýmissa starfa, eins og t.d. í skógrækt. Það þarf að grisja skóga, leggja vegi og stíga og ýmislegt annað má finna til. Ég held að það sé vel þess virði að leggja aukið fé í þetta verkefni.



Brtt. 1345 felld með 35:15 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HVH,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HKF,  HarB,  JónG,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞórdG,  ÞórE.
13 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:41]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hérna er leiðrétting á grunnlífeyri samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar frá árinu 2007 þar sem reikna á með hækkun grunnlífeyris, annaðhvort eftir launaþróun eða eftir vísitölu neysluverðs, hvort sem er hærra. Það hefur aldrei verið gert í rauninni þannig að smátt og smátt hefur orðið ákveðin gliðnun á raunhækkun miðað við þá hækkun sem tekin er fram í lögunum upp á rúmlega 30%. Þetta er það sem munar á málefnasviði örorku þannig að við leggjum einfaldlega til að á sömu forsendum og laun þingmanna og ráðherra hækka eftir raunverulegri launaþróun verði þetta lagfært þannig að það sé sambærilegt.

Ég segi já.



Brtt. 1344 felld með 30:14 atkv. og sögðu

  já:  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HVH,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
5 þm. (AIJ,  HKF,  JSV,  ÞorbG,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
14 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SÁA,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:43]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög einföld breytingartillaga. Við í fjárlaganefnd fengum, og velferðarnefnd líka, minnisblað og útreikninga frá ráðuneytinu um áfallinn kostnað vegna faraldursins fyrir heilbrigðiskerfið. Það var sundurliðað niður á stofnun og fleira og uppsafnaður kostnaður var rétt rúmir 3,5 milljarðar sem eru fjárheimildir sem við þurfum hvort eð er að dekka einhvern tímann á árinu. Að sjálfsögðu eigum við að gera það strax og ættum í rauninni að vera að fá betri greiningar um það hver kostnaðurinn er síðan þá. Þetta er síðan um miðjan apríl þannig að augljóslega eru þarna fjárheimildir sem vantar upp á og við leggjum einfaldlega til að þær verði samþykktar núna strax.

Ég segi já.



[22:44]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að árétta það sem ítrekað hefur komið fram, að það liggur algjörlega fyrir að allur sá kostnaður sem fellur til í heilbrigðiskerfinu vegna Covid-19 verður bættur. Til að tryggja að við séum með nákvæma tölu í þessum efnum hefur öllum heilbrigðisstofnunum verið sett það fyrir að halda þessum kostnaði til haga frá einni viku til annarrar. Honum verður safnað upp í því skyni að bæta stofnunum það sem þar kemur fram.

Það er flókið viðfangsefni sem blasir við stofnununum þegar kúfurinn verður að baki, þ.e. að taka til við verkefni sem hafa beðið en ekki síður að taka til við hefðbundna heilbrigðisþjónustu en tryggja jafnframt að heilbrigðiskerfi okkar geti brugðist hratt og örugglega við þegar og ef faraldurinn lætur aftur á sér kræla.



[22:46]
Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við fjöllum um tillögu frá Viðreisn þar sem í 3. lið er gert ráð fyrir að veita 5 milljarða kr. til tveggja verkefna. Annað verkefnið gengur út á að veita 2,5 milljarða til Vegagerðarinnar í þörf, góð og brýn verkefni, en hinn hluti tillögunnar, 2,5 milljarðar, á að ganga til að flýta framkvæmdum við borgarlínu. Miðflokkurinn getur ekki stutt það mál og munum við ekki greiða atkvæði um 3. liðinn þess vegna. Við teljum að borgarlína sé illa undirbúið og óljóst loforð inn í framtíðina til mikilla útgjalda. Þetta er þá bara byrjunin á því sem koma skal þar sem borgarstjórnarmeirihlutinn með borgarstjórann í fararbroddi hefur teymt ríkisstjórnina inn í þetta verkefni.

Við getum því ekki greitt atkvæði með þessari tillögu sem er ágæt að öðru leyti.



Brtt. 1341,3 felld með 30:13 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  HKF,  HVH,  LE,  OH,  ÞorbG,  ÞKG.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
5 þm. (BirgÞ,  GBS,  KGH,  SPJ,  ÞorS) greiddu ekki atkv.
15 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV*,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SÁA,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.

[*Þm. óskar að geta þess að honum láðist að styðja á hnapp í atkvgr.; sjá greinargerð með atkvæði.]

1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:49]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um fjórþætta tillögu. Hún fjallar um lagfæringar á tryggingagjaldi til að örva það að fyrirtæki hafi fólk í vinnu og að ráðið sé inn fólk af atvinnuleysisskrá. Við leggjum hér til innspýtingu í rannsóknasjóðina okkar, við leggjum til að setja fé til að flýta framkvæmdum og síðast en ekki síst leggjum við til að settur verði 1 milljarður í sumarstörf námsmanna og að ákvæðið verði víkkað þannig út að það nái líka til einkageirans.

Ég sé á töflunni að þetta fellur ekki vel í hv. þingheim sem er miður en kemur því miður heldur ekki á óvart.



Brtt. 1341,1–2 og 4 felld með 30:18 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  KGH,  LE,  OH,  SPJ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
15 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV*,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SÁA,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.

[*Þm. óskar að geta þess að honum láðist að styðja á hnapp í atkvgr.; sjá greinargerð með atkvæði.]

1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:52]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um það að veita 3 milljarða til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til að geta veitt stuðningslán til nýsköpunarfyrirtækja sem mörg hver standa núna tæpt. Sumum er að blæða út. Þetta er hugsað sem mótframlag ríkisins á móti fjármögnun frá einkafjárfestum. Ég veit að hæstv. nýsköpunarráðherra hefur hug á því að svona mál nái fram að ganga þannig að ég treysti því a.m.k. að hún muni greiða þessu atkvæði.

Ég sé þó að þær vonir voru haldlitlar og vonlausar, allt gott er fellt frá stjórnarandstöðunni eins og venjulega, líka þetta góða mál.



Brtt. 1334,1–6 samþ. án atkvgr.

Brtt. 1342 felld með 30:14 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  HKF,  HVH,  JSV,  LE,  OH,  ÞorbG,  ÞKG.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
5 þm. (BirgÞ,  GBS,  KGH,  SPJ,  ÞorS) greiddu ekki atkv.
14 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SÁA,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.

Brtt. 1335,1–2 samþ. án atkvgr.

 Sundurliðun 1 og 1.–3. gr., svo breyttar, samþ. með 48 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BHar,  BN,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HSK,  HKF,  HarB,  HVH,  JónG,  JSV,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SPJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS,  ÞórdG,  ÞórE.
2 þm. (ÁlfE,  BLG) greiddu ekki atkv.
13 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BjarnB,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  ÓÍ,  PállM,  SDG,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:58]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég var með á nefndaráliti meiri hluta og tek undir breytingartillögur meiri hluta í þessu máli þó að málið sjálft sé ýmsum vanköntum búið sem þýðir að ég sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu.



[22:59]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum að greiða atkvæði um gríðarlega mikilvæg fjáraukalög og mikilvægar breytingartillögur við það frumvarp. Ég held að sérstaklega félagslegu aðgerðirnar sem hérna eru lagðar til eigi eftir að skipta alveg gríðarlega miklu máli. Það kann að vera að við þurfum að greiða atkvæði um fleiri fjáraukalög á komandi tímum en þessi hérna eru svo sannarlega mikilvæg til að íslenskt samfélag nái þeirri viðspyrnu sem er nauðsynleg eftir það sem á undan hefur gengið síðustu vikurnar.



[23:00]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok atkvæðagreiðslu um fjáraukalagafrumvarp sem er mikilvægur hluti af heildaraðgerðum og ráðstöfunum til að bregðast við afleiðingum Covid-19 á efnahagslífið og samfélagið þakka bæði umræðuna hér í dag sem hefur verið mjög gagnleg og vinnu hv. fjárlaganefndar. Hér er aðgerðum fyrst og fremst beint að hópum sem fyrri aðgerðir hafa ekki náð til. Um er að ræða fjölmargar félagslega mikilvægar aðgerðir, náms- og starfsúrræði fyrir námsmenn og atvinnuleitendur, álagsgreiðslur og tómstundastyrki til barna tekjulægri fjölskyldna og það rennur í gegnum öll sveitarfélög á landinu, geðrækt og geðheilbrigðismál. Heilsugæslan er efld að því leyti sem og félagslegur stuðningur við börn. Þess utan er mikil áhersla á nýsköpun og stuðning við minni rekstraraðila.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.