150. löggjafarþing — 103. fundur
 13. maí 2020.
fjárhagsstaða stúdenta.

[15:32]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Félagsstofnun stúdenta er sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð en aðild að stofnuninni eiga allir skrásettir stúdentar við Háskóla Íslands, háskólinn og menntamálaráðuneytið. Í dag rekur Félagsstofnun stúdenta m.a. leikskóla stúdenta og stúdentagarða. Nýlega kom tilkynning frá stúdentagörðum um viðbrögð við Covid. Stúdentum sem lenda í tímabundnum tekjumissi vegna aðstæðnanna verður gefið svigrúm til að greiða 75% af leiguverði í apríl, maí og júní. Þeir sem kjósa þetta úrræði þurfa að hafa gert upp útistandandi skuld 30. júní 2020. Á sama tíma hafa nemendur á stúdentagörðunum sem eru með börn á leikskóla stúdenta fengið kannski sex daga dvöl fyrir allan apríl fyrir börnin sín og hafa samt þurft að greiða fullt gjald fyrir skerta leikskólaþjónustu.

Stúdentar eru að lenda í erfiðleikum í námi og starfi meðfram námi. Það verður að hafa í huga að vinna meðfram námi er nauðsynleg fyrir mjög marga því að lánasjóðskerfið er svo lélegt. Stúdentar með börn sem vinna fyrir sér yfir sumarið geta kannski fengið framfærslulán sem rétt dugar fyrir leigunni á stúdentagörðum, hvað þá annarri framfærslu. Það er augljóslega ómögulegt fyrir flesta sem treysta einungis á sumarvinnu.

Fyrr í dag voru kynnt úrræði fyrir stúdenta um störf í sumar. Stúdentar eru hins vegar nú þegar í vanda vegna skuldbindinga sinna í námi og starfi. Ef úrræði ríkisstjórnarinnar duga ekki mun góður hópur námsmanna ekki fá laun fyrr en í júlí. Námsmenn eru nú þegar í vanda og hafa ekki svigrúm fyrir fjárhagslegt óöryggi og óvissu. Kröfur nemenda hafa verið að búa við félagslegt öryggi, að öryggisnetið grípi þá ef vinnumarkaðurinn gerir það ekki, sem er auðvitað miðað við ástandið fullkomlega óljóst. Hvers vegna skilur ríkisstjórnin nemendur eftir í því óöryggi um miðjan maí að vita ekki hvaða launaumslag bíður þeirra fyrr en mögulega í júlí? Stúdentar hafa nefnilega kallað eftir hraðari viðbrögðum.



[15:34]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu stúdenta. Það er rétt hjá honum að í dag kynntum við félags- og barnamálaráðherra umfangsmiklar aðgerðir til að bregðast við þessari stöðu. Mig langar til þess að nefna það að Lánasjóður íslenskra námsmanna fór strax í mjög sýnilegar og öruggar aðgerðir til að ná utan um stúdentana strax í mars.

Það eru nokkrir hlutir sem ég vil nefna. Það er búið að seinka afborgunum hjá þeim sem þurfa á því að halda sem hafa lokið námi. Við höfum skoðað aðra fresti. Við erum að rýmka margt sem tengist lánasjóðnum.

Ég vil líka nefna að við erum að skapa þúsundir og aftur þúsundir nýrra starfa fyrir námsmenn. Við erum að búa til nám í sumar upp á um 200 námsleiðir. Við höfum gert það þannig að stúdentar geta fengið lán fyrir því námi sem þau fara í. Þetta er allt einingabært og þetta er til þess fallið að nemendur geti flýtt námi sínu kjósi þeir að gera svo. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að nemendur búi við jafnræði til náms. Ef einhverjar vísbendingar eru þess efnis að hér séu að verða einhverjar breytingar vegna þeirrar stöðu sem uppi er bregðumst við að sjálfsögðu við því.

Á eftir mun ég svo greina frá Menntasjóðnum sem er núna í allsherjar- og menntamálanefnd og ég er mjög bjartsýn á framgang þess máls. Þar erum við að tala um eina stærstu kerfisbreytingu sem hefur átt sér stað á Lánasjóði íslenskra námsmanna í nokkra áratugi.



[15:36]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vandinn er nú þegar uppsafnaður. Það hefur komið fram að 70% stúdenta vinna með námi, 90% yfir sumartímann. Þetta er fólk sem greiðir skatta og stendur við skyldur sínar. Á sama tíma fær það ekki sömu réttindi og aðrir, fær ekki aðgang að þessu öryggisneti. Spurningin er einföld: Af hverju ekki? Ég vil sem sagt fá að vita hvort hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé sammála hæstv. félags- og barnamálaráðherra um að ósk stúdenta um að fá aðgang að atvinnuleysisbótum sé beiðni um að fá pening fyrir að gera ekki neitt. Þessar aðgerðir stjórnvalda, eins og ráðherra minntist á, búa til mörg þúsund opinber störf. Er hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sammála hæstv. fjármálaráðherra um að það heimskulegasta sem við getum gert á þessum tímapunkti sé að fjölga opinberum störfum?



[15:37]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef þá sýn að ein besta fjárfesting sem ríkissjóður Íslands fer í sé að fjárfesta í menntun og allri umgjörð sem tengist menntun. Þess vegna erum við að fara í þessar metnaðarfullu aðgerðir og að treysta þann grunn með þeim aðgerðum sem við erum að fara í. Ég tel að eins og staðan er núna sjáum við að það er mikið færnimisræmi á íslenskum vinnumarkaði og þess vegna eigum við að nýta þá stöðu sem uppi er og hafa menntakerfið mjög opið og bjóða upp á allt það nám sem við erum að gera.

Við erum mjög ánægð með þær aðgerðir sem við erum að kynna í sumar en við munum fylgjast mjög náið með því. Þurfum við að búa til fleiri störf með atvinnulífinu þá gerum við það. Við munum gera allt sem við mögulega getum til þess að staða námsmanna á Íslandi sé með allra besta móti. Ég vil líka taka það fram að íslenska skólakerfið hefur unnið algjört kraftaverk á síðustu vikum með því að halda leik- (Forseti hringir.) og grunnskólum gangandi og að á framhaldsskólastigi og háskólastigi séu allir þeir nemendur að klára og fá námsmat. Við eigum að fagna því hversu öflugt menntakerfi við höfum hér á landi.