150. löggjafarþing — 103. fundur
 13. maí 2020.
fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, 3. umræða.
stjfrv., 725. mál. — Þskj. 1403, breytingartillaga 1409.

[15:40]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu á þskj. 1409, við frumvarp til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna kórónuveiru. Breytingartillagan snýr að 11. gr. frumvarpsins. Ástæða þess að hún er lögð hér fram er að ábendingar bárust um að óæskilegt væri að löggjafinn útilokaði að tiltekinn rekstraraðili gæti hlotið stuðningslán samkvæmt III. kafla frumvarpsins með meira en einni lánveitingu. Þar eru einkum tvær ástæður að baki. Í fyrsta lagi væri einfaldara í framkvæmd að lán að upphæð meira en 10 millj. kr. yrði veitt í tvennu lagi, enda nyti fjárhæð þess ekki öll sama hlutfalls ríkisábyrgðar eða sömu vaxtakjara.

Í öðru lagi væri með kröfu um eina lánveitingu girt fyrir þann möguleika að rekstraraðili sem fullnýtir ekki svigrúm sitt til stuðningsláns gæti á síðari stigum sótt um frekari lánveitingu. Slíkt myndi skapa óeðlilegan hvata til rekstraraðila til að sækja um eins hátt stuðningslán í upphafi og kostur er í stað þess að meta lánsþörfina af varfærni og eiga í raun möguleikann á viðbótarláni inni. Með þessari breytingartillögu, og það er rétt að taka fram að ég hafði samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið, er ætlunin að unnt verði að veita stuðningslán með fleiri en einni lánveitingu en reglur um lánin verða óbreyttar að öðru leyti. Með þessu veitir löggjafinn aukið svigrúm til tæknilegrar útfærslu stuðningslána. Í samræmi við heimildir þar að lútandi í frumvarpinu verður unnt að kveða nánar á um framkvæmd stuðningslána að þessu leyti í reglugerð ráðherra og/eða í samningi Seðlabanka Íslands við lánastofnanir, svo sem þau tilvik þar sem heimilt er eða skylt verður að veita stuðningslán í meira en einu lagi og hvernig greiðslu rekstraraðila í slíku tilviki er háttað.



[15:42]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist þessi tillaga vera til bóta. En ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hv. þingmann út í frumvarpið sem við erum að fara að greiða atkvæði um í heild sinni nú á eftir. Hér á göngum þinghússins hef ég spjallað við stjórnarliða sem standa í þeirri meiningu að þeir hafi fellt breytingartillögu Samfylkingarinnar um skilyrði vegna skattaskjóls og aflandsfélaga, að þeir nytu ekki stuðnings ríkisins sem hefðu nýtt sér skattaskjól til skattundanskota, vegna þess að hún væri óþörf, vegna þess að búið væri að útiloka þessa aðila með skilyrðunum í frumvarpinu sjálfu og breytingartillögum meiri hlutans. Þetta kemur mér á óvart vegna þess að ég get ekki komið auga á þær girðingar í þeim skilyrðum.

En ég vil spyrja hv. þingmann, formann efnahags- og viðskiptanefndar, hvort hann geti bent mér á hvar þær girðingar og þau skilyrði nýju eru í frumvarpinu sem taka af öll tvímæli um að þeir sem hafa nýtt sér og nýta sér skattaskjól, aflandsfélög og flóknar millifærslur alls konar, til þess að koma sér undan skattgreiðslum eða til að greiða lægri skatta, fái ekki stuðning ríkisins á þeim erfiðu neyðartímum sem við glímum nú við.



[15:44]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við áttum þessa umræðu að einhverju leyti í gær. Það er alveg ljóst að þeir sem nýta sér skattaskjól eru ekki að framfylgja íslenskum lögum og þar með uppfylla þeir ekki ákvæði þessa frumvarps. Það er líka alveg ljóst, þó að tilgangur hv. þingmanns með breytingartillögu sem lögð var fram í gær og náði ekki fram að ganga, að sú tillaga hefði ekki heldur girt fyrir það sem kallað er skattaskjól. Hún hefði hins vegar útilokað mörg fyrirtæki, ekki síst ung, upprennandi hugverkafyrirtæki, frá því að njóta eða sækja um stuðningslán vegna þess að þau eru með starfsemi, m.a. í því sem viðkomandi hv. þingmaður kallar lágskattaríki. Lágskattaríki eru t.d. ríki innan Evrópusambandsins sem hv. þingmaður talar mjög fyrir að við skulum ganga í. Ísland gæti meira að segja í einstökum tilvikum, eins og ég benti hér á, í einstökum greinum, einstökum fyrirtækjum, verið lágskattaríki í skilningi skattalaga, alveg eins og Noregur er í einstökum tilfellum talinn lágskattaríki, Holland er talið lágskattaríki. Þannig að breytingartillaga hv. þingmanns hefði ekki komið í veg fyrir það að einhverjir aðilar sem nýta sér skattaskjól og svíkjast undan að greiða lögbundnar skyldur hefðu sótt um stuðningslán. Við erum bara að segja að ótakmörkuð skattskylda og upplýsingar um að menn hafi greitt öll sín gjöld sem þeim ber að gera, hafi farið eftir íslenskum lögum í einu og öllu, og uppfylli þau ströngu skilyrði sem sett eru fyrir að fá þessi stuðningslán, (Forseti hringir.) er það sem ég tel nægilega tryggingu. En auðvitað þurfum við að átta okkur á því að það kunna einhverjir að reyna að svindla, (Forseti hringir.) brjóta íslensk lög, brjóta lögin sem við erum að samþykkja hér á eftir, alveg eins og þeir brjóta íslensk skattalög með því að nýta sér skattaskjól með þeim hætti sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur áhyggjur af.

(Forseti (SJS): Það má ekki svindla á ræðutímanum.)



[15:47]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður reynir að flækja málið töluvert. En ég vil þá bara spyrja hv. þingmann alveg beint: Telur hann að þau skilyrði sem sett voru í breytingartillögu meiri hlutans um skil á CFC-skýrslum um ársreikninga, um að tiltaka þurfi raunverulega eigendur, sem er allt hvort sem er í íslenskum lögum, komi með einhverjum hætti í veg fyrir að t.d. Íslendingur sem á félag á Tortólu en býr í London, rekur síðan fyrirtæki hér á Íslandi og finnur leiðir til að færa tekjur sem hér er aflað til sín í gegnum aflandsfélög — koma þau skilyrði í veg fyrir að slíkur aðili fái stuðning úr ríkissjóði núna, svo ég taki bara beint dæmi, þegar við erum að glíma við heimsfaraldur? Þegar við horfum fram á hundruð milljarða mínus á ríkissjóði, munu þá þau skilyrði sem meiri hlutinn hefur samþykkt hér ásamt Miðflokknum, duga til þess að við setjum ekki úr okkar rýru sjóðum við þessar aðstæður peninga til fyrirtækja sem setja upp fléttur og millifærslur til að svíkja undan skatti og greiða ekki sinn skerf til íslensks samfélags?



[15:49]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég varð var við þann misskilning í atkvæðaskýringu í gær að einhverjir þingmenn standa í þeirri trú að stuðningslánin séu fjármögnuð úr ríkissjóði. Það er ekki þannig. Það er ekki ríkissjóður sem fjármagnar þessi stuðningslán, það eru viðskiptabankarnir í gegnum eigin efnahagsreikning (Gripið fram í.) og hugsanlega líka með ákveðnum samningi við Seðlabankann, sem er þá opin lánalína. (OH: Engin ríkisábyrgð?) Það er auðvitað ríkisábyrgð, hv. þingmaður. Það er annað mál, en það er ekki verið að fjármagna lánið, það má ekki rugla þessu tvennu saman. Fyrirtæki sem er með starfsemi hér, alveg óháð því hvort eignarhaldið er í höndum Bandaríkjamanns, Breta eða Íslendings sem er með eitthvert annað eignarhaldsfélag á Tortólu, ber samkvæmt íslenskum lögum að greiða skatta og skyldur, þar með talið tekjuskatt, af starfsemi sem á sér stað á Íslandi. Það er með öðrum orðum ólöglegt að flytja hagnað frá Íslandi af starfseminni sem hér á sér stað. (Gripið fram í.)

Hitt er síðan annað mál, hv. þingmaður, að annað verkefni bíður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sem er kannski hluti af því að leysa þann vanda sem við er að glíma. Það kemur ekki við flutningi á hagnaði eða því að fela hagnað í einhverjum skattaskjólum, heldur er það það sem kallað er milliverðlagning, sem er stórt vandamál. En þingmenn virðast ekki hafa mikinn áhuga á því að fjalla um það vandamál þar sem milliverðlagning á sér stað þar sem vara eða þjónusta er seld til Íslands á allt of háu verði til þess að hagnaðurinn verði raunverulega eftir erlendis. Það er eitt af þeim verkefnum sem bíður okkar núna og er frumvarp fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og við skulum takast á við það mál.