150. löggjafarþing — 103. fundur
 13. maí 2020.
ávana- og fíkniefni, 2. umræða.
stjfrv., 328. mál (neyslurými). — Þskj. 372, nál. m. brtt. 1385.

[15:52]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit með máli sem kallað hefur verið neyslurýmamálið í þinginu. Þetta er mál sem á djúpar rætur og hefur verið mikið í umræðunni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem reynt er að koma sambærilegu máli í gegnum þingið. Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk á sinn fund þá aðila sem getið er í nefndarálitinu auk þess sem umsagnir bárust frá þeim hagsmunaaðilum og félögum sem talin eru upp í því. Ég sé ekki ástæðu til að telja þau upp sérstaklega hér.

Með frumvarpinu er lagt til að embætti landlæknis geti veitt sveitarfélögum heimild til að stofna og reka neyslurými þar sem varsla og meðferð ávana- og fíkniefna í æð er heimil undir eftirliti starfsfólks, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. varðandi hollustuhætti, öryggi og eftirlit. Frumvarpið er hluti af stefnumótun til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild, samanber ályktun Alþingis nr. 44/143 frá 16. maí 2014, sem ég held að ég fari rétt með að hafi komið frá þingflokki Pírata á þeim tíma. Það er rétt að taka fram að áhugi og vinna margra þingmanna Pírata í þessu máli hefur skilað okkur á þann stað sem við erum núna, að vera að klára þetta mál og er það vel. Vinna heilbrigðisráðuneytisins hefur einnig skipt verulegu máli þar.

Á fundum sínum fjallaði nefndin sérstaklega um markmiðið með frumvarpinu og ábyrgð á þjónustunni, fjármögnun, réttarstöðu notenda og starfsmanna og útvistun á rekstri til félagasamtaka. Markmiðið með frumvarpinu er að heimila stofnun og rekstur neyslurýma, en þau teljast til skaðaminnkandi úrræða sem ætlað er að koma í veg fyrir frekari óafturkræfan skaða, auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð. Fyrir nefndinni kom fram almennur stuðningur við markmið frumvarpsins og var bent á að neyslurými væru mikilvæg til að koma til móts við jaðarsetta einstaklinga sem falla utan annarra úrræða. Einnig var bent á mikilvægi þess að leita allra leiða til að draga úr þörf fyrir slíka þjónustu. Í umsögnum um málið komu fram ábendingar um nauðsyn þess að tengja þjónustu neyslurýma við aðra þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, lögfræðiþjónustu og aðra þjónustu sem stuðlar að félagslegum stuðningi og markvissri hvatningu fyrir notendur til að leita sér lækningar og aðstoðar. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að draga úr þörf fyrir þjónustuna með því að samþætta hana annarri þjónustu eins og hægt er svo markmiðum frumvarpsins, um að aðstoða og vernda neytendur efnanna, auka lífsgæði þeirra og koma í veg fyrir óafturkræfan skaða til hagsbóta fyrir aðstandendur og samfélagið í heild, verði náð.

Meiri hlutinn tekur undir ábendingar sem fram komu um að orðanotkun í frumvarpinu um að neyslurými sé ætlað langt leiddum einstaklingum, sé nokkuð gildishlaðin og jafnvel ekki rétt að skilyrða úrræði við það, heldur einstaklinga sem eru 18 ára og eldri. Leggur hann því til breytingu á frumvarpinu því til samræmis.

Nefndin fjallaði sérstaklega um hvernig verkefnið félli að hlutverki sveitarfélaga. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að verkefnið ætti fremur að vera á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda en framkvæmd þess hjá sveitarfélögunum. Þá komu fram áhyggjur af kostnaði við að setja á fót og reka neyslurými og var bent á mikilvægi þess að ekki yrði einungis gert ráð fyrir stofnkostnaði frá ríkinu heldur árlegu framlagi á grundvelli þjónustusamnings við sveitarfélögin. Fyrir nefndinni kom hins vegar fram að gert hefði verið ráð fyrir allt að 50 millj. kr. framlagi frá heilbrigðisráðuneytinu til að koma úrræðinu á fót. Meiri hlutinn tekur fram að hér er um valkvætt úrræði að ræða fyrir sveitarfélögin sem heilbrigðisráðuneytið hefur þegar ákveðið að leggja fjárframlag til og telur að með því sé í reynd fallist á að verkefnið falli a.m.k. að hluta undir heilbrigðisþjónustu. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að gerður verði samningur milli viðkomandi sveitarfélags og ráðuneytisins um kostnaðarskiptingu vegna úrræðisins og þeirrar þjónustu sem boðið verður upp á í tengslum við úrræðið.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ábendingar umsagnaraðila um að þeir sem hefðu þörf fyrir að nýta sér úrræðið þyrftu að vera með skráð lögheimili í sveitarfélagi þar sem neyslurýmið er. Fram kom að þörfin fyrir þjónustu sé mest í Reykjavík en einnig var bent á mikilvægi þess að litið yrði á úrræðið sem skaðaminnkandi úrræði fyrir alla sem neyta fíkniefna í æð. Fram kom að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gætu t.d. gert samning við Reykjavíkurborg um þjónustu við þá notendur úrræðisins sem ættu lögheimili annars staðar og þannig í rauninni náð utan um það að væntanlega verði verkefnið fyrst og fremst rekið á einum stað.

Þá komu fram ábendingar um að tryggja yrði aðgengi fatlaðs fólks og fólks óháð kyni þar sem nýting kvenna á úrræðinu erlendis hafi verið mun minni en karla. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að sveitarfélögin hafi með sér samráð og samstarf svo tryggt verði að markmið frumvarpsins náist um að koma til móts við þá sem þurfa á úrræðinu að halda og telur mikilvægt að hugað verði að því við framkvæmdina að úrræðið nýtist sem best óháð kyni eða fötlun.

Við ræddum mikið í nefndinni um réttarstöðu innan neyslurýma. Með frumvarpinu er lagt til að notanda neyslurýmis verði heimilt að hafa í vörslu sinni það magn ávana- og fíkniefna sem hann ætlar að neyta í neyslurýminu. Nefndin fjallaði nokkuð um stöðu starfsmanna í neyslurýmum, þ.e. hvort líta megi á neyslurými sem refsilaust svæði. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að með þeirri tilhögun að heimila notanda gistirýmis vörslu og neyslu ávana- og fíkniefna, þ.e. að lögfesta undanþágu frá gildissviði laganna, sé verið að tryggja að ekki verði heimilt að refsa þeim fyrir vörslu og meðferð efna. Þar með virkjast ekki heldur skylda starfsfólks til að tilkynna um brot á lögunum þar sem ekki er um brot að ræða á slíku svæði.

Nokkuð var rætt um öryggi starfsfólks en í frumvarpinu er lagt til að einungis verði unnt að veita sveitarfélagi leyfi til að stofna og reka neyslurými ef skilyrði reglugerðar eru uppfyllt. Þannig þarf m.a. að kveða á í reglugerð um þjónustu sem veita skal, verkefni, öryggi og hæfni starfsfólks og eftirlit með starfseminni. Meiri hlutinn bendir í því sambandi á mikilvægi þess að þar verði kveðið skýrt á um starfsskyldur, öryggi og réttindi starfsfólks neyslurýma. Þá tekur meiri hlutinn undir sjónarmið um að nauðsynlegt sé að samkomulag sé á milli sveitarfélaga og eftir atvikum rekstraraðila neyslurýma og lögregluyfirvalda til að skapa sátt um framkvæmdina, m.a. varðandi svæði í næsta nágrenni neyslurýmis, þannig að tryggt verði að markmiðið með úrræðinu nýtist notendum þess.

Í umfjöllun um 1. gr. í greinargerð kemur fram að þótt leyfishafinn sé sveitarfélag geti það falið frjálsum félagasamtökum að reka neyslurými svo lengi sem þau uppfylla skilyrði reglugerðarinnar samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins og hafa næga þekkingu og umsvif. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að starfsemin gæti verið á höndum félagasamtaka í formi þjónustusamninga við sveitarfélög. Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög gætu gert slíkan samning við aðila sem þegar hafa reynslu og þekkingu á þessu sviði, svo sem Rauða krossinn. Fyrir nefndinni kom einnig fram að nauðsynlegt væri að slík heimild sveitarfélaga þyrfti að koma skýrt fram í ákvæðinu. Meiri hlutinn tekur undir það og leggur til að við 1. gr. bætist ný málsgrein um að sveitarfélagi verði heimilt, að fengnu samþykki landlæknis, að semja við félagasamtök um rekstur neyslurýmis að uppfylltum skilyrðum 4. mgr. Jafnframt beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að fyrirmynd að slíkum samningi verði birt sem fylgiskjal við reglugerðina til að auka skýrleika og gagnsæi.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að með úrræðinu sé verið að stíga mikilvægt skref í átt að útvíkkun heilbrigðisþjónustu með því að koma til móts við hóp sem er jaðarsettur í samfélaginu og að í því felist mikilvæg tækifæri til að samþætta annars konar þjónustu sem miðar að því að skjólstæðingar nái bata. Meiri hlutinn telur því nauðsynlegt að unnið verði að því að koma úrræðinu á fót með víðtæku samráði og samvinnu við þá sem að úrræðinu þurfa að koma.

Meiri hlutinn leggur til smávægilegar lagfæringar á frumvarpinu. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem standa í þingskjalinu.

Hv. þm. Halldóra Mogensen ritar undir nefndarálitið með fyrirvara og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Helga Vala Helgadóttir formaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, með fyrirvara eins og áður er getið, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.

Ég vil að endingu þakka hv. velferðarnefnd fyrir vinnuna við þetta mál, ekki bara á þessu þingi heldur undanfarin ár. Sú vinna hefur bætt það mikið og ég lít svo á að við séum að skila af okkur afurð sem við getum verið mjög sátt við.



[16:03]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi spyrja hv. þingmann aðeins út í eitt. Nú er alveg ljóst að á fyrri stigum þessa máls var nánast áfellisdómur yfir störfum nefndarinnar þegar kom að samráði við fagaðila og þá á ég sérstaklega við lögregluna og embætti ríkissaksóknara. Af þeim 94 aðilum sem var boðið að senda inn umsagnir var ríkissaksóknari ekki þar á meðal, sem er alveg með ólíkindum, ótrúleg vinnubrögð í máli sem þessu. Það kemur auk þess fram frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að frumvarpið feli í sér þekkingarleysi á hlutverki lögreglunnar. Þetta eru náttúrlega ótrúlegar yfirlýsingar og maður spyr sig hvernig hægt er að vinna svona mál þegar ekki var einu sinni haft samband við þá sem hrærast í þessum málaflokki alla daga.

Nú segir í greinargerðinni að gerðar hafi verið breytingar á frumvarpinu í ljósi athugasemda sem velferðarnefnd bárust frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkissaksóknara sem talið var nauðsynlegt að gera. Ég ætla ekki að rekja þær athugasemdir sem koma frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkissaksóknara, en það er fjölmargt þar inni sem þingmenn verða að kynna sér.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Var tekið tillit til allra þessara athugasemda og hvar er það að finna í frumvarpinu þannig að maður geti farið nákvæmlega yfir það? Ég sé það alla vega ekki við fyrstu skoðun. Ef hv. þingmaður gæti rakið þetta sérstaklega.



[16:05]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmann andsvarið. Hann spyr út í samráðið við bæði lögreglu og saksóknara og að vísað sé til þess að gerðar hafi verið breytingar. Þær tilvísanir eru til breytinga á því frumvarpi sem lagt var fram í fyrra, fyrst og síðast, enda komu þá fram töluvert miklar ábendingar frá bæði lögreglu og saksóknara sem tekið var tillit til við samningu frumvarpsins nú og gert svo vel að til að mynda, ég held ég muni það rétt, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að endingu að senda ekki umsögn um málið eins og það kom fram. Þingmanninum til hugarhægðar er held ég allt í lagi að upplýsa hér að nefndinni bárust yfirlýsingar, bæði frá saksóknaraembættinu og lögreglustjóraembættinu, um að efni frumvarpsins eins og það kæmi fram nú væri að mati þessara aðila ásættanlegt. Ég held að þar sé engu uppljóstrað, það eru tölvupóstsamskipti á milli opinberra aðila sem á ekki að þurfa að vera nein leynd á. Það var tekið tillit til þessara ábendinga og þeirra áhyggna sem menn höfðu. Þær sneru, og nú er ég að rekja það eftir minni, kannski að stærstum hluta til að afmörkun hins refsilausa svæðis og að það væri tryggt með hvaða hætti starfsmenn þessara embætta ættu að umgangast það og hvaða heimildir þeir hefðu til að mynda til að grípa ekki inn í þau verkefni sem unnin eru í neyslurýmunum.



[16:08]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vildi koma inn á umsögn sem barst nefndinni frá Valgerði Rúnarsdóttur, sérfræðilækni í lyflækningum og fíknlækningum, framkvæmdastjóra lækninga hjá SÁÁ. Þar kemur fram að það sé mjög mikilvægt að passa upp á það að verkefnið vinni ekki gegn sjálfu sér, sem hlýtur að vera markmið þess í eðli sínu. Það þarf að leitast við að þessi hópur verði ávallt eins lítill og mögulegt er.

Telur hv. þingmaður ekki hættu á því að með þessu aðgengi, refsilausa aðgengi, sem stefnt er að í frumvarpinu komi til með að fjölga í þessum hópi? Er ekki hætta á því? Jafnvel þeir sem hafa kannski verið í einhverjum meðferðarúrræðum eiga þarna allt í einu kannski auðveldari aðgang að neyslunni. Ef hv. þingmaður gæti farið yfir þennan þátt.

Auk þess leggur Valgerður Rúnarsdóttir sérfræðilæknir í umsögn sinni áherslu á að samanburður við útlönd sé erfiður. Við búum við betri skilyrði en flestir þegar verið er að ræða þessi mál erlendis og neyslurými tengd þeim. Við erum náttúrlega lítil þjóð og Reykjavíkurborg er lítil í samanburði við stórborgir. Ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á samanburð við útlönd sem sú sem leggur fram þessa umsögn telur vera villandi.



[16:10]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Eins og þingmaðurinn veit kom umsögn Valgerðar Rúnarsdóttur fram við frumvarpið eins og það var lagt fram á 149. þingi, en það tók síðan breytingum. Það er hins vegar rétt að hluti umsagnarinnar er almenns eðlis og snýr m.a. að því sem þingmaðurinn nefnir, í fyrsta lagi hvort möguleikar á að neyta efna aukist og hins vegar hvort samanburður við útlönd geti verið villandi. Fyrst það að það að setja upp neyslurými fyrir fólk sem neytir fíkniefna í æð muni auka á neysluna. Ég held að það sé afskaplega langsótt, a.m.k. er það ekki reynslan í þeim löndum þar sem þessi leið refsiminnkunar eða refsileysis hefur verið farin. Ég hef alla vega fyrir mitt leyti ekki trú á því.

Varðandi það hins vegar hvort íslenskt samfélag sé endilega eins og önnur samfélög þá er það auðvitað ekki þannig. Við erum svo heppin að við rekum hér öflugt velferðarkerfi. Við erum svo heppin að hér er fátækt og félagsleg vandamál á allt öðrum skala en víða annars staðar í heiminum og hluti af því að efla þetta sama velferðarkerfi og gera stöðu þessara borgara betri en hún annars væri er einmitt að við erum að efla velferðarkerfið með þessu frumvarpi. Það er það sem við erum að gera og ég hef ekki áhyggjur af því að við séum að taka áhættu með frumvarpinu, ég held miklu fremur (Forseti hringir.) að við séum að bæta þjónustu við viðkvæma hópa.