150. löggjafarþing — 103. fundur
 13. maí 2020.
fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 725. mál. — Þskj. 1403, breytingartillaga 1409.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:16]

Brtt. 1409 samþ. með 48 shlj. atkv.

Frv., svo breytt, samþ. með 45 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BN,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HKF,  HVH,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SÁA,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS,  ÞórdG,  ÞórE.
4 þm. (ÁlfE,  BLG,  HallM,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
14 þm. (AFE,  AKÁ,  BergÓ,  BHar,  GBS,  HarB,  HHG,  IngS,  JónG,  JÞÓ,  KGH,  ÓÍ,  PállM,  SDG) fjarstaddir.
8 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:16]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu skýrar og þjóni tilætluðum árangri í þeim erfiðu efnahagslegu aðstæðum sem þjóðin er í. Það er jákvætt að veita minni fyrirtækjum lokunarstyrki og stuðningslán. Miðflokkurinn telur hins vegar að umfang lokunarstyrkja sé ekki nægilegt. Það hefði verið hægt að útvíkka það til fleiri fyrirtækja, t.d. í veitingarekstri, og jafnframt hefði verið skynsamlegt að hækka fjárhæðarhámarkið.

Hvað lokunarstyrkina varðar miðast þeir við fyrirtæki sem þurfa að sæta lokun af hálfu heilbrigðisyfirvalda samkvæmt auglýsingu. Við teljum sem sagt að það ætti að útvíkka það nánar og láta ná yfir fleiri fyrirtæki. Stuðningslánin eru einnig mikilvæg aðgerð. Við í Miðflokknum styðjum þá tillögu en töldum hins vegar að það hefði átt að hækka viðmiðunarmörkin sem var orðið við. Fram er komin breytingartillaga meiri hlutans sem gengur á þann veg. Við fögnum þeim breytingum, (Forseti hringir.) styðjum þetta mál og sýnum þar með ábyrgð í stjórnarandstöðunni. Við vonum að stjórnarliðar styðji jafnframt tillögur minni hlutans.



[16:18]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp. Það er mikil eftirvænting meðal margra aðila í samfélaginu eftir því að það verði að lögum. Það veitir mörgum vissa úrlausn í sínum vanda. Frumvarpið er ekki fullkomið en það er í því formi að mjög auðvelt er að styðja það. Ég vil brýna fyrir stjórninni að sjá til þess að ákvæðum þess verði hrundið hratt og vel í framkvæmd, að ekki þurfi að bíða eftir því að lausnin taki að virka eins og því miður hefur orðið raunin með svokölluð brúarlán sem hafa dregist úr hófi. Ég held að enn í dag sé ekki búið að veita eitt einasta brúarlán en loksins búið að semja við allar lánastofnanir um að veita þau.



[16:19]
Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Við Píratar styðjum heils hugar markmið frumvarpsins um fjárhagslegar stuðningsaðgerðir fyrir minni fyrirtæki og einyrkja í alvarlegum rekstrarvanda til að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum. Við getum þó ekki stutt málið vegna þess að ekki var fyllilega girt fyrir möguleika rekstraraðila sem nýta skattaskjól til að njóta fjárstuðnings frá ríkinu. Píratar telja löggjafanum skylt að koma í veg fyrir misnotkun á hvers kyns fjárhagsstuðningi við fyrirtæki með sanngjörnum skilyrðum. Ekki var orðið við þeirri sjálfsögðu beiðni, breytingartillögu þess efnis var því miður hafnað.

Við stöndum ekki í vegi fyrir annars góðu frumvarpi og góðum markmiðum en sitjum hjá.



[16:20]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum frumvarpið vegna þess að lokunastyrkirnir eru mjög mikilvægir fyrir þau fyrirtæki sem var gert að loka og stuðningslánin munu koma mörgum að gagni. Hins vegar gagnrýnum við að ekki skuli hafa verið settar neinar girðingar gegn þeim sem stunda hér skattsvik með skattaskjólum og aflandsfélögum. Með því er verið að opna fyrir að slíkir aðilar fái styrk og stuðning úr ríkissjóði þegar við eigum við þessa miklu erfiðleika að stríða, þegar heimsfaraldur gengur yfir.

Ég hef orðið vör við það, herra forseti, að stjórnarliðar greiddu atkvæði gegn tillögum okkar í Samfylkingunni sem settu þessar girðingar vegna þess að þeir héldu að skilyrðin væru inni í frumvarpinu. En það er rangt og það er alvarlegt ef stjórnarliðar þekkja ekki tekjuskattslögin (Forseti hringir.) nægilega vel og ef þeim hefur verið talin trú um að einhverjar girðingar séu í frumvarpinu fyrir þessa aðila. Þær eru engar svo það sé algjörlega á hreinu.



[16:21]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp enda mun það gagnast mjög mörgum fyrirtækjum. Hins vegar er sorglegt að ekki skuli vera stigin markvissari skref í að setja hindranir sem koma í veg fyrir að þeir aðilar sem af einhverjum ástæðum vilja koma sér hjá því að greiða allt sem þeir ættu að greiða í sameiginlega sjóði okkar geri það.

Hinum á þó ekki að refsa fyrir það og þess vegna styð ég frumvarpið. Ég held að á þessum tímum þar sem við áttum okkur á því enn betur en nokkurn tímann fyrr hversu mikilvæg samneysla okkar er og grunnþjónustan á ekki að taka það vettlingatökum ef einstaklingar, jafnvel þótt með löglegum hætti sé, nýti sér einhvers konar klókindi og leiðir til að komast hjá því að borga réttmæta hlutdeild til ríkissjóðs Íslands.



[16:22]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég styð þessi frumvörp og tel þau hafa tekið mjög jákvæðum breytingum í meðförum nefndarinnar. Við í Viðreisn höfum lagt á það áherslu að fljótt og hratt sé komið til móts við erfiðleika fyrirtækja, m.a. vegna lögbundinnar lokunar tiltekinna fyrirtækja. Þetta eru mestmegnis lítil fyrirtæki og meðalstór og þess vegna skipta lokunarstyrkir og stuðningslán mjög miklu máli. Við þurfum að fá fjármagnið strax inn í fyrirtækin til að vinna með þeim. Við þurfum að halda atvinnulífinu gangandi meðan á þessari baráttu gegn veirunni stendur.

Mér finnst það að mörgu leyti jákvætt sem maður skynjar, að fyrirtæki hafi séð að sér. Þau eru núna að átta sig á samfélagslegri ábyrgð sinni á þessum tímum og það þýðir að allir þurfa að vera meðvitaðir um að ekki er hægt að ganga í opinbera sjóði án þess að spyrja sig þeirrar spurningar hvað fylgi þeim réttindum. Við þurfum öll að standa undir því að vera samfélagslega ábyrg. Þetta gildir jafnt um fólk sem fyrirtæki.



[16:24]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta frumvarp eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar. Þó vil ég segja þetta: Við vorum hér fyrir nokkrum dögum að ræða um málefni útlendinga og ný lög sem til stendur að setja um þau. Mér finnst að þetta mál hér gefi okkur tilefni til að velta fyrir okkur hvort ekki sé komin ástæða til að við setjum nú lög um málefni aflendinga, að við tökum á þeim stórkostlega vanda og því samfélagslega meini sem skattsvik, skattundanskot og sniðganga eru og hvað þær heita allar saman, þessar leiðir til að komast hjá því að greiða sinn skerf til samfélagsins. Það þarf að taka á því meini okkur öllum til hagsbóta.



[16:25]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við jafnaðarmenn höfum ætíð barist gegn hvers konar skattundanskotum og það ræður okkar för. Samfylkingin styður auðvitað megininntak þessa frumvarps. Í nefndaráliti meiri hlutans er því haldið fram að nægilegt sé að gera þá kröfu að einstaklingar eða fyrirtæki sem njóta stuðnings úr ríkissjóði hafi fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Þetta er ekki rétt eins og bent hefur verið á og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt sig í framkróka við að sannfæra þingheim um. Þetta á við um alla sem stunda starfsemi á landinu og okkur er haldið í þokunni.

Um þetta gilda skýr ákvæði. Við mótmælum því hins vegar harðlega að þeir sem hafa tengsl við skattaskjól og aflandssvæði séu ekki útilokaðir frá stuðningi ríkisins og að þar séu ekki dregnar mjög skýrar línur. Það er hægt. Tilgangur þess að leita í skattaskjól á lágskattasvæði er bara einn einasti, skattundanskot og skattsniðganga.