150. löggjafarþing — 105. fundur
 19. maí 2020.
störf þingsins.

[13:32]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Staðan í atvinnumálum á Suðurnesjum hefur verið mikið til umræðu í samfélaginu upp á síðkastið. Það er eðlilegt í ljósi þeirrar stöðu að tæplega 30% vinnandi fólks eru á atvinnuleysisskrá. Það er mikil áskorun að takast á við þau vandamál og öll þau vandamál sem slíku atvinnuleysi fylgir. Ég er þakklátur fyrir mikil viðbrögð við þeim fréttum sem hafa komið sunnan að, fjölmiðlar hafa fjallað um stöðuna og Alþingi hefur boðað sérstakar umræður um stöðuna á Suðurnesjum í næstu viku. Það er gott fyrir okkur að upplýsa almenning og okkur sjálf um stöðuna. Það er mikilvægur þáttur í svona atvinnuleysi að upplýsa þá sem atvinnulausir verða um þau tækifæri sem þeir hafa. Það tekur langan tíma að byggja upp atvinnulíf og tækifærin vaxa ekki á hverju strái, þau koma heldur ekki til okkar eftir pöntunum eða fyrir fram ákveðnum formlegum leiðum. Sá sem ekki spyr eða leitar eftir lausnum fær ekkert svar. Aðgerðaleysið hefur alvarlegar afleiðingar. Það er ekkert sjálfgefið. Við verðum að leggja okkur fram um að grípa þau tækifæri sem bjóðast og eitthvað annað er ekki í boði.

Virðulegi forseti. Flugstöðin mun aftur fyllast af fólki og ferðamenn flykkjast til Íslands. Suðurnesin eigi inni nóg af ónotuðum tækifærum til frekari landvinninga í ferðaþjónustu. Þau tækifæri liggja í Reykjanes jarðvangi og náttúru svæðisins. Það eru líka tækifæri í öflugu atvinnulífi á Suðurnesjum. Það þarf að tryggja raforku á svæðið til að taka á móti þeim tækifærum. Flugvöllurinn og Helguvík eru einstakir seglar á ferðamennsku og norðurslóðaverkefni framtíðarinnar. Það er kallað eftir betri aðstöðu og byggingu á þeim slóðum. Tugmilljarða verkefni sem koma Suðurnesjum á kortið sem lykiláfangastaðir þeirra sem sækja norðurslóðir í framtíðinni og aðsetur björgunarmiðstöðvar fyrir norðursvæðið allt. (Forseti hringir.) En ekkert af þessu verður að veruleika ef menn ætla að bíða eftir formlegum óskum.



[13:35]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Tvö stór og mikilvæg mál voru til umræðu í þingsal í gær, annars vegar greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og hins vegar framlenging hlutabótaleiðarinnar. Töluverð orðaskipti urðu um það hvort nægilega langt væri gengið af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól til að komast hjá því að greiða til samfélagsins lögboðna skatta gætu nýtt sér þau úrræði sem eru í boði.

Annað atriði sem var rætt nokkuð á sömu nótum var það að á meðal skilyrða sem listuð eru upp í hlutabótafrumvarpinu má nefna kröfu um að fyrirtæki greiði sér ekki arð næstu þrjú árin, til ársloka 2023. Gerist það að fyrirtæki sem í dag hefur orðið fyrir þessum hamförum og þarf aðstoð til að greiða starfsfólki sínu hluta af tekjutapinu, launatapið, nái sér á strik á næstu þremur árum og fer að geta skilað hagnaði af rekstri til eigenda í formi arðs, eins og rétt er og langstærstur hluti íslenskra fyrirtækja gerir rétt, vel og skilmerkilega og heldur þannig uppi atvinnulífi, skal viðkomandi fyrirtæki skila því fjármagni sem það fær úr ríkissjóði þessa mánuðina með 15% álagi, óháð því hvort fyrirtækið á sjálft frumkvæði að því að koma með endurgreiðsluna.

Þessi umræða átti sér sem sagt stað. Það eru vissulega fleiri skilyrði en ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að það mátti ráða af orðaskiptum gærdagsins að stjórnarliðar settu samasemmerki milli arðgreiðslna fyrirtækja og þess að eigendur fyrirtækja svikjust undan skattskyldum sínum. Hér var gert tortryggilegt að einhverjir þingmenn vildu með ítarlegri ákvæðum tryggja að skattsvikarar nýttu sér ekki þau úrræði sem eru í boði og að þessir þingmenn skyldu á sama tíma setja spurningarmerki við þetta 15% sektarálag. Þetta þótti stjórnarþingmanni stangast hvort á annars horn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það að mér þykir þessi málflutningur umhugsunarverður og sá skilningur sem þarna opinberast takmarkaður. Verst af öllu þykir mér þó að sjá (Forseti hringir.) það hugarfar sem með þessari umræðu opinberast í garð íslensks atvinnulífs af hálfu stjórnarþingmanna.



[13:37]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Því miður er það svo að við munum minnast ársins 2020 ekki bara fyrir að vera árið sem við unnum Eurovision, sem var reyndar aldrei haldið, heldur ársins sem umbylti samfélaginu okkar, ársins sem byrjaði með gríðarlega sterkri stöðu ríkissjóðs en mun ekki enda eins. En það er ýmislegt jákvætt sem hægt er að taka út úr þessu öllu saman. Þetta er líka árið sem starfsfólki Landspítala – háskólasjúkrahúss tókst að umbylta starfsemi sinni á einni nóttu, sem sýnir hversu megnug við erum að breyta og bregðast við þegar á þarf að halda. Þetta er líka árið þegar landsmenn fóru að hreyfa sig sem aldrei fyrr og nú seljast hjól, gönguskór og fjallaskíði sem aldrei fyrr, og er það gott og ég vona að landinn haldi því áfram. En ég vona líka að þetta verði árið sem við nýtum til að ferðast um landið og njóta náttúruperlanna sem mörg okkar, alla vega sú sem hér stendur, hefur oft forðast vegna mikillar mannmergðar og fjölda útlendinga og nú er svo sannarlega tækifæri til að nýta það. Við eigum von á inneign frá ríkisstjórninni og samtökum aðila í ferðaþjónustu þannig að ég hvet landsmenn alla til að nýta tækifærið og ferðast.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á Reykjanesið áðan og þær ögranir sem fólk þar stendur frammi fyrir. Ég ferðaðist nýverið um Reykjanes og átti þar yndislega helgi og það er sannarlega hægt að mæla með því að landsmenn taki ferð þangað þó að hún liggi ekki út í Leifsstöð. Ég vona líka að þetta sé árið sem við notum tækifærið til að tryggja fjölbreyttara atvinnulíf og samfélag sem tekur mið af þörfum mannsins en líka á þörfum umhverfisins.



[13:39]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sumargjafir eru góður og þjóðlegur siður, að gefa börnunum sínum sumargjafir, en sumargjafir eigenda Samherja til barna sinna eru kannski í stærri kantinum, þær nema tugum milljarða króna í tilfærslu frá eigendum Samherja til afkomenda sinna. Þetta endurspeglar stórgallað kvótakerfi með óheftu framsali og samþjöppun til stórra fjármagnseigenda. Fjármagnið stýrir að stórum hluta hverjir nýta sjávarauðlindina og hvar hún er nýtt og hvar arðurinn af auðlindinni lendir. Það hefur orðið gífurleg samþjöppun í greininni á þeim 30 árum frá því að óhefta framsalið var sett á. Fjármagnseigendur hlutabréfa í stórum útgerðarfélögum eru í engum tengslum við hagsmuni þjóðarinnar eða íbúa sjávarbyggðanna sem hafa margoft þurft að blæða fyrir þegar lifibrauð þeirra og afkoma fer á einni nóttu. Þetta getur varla talist ásættanlegt við stjórn á sameiginlegri auðlind okkar.

Þegar óhefta framsalið var sett á 1990 með lögum var það gert með hagræðingarkröfu að leiðarljósi, að lögmál markaðarins myndu auka hagkvæmni veiðanna, en frá þeim tíma hafa allir þessir gallar komið í ljós og komið í veg fyrir eðlilega þróun í sjávarbyggðum landsins. Græðgi, brask og miklir fjármunir hafa runnið frá greininni í óskylda starfsemi. Það er hægt að stýra auðlindinni með öðrum hætti, með nýtingarsamningum og endurúthlutun og koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það verður að koma í veg fyrir að svona miklir fjármunir af sameiginlegum auðlindum okkar og sem byggjast á sameign þjóðarinnar renni á milli kynslóða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:42]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þessa dagana erum við hér í þinginu að fást við enn einn skammtinn af frumvörpum sem fela í sér viðbrögð við því ástandi sem við erum að glíma við í kjölfar Covid-19 faraldursins. Við erum í meginatriðum, held ég, sammála um markmið og leiðir en auðvitað kann okkur að greina á um útfærslur í einstökum atriðum. Ég hygg hins vegar að okkur hafi lánast tiltölulega vel í þeim skrefum sem við höfum stigið á undanförnum tveimur mánuðum að takast í sameiningu á við þann vanda sem upp hefur komið og ég vona að við berum gæfu til þess að halda því áfram.

Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægar aðgerðir. Um er að ræða aðgerðir sem hafa þann tilgang að lágmarka það tjón sem verður í atvinnulífinu, efnahagslífinu og samfélaginu í heild vegna atburða sem við getum kallað óviðráðanleg ytri atvik sem hrinda þessu af stað og eru ekki einstök fyrir Ísland heldur eru auðvitað í löndunum í kringum okkur og jafnvel erfiðari viðureignar í sumum tilvikum.

Við þurfum hins vegar líka að huga að því hvernig við ætlum að byggja okkur upp að nýju og ég hugsa að eftir því sem líður á árið færist verkefni meira frá því að slökkva elda og í það að byggja upp að nýju. Vonandi verður samstaðan líka góð í þessu. Það er ekki óeðlilegt að okkur greini á um ýmsa hluti í þessu í sambandi við útfærslu og það er heldur ekki óeðlilegt þó að við þurfum að taka til endurskoðunar einstakar ákvarðanir sem við höfum tekið áður. En ég bið hv. þingmenn að hafa í huga að við erum að fást við, (Forseti hringir.) svo maður noti nú vinsælt líkingamál, fordæmalausar aðstæður og (Forseti hringir.) þurfum í því skyni að grípa til ýmissa fordæmalausra aðgerða og takast á við það með hraða en þó af vandvirkni.



[13:44]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Við höfum séð dramatískari breytingar á ferðavenjum og vinnumenningu en nokkur hefði trúað. Við höfum bókstaflega séð himnana og lönd lokast og stórtæka tæknivæðingu í skóla og á vinnustað. Núna er ein stærsta spurningin hvað við ætlum að gera þegar aðgerðum vegna Covid linnir. Einhverjar breytingar í samfélaginu eru komnar til að vera, aðrar augljóslega ekki, og um annað vitum við ekki. Mig langar í þessu sambandi að nefna alþjóðasamstarf og alþjóðaviðskipti sem við skynjum núna að er ekki bara af hinu góða heldur beinlínis nauðsyn. Ástandið sýnir okkur svart á hvítu að alþjóðasamstarf ber ekki að forðast heldur fagna. Samstaða okkar hér innan lands hefur haft allt um okkar árangur að segja og samstarf þjóðanna hefur auðvitað sömu þýðingu. Saman erum við sterkari.

Atvinnulíf okkar byggir á fáum stoðum en sterkum, en það gerir okkur því miður veikari fyrir. Þegar þessar sterku stoðir verða fyrir höggi verða afleiðingarnar alvarlegar. Þess vegna er það ekki bara eitthvert hjal þegar talað er um nýsköpun eða að fjárfesta í fjölbreyttara eða auðugra atvinnulífi. Að veðja á háskólamenntun og rannsóknir er lykillinn að fjölbreyttari undirstöðum íslenska efnahagsins. Við sjáum í dag að kvikmyndir og íslensk þáttagerð blómstrar og við eigum að þora að standa með þessum skapandi greinum. Fjölbreyttara atvinnulíf er lykillinn að því að verjast áföllum til frambúðar og hluti af því að sækja fram. Fjölbreyttari erum við sterkari. Sterku greinarnar eru ekki andstaða nýsköpunar. Ferðaþjónustan hefur t.d. verið nýsköpun landsbyggðarinnar og nýsköpun á sér stað í öllum greinum en ekki bara í sprotum, en hana þarf að rækta eins og annað. Hún er áhrifamesta tækið til að styrkja einsleitt atvinnulíf okkar í dag.

Herra forseti. Ég trúi ekki öðru en að markmið stjórnvalda og okkar allra í dag hljóti að vera að styrkja stoðir atvinnulífsins með því að auka fjölbreytileikann þannig að við getum saman þolað óvissu og áföll.



[13:47]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Heimsfaraldurinn vegna Covid-19 hefur leitt margt í ljós sem við sáum kannski ekki fyrir, bæði brotalamir í alls konar kerfum en líka kosti. Ein af þeim greinum sem hefur farið illa út úr faraldrinum, og ber þar í bakkafullan lækinn, er ferðaþjónustan og innan hennar er stór starfsgrein sem eru leiðsögumenn sem hafa farið einstaklega illa út úr þessari kreppu. Meginþorri þeirra er nefnilega ekki með fast ráðningarsamband við neinn og það þrátt fyrir að margir þeirra fái megnið af tekjum sínum greitt sem launamenn og séu þar með í rauninni ekki verktakar heldur launamenn í hinu svokallaða harkhagkerfi.

Þetta leiðir óneitanlega hugann að því hversu mikilvægt ráðningarsamband getur verið fyrir launamenn og hversu mikilvæg réttindi fylgja slíku sambandi. Í harkhagkerfinu eru auðvitað fleiri starfsgreinar áberandi, til að mynda margar greinar listamanna, en í rauninni má segja að sú staða sem þarna er komin upp segi okkur að það getur verið varasamt, leyfi ég mér að segja, að byggja upp lykilgrein í hagkerfinu á ótraustu ráðningarsambandi á milli vinnuveitenda og launamanns. Það ætti að vera verkefni annars vegar leiðsögumanna og hins vegar Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar yfirleitt að finna leiðir til að bæta úr því þannig að við getum notað það ástand sem nú hefur komið upp til að kenna okkur hvernig við getum gert betur fyrir þessa hópa vinnandi fólks.



[13:49]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Alþingi hefur þegar ákveðið að úr sameiginlegum sjóðum okkar verði veittir milljarðastyrkir og aðstoð til fyrirtækja til að draga úr alvarlegum efnahagslegum afleiðingum Covid-19 og draga þannig úr miklu tjóni. Í fortíð hefur það verið feimnismál og hjúpað leynd þegar ríkið hefur veitt styrki, a.m.k. á sumum sviðum, en sem betur fer hafa orðið framfarir og viðhorfsbreytingar í þá veru að þessari leyndarhulu skuli svipt í burtu. Nýjustu dæmin um þetta eru annars vegar upplýsingar sem landbúnaðarráðuneytið sá sig knúið til að leggja fram um styrki til bænda í svari við fyrirspurn minni á Alþingi. Reyndar hafði þar úrslitaáhrif úrskurður úrskurðarnefndar upplýsingamála. Afleiðingin er sú að í fyrsta sinn hafa allir landsmenn aðgang að sundurliðuðum upplýsingum eftir styrkþegum og tegund styrkja. Hins vegar má nefna nýtt bréf Persónuverndar til Vinnumálastofnunar um birtingu upplýsinga um þau fyrirtæki sem hafa farið svokallaða hlutabótaleið sem segir að persónuverndarlög standi ekki í vegi fyrir slíkri birtingu.

Herra forseti. Krafa Alþingis á að vera skýlaus og fortakslaus. Ríkið á að hafa frumkvæði að því að birta allar upplýsingar og gera aðgengilegar öllum um þá styrki sem veittir eru. Þannig sköpum við traust og nauðsynlegt aðhald og vitum hverjir fá stuðning og hvers vegna. Ríkisstjórninni er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að gefa út fyrirmæli þessa efnis til allra þeirra sem ráðstafa opinberum fjármunum til stuðnings fyrirtækjum. Geri hún það ekki þá verðum við á Alþingi að búa svo um hnútana (Forseti hringir.) að það verði gert vegna þess að allt uppi á borðum verður að þýða allt uppi á borðum.



[13:51]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Mikill fjöldi erlends starfsfólks er á Íslandi og hefur það gegnt veigamiklu hlutverki í uppbyggingu og þeirri velmegun sem hefur ríkt hér á síðustu árum. 1. janúar 2019 voru ríflega 50.000 innflytjendur á Íslandi, rétt rúmlega 14% íbúa. Gera má ráð fyrir að stærsti hluti þessa fólks verði hér áfram þrátt fyrir versnandi efnahagshorfur. Margir skilja og tala íslensku en stór hópur gerir það ekki.

Alls voru rúmlega 5.700 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá í apríl og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast miðað við sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi er nú um 16% og þá er ekki talinn með sá fjöldi erlendra ríkisborgara sem nú er í minnkuðu starfshlutfalli vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á atvinnulífið.

Kunnátta í íslensku er lykillinn að íslensku samfélagi og getur ráðið úrslitum um aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Hún styrkir stöðu þeirra á vinnumarkaði og skiptir máli upp á þátttöku í samfélaginu eins og t.d. möguleika á að taka þátt í foreldrafélögum, stjórnum íþróttafélaga, jafnvel húsfélaginu og enn víðar. Því er kjörið á þessum tímum að aðstoða innflytjendur við að nýta tímann til að styrkja stöðu sína með því að læra íslensku. Að bæta íslenskukunnáttu erlends starfsfólks er einnig leið til að vinna gegn félagslegu undirboði því að það auðveldar þessum hópi að kynna sér réttindi sín.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga fer að mestu leyti fram í tungumálaskólum á höfuðborgarsvæðinu og í öflugum fræðslumiðstöðvum á landsbyggðinni. Það er mikilvægara, herra forseti, en nokkru sinni áður að styðja vel við þessar stofnanir til að efla kennslu og auka framboð á íslensku fyrir einstaklinga af erlendu bergi brotna (Forseti hringir.) sem kjósa sér Ísland til búsetu.



[13:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er ástæða fyrir því að Ísland getur alið meira en 300.000 manns. Það er ekki sjálfgefið og sést það á sögunni. Ástæðan samanstendur af tveimur hlutum, annars vegar vísindum og hins vegar alþjóðasamstarfi. Það er samspil þessara tveggja þátta sem gerir Ísland að Íslandi í dag. Það er samspil þessara þátta sem gerir Ísland ríkt, þótt við verðum kannski ekki rík á næstunni. Við höfum verið mjög lánsöm og mjög rík síðustu áratugina á Íslandi. Það er vísindum að þakka sem og alþjóðasamstarfinu. Ég vil ekki gera lítið úr mikilvægi þess að styðja við íslenska tungu. Ég geri ekki lítið úr víkingasögunum. Ég las nokkrar nýlega og sumar eru hlægilegri en aðrar.

Það eru þó ekki þeir hlutir sem koma okkur áfram í lífinu, virðulegur forseti, eins stolt og þakklát og við getum verið fyrir þá, heldur vísindin og alþjóðasamstarfið, í stuttu máli útlendingar og útlenskar hugmyndir sem koma hingað og við tökum að okkur og sníðum að sjálfsögðu eftir þörfum, eins og vísindamenn vita.

Mér finnst mjög mikilvægt núna þegar við stöndum í ærnum björgunarleiðangri sem verður langur og erfiður að við missum ekki sjónar á því að þetta eru þau leiðarljós sem við verðum að hafa í huga þegar við lítum til framtíðar, ekki bara til skamms tíma heldur sérstaklega til langs tíma. Þegar þessi krísa er liðin hjá, og hún mun líða hjá, þurfum við aftur að takast á við loftslagsbreytingar, eins og við þurfum reyndar að gera núna. Það er ærið verkefni, það er líka neyðarástand og aftur er lausnin sú sama, ekki taumlaust sjálfshól, ekki að berja sér á brjóst og karpa um það í kosningabaráttu hver sé kjarkaðri og hugaðri en hinn — það verða vísindi og alþjóðasamstarf.



[13:56]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við athugun pakkaferðafrumvarps ferðamálaráðherra í atvinnuveganefnd komu fyrir nefndina tveir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti, annar sérhæfður í eignarrétti. Báðir sérfræðingarnir sögðu að kröfurnar á endurgreiðslu sem verða teknar af fólki með þessu frumvarpi varði eignarrétt. Þeir sögðu að frumvarpið myndi svipta fólk eignarrétti með því að það fengi inneignarnótu í staðinn fyrir kröfurnar. Jafnframt kom fram að til þess að þetta væri ekki brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar þyrftu ríkir almannahagsmunir að vera fyrir lagabreytingunni, skaðinn lágmarkaður fyrir kröfuhafana og aðrar leiðir ekki færar. Við fórum því að skoða hvort aðrar leiðir væru færar án þess að svipta kröfuhafana þessum réttindum sínum, stjórnarskrárvörðum eignarrétti.

Ég kynnti fyrir atvinnuveganefnd tillögu um að gera nákvæmlega það. Hvernig fékk ég þá hugmynd? Mér var sagt að Neytendasamtökin hafi verið að skoða hana þegar ég hafði samband við þau. Hún er mjög einföld. Hæstv. ráðherra ferðamála sagði í Víglínunni í vikunni að 20 stærstu ferðaskrifstofurnar gætu staðið undir að endurgreiða neytendum, en lög segja að þær megi aðeins ganga í tryggingarnar, þá peninga sem eru á bókum, ef þær verða annaðhvort gjaldþrota eða fara í rekstrarstöðvun. Einföld lausn liggur í því. Fyrst þessir peningar eru til staðar, þessar tryggingar, og ekki verður farið í bókaðar ferðir þá fá þær ferðaskrifstofur einfaldlega, án þess að fara í rekstrarstöðvun og án þess að fara í gjaldþrot, aðgang að þeim peningum til að endurgreiða neytendum. Þá fá neytendur endurgreitt samkvæmt lögum, við brjótum ekki neytendarétt, brjótum ekki eignarrétt, brjótum ekki gegn stjórnarskrá. Ferðaskrifstofurnar fái aðgang að peningunum til að halda lausafjárstöðu sinni gangandi.

Það er spurning hvernig hægt væri að útfæra þetta. Það má skoða það í nefndinni. (Forseti hringir.) Ég hef lagt þessa tillögu fram og meðan það er til önnur raunhæf leið væri það brot á stjórnarskrá að fara þá leið sem ráðherra hefur lagt til. (Forseti hringir.) Ég legg því til að nefndin skoði betur það sem hefur verið samþykkt , (Forseti hringir.) og ég mun leggja fram breytingartillögu við málið ef nefndin ætlar ekki að fara aðrar leiðir.



[13:58]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú þegar farfuglarnir eru flestir komnir, reglur um samkomur rýmkaðar, sundlaugar opnar, margir nýklipptir og skólaárinu að ljúka er full ástæða til að rifja upp afrekið sem skólafólk vann í kjölfar kórónuveirunnar. Skólastjórnendur, kennarar, leiðbeinendur og annað starfsfólk á öllum skólastigum um land allt brugðust við ákalli um breytta kennsluhætti og viðveru. Starfinu var kollvarpað á núll einni og fólk stóðst prófið með glans. Niðurstaðan er sú að Ísland er eitt fárra landa sem tókst að halda skólakerfinu sínu gangandi í heimsfaraldri. Takk fyrir það.

Forseti. Í síðustu viku kynntu mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra aðgerðir stjórnvalda vegna sumarnáms og sumarstarfa. 800 milljónum verður varið í að tryggja markvisst sumarnám á framhalds- og háskólastigi. Á framhaldsskólastigi er gert ráð fyrir að rúmlega 80 áfangar verði í boði, að námsframboð nái til sem flestra landshluta í staðnámi og einnig að fjarnám verði í boði. Komið verður sérstaklega til móts við starfsnámsnemendur og stuðningur býðst nemendum með annað móðurmál en íslensku. Sumarnám í háskóla hefst í lok maí og athugið að allir háskólar landsins taka þátt í þessu verkefni og munu bjóða upp á yfir 200 fjölbreyttar námsleiðir. Utan hefðbundinnar kennslu bjóðast símenntunarúrræði, undirbúningur fyrir háskólanám og færnibrú fyrir fólk sem vill skipta um starfsvettvang. Áhersla er lögð á að skrásetningargjöldum verði haldið í lágmarki og að innritaðir nemar greiði ekki skólagjöld fyrir sumarið. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur brugðist við með margvíslegum aðgerðum til hagsbóta fyrir námsmenn, m.a. að rýmka reglur og undanþágur og lengja umsóknarfresti.

Hæstv. forseti. Stjórnvöld ætla að ná til þessa hóps námsmanna sem hvorki fær starf né aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja um 2,2 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. (Forseti hringir.) Þegar er auglýst eftir nemum í sumarstörf hjá sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Við sjáum strax árangur af þessum aðgerðum og auk þess hafa stjórnvöld veitt aukafjármagn til mikilvægra sjóða á sviði rannsókna og vísinda. Stóra verkefnið er að vinna gegn atvinnuleysi. — Áfram við.



[14:01]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það á að opna Ísland 15. júní nk. Þetta var tilkynnt á fundi ríkisstjórnarinnar að vanda án þess að útfærsla á því hvernig þetta yrði gert lægi fyrir. Við höfum séð ýmislegt eins að undanförnu en í framhaldinu er náttúrlega óskandi að ríkisstjórnin vandi sig og að það verði tryggt að hlustað verði á raddir fagfólks. Málið er nefnilega það, herra forseti, að við á Íslandi eigum mjög stórt tækifæri í því að laða hingað fólk sem er að leita að öryggi, fólk sem er að flýja ógn veirunnar og vill ganga að því vísu að á Íslandi sé öruggt umhverfi og að við Íslendingar séum hér eftir sem hingað til að vinna að bestu sóttvörnum eins og við getum. Þetta þurfum við að halda í, ekki bara vegna væntanlegra gesta okkar heldur einnig til að koma í veg fyrir að hér blossi upp farsótt að nýju.

Það hefur verið sagt, og ég ætla að taka undir það, að lykillinn að því að byggja upp ferðaþjónustu að nýju sé að starfsemi Icelandair stöðvist ekki. Það vill svo vel til að alla vega tvær af þeim þremur fagstéttum sem mestu máli skipta í rekstri félagsins hafa haft kjark og framsýni til að gera samninga sem gera allt í senn, að tryggja framtíðaratvinnuöryggi stéttanna og renna stoðum undir framtíðarstarfsemi félagsins. Það er óskandi varðandi þá stétt sem enn á eftir ósamið að þar náist lyktir sem eru báðum aðilum hagfelldar og að á föstudaginn verði tekin góð ákvörðun um að styrkja félagið, þ.e. hlutafé þess, þannig ríkissjóður geti gengið inn og uppfyllt þau skilyrði og uppfyllt þau loforð sem félaginu hafa verið gefin ef þetta verður. Vonandi verður farsæl lausn í þessu efni, herra forseti.



[14:03]
Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Tekjujöfnuður á Íslandi er með því mesta sem gerist en það segir bara hálfa söguna því að misskipting getur birst með öðrum hætti. Mig langar að nefna tvö nýleg dæmi. Björgólfur Thor Björgólfsson birtist um helgina á hákarlalista Sunday Times með eignir sem eru metnar á 275 milljarða kr. Til samanburðar skiluðu erlendir ferðamenn nánast sömu upphæð inn í íslenskt samfélag á síðasta ári. Allir ferðamenn — einn maður.

Stærstu eigendur Samherja framseldu síðan í síðustu viku hlutabréf til barna sinna. Þetta er væntanlega stærsta persónulega eignatilfærslu Íslandssögunnar þar sem a.m.k. 60–70 milljarðar kr. færðust á milli kynslóða. Til samanburðar erfðu árið 2018 einstaklingar samtals 47 milljarða kr., lægri upphæð en hin fengu. Grunnurinn að Samherjaveldinu er nýting á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hvernig safnast svona stjarnfræðilegur auður? Hvernig er hann skattlagður?

Viðspyrnan fram undan verður að byggja á sanngirni og jöfnuði. Þessi tvö dæmi minna okkur á að hluti af vinnunni fram undan á að geta verið og þarf að vera auknar skatttekjur frá fólki og fyrirtækjum sem eru aflögufær. Hér þarf að innleiða aftur auðlegðarskatt þannig að fólk sem á hundruð milljóna og milljarða í hreina eign fái að leggja meira til samfélagsins. Við þurfum að styrkja fjármagnstekjuskatt, þrepaskipta honum og tengja við arðgreiðslur.

Erfðafjárskatti ættum við að umbylta. Honum þarf að þrepaskipta rækilega og setja ofurþrep á ofurarf frekar en flatan skatt í lágri prósentu. Risavaxnar eignatilfærslur á milli kynslóða viðhalda ójöfnuði og stéttaskiptingu.

Fjármálaráðherra vill stefna í átt að Íslandi 2.0. Hann þarf að muna þegar hann vinnur næsta fjárlagafrumvarp að í samfélaginu eru ótal tækifæri til að afla meiri tekna (Forseti hringir.) fyrir ríkissjóð af sanngirni áður en hann leggur til að skera niður í opinberu þjónustunni sem við stólum öll á.

Misskipting er ekki náttúrulögmál heldur mannanna verk og afrakstur ákvarðana sem margar hverjar eru teknar hér á þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:06]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við hrunið 2008 átti að aftengja vísitöluna strax og það sama á við í dag. Við Covid-19 ástandið eins og við hrunið er verið að reyna að tryggja að fjármagnið skuli halda verðgildi sínu en það er gert án tillits til fjármála í dag. Það á ekki að aftengja vísitölu vegna hugsanlegrar verðbólgu heldur til að sýna að það enginn veit hvort hún fer af stað eða ekki því að það er bara spádómur sem er því miður oftast rangur og þá sérstaklega á svona tímum.

Við vitum að eftirspurn eftir ferðum, hótelum, veitingastöðum o.fl. er ekki til staðar lengur og hlutabótavinna og atvinnuleysi í hámarki. Þess vegna á að frysta afborganir af verðtryggðum lánum heimila og eins hjá fyrirtækjum sem eiga þann rétt, því verðbólguútreikningurinn verður og er rangur við þessar aðstæður. Leiga hjá fyrirtæki sem er lokað vegna Covid hækkaði um 400.000 kr. á einum mánuði, úr 2,4 milljónum í 2,8 milljónir, sem er fáránlegt. Ef ekki, er verið að bjóða hugsanlega hrægömmum að komast yfir heimili fólks og fyrirtækja eins og gerðist í hruninu. Fjármálafyrirtæki í boði ríkisstjórnarinnar yfirtaka eignir fólks aftur eins og gert var eftir bankahrunið.

Spilling og græðgi er því miður staðreynd í samfélagi okkar og fylgifiskurinn er fátækt og eymd þeirra sem verst standa í okkar þjóðfélagi, sár fátækt fyrir allt of margar fjölskyldur og börn sem líða skort á svo til öllum nauðsynjum. Afleiðingin er biðraðir eftir mat, raðgreiðslur til að borga lyf, biðlistar eftir aðgerðum á sjúkrahúsum, biðlistar eftir að komast til sálfræðings, biðlistar barna eftir að komast í meðferð hjá barna- og unglingageðdeildinni. Hvar er mennskan, réttsýnin, samúðin, heiðarleikinn? Hvað eiga þessi verst stöddu að bíða lengi enn þá eftir réttlætinu í boði ríkisstjórnarinnar á Alþingi? Eða ætla ríkisstjórnarflokkarnir enn einu sinni að lofa að breyta þessu eftir næstu kosningar?