150. löggjafarþing — 105. fundur
 19. maí 2020.
stimpilgjald, 2. umræða.
stjfrv., 313. mál (afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa). — Þskj. 354, nál. 1432, 1433 og 1434.

[14:48]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013.

Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald af skjölum sem varða eignayfirfærslu skipa verði afnumið. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að skip yfir fimm brúttótonnum séu einu atvinnutækin sem enn bera stimpilgjald þegar eignayfirfærsla á sér stað og að sjónarmið um jafnræði atvinnugreina mæli með því að gjaldið verði lagt af. Bent er á að breytingin sé jafnframt í „samræmi við það regluverk sem fyrirfinnst á Norðurlöndunum varðandi stimpilgjöld, en þar takmarkast stimpilgjöld almennt við fasteignaviðskipti“. Þá muni samþykkt frumvarpsins bæta rekstrarumhverfi skipa á Íslandi sem verði sambærilegra því sem er hjá erlendum samkeppnisaðilum og styrkja þar með stöðu íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegri samkeppni.

Í sameiginlegri umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu segir „að stimpilgjaldslaus viðskipti með skip muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið enda dregur afnámið úr viðskiptakostnaði vegna kaupa og sölu skipa“. Bent er á að sjávarútvegurinn sé ekki eina atvinnugreinin sem nýtir skip á Íslandi heldur einnig aðrar greinar, m.a. vöruflutninga- og ferðaþjónustufyrirtæki. Frumvarpið liðki fyrir viðskiptum með skip og auki möguleika fyrirtækja á að ráðast í nauðsynlega endurnýjun og hagræðingu. Í umsögn samtakanna segir enn fremur: „Um þessar mundir eru eldsneytiskaup einn helsti rekstrarkostnaðarþáttur skipa og því hafa rekstraraðilar þeirra mikla hagsmuni af því að geta snurðulaust endurnýjað skip með minni eldsneytisnotkun fyrir augum. Endurnýjun á þeim grunni styður við loftslagsmarkmið.“

Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið um að jafnræðisrök séu fyrir afnámi stimpilgjalds samkvæmt frumvarpinu sem og um að breytingin muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið og geti flýtt fyrir endurnýjun skipaflota með minni eldsneytisnotkun og jákvæð umhverfisáhrif fyrir augum.

Rétt er að geta þess að fyrir nefndinni og í umsögnum hagsmunasamtaka sjómanna kom fram andstaða við framgang frumvarpsins sem byggðist á áhyggjum í þá veru að með því kynni atvinnuöryggi íslenskra sjómanna að vera ógnað. Nefndin óskaði eftir afstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til álitaefnisins. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar benti ráðuneytið m.a. á að frumvarpið myndi „í engu breyta kjörum sjómanna við veiðar íslenskra skipa á íslenskum aflaheimildum, sbr. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða og ákvæði kjarasamninga“. Í minnisblaðinu kemur jafnframt fram að samþykkt frumvarpsins muni leiða til þess að hægara verði að flytja skip tímabundið til annars ríkis, t.d. Grænlands, og að þannig geti orðið til nýjar eða auknar tekjur hjá íslenskum útgerðarfélögum og mögulega jafnframt tækifæri fyrir íslenska sjómenn.

Meiri hlutinn telur að þessu virtu ekki ástæðu til að óttast að afnám stimpilgjalds af skjölum sem varða eignayfirfærslu skipa ógni atvinnuöryggi íslenskra sjómanna. Telur meiri hlutinn enn fremur að atvinnuöryggi starfsstétta beri að tryggja öðruvísi en með stimpilgjöldum og í rauninni opinberum gjöldum á atvinnutæki, t.d. í lögum um viðkomandi atvinnugrein og í kjarasamningum.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.



[14:53]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta en í þeim minni hluta eru undirritaður og Álfheiður Eymarsdóttir, þingmaður Pírata. Nefndarálitið er í sjálfu sér stutt og einfalt og ég ætla, með leyfi forseta, að byrja á að lesa það.

Frumvarpið kveður á um sértæka lækkun skatta sem er að mestu til hagræðis fyrir útgerðir sem kaupa og selja fiskiskip. 1. minni hluti telur þessa sértæku lækkun ótímabæra. Engar brýnar aðstæður kalla á að sköttum sé sérstaklega létt af útgerðinni eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ekki síst í ljósi þeirra erfiðu og óljósu tíma sem nú eru í efnahagsmálum.

Fyrsti minni hluti telur hins vegar að brottfall allra stimpilgjalda sé til lengri tíma litið skynsamleg ráðstöfun enda lagði Viðreisn, ásamt þingmönnum Pírata og Flokks fólksins, fram frumvarp þess efnis í upphafi þessa þings, samanber 93. þingmál, þegar efnahagshorfur voru mun bjartari. Það frumvarp gerir ráð fyrir að öll stimpilgjöld verði lögð af í áföngum. Nær væri að stíga slík skref á komandi árum. Þess vegna leggst 1. minni hluti gegn samþykkt þessa frumvarps.

Þá er ég búinn að fara yfir nefndarálitið en ég vil segja nokkur orð frá eigin brjósti í kjölfarið. Þetta sýnir sérkennilegan forgang ríkisstjórnarflokkanna þriggja, að leggja nú lykkju á leið sína til að lækka gjöld af útgerðarfyrirtækjum landsins. Það er athyglisvert hvernig forgangurinn raðast. Sagt er að þetta sé mjög mikilvægt af því að fiskiskipaeigendur þurfi að geta endurnýjað skip sín til að mæta háu orkuverði. Verð á olíu er í sögulegum lægðum og mun verða það eitthvað áfram þannig að sú röksemd er nú ekki mjög sterk.

Þá er líka rétt að benda á að nærtækara væri að hæstv. ríkisstjórn legði til að fella niður stimpilgjöld af fasteignaviðskiptum á þessum tímum en að einbeita sér að því að hygla útgerðinni sérstaklega með þessum hætti. Ég blæs á þau rök að hér sé eitthvert jafnræðissjónarmið sem ráði för. Það var þá a.m.k. ekki haft í huga þegar lögunum var breytt síðast en þá var af ásettu ráði skilinn eftir þessi flokkur atvinnutækja. Þá var ekki mikið verið að tala um jafnræði.

Ég held að það væri líka nær fyrir hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokka að ljá frekar máls á því að taka til alvöruskoðunar hugmyndir um að farin verði markaðsleið varðandi aflaheimildir og útgerðin greiði gjöld í samræmi við það sem markaðurinn segir til um. Þetta er því mjög afhjúpandi, finnst mér, fyrir þessa þrjá flokka sem setja núna saman í ríkisstjórn, að sérstök ástæða sé til þess að leggja lykkju á leið sína til að bæta hag útgerðarinnar, sem ég sé ekki að sé í neinum sérstökum vandræðum um þessar mundir. Þetta vildi ég sagt hafa. Mér finnst þetta vont mál á þessu stigi og mun greiða atkvæði gegn málinu þegar það kemur til atkvæðagreiðslu.



[14:57]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Annar minni hluti, sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, er með stutt og laggott nefndarálit. Ég ætla að lesa það hér:

Annar minni hluti telur áform um breytingu á stimpilgjaldi af skjölum vegna eignayfirfærslu skipa undarlegt forgangsmál ríkisstjórnarinnar á tímum heimsfaraldurs og lækkandi tekna ríkissjóðs. 2. minni hluti tekur undir umsögn frá Félagi skipstjórnarmanna og sameiginlega umsögn Sjómannasambands Íslands og VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, um að afnám stimpilgjalds þegar skip koma í fyrsta skipti á íslenska skipaskrá komi vel til greina en ekki í hvert sinn sem skipum er flaggað út og inn af íslenskri skipaskrá eftir hentugleika.

Afleiðingar þessarar breytingar geta orðið verulegar fyrir stöðu íslenskra sjómanna. Stöðu sjómanna ætti frekar að gæta að og styðja í stað þess að grípa til ráðstafana sem ógna atvinnuöryggi þeirra. Skýrt dæmi um slíkt er þegar íslensk skip eru skráð á Grænlandi en samkvæmt grænlenskum lögum er skylda að allir undirmenn á skipinu séu grænlenskir. Einnig eru slysatryggingar og kjarasamningsbundin réttindi sem sjálfsögð eru á íslenskum skipum ekki á skipum sem flaggað er til Grænlands.

Verði frumvarpið að lögum má búast við að útflöggun skipa aukist með neikvæðum afleiðingum fyrir kjör íslenskra sjómanna og því leggst 2. minni hluti gegn samþykkt frumvarpsins og lýsir um leið undrun sinni á þessari forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á tímum atvinnuleysis og óvissu.

Herra forseti. Ég get tekið undir með þeim ræðumanni sem talaði hér á undan mér að nær væri að líta á þá auðlindarentu sem útgerðin ætti að skila til þjóðarinnar heldur en að fella niður stimpilgjöld til að auðvelda þeim að flagga skipum inn og út með afleiðingum sem eru ekki æskilegar fyrir íslenska sjómannastétt.



[14:59]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég má til með að leiðrétta það að þetta sé eitthvert forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Það er öðru nær og er ekki svo. Þetta mál hefur verið mánuðum ef ekki árum saman í þinginu og hefur auðvitað verið umdeilt eins og hérna kemur fram.

Það er alveg ljóst að tækifæri felast í þessu. Einu atvinnutækin sem seld eru með stimpilgjaldi, notuð tæki, eru notuð fiskiskip. Íslenskar útgerðir hafa getað nýtt sér það að flagga þeim út í veiðar í erlendri landhelgi þar sem þær hafa getað aflað sér kvóta og það kemur í enda dagsins þjóðarbúi og okkur öllum og sjómönnum til góða vegna þess að þetta mun virka í báðar áttir. Erlendum skipum mun líka verða flaggað inn sem munu verða mönnuð íslenskum áhöfnum þannig að með tíð og tíma mun þetta auðvitað jafnast út.

Ég skil það að Grænlendingar hafi sín lög um það að undirmenn á skipum skuli vera grænlenskir. Það er auðvitað ákveðinn galli, en á sama tíma eru íslenskar útgerðir að ná sér í kvóta í erlendri landhelgi, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur upp á framtíðina. Við sjáum núna þegar loðnubrestur verður að mikil tækifæri eru í því ef útgerðir gætu flaggað út skipum sínum til að stunda veiðar á öðrum hafsvæðum. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að flagga skipum inn og út. Venjulegt notað uppsjávarskip greiðir kannski 70–80 milljónir við að flagga því út og annað eins þegar það kemur til baka. Það er verið að gera þetta nánast algerlega vonlaust.

Það þætti mörgum Suðurnesjamanninum það skrýtið ef Icelandair ætlaði að flagga út flugvél í nokkra mánuði í verkefni erlendis og þá þyrfti að borga stimpilgjald af flugvélinni. Það dettur ekki nokkrum manni í hug. Þess vegna er það bara sanngirnismál að útgerðin sitji við sama borð og aðrir. Ég vorkenni útgerðinni almennt ekkert að borga skatta eða gjöld, hvort sem það eru veiðigjöld eða önnur gjöld, en mér finnst eðlilegt að útgerðin, eins og annar atvinnurekstur í landinu, sitji helst við sama borð og aðrir.