150. löggjafarþing — 105. fundur
 19. maí 2020.
stimpilgjald, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 313. mál (afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa). — Þskj. 354, nál. 1432, 1433 og 1434.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:17]

 1.–4. gr. samþ. með 27:16 atkv. og sögðu

  já:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  JónG,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórE.
nei:  AIJ,  ÁlfE,  GBr,  GIK,  GuðmT,  HallM,  HKF,  HVH,  JÞÓ,  JSV,  LRM,  LE,  MH,  OH,  ÞorbG,  ÞSÆ.
8 þm. (BergÓ,  BirgÞ,  GBS,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS) greiddu ekki atkv.
12 þm. (AKÁ,  ÁÓÁ,  BLG,  HarB,  HHG,  IngS,  KJak,  RBB,  SÁA,  SSv,  ÞKG,  ÞórdG) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:14]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Við í Miðflokknum erum almennt hlynnt afnámi stimpilgjalda og einföldun kerfisins en á þessu máli er þó einn tiltölulega veigamikill galli og hann er sá að menn skuli ekki samhliða þessu afnámi stimpilgjaldsins hafa komið til móts við áhyggjur sjómanna með öðrum hætti, áhyggjur þeirra af því að í síauknum mæli verði farið að flagga skipum inn og út úr landhelginni.

Slíkt hefði þurft að afgreiðast samhliða afnámi stimpilgjaldsins en er ekki gert hér og því greiði ég ekki atkvæði um málið.



[16:14]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú þegar heimsfaraldur gengur yfir, atvinnuleysistölur hafa aldrei verið hærri, ríkissjóður tapar tekjum, við horfum á gat á næstu fjárlögum upp á kannski 300 milljarða, jafnvel meira, hvað er það þá sem ríkisstjórnin gerir og stjórnarþingmenn samþykkja hér og gera að sínu forgangsmáli? Það er að lækka og taka stimpilgjöld af stórum skipum þannig að þau geti flaggað inn og út úr landinu og skipt um áhafnir hægri, vinstri með afleiðingum fyrir sjómenn sem ekki eru fyrirséðar.

Þetta er skemmtileg forgangsröðun eða hitt þó heldur hjá ríkisstjórninni.



[16:15]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Forgangsröðun er oft nauðsynleg þegar mikið liggur við, bjargir eru takmarkaðar og þarf að forgangsraða hlutunum. Nú ber svo við að ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa metið það svo að það sé forgangsatriði að ívilna útgerðinni með klæðskerasniðu frumvarpi henni til hagsbóta. Það er vægast sagt sérkennilegt en það er nú einu sinni þannig að í hinum þríeina kýrhaus ríkisstjórnarinnar er margt skrýtið og kemur kannski ekki á óvart hvernig sá þríeini kýrhaus hugsar í þessu máli.



[16:16]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sjáum við að á Alþingi stjórna þrír kvótaflokkar. Ég vil bara nota tækifærið við þessa atkvæðagreiðslu, þar sem við sjáum forgangsröðina til útgerðarinnar í þessu máli, að nefna að þeir landsmenn sem vilja fá kvótann heim, vilja fá kvótann aftur til þjóðarinnar — það er hægt að taka 5% á ári og úthluta á opnum markaði — þeir sem vilja breytingar á kvótakerfinu í áttina að því að landsmenn fái náttúruauðlindirnar í sína eigu og fái réttmætan arð af þeim náttúruauðlindum þurfa að kjósa aðra flokka. Ég held að það sé einn enn kvótaflokkur á þingi, Miðflokkurinn, en annars þarf að kjósa aðra flokka. Ætli Sósíalistarnir detti ekki inn næst? Þeir eru á móti þessu kerfi líka þannig að það verða a.m.k. fimm okkar í boði næst sem vilja breytingar á kvótakerfinu og færa auðlindina og nýtingu hennar aftur til þjóðarinnar.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.