150. löggjafarþing — 106. fundur
 20. maí 2020.
leigufélög, rekstur spilakassa.

[15:16]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í fréttum víða er fasteignafélag sakað um gífurlegan hrottaskap þar sem leiga hefur hækkað um nærri 0,5 milljónir á fyrirtæki sem er lokað í Covid að tilmælum stjórnvalda. Stærsti hlutinn af þessari hækkun, 400.000 kr., er vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs. 400.000 á mánuði vegna hækkunar vísitölu neysluverðs eru 5 milljónir á ári. Þetta fyrirtæki er kannski að sækja um styrk og brúarlán og ég spyr: Á styrkur og brúarlán að renna í gegnum vasa þeirra og beint í vasa fasteignafélags sem er með bullandi gróðafíkn?

Síðan ætla ég að fara út í aðra fíkn, spilafíknina. Á sama tíma og 85% þjóðarinnar segja að það eigi ekki að vera með spilakassa spyr ég: Er eðlilegt að Rauði kross Íslands, Landsbjörg, SÁÁ, og Háskóli Íslands séu drifin áfram af spilakössum? Nú er komið í ljós að meðan kassarnir voru lokaðir stórbatnaði hagur spilafíkla. Það eru örfáir einstaklingar sem halda öllu þessu uppi, um 10–12 milljörðum og af því eru ekki nema 40–50% gróði, hitt er allt kostnaður sem fer til útlanda. Er ekki eðlilegt að ríkissjóður semji við þessa aðila og sjái til þess að úr ríkissjóði komi greiðslur frekar en að gera út á örfáa fíkla sem leggja allt undir, m.a. heimili, og eru þar af leiðandi berskjaldaðir og eiga ekki á nokkurn hátt að láta svona félög, sem eru nauðsynleg, verða háð spilafíklum sem halda þeim uppi?



[15:18]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að bregðast við einstaka dæmum um hækkun leigu. Ég hygg að dæmið sem hv. þingmaður vísar til sé skemmtistaðurinn B5 við Bankastræti sem hefur farið í fjölmiðla og rætt um að leigan hafi hækkað. Úr hverju hækkaði hún hins vegar og hvar stóð hún í samanburði við aðra leigu í næstu húsum? Ég hef engar forsendur til að fjalla um þetta mál en ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, manni þykir mjög einkennilegt að fyrirtæki sem hafa þurft að loka vegna fyrirmæla stjórnvalda skuli þurfa að sæta slíkum viðskiptakjörum á þessum tímum. Ég get tekið undir það en hef að öðru leyti engar forsendur til að fjalla um þetta mál.

Varðandi spilakassana er það hárrétt hjá hv. þingmanni að það er algjör hörmung hversu margir þurfa að glíma við spilafíkn. Það er alveg gild spurning hversu stór þáttur í vanda þeirra opnu spilakassarnir eru. Þar er stóra spurningin: Hvert annað leita spilafíklar ef ekki í spilakassana? Hv. þingmaður veltir hér upp að alls konar góðgerðasamtök og aðrir aðilar sem vinna að brýnum samfélagslegum verkefnum skuli fjármagna sig með þessum hætti. Þá er auðvelt að benda á ýmislegt annað sem er á jaðri spilakassanna, happdrætti og lottó og hvað þetta allt saman er. Ég er talsmaður þess að við lokum ekki með öllu á þetta en spilakassarnir eru svo sem ekki (Forseti hringir.) þannig úr garði gerðir að ég ætli að fara að mæla þeim sérstaklega bót. Við þurfum að finna einhvern eðlilegan meðalveg í þessum efnum.



[15:21]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin sem ég er líka algjörlega sammála. Aldrei þessu vant vorum við samtaka í að samþykkja lög, lög um neyslurými. Hvernig væri að við tækjum okkur til og byggjum til spilarými þar sem spilafíklar gætu fengið útrás fyrir fíknina? Það væri hægt að hjálpa þeim. Það er hægt að vera með spilapeninga sem þarf ekki að kaupa heldur bara nota og hugsa út fyrir kassann. Það er svo ömurlegt að Rauði krossinn skuli vera háður þessu, Landsbjörg, björgunar- og slysavarnafélög, SÁÁ og Háskóli Íslands þar sem við erum að mennta fólk. Hvers vegna í ósköpunum erum við með spilakassa úti um allt, í sjoppum og þar sem börn og unglingar hafa þá fyrir augunum? Við hljótum að geta tekið þetta út og við ættum líka að sjá til þess núna, af því að staðirnir hafa verið lokaðir, (Forseti hringir.) að halda þeim lokuðum, finna nýjar leiðir og stöðva þetta.



[15:22]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að hv. þingmaður kom mér dálítið í opna skjöldu með því að mæla svona sterkt gegn spilasölunum en tala svo um að opna fyrir spilarýmin. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, ég held að það sé nokkuð til í því hjá hv. þingmanni að þar væri vissulega auðveldara að hafa strangt eftirlit með því hverjir fengju að taka þátt o.s.frv. Stóra spurningin sem eftir situr er sú hvort hægt sé að hjálpa spilafíklum með einhverju slíku breyttu fyrirkomulagi. Ég er ekki nógu vel að mér í þessu til að fullyrða neitt um það. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, við þurfum að gera betur til að styðja við þá sem fást við þessa fíkn og leggja mögulega í því sambandi aukna ábyrgð á þá sem eru með slíka sali opna. Svo er alltaf mjög erfitt að finna nákvæmlega réttu útfærsluna á þessu, m.a. vegna þess að tæknin hefur opnað nýjar leiðir fyrir þá sem glíma við spilafíkn (Forseti hringir.) til að fá útrás fyrir hana þar, ef svo mætti að orði komast.