150. löggjafarþing — 106. fundur
 20. maí 2020.
samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[15:23]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Fyrir hartnær tveimur árþúsundum sagði Kristur á krossinum: „Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“ Það er ekki þannig að tilefnið nú sé viðlíka alvarlegt en margt bendir til þess að þegar skrifað var undir svokallað höfuðborgarsamkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu hafi fulltrúar ríkisstjórnarinnar ekki fyllilega vitað hvað þeir voru að gera. Samkomulagið sem hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir ásamt hæstv. forsætisráðherra og samgönguráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar virðist allt vera túlkað á þann máta að villtustu draumar meiri hlutans í Reykjavíkurborg geti ræst. Eins og við þekkjum öll virðast þeir villtustu draumar flesta daga ganga út á að þrengja sem mest að og hægja á umferð fjölskyldubílsins.

Mig langar að nefna eitt dæmi en nóg er af þeim að því er virðist vera. Í 5. lið samkomulagsins sem hæstv. ráðherra skrifaði undir þar sem fjallað er um flýtingu framkvæmda er m.a. fjallað um gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Ég leyfi mér að fullyrða að fáir hafi haft ímyndunarafl til að spyrja sérstaklega hvort ekki væri örugglega átt við mislæg gatnamót á þeim tiltekna stað. Flestir gáfu sér að svo væri. Það fullyrði ég. Nú hefur komið fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar að ekki sé vilji fyrir því hjá Reykjavíkurborg að heimila fleiri mislæg gatnamót og að út frá því verði að vinna.

Ég spyr því ráðherra: Skrifuðu þessir þrír ráðherrar undir samkomulag upp á 120 milljarða framkvæmdir án þess að ganga úr skugga um hvort einhver af áhersluatriðum Vegagerðarinnar hvað flæði umferðar fjölskyldubílsins varðar næðu fram að ganga? Er búið að skrifa undir 120 milljarða samkomulag þar sem engin ný mislæg gatnamót verða á teikniborðinu innan Reykjavíkur þar sem umferðarhnútarnir og tafirnar eru mestar?



[15:25]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að gera þegar höfuðborgarsamningurinn, -samkomulagið eða -sáttmálinn var gerður en ég vek einfaldlega athygli á því að í þessum samningi eru mjög sterkir fyrirvarar um aðkomu Alþingis. Þeir skipta verulega miklu máli vegna þess að þar er vísað til þess sem Alþingi mun ákveða í samgönguáætlun og hefur þannig alveg forráð á því í hvaða röð menn munu forgangsraða verkefnum. Síðan er í öðru lagi hægt að nefna fyrirvarann um fjárheimildir til að standa við samningsskuldbindingar ríkisins eða þessa yfirlýsingu sem þetta er, frekar en samningur. Fjárheimildir til að fjármagna samkomulagið eru á forræði Alþingis. Má ég nefna í þriðja lagi að það er fyrirvari í þessari yfirlýsingu um aðra þá fjármögnun sem rætt er um, að þar séu enn ófrágengin mál, t.d. að ef menn færu út í sérstaka gjaldtöku til að fjármagna framkvæmdirnar myndi það aldrei gerast nema með frumvarpi sem lagt yrði fyrir þingið og afgreitt hér. Málið er í raun og veru enn að uppistöðu til á forræði og undir stjórn Alþingis.

Varðandi þessi tilteknu gatnamót skal ég bara taka það fram að í undirbúningsviðræðum kom fram að til væru útfærðar hugmyndir að þessum gatnamótum og að þar hefði verið um að ræða mislæg gatnamót en þetta er nákvæmlega dæmi um það sem ég vakti athygli á áðan, að þegar upp er staðið er það Alþingis að hafa stjórn á því hvernig samkomulagið verður um framkvæmd.



[15:28]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna þessum viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er sem betur fer á þeim nótum sem ég vonaði að skilningur stjórnvalda lægi. Staðan sem er uppi í dag er sú að fulltrúar Reykjavíkurborgar virðast túlka samkomulagið með allt öðrum hætti. Ég held að fyrsti tíminn sé bestur til að leiða þann mismunandi skilning í jörð þannig að hljóð og mynd fari saman í þessu máli. Bara núna um helgina voru kynnt drög að matsáætlun borgarlínu á netinu og þar eru skilaboðin þau að það á að þrengja að umferð einkabílsins, fækka akreinum á Suðurlandsbraut svo dæmi sé tekið, gera Hverfisgötu að einstefnugötu og ég veit ekki hvað og hvað, loka allri umferð í kringum Hlemm þannig að í augnablikinu fer ekki saman hljóð og mynd. Það er mikilvægt að þetta komist á hreint.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í samhengi við frumvarp hans um stofnun hlutafélags til að halda utan um þessar framkvæmdir hvort það hafi komið til skoðunar að stofna félagið en færa Keldnalandið (Forseti hringir.) ekki inn í félagið fyrr en skipulag hefur verið klárað af hendi Reykjavíkurborgar. Sporin hræða hvað varðar skipulagsleg samskipti við Reykjavíkurborg í samgöngumálum.



[15:29]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið nýmæli í samkomulaginu um að færa Keldnalandið inn í þetta félag og þau felast í því að með þessu fyrirkomulagi gefst stjórnvöldum aukið svigrúm til þess innan ramma laga um opinber fjármál að nýta betur efnahagsreikninginn. Eignir sem eru nánast eins og dauðar á efnahagsreikningi ríkisins lifna við ef við finnum leiðir til að skapa úr þeim verðmæti í þróunarfélagi eins og hérna á við. Hvort það þurfi að vanda vel tímasetninguna varðandi framsalið — ég er ekki alveg tilbúinn að úttala mig um hvort gá þyrfti að því hvort út af stæði slíkur ágreiningur að það væri ekki orðið tímabært. Ég vek bara athygli á því að ríkið (Forseti hringir.) er áfram með mjög mikla aðkomu að félaginu.