150. löggjafarþing — 106. fundur
 20. maí 2020.
ávana- og fíkniefni, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 328. mál (neyslurými). — Þskj. 1460.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:22]

Frv.  samþ. með 42:2 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  JónG,  JÞÓ,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  MH,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞórdG,  ÞSÆ,  ÞórE.
nei:  ÁsF,  BirgÞ.
6 þm. (BergÓ,  BN,  GBS,  KGH,  ÓÍ,  ÞorS) greiddu ekki atkv.
13 þm. (AKÁ,  ÁlfE,  ÁslS,  GÞÞ,  HHG,  IngS,  LE,  PállM,  SDG,  SÁA,  SIJ,  SPJ,  ÞorbG) fjarstaddir.
9 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:12]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um neyslurými. Það liggur fyrir að í samfélaginu er hópur fíkla sem þarf á mikilli aðstoð að halda. Hann nýtur kærleiksríkrar meðferðar hjá Frú Ragnheiði, þar er fólk sem hefur hjálpað þessum einstaklingum af ótrúlegri fórnfýsi og kærleik. Með þessum lögum er verið að opna leiðir fyrir nýja fíkla, yngri fíkla, til að nýta sér slíka aðstöðu. Mér er sagt af mér fróðari mönnum í meðferðarúrræðum að það skapi mikla hættu að hleypa ungum fíklum inn í slíka aðstöðu þar sem þeir geta í ró og næði og friði fallið mun fyrr í þeirri freistni sem þeir glíma við.

Ég mun því segja nei við þessu frumvarpi.



[16:13]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég tel þetta frumvarp heilbrigðisráðherra sem gengur út á að lögleiða neyslu fíkniefna í ákveðnum neyslurýmum ekki af hinu góða. Það er dýrmætast af öllu að geta hjálpað fíklum að hætta neyslu fíkniefna, það á að vera megináhersla hins opinbera en ekki það að lögleiða neyslu í ákveðnum rýmum. Áform um að breyta refsiákvæðum og áralangri framkvæmd krefjast vandaðs undirbúnings, sér í lagi þegar um er að ræða breytingar á löglegu hlutverki lögreglu og skyldum hennar við meðferð sakamála.

Ég tel að þetta mál sé illa undirbúið sem lýsir sér í því að ríkissaksóknari var í upphafi ekki meðal þeirra 94 aðila sem fengu umsagnarbeiðni frá velferðarnefnd. Hætta er á að þetta verkefni vinni gegn sjálfu sér. Hætta er á að það fjölgi í hópi sprautufíkla þegar lögleiða á slíka neyslu á ákveðnum stöðum.

Ég segi nei.



[16:14]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna því sérstaklega að við skulum hér vera að gera þetta frumvarp að lögum. Það er fyrsta raunverulega skrefið í átt að því að sinna skaðaminnkun sem er studd af löggjöf. Það er löngu tímabært að stíga þetta skref. Þetta er róttækt skref, það er vel undirbyggt og það sýnir kjark löggjafans í þessum efnum. Við erum með þessu móti að bjarga mannslífum. Við erum að sýna fólki virðingu sem er í sérstaklega erfiðri stöðu og er jaðarsettast af öllum íbúum samfélagsins. Það er gríðarlega mikilvægt að við mætum því fólki þar sem það er statt og sýnum því virðingu.

Ég er stolt af því að vera heilbrigðisráðherra á þessum tímamótum og þakka hv. velferðarnefnd fyrir afar góð störf og jafnframt þann þverpólitíska stuðning sem fram kemur á atkvæðagreiðslutöflunni.



[16:15]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þetta frumvarp og fyrir það hugrekki sem hún sýnir í að leggja það fram. Þetta er gríðarlega mikilvægt skref og þetta er mannúðarmál. Við erum að stíga skref í átt að því að mæta fólki þar sem það er en ekki að reyna að rífa það á einhvern stað þar sem við viljum að það sé. Við vitum að það virkar ekki. Þetta er einmitt til að bjarga lífum og þetta er gríðarlega mikilvægt upp á skaðaminnkunina, að við séum að horfa meira í þá átt. Vonandi munu næstu skref fela í sér að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna almennt í samfélaginu, að við opnum faðminn, aðstoðum fólk og færum okkur af þeirri vegferð að refsa þeim sem eiga við fíknivanda að stríða.



[16:16]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því mjög að við séum að samþykkja þetta frumvarp í dag. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um kjark og ég vil hrósa henni fyrir að hafa haft hugrekki til að leggja frumvarpið fram og okkur öllum fyrir að hafa hugrekki til að sýna fíklum mannúð og virðingu. Þetta snýst nefnilega um það. Þetta snýst um að opna kerfið fyrir þeim sem hafa mögulega gengið á vegg alla sína ævi. Þetta snýst um að auka traust þess hóps sem ber ekkert traust til kerfisins, veita honum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu, veita honum umhyggju og mannúð. Þetta er slíkt mál.

Vegna orða hv. þm. Birgis Þórarinssonar um að ríkissaksóknari og lögregla hafi ekki skilað inn umsögn tek ég fram að sérstaklega var leitað eftir umsögnum þeirra og hv. velferðarnefnd fékk þau svör að hvorugt embættið teldi neina þörf á að skila inn athugasemdum vegna þess að búið væri að mæta öllum þeim ábendingum sem þau höfðu áður (Forseti hringir.) komið með.



[16:17]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að hafa hugrekki til að ýta á já og styðja þetta frumvarp en verð samt sem áður að viðurkenna að það er erfitt. Mér finnst erfitt að gefast upp í baráttunni gagnvart fíkniefnum en held engu að síður að það sé skynsamlegt. Ég held að með þessu móti verjum við best þá einstaklinga sem eru háðir þessum vondu efnum og þar af leiðandi er um að ræða heilbrigðismál og líklega er þetta fyrsta skrefið okkar í skaðaminnkun og nýjum leiðum til að berjast gegn þeirri vá sem fíkniefnin eru og þeim samfélagslegu vandamálum sem þau skapa á hverju ári.



[16:18]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er mikið gleðiefni að sjá atkvæðagreiðslutöfluna og sjá að þetta mál verður gert að lögum. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa haft hugrekki til að leggja það fram og fyrir góða vinnu, bæði með hv. velferðarnefnd og sömuleiðis í ráðuneyti sínu. Ég kemst pínulítið við að við séum komin á þennan stað. Það var ekki endilega fyrirséð fyrir ekki svo löngu að þetta þing og þessi þjóð væru opin fyrir því að snúa af braut refsinga og skamma og fara í átt að skaðaminnkun, aðstoð og kærleika. Á því hvílir þetta mikilvæga frelsis- og mannréttindamál. Nú er næsta skref augljóst, það að afglæpavæða vörsluskammta vímuefna til að við getum tryggt að fólk njóti öryggis þrátt fyrir fíknivanda.



[16:19]
Jón Þór Ólafsson (P):

Ég vil líka byrja á að þakka heilbrigðisráðherra fyrir að leggja frumvarpið fram og hafa seiglu í að klára þetta á þinginu með okkur. Þetta er ekki róttækt skref. Vísindin og staðreyndir sýna að þar sem þetta hefur verið reynt skilar það árangri. Það skilar þeim árangri að heilbrigðisaðstæður eru miklu betri. Ég talaði við forseta Sviss á sínum tíma þegar við Píratar vorum að vinna fíkniefnastefnuna okkar. Þar hafði þetta þá verið gert í fjöldamörg ár, kannski 15 ár. Hvers vegna? Vegna þess að þetta skilar öllum landsmönnum betra heilbrigði.

Ég skoðaði hvað var gert í Portúgal. Þar var varsla neysluskammta afglæpavædd. Hvers vegna gerðu Portúgalar það? Vegna þess að það var ópíumfaraldur í landinu og eyðni var að dreifast út um allt. Niðurstaðan sem ég skoðaði í skýrslu sem kom út sex árum seinna var sú að fíknifaraldurinn jókst ekki, það dró úr honum og heilbrigði var tryggt. Við vitum þetta allt saman þannig að þeir sem vilja ekki styðja málið á þeim forsendum (Forseti hringir.) að um mannúðarsjónarmið sé að ræða gagnvart fíklum ættu að hugsa um almannaheill og heilbrigði allra landsmanna sem málið verndar.



[16:21]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp eindregið. Ég tel það ekki bera vitni um uppgjöf í baráttu gegn fíkniefnum. Miklu frekar sýnir það hugrekki til að horfast í augu við raunveruleikann, hugrekki til að sýna mannúð þeim hópum sem mest þurfa á því að halda í þessum aðstæðum. Þetta er mikilvægt og dýrmætt skref sem ég og Viðreisn styðjum heils hugar. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið frumkvæðið og unnið vel með þinginu. Þetta er dæmi um mál, hæstv. forseti, sem hefur verið útfært vel í samstarfi innan þings sem utan.