150. löggjafarþing — 107. fundur
 20. maí 2020.
bifreiðaskoðanir og þjónustuskylda.
fsp. BjG, 651. mál. — Þskj. 1105.

[19:54]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningum til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ástæðan eru áform Frumherja um að hætta bifreiðaskoðun á Þórshöfn á Langanesi, á Raufarhöfn og Kópaskeri. Ég velti því upp hvort bifreiðaverkstæði gæti t.d. sinnt bifreiðaskoðun að tilteknum skilyrðum uppfylltum og hvort við þurfum jafnvel að skilgreina þjónustu þessara fyrirtækja nákvæmar en við gerum núna.

Að fara með bíl í skoðun er eitt af þeim verkefnum sem ekkert okkar hefur neitt sérstaklega gaman af. Það slást engir um það verkefni, held ég. Eftir að við einkavæddum Bifreiðaskoðun ríkisins hafa nokkur fyrirtæki séð um það eftirlit og kannski er þjónustan ekki eins góð og við gætum haft hana. Síðustu ár hafa okkur birst fréttir um að smám saman sé þessi þjónusta að versna, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum.

Fréttir um að leggja ætti niður þessa þjónustu á Þórshöfn, Kópaskeri og Vopnafirði birtust fyrir ekki svo löngu. Það þýðir að íbúar þessara samfélaga eru nauðbeygðir til að ferðast mjög langar vegalengdir, hundruð kílómetra. Það eru 150 km frá Þórshöfn til Húsavíkur þar sem næsta skoðunarstöð er þá. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að bifreiðaeigendum á þessu svæði, við erum að tala um atvinnutæki og heimilisbíla og annað slíkt, sé gert að ferðast svo mikið með tilheyrandi tekju- og vinnutapi til að sinna lögskyldu eftirliti af því að þetta er ekki neitt sem við höfum val um að gera.

Við þekkjum það líka að þessir staðir eru margir hverjir þegar illa settir hvað varðar ýmsa þjónustu. Það kemur fram í þjónustukorti sem gert hefur verið af hálfu Byggðastofnunar og ég veit að ráðherra þekkir mjög vel. Ef fara á til læknis sem ekki er á heilsugæslu þarf stundum að fara langar leiðir. Ég vona að ráðherra sé mér sammála um að við þurfum að reyna að draga úr þeirri þróun. Ég velti því fyrir mér, hvað þetta mál varðar, hvort bifreiðaverkstæði geti annaðhvort sinnt þessu eftirliti með ákveðnum skilyrðum eða að við setjum hreinlega inn ákveðna lágmarksfjarlægð að næsta skoðunarstað.

Er hægt að skýra það í reglugerð varðandi þessa þjónustu sem skoðunaraðilar myndu þurfa að uppfylla?



[19:57]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna um hvort bifreiðaverkstæði geti sinnt bifreiðaskoðunum þá er stutta svarið: Já. En þeir aðilar sem taka að sér skoðanir ökutækja verða að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenndra skoðunarstofa, þar með talið ákvæði um hlutleysi. Ég ætla að fjalla lauslega um þær kröfur á eftir en það getur verið erfitt og stundum ómögulegt fyrir venjulegt bifreiðaverkstæði að uppfylla þær. Verkstæði sem slíkt getur til að mynda ekki skoðað ökutæki samhliða starfsemi sinni. Tilgangurinn með þeim ströngu skilyrðum sem skoðunarstofur uppfylla er í stuttu máli að tryggja sem best öryggi bifreiða í umferð. Skoðunarstofur hafa leigt aðstöðu bifreiðaverkstæða víða þar sem þær hafa ekki sjálfar aðstöðu og á meðan er athafnasvæði skoðunarstofunnar lokað fyrir starfsemi verkstæðisins.

Um starfsemi skoðunarstofa gilda ákvæði reglugerðar um skoðun ökutækja, nr. 8/2009, og hefur Samgöngustofa það hlutverk að viðurkenna skoðunarstofur samkvæmt 23. gr. reglugerðarinnar og veita þeim starfsleyfi. Áður en Samgöngustofa viðurkennir skoðunarstofu skal stofan hafa hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi faggiltra, óháðra skoðunarstofa. Í reglum sem gilda fyrir skoðunarstofur er m.a. að finna kröfu um hlutleysi. Þannig má skoðunarstofa samkvæmt 22. gr. ekki bæði annast viðgerðir á ökutækjum og skoðun þeirra. Þá má skoðunarstofa ekki selja varahluti í bifreiðar samhliða skoðun þeirra. Í reglugerðinni eru gerðar kröfur um ýmsan kostnaðarsaman lágmarksbúnað til skoðana, t.d. tæki til hemlaprófana og mengunarmælinga. Í 24. gr. reglugerðarinnar eru gerðar menntunarkröfur til stjórnenda og annarra starfsmanna í skoðunarstofum. Jafnframt er gerð krafa um að þeir séu í föstu starfi hjá skoðunarstofu. Skoðunarstofu ber skylda til að taka þátt í samanburðarskoðunum þegar Samgöngustofa óskar eftir því og skal skoðunarstofan bera allan kostnað vegna þeirrar þátttöku. Sé þess óskað þarf skoðunarstofa að taka þátt í verkefnum sem unnin eru í samvinnu lögreglu, Vegagerðarinnar og Samgöngustofu.

Þá eru í reglum ýmis ákvæði sem ætlað er að tryggja samræmi í niðurstöðum skoðana milli skoðunarstofa. Þar má nefna að skoðunarstofa skal vera tengd tölvukerfi Samgöngustofu og koma samdægurs til stofnunarinnar upplýsingum um niðurstöðu skoðana, að innheimta og standa skil á umferðaröryggisgjaldi, vanrækslugjaldi og ganga úr skugga um að bifreiðagjald og lögboðin tryggingariðgjöld ökutækis séu að fullu greidd. Þannig að svarið er já, en það er fullt af kröfum sem þarf að uppfylla.

Önnur spurning var hvort ráðherra teldi að skilgreina þyrfti þjónustuskyldu slíkra fyrirtækja með skýrari hætti. Skoðunarstofur sinna nú þegar skoðunum úti á landi og þær hafa aðstöðu víða á landsbyggðinni og hafa auk þess aðgang að aðstöðu á bifreiðaverkstæðum á nokkrum stöðum þannig að það er möguleiki. Þá búa tvær skoðunarstofur yfir færanlegum skoðunarstofum.

Ef auka ætti lögbundna þjónustuskyldu skoðunarstofa umfram þá þjónustu sem haldið er uppi í dag fylgir því vissulega aukinn kostnaður fyrir neytendur. Auk þess þarf að gæta þess að mismuna ekki starfsemi skoðunarfyrirtækja sem hafa mismunandi áherslur um framboð og þjónustu. Nýjar skyldur þyrftu því að vera vel afmarkaðar og skýrar í framkvæmd til að draga úr kostnaðaráhrifum þeirra. Skynsamlegast gæti verið að gefa sér ekki eina lausn fyrir fram og skoða málið heildstætt.

Ég tel sem sagt að hægt sé og eðlilegast að ætlast til þess að markaðurinn ráði við og leysi þetta verkefni. Hins vegar er valkostur að setja fram einhvers konar þvinganir ef það reynist ekki vera raunin. Með tilliti til þess sem hv. þingmaður lýsti í sinni ræðu, að þjónustunni færi aftur og það væri tilhneiging til að loka sífellt fleiri skoðunarstofum með tilheyrandi lengri akstri fyrir viðkomandi, mætti auðvitað skoða einhverja slíka valkosti eða hugsa aðrar leiðir til þess að ná fram breyttri hegðun markaðsfyrirtækjanna.



[20:02]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðuna um bifreiðaskoðanir og þjónustuskyldu skoðunarstöðva fyrst og fremst til að leggja áherslu á að það er algerlega óviðunandi ef ekki verður hægt að fá skoðun á bíl á milli Húsavíkur og Vopnafjarðar. Það er einfaldlega óviðunandi fyrir alla þá starfsemi sem þar fer fram, hvort sem um er að ræða atvinnustarfsemi eða heimilisrekstur. Þarna geta verið ökutæki sem þurfa aldrei að fara úr þeim þéttbýliskjarna þar sem þau eru mest notuð, sem getur verið Þórshöfn, Kópasker eða Raufarhöfn. Þetta er mál sem tryggja verður lausn á. Kannski geta hreyfanlegu skoðanastöðvarnar sinnt þjónustunni, en það þarf þá að vera einhver trygging fyrir því.



[20:03]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að vekja athygli á þessu alvarlega máli sem upp er komið á norðausturhorninu. Ég veit að hæstv. ráðherra er mjög áfram um að halda uppi fjölbreyttu atvinnulífi úti um landið og að alls öryggis sé gætt þegar kemur að umferðarmálum. Það er mikilvægur öryggisþáttur hjá okkur að vel sé fylgst með ökutækjunum okkar, en það er algerlega óviðunandi að stór hluti af landinu og norðausturhorninu hafi ekki aðgang að skoðun og eftirliti með farartækjum og að fólk þurfi að aka um langan veg. Ég vil skora á ráðherra að skoða þetta mál vel af því að við þurfum að finna lausn á því. Það er algerlega ótækt að þurfa að aka um marga fjallvegi til að fá skoðun á farartæki sem þurfa annars jafnvel aldrei að fara út úr byggðarlaginu þar sem þau eru.



[20:04]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið þátt. Ég lýsi ánægju minni með að það er vilji til að grípa inn í þetta mál. Ég veit að ráðherra fékk bréf frá héraðsnefnd Þingeyinga, dagsett 5. mars. Við þingmenn Norðausturkjördæmis fengum það líka. Eins og þar var sagt þarf að vera trygging fyrir því að þessi þjónusta verði veitt. Það er ekki eðlilegt að aka þurfa 300 km til að láta skoða bílinn sinn.

Hvaða leiðir sem við finnum til lausnar, hvort sem það eru færanlegar skoðunarstofur eða annað, er ljóst að markaðurinn virðist ekki geta leyst þetta mál, ekki ef við horfum á kortið og til þess að búið er að segja upp samningum og fyrir liggur að loka á þessum stofum. Þá er það spurning, eins og ráðherra orðaði það, að þvinga fram einhver samningsskilyrði. Þegar við horfum á byggðakortið á þessu svæði vitum við alveg hvernig það lítur út. Þetta er mjög viðkvæmt svæði, allur þessi hluti landsins frá Raufarhöfn alveg norður á Þórshöfn, og það er ekki á bætandi að þessi þjónusta hverfi líka. Ég vona sannarlega að ráðherra segi í síðara svari sínu við mig og okkur hér að gripið verði inn í til að þetta verði ekki raunveruleg staða, að lögbundið eftirlit þurfi að fara fram með þeim hætti sem íbúar þessara svæða standa frammi fyrir núna.



[20:06]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur fyrir þessa fyrirspurn því að við gætum í raun og veru verið að ræða nánast hvaða þjónustu sem er á landinu. Þetta er tilhneigingin sem við höfum séð, að menn sinna sífellt verr dreifbýlustu svæðunum af því að það er ekki nógu arðbært. Við erum þar af leiðandi oft og tíðum í mörgum af þeim kerfum sem við erum með að setja upp svæði þar sem samkeppnisaðstæður eru og svo að setja upp stuðningskerfi af hálfu ríkisins til að tryggja að lágmarksþjónusta fari fram. Það kæmi þar af leiðandi alveg til greina á þessu sviði, þó að ég ítreki að ég tel að fyrirtækin sem sinna þessari starfsemi eigi að gera það. Það er auðvitað hægt að þvinga það fram með ýmsum hætti. Það mætti auðvitað hugsa sér einhvers konar landsvæðisleg útboð þar sem menn yrðu að gjöra svo vel að sinna öllum á hverju svæði.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmönnum Þórunni Egilsdóttur og Líneik Önnu Sævarsdóttur að það er algerlega óboðlegt að fara með farartæki, sem fer kannski aldrei út fyrir 15 km radíus alla jafna, og keyra fleiri hundruð kílómetra til þess eins að fara í skoðun. En ég tel líka að skoða eigi hinar færanlegu skoðunarstofur. Þær gætu leyst þetta. Einnig mætti athuga hvort hægt væri að semja við bifreiðaverkstæðin. En ég geri mér alveg grein fyrir því að þær kröfur sem við setjum um hlutleysi þar sem eru ekki mörg bifreiðaverkstæði og geta þá ekki sinnt bæði þjónustunni og viðhaldinu og einnig hinni óháðu skoðun, myndu gera að verkum að það gæti verið vandkvæðum bundið að gera þetta. En ég tel að með þessari umræðu höfum við vakið athygli á þessu og við í ráðuneytinu munum klárlega skoða hvort hægt sé að gera eitthvað til að tryggja lágmarksþjónustu.