150. löggjafarþing — 107. fundur
 20. maí 2020.
hugtakið mannhelgi.
fsp. ÓGunn, 630. mál. — Þskj. 1063.

[20:41]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Nú tökum við til í þriðju lotu við að ræða hugtakið mannhelgi í dag. Eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna og nokkurra ráðherra er hugtakið býsna víðfeðmt og skiptir töluverðu máli eftir því hvaða málaflokka maður ræðir hvernig það er skilgreint. Það er mikilvægt að gæta að og tryggja mannhelgi viðkvæmra hópa í samfélaginu. Í mínum huga er lykilatriði að við sem samfélag tryggjum að allir einstaklingar geti lifað mannsæmandi lífi og notið réttinda óháð bakgrunni og samfélagslegri stöðu. Einn hópur sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu er fatlað fólk, sem er oft og tíðum háð tiltekinni þjónustu samfélagsins og einstaklingum sem hana veita. Í allri þeirri umgengni er lykilatriði að mannhelgi fatlaðs fólks sé virt í einu og öllu og að það fái að njóta sömu réttinda og aðrir í því samhengi.

Við þurfum ekki að leita lengi að dæmum bæði úr nútíð og fortíð, frá fyrri tímum þar sem jafnvel þótti eðlilegt að fatlað fólk nyti ekki sömu réttinda og annað fólk með tilliti til heilbrigðisþjónustu, námstækifæra, búsetu og sjálfstæðis til ákvarðanatöku, svo eitthvað sé nefnt. Þar eru þeir hópar fatlaðs fólks í hvað viðkvæmastri stöðu sem ýmissa hluta vegna þurfa að reiða sig á aðra til að vera málsvarar þess. Því er umræðan mikilvæg og skiptir meðvitund um mannhelgi miklu máli í öllum samskiptum við fólk býr við fatlanir. Í raun má segja að fordómar gagnvart fötluðu fólki eða skilningsleysi á réttindum þess sé í raun brot á mannhelgi. Einnig má benda á að sambærilegir fordómar gagnvart eldra fólki, getu þess, væntingum og þrám og þörfum séu a.m.k. virðingarleysi fyrir mannhelgi, ef ekki brot á henni.

Á málasviði hæstv. ráðherra eru börn einnig viðföng og eiga sína mannhelgi. Henni eru gerð nokkur skil í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er hluti af íslenskum rétti. Nú á þessum síðustu tímum þegar við höfum verið að berjast við heimsfaraldur, hafa mannréttindi og réttindi fatlaðs fólks komist aftur í brennidepil. Þannig hefur t.d. komið upp sú staða á nokkrum stöðum að þjónusta hefur skerst og fatlaðir einstaklingar hafa ekki getað gengið að henni vísri. Það er vangavelta sem við eigum að taka á þessum tímum: Með því að leyfa okkur að skerða þjónustu þegar svona kemur upp, erum við þá að bregðast þessum einstaklingum hvað varðar réttindi þeirra og mannhelgi? Ég vísa til spurninganna í þingskjalinu, virðulegi forseti.



[20:44]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og fyrirspurnir á svipuðum slóðum til annarra ráðherra hér fyrr í dag og í kvöld. Spurningarnar sem beint var til mín voru tvær. Sú fyrri var hvort ráðherra teldi að skilgreiningin á hugtakinu mannhelgi væri fullnægjandi í lögum á málefnasviði ráðuneytisins. Eftir því sem næst verður komist er á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins einungis minnst á hugtakið mannhelgi í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Markmið þeirra laga er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Skal þjónustan miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.

Í IV. kafla laganna er fjallað um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Segir þar m.a. að tryggja skuli að fötluð börn fái nauðsynlega þjónustu svo þau geti notið mannréttinda og mannhelgi til jafns við önnur börn, lifað sjálfstæðu lífi og tekið þátt í samfélaginu án aðgreiningar.

Hugtakið mannhelgi er hins vegar ekki skilgreint í orðskýringum umræddra laga en vísað er til þess í greinargerð með frumvarpi því sem að lögum varð, að ákvæðið sem hugtakið birtist í sé til áréttingar á þeim rétti fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra til nauðsynlegrar þjónustu, sem sé grundvöllur þess að þau geti notið mannréttinda og möguleika sinna á við önnur börn. Þá er vísað til þess að ákvæðið byggist á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks varðandi réttindi fatlaðra barna, þá sérstaklega 7. gr., og lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þar er vísað til mannréttinda og mannfrelsis.

Um mannhelgi er einnig fjallað í 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. réttinn til frelsis og mannhelgi, á ensku kallað „right to liberty and security“. Réttindi þau sem fram koma í mannréttindasáttmála Evrópu eiga að vera tryggð hverjum þeim sem dvelst innan yfirráðasvæðis aðildarríkja. Sú staðreynd að sérstaklega sé minnst á mannhelgi í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er því til áréttingar á þeim rétti sem almennt á að vera öllum tryggður. Mannhelgi er ákveðinn kjarni mannréttinda og verður að telja að hugtakið hafi verið vel skilgreint, t.d. í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Því má í rauninni segja að skilgreiningin á hugtakinu liggi í mínum huga nokkurn veginn fyrir.

Síðan er spurning hvort ráðherra telji að hugtakið mannhelgi mætti koma skýrar fram í lögum á málefnasviði ráðuneytisins eða með öðrum hætti. Eins og áður segir kemur skýring á hugtakinu ekki fram í lögum á málefnasviði ráðuneytisins en hugtakið hefur verið skýrt á vettvangi þeirra er fjalla um og skýra mannréttindasáttmála Evrópu. Vissulega væri möguleiki á því að skýra hugtakið betur innan laga á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins.

Hv. þingmanni er því þökkuð þessi fyrirspurn. Mun hún verða til þess að við förum yfir þessi mál og setjum af stað vinnu við að skoða hvort ástæða sé til að skýra hugtakið betur innan laga á málefnasviði ráðuneytisins, bæði þeim í lögum sem hugtakið er notað og skýringin kemur ekki fram, og eins í öðrum lögum á málefnasviði ráðuneytisins.



[20:49]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil áfram benda á í þessari umræðu að fólk fari varlega og vandi sig sérstaklega mikið þegar við skilgreinum þetta mikilvæga hugtak af því að það á sína sögu. Hugtakið kemur inn sem undirstaða fyrir mannréttindi, fyrir grundvallarréttindi, fyrir borgararéttindi, stjórnmálaréttindi, þ.e. það sem þetta snýst allt saman um. Samfélagið sem við erum að búa til grundvallast á manninum, það er hann sem er með réttindi. Þetta kemur ekki upp úr engu. Þetta kemur upp úr því að við fórum í gegnum heimsstyrjöld í Þýskalandi með það sem fyrsta grunngildið, sem öll önnur grunngildi byggjast á, að maðurinn er í forgangi. Dómafordæmi um það — það er stjórnlagadómstóll þar — er að þegar sett voru lög í Þýskalandi sem heimiluðu að skjóta niður flugvélar sem hryðjuverkamenn tækju yfir sagði stjórlagadómstóllinn í Þýskalandi: Þessi lög eru brot á stjórnarskránni. Þau eru brot á mannhelgi. Það verður alltaf að setja manneskjuna í forgang.

Þannig að við það að skilgreina þetta hugtak horfum til arfleifðarinnar. (Forseti hringir.) Við horfum til þess hvaðan það kemur. Við horfum til þess að í lögum um mannréttindasáttmála Evrópu eru skilgreiningar á þessu og í öðrum lögum. (Forseti hringir.) Förum mjög varlega og vöndum okkur við þetta. (Forseti hringir.) Ég vil bara ítreka það enn frekar.



[20:50]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þakka fyrir orð hans um að ástæða sé til að skoða hugtakanotkun á málefnasviði ráðuneytisins. Ég vil jafnframt vísa í varnaðarorð hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar varðandi það að umræðan er vandasöm. Við eigum hér við þvílík grundvallargildi í allri okkar tilveru og hugsun að þarna þarf að fara með ýtrustu gát. Þá komum við til að mynda að því hvað mannréttindasáttmáli Evrópu kallar mannhelgi. Þar er öryggisnálgunin ríkjandi, þ.e. „human security“ — fyrirgefið, herra forseti, að ég noti ensku, en það var til skýringar. Það er nefnilega heilmikið mál að annars vegar skulum við smátt og smátt komast á þá skoðun að þetta sé kjarnagildi í samfélagi okkar og okkar vestrænu samfélögum, en á sama tíma er skilgreiningin dálítið fljótandi í íslenskum rétti. Það má til að mynda í því sambandi nefna að í almennum hegningarlögum er hvergi minnst á mannhelgi, en þar er t.d. talað um friðhelgi einkalífsins.

Þetta er mikilvæg umræða og ég vísa til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér fyrr í dag, að í vinnunni um stjórnarskrána, sérstaklega þegar kemur inn á næsta kjörtímabil, muni þetta hugtak verða eitt af því sem menn munu skoða og freista þess jafnvel að skilgreina betur og ná einhverri samstöðu um hvað við viljum að hugtakið þýði.



[20:53]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka þingmanninum aftur fyrir að taka þetta mál upp. Eins og ég sagði áðan er þetta orð að finna í einum lögum sem heyra undir ráðuneytið. Í þeim lögum er hugtakið ekki útskýrt í skýringum sem þeim fylgja. Hins vegar gefa menn sér í greinargerð og öðru hvað hugtakið þýðir og hvaðan það hafi upphaflega verið tekið og komið inn í lögin. En ég held að það sé góð brýning hjá þingmanninum að taka þetta hér upp, og ekki bara við einn ráðherra í dag heldur við fleiri, vegna þess að það hreyfir við þeirri umræðu að við hefjum formlega vinnu við skilgreiningu á hugtakinu og horfum til þess hvort ástæða sé til þess að setja það í fleiri lög eða taka það meira inn í vinnu okkar, skulum við segja, og á fleiri málefnasviðum. Ég þakka þingmanninum fyrir þá umræðu sem verið hefur um þetta mál og hlakka til samstarfs við hann og fleiri og til næstu skrefa hvað þetta snertir.