150. löggjafarþing — 108. fundur
 25. maí 2020.
nýting vindorku.

[15:34]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil við þetta tækifæri fá að beina fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra varðandi nýtingu vindorku. Nú hefur Orkustofnun lagt til 43 virkjunarkosti til skoðunar í tengslum við vinnu verkefnisstjórnar um rammaáætlun. 34 þeirra fjalla um vindorku, þ.e. vindmyllugarða sem dreifast vítt og breitt um landið. Í fréttum Stöðvar 2 í gær var viðtal við lögmann eigenda verkefnis utan við Búðardal. Ekki var hægt að skilja afstöðu lögmannsins öðruvísi en svo að hann teldi málefni vindorku í fullkomnum ólestri, eða eins og það var orðað í fréttinni, með leyfi forseta: „Þetta er tóm þvæla eins og þetta er gert í dag.“ Þarna kom fram það sjónarmið að umhverfisráðuneytið teldi nýtingu vindorku falla undir lög um rammaáætlun og var lýst bréfaskriftum á milli aðila þar að lútandi. Lögmaðurinn telur umhverfisráðuneytið vaða í villu hvað þetta varðar og telur réttaróvissuna, sem m.a. hverfist um ákvæði stjórnarskrár um eignarrétt og atvinnufrelsi, um skipulagsvald sveitarfélaga og jafnræði, vera þeirrar gerðar að bótaskylda geti skapast á hendur ríkisins vegna þessa.

Ég vil við þetta tækifæri spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga, þó að svarið við fyrstu spurningunni liggi svo sem dálítið í orðanna hljóðan hvað það varðar að umhverfisráðuneytið hafi lýst þeirri afstöðu sinni að málefni vindorku falli undir rammaáætlun. Í fyrsta lagi: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess hvort nýting vindorku eigi heima undir lögum um rammaáætlun? Í öðru lagi: Telur ráðherra að lög um umhverfismat og skipulagsvald sveitarfélaga nái nægilega utan um þessi verkefni? Og í þriðja lagi: Ef ráðherra telur regluverkinu ábótavant, má eiga von á útspili ráðherra hvað breytingar varðar og í hverju munu þær breytingar helst felast?



[15:36]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun, þ.e. allt sem er yfir 10 MW. Fyrsta skiptið sem orkunýtingarkostir sem þessir voru teknir fyrir í rammaáætlun var þegar verkefnisstjórn 3. áfanga fjallaði um tvo kosti, annars vegar vindorkuver við Blöndu og hins vegar á hafinu fyrir ofan Búrfell, þannig að það er alveg klárt í okkar huga að þetta heyrir þarna undir.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort skipulagslög, mat á umhverfisáhrifum, og gott ef hann nefndi ekki einhver ein lög í viðbót, séu nægjanleg til þess að takast á við þetta þá höfum við komið okkur saman um að stórir orkukostir, sem eru til umfjöllunar hverju sinni í samfélaginu, eigi að fara fyrir rammaáætlun og ég tel að það sé mikilvægt að við höldum áfram á þeirri leið. Það þýðir hins vegar ekki að það geti verið að mismunandi leiðir henti fyrir mismunandi orkuvinnslukosti. Það getur hentað betur að fara eina leið þegar kemur að vindi en aðra þegar kemur að vatni, þ.e. þegar verið er að meta með hvaða hætti eigi að flokka þetta í svæði sem ber að vernda og svæði sem ber að nýta. Í því augnamiði erum við að skoða leiðir í ráðuneytinu, og höfum verið að því í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, hvort við ættum að horfa til frekari útfærslu á því þegar kemur að vindorkunni. Ég get komið nánar inn á þetta í síðara svari ef hv. þingmaður hefur áhuga á að heyra meira um það.



[15:38]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þó að stuttur tími sé í seinni umferð væri áhugavert að heyra frekar um þessar vangaveltur ráðherrans er snúa að nýtingu vindorku. En bara til að ég átti mig almennilega á því þá er í rauninni afstaða ráðherra sú að verkefni yfir 10 MW fari undir rammaáætlunina en verkefni undir 10 MW séu þar utan.

Síðan væri, ef tími vinnst til, áhugavert að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til vindmyllugarða og þess að nýta vindorku með þeim hætti sem þar er stundað á breiðum grunni. Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessara svokölluðu vindmyllugarða? Hugnast ráðherranum þetta vel sem framtíðarorkunýting eða hefur hann efasemdir um að þarna sé fetuð skynsamleg leið?



[15:39]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það sem verið er að skoða núna á milli þeirra þriggja ráðuneyta sem ég nefndi er hvort hægt sé að horfa til nýtingar vindorkuhugmynda með þeim hætti að við skoðum heildrænt yfir landið hvar þessir kostir eigi við og hvar ekki, að grófskipta því með þeim hætti og þegar við vitum hvar þeir eiga ekki við út frá einhverjum ákveðnum viðmiðum — gæti verið friðlýst svæði, viðkvæmt fuglasvæði o.s.frv. — þá erum við búin að takmarka í rauninni það svæði þar sem hægt væri að nýta það og síðan yrði þá ákveðin málsmeðferð utan um þau svæði þar sem hægt er að nýta það og það er eitthvað sem við erum að skoða núna á milli ráðuneytanna.

Ég held að við þurfum að fara varlega í vindorkuna rétt eins og annað, þ.e. gera það út frá þeim þáttum sem snúa að náttúrunni og náttúruverndinni, (Forseti hringir.) til þess að við getum áfram verið hér það land sem við auglýsum okkur fyrir að vera (Forseti hringir.) sem hentar vel fyrir ferðaþjónustu, en tel að sjálfsögðu að vindorka (Forseti hringir.) sé eitthvað sem við eigum að skoða líka jafnframt öðrum kostum.