150. löggjafarþing — 109. fundur
 28. maí 2020.
fjöleignarhús, 2. umræða.
stjfrv., 468. mál (hleðslubúnaður fyrir rafbíla). — Þskj. 682, nál. m. brtt. 1484.

[20:44]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Það er nú að koma kvöld á þessum langa degi hér í þinginu. Ég ætla að flytja nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum, um hleðslubúnað fyrir rafbíla, frá meiri hluta velferðarnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnhildi Gunnarsdóttur og Ástu Margréti Sigurðardóttur frá félagsmálaráðuneytinu, Árna Davíðsson, Stefán Birni Sverrisson og Jóhann G. Ólafsson frá Rafbílasambandi Íslands, Kristján Daníel Sigurbergsson frá Samtökum rafverktaka og Berg Þorra Benjamínsson frá Sjálfsbjörgu – landssambandi hreyfihamlaðra. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Árna Davíðssyni, Rafbílasambandi Íslands, Samorku, SART – samtökum rafverktaka og Sjálfsbjörgu – landssambandi hreyfihamlaðra.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um hleðslubúnað fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum fyrir rafbíla um hvernig eigandi, sem óskar eftir því að hleðslubúnaði verði komið upp fyrir rafbíla við bílastæði á lóð fjöleignarhúss, skuli bera sig að. Nefndinni bárust umsagnir frá fimm aðilum sem flestar voru jákvæðar. Umsagnaraðilar taka flestir undir markmið frumvarpsins og telja mikilvægt að það nái fram að ganga.

Í frumvarpinu er lagt til að kostnaður vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla verði sérkostnaður eiganda ef um sérstæði/séreign viðkomandi er að ræða. Ef um er að ræða sameign er aftur á móti gert ráð fyrir því að um sé að ræða sameiginlegan kostnað allra eigenda sem hafa heimild til afnota af viðkomandi stæði.

Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að með frumvarpinu væri gengið of langt í að veita eigendum rafbíla rétt til að skylda aðra eigendur í fjöleignarhúsum til að standa undir byggingu og rekstri hleðslubúnaðar fyrir ökutæki sín og eðlilegra væri að hver bæri kostnað af sinni bifreið og rekstri hennar en einnig mætti skoða að færa rekstur bílastæða í sérfélög eins og þekkist í sumum nágrannalöndum þannig að notendur stæðu undir rekstri bílastæða en ekki aðrir.

Þá var nefndinni bent á að margir rafbílaeigendur hafi nú þegar sett upp sína eigin hleðslustöð og staðið undir kostnaði af því. Því væri ósanngjarnt að þeir þyrftu að greiða fyrir sameiginlega hleðslustöð og þannig borga í raun tvöfaldan kostnað við uppsetningu slíkra stöðva.

Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt 9. mgr. d-liðar 5. gr. frumvarpsins verður húsfélagi heimilt að krefjast þóknunar fyrir notkun stæða sem greidd hafa verið sameiginlega af húsfélagi en ekki þeirra sem rafbílaeigendur hafa nú þegar sett upp. Frumvarpinu er auk þess ætlað að tryggja að þeir sem ekki eiga hagsmuna að gæta þurfi ekki að bera kostnað af uppsetningu hleðslubúnaðar. Þannig kemur fram í greinargerð að það verði að telja „sanngjarnt og eðlilegt að allir þeir sem hafa afnotamöguleika af viðkomandi bílastæðum taki þátt í umræddum kostnaði, enda verður þeim og fólki á þeirra vegum heimilt að nýta sér umrædda aðstöðu til framtíðar.“ Í greinargerð kemur auk þess fram dæmi um að fylgi ákveðnum hluta íbúða ekki stæði, hvorki sérstæði né sameiginleg og óskipt, þurfi eigendur slíkra íbúða ekki að bera kostnað af hleðslubúnaði enda teljist hann einungis sameiginlegur kostnaður þeirra sem hafa bílastæði í séreign, bílastæði í sameign sem fylgir séreignarhluta viðkomandi eða heimild til afnota af sameiginlegum og óskiptum bílastæðum á lóð fjöleignarhúss.

Auk þess er mikilvægt að líta til þeirrar samfélagslegu sáttar sem hefur skapast um að nýta raforku landsins til umhverfisverndar og áréttar meiri hlutinn að frumvarpið er liður í að ýta frekar undir þá þróun. Frekari rafbílanotkun geti skapað hreinna og betra samfélag fyrir alla og því um mikilvægt framfaraskref að ræða.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að með frumvarpinu væri ekki tryggt samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var 23. september 2016 með ályktun Alþingis. Í 9. gr. samningsins er kveðið á um skyldu aðildarríkja til að gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart aðgengi og ryðja úr vegi hindrunum til gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum. Ákvæðið á m.a. við um samgöngur, aðgengi að upplýsingatækni, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Til að ákvæði samningsins væru uppfyllt bæri að kveða á um að þar sem hleðslubúnaði yrði komið fyrir yrði einnig að setja hann upp í stæðum sem ætluð eru fyrir fatlaða einstaklinga. Þá var nefndinni bent á að við uppsetningu hleðslubúnaðar og hleðslustæða á vegum sveitarfélaga hefði slíkur búnaður ekki verið settur í stæði fyrir fatlaða einstaklinga og aðgengi þeirra að honum ekki tryggt.

Meiri hlutinn bendir á að fatlaðir einstaklingar sem búa í fjöleignarhúsum hafa sömu réttindi og aðrir til að óska eftir hleðslustöðvum við stæði. Auk þessa geta húsfélög ákveðið að setja hleðslustöðvar við stæði fyrir fatlaða eða jafnvel á mörkum slíkra stæða og almennra svo að stöð geti nýst fleirum. Mikilvægt er einnig að huga að aðgengi þess hleðslubúnaðar sem komið er upp þannig að ekkert hamli aðgengi að búnaðinum, hjólastólar komist að svo að fatlaðir einstaklingar geti notað hann þó svo að hann sé ekki við stæði sem ætlað er fötluðum einstaklingum. Meiri hlutinn áréttar enn fremur mikilvægi þess að aðgengi sé tryggt fyrir alla og brýnir fyrir stjórnvöldum að huga að aðgengismálum í ákvarðanatöku sinni hvort sem um er að ræða staðsetningu og uppsetningu hleðslustöðva eða aðra þætti.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar tæknilegar breytingar til lagfæringa og til að tryggja réttar tilvísanir til ákvæða sem fá með frumvarpinu ný greinarnúmer. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem finna má með nefndaráliti þessu. En virðulegur forseti, ég ætla ekki að lesa þá breytingartillögu, hún er það tæknilegs eðlis að það myndi ekki nokkur maður skilja hana.

Undir nefndarálitið rita framsögumaður Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara, Helga Vala Helgadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Vilhjálmur Árnason.



[20:52]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fínu framsögu á mjög góðu og gegnu máli. Það sem mig langar til að spyrja um er: Er tekinn af allur vafi um að þetta aðgengi verði tryggt? Eða er þetta svona eins og oftast áður, þegar við erum að glíma við og reyna að keyra í gegn réttindi fatlaðs fólks, að það er einhver „góður vilji“ og „fallegt tal“ en kannski ekkert um raunverulegar framkvæmdir? Eins og í þessu tilviki, sennilega, sem er með hreinum ólíkindum. Ég hef sterkt á tilfinningunni að það eigi ekkert að tryggja aðgengi fatlaðra að þessum hleðslustöðvum, það sé sem sagt ekki hafið yfir allan vafa að þeir geti notið sömu réttinda og aðrir þegar kemur að því, og oftar en ekki, eins og við sjáum í samfélaginu, að þegar fatlaðir koma og ætla að tengja sig í stöðvar, þessar fáu sem til eru, þá rekast þeir venjulega á kant eða eitthvað slíkt þannig að þeir sitja þar fastir.

Ég vona svo sannarlega að ég sé bara algjörlega í bullinu, virðulegi forseti, en ég er ansi hrædd um að svo sé ekki að þessu sinni.



[20:54]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek bara undir áhyggjur hv. þingmanns af því sem kemur fram í andsvarinu, að það sé ekki hugsunin að tryggja fullt aðgengi fatlaðra að þessari þjónustu almennt í samfélaginu og í fjöleignarhúsum. Þetta kom rækilega fram fyrir nefndinni. Við ræddum við formann Sjálfsbjargar, Berg Benjamínsson, um þessi mál. Skilningur okkar í nefndinni er alveg klár, að tryggja eigi þetta aðgengi. En við höfum séð það í gegnum starf okkar í nefndinni, og í gegnum þau frumvörp sem eru nú í gangi á öðrum vígstöðvum, að því miður er ekki alltaf nógu vel hugað að aðgengi fyrir fatlaða, jafnvel þó að það sé lögbundið. Það er auðvitað mikill misbrestur á því víða í samfélaginu, hjá sveitarfélögum, einstaklingum og fyrirtækjum, að aðgengi fatlaðra sé tryggt. Við sjáum þetta líka í nýbyggingum sem er verið að taka út og afhenda. Þar er aðgengi fatlaðra ekki tryggt samkvæmt byggingarreglugerð. Þess vegna tek ég undir áhyggjur hv. þm. Ingu Sæland. Það er auðvitað okkar hlutverk og skilningur og vilji að þau skilaboð frá okkur fari alla leið og þetta aðgengi verði bætt eins og við óskum eftir og viljum tryggja.



[20:55]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrir svarið. Ég heyri það og veit að hann er með hjartað á réttum stað hvað þetta varðar og er hér af alúð og vilja að fylgja þessu eftir af góðum hug. En ég vil gleðja hv. þingmann með því að þetta er eitthvað sem við getum ákveðið í sölum Alþingis. Þetta er eitthvað sem þarf ekki að vera innan gæsalappa ef við viljum hafa það tryggt. Við höfum líka okkar úrræði til að ganga svo frá og búa svo um hnútana að því verði fylgt eftir, þannig að núna á þessum tíma, framfaratíma, þegar við erum að reyna að skipta yfir í vistvæna græna orku og breyta fjöleignarhúsum, að reyna að koma til móts við akkúrat þær framfarir í samfélaginu sem við byggjum á, þá gætum við gengið á undan með góðu fordæmi.

Hvað lýtur að öðrum vanköntum í samfélaginu, sem snúa að fötluðu fólki, þá getum við a.m.k. byrjað þarna og reynt að fylgja því almennilega eftir. Þetta er ástæðan fyrir því að minn góði samflokksmaður, Guðmundur Ingi Kristinsson, skrifar undir þetta annars ágæta álit með fyrirvara, en að öðru leyti er um mjög gott frumvarp að ræða. En eins og ég segi er það okkar hér að vinna með það. Nú kemur málið aftur fyrir nefndina og við getum bara fylgt þessu enn betur eftir. Ég vil trúa því og efast ekki um það eina mínútu að hver einasti þingmaður hér inni muni taka undir það að þessu sinni að tryggja þessi mannréttindi fatlaðs fólks, að geta náð sér í græna orku hjálparlaust í sínum hjólastól eins og allir aðrir. Þannig eigum við að hafa það.



[20:58]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þessi orð, við erum alveg á sama stað í þessu. Ég vil líka geta þess að ég átti gott samstarf við Berg Benjamínsson um þessi mál þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni, og eins þegar við vorum að ganga frá nefndarálitinu þá hafði ég samband við hann. Ég held að þeir sem við erum að vinna fyrir telji að hér sé nokkuð vel tryggt að sú hugsun sem hefur komið fram í ræðum okkar nái fram að ganga. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að það er algerlega klárt að allur þingheimur vill að staðið verði 100% við þau lög, að aðgengisreglur og aðgengismál fatlaðra verði til fyrirmyndar og það verði okkur öllum til ánægju að hafa tekið þátt í því að gera hlutina þannig.



[20:59]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni Ásmundi Friðrikssyni fyrir afbragðskynningu á nefndaráliti velferðarnefndar í þessu máli. Það er auðvitað eðlilegt að lagabreyting af þessu tagi líti dagsins ljós á okkar tímum þegar við erum að fikra okkur inn í breytt orkuumhverfi og taka nýja orkugjafa í notkun í auknum mæli, sem er rafmagn. Það eru ekki allir sem búa í séreign og í vaxandi mæli munum við líklega búa í fjöleignarhúsum. Ég held að lög um fjöleignarhús frá árinu 1994 taki alveg utan um þetta með skýrum hætti, að það sé sameiginlegt átak að koma upp aðstöðu sem þessari, enda sé þá ekki viðkomandi bílastæði, eitt eða fleiri, eign viðkomandi til sérafnota fyrir einn eða fáa. Þetta á auðvitað ekki bara við um fatlaða, þetta á við um almenn fjöleignarhús og líka húsnæði fyrir aldraða.

Mig langar að spyrja hv. framsögumann: Eitt er að koma þessari aðstöðu upp, hitt er svo reksturinn á þessum stöðvum og notkunin. Er þá gert ráð fyrir að það verði líka sameign eða er gert ráð fyrir því að greiðsla komi úr sameiginlegum sjóði fjöleignarhússins?



[21:01]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessar hugleiðingar. Hann spurði um reksturinn á þessum hleðslustöðvum. Það er gert ráð fyrir því að einstaklingar geti sjálfir sett upp sínar hleðslustöðvar. En fjöleignarhúsin geta tekið sameiginlega ákvörðun um að setja upp slíkar hleðslustöðvar fyrir sameignina þar sem allir taka þátt, hvort sem stæðin eru innan eða utan dyra, og ég held að það sé bara mjög mikilvægt. Það er líka tekið á því að aðgengi að þeim hleðslutækjum sé fyrir alla. Og eins kom líka fram að þau séu jafnvel á mörkum stæða fyrir fatlaða og ófatlaða. Ég held að sú hugsun að allir geti notið og beri sambærilegan kostnað komi ágætlega fram í þessu og það er mér og fyrirspyrjanda mjög hugleikið að það sé þannig.



[21:03]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni, Ásmundi Friðrikssyni, fyrir svarið. Lög um fjöleignarhús eru frá árinu 1994. Ég held að í 6. og 8. gr. sé tekið á því hvað tilheyrir sameign og hvað ekki og ég held að það sé óyggjandi að bílastæði gera það. En ég velti fyrir mér hvort þetta muni mæta einhverri tortryggni hjá íbúum því að við þekkjum mörg dæmi um að íbúum í fjöleignarhúsi, sem búa kannski í sex, sjö hæða húsi, og þakið fer að leka, að þeim sem búa á neðri hæðunum finnst algjörlega fráleitt að þeir séu að taka þátt í leku þaki eða lekum lögnum í sameign sem þeir verða ekki varir við. Þetta er nú svona.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann um eitt, af því að ég hef ekki kynnt mér umsagnir eða gestakomur til nefndarinnar: Bar eitthvað á því í umsögnum að menn legðust gegn þessu, væru neikvæðir gagnvart því að túlka þetta með þessum hætti, að um sameign væri að ræða? Er eitthvað sérstakt í veginum? Er hægt að hindra það eða meina einstaklingi sem býr í fjöleignarhúsi að setja upp sína eigin stöð? Þarf hann að leita samþykkis hússtjórnar fyrir slíkri framkvæmd, sem ég geri frekar ráð fyrir að þurfi?



[21:05]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð um liðið frá því að við sömdum þetta nefndarálit og málið hefur legið í salti í því ástandi sem verið hefur í samfélaginu. En fram komu athugasemdir um að of langt væri gengið í því að þetta væri sem sagt sameiginlegt verkefni í húsfélagi og einstaklingar ættu að geta tekið sérstakar ákvarðanir um að vera ekki með, þannig að þau sjónarmið komu fram. En umsagnir flestra tóku undir markmið frumvarpsins og töldu mikilvægt að það næði fram að ganga. Það er nú það sem ég get sagt um þetta. Það er auðvitað þekkt fyrirbæri, sérstaklega í nágrannalöndum okkar, að rekstur bílastæða, jafnvel í fjölbýlishúsum, sé í sérfélögum innan þeirra, þannig að það eru svo sem ýmsar leiðir sem hægt er að fara í þessu.



[21:06]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem aðallega hingað til að velta upp einu atriði og óska eftir, ef ekki er búið að því, að málið gangi til nefndar milli umræðna. Sú aðferð sem Reykjavíkurborg notar m.a. er að búa til sjóð, styrktarsjóð, þangað sem hægt er að sækja um styrki til að koma upp slíkum rafhleðslubúnaði. Ég hugsa að það væri ágætt að taka góða umræðu um þá leið.

Ég fór síðan að líta aðeins á nefndarálitið og frumvarpið áðan. Hugsunin á bak við það er vitanlega góð, þ.e. að skýra leikreglur þegar kemur að því vandamáli sem við erum í í dag að í mörgum gömlum húsum er ekki gert ráð fyrir hleðslustöðvum og slíku og sjálfsagt er það svo í mjög fáum fjölbýlishúsum nema þeim sem hreinlega er verið að byggja. Mér hugnast ekki að hægt sé að skylda alla íbúa eða íbúðareigendur til að taka þátt í slíkum kostnaði. Ég velti fyrir sér hvort við séum ekki farin að ráðskast töluvert mikið með réttindi fólks til að ráðstafa fjármunum sínum og eignum þegar að þessu kemur. Ég ætla ekki að nefna nein dæmi en ég velti fyrir mér hvort upp geti komið annars konar atriði, tæknibreytingar eða aðrar aðstæður, þar sem íbúi, segjum bara einhver á mótorhjóli, þurfi að fá sérstakt stæði eða aðstöðu við húsið fyrir slíkt farartæki, að þá verði litið svo á að menn hafi farið þá leið með rafbílana að skylda alla til að taka þátt í því og hvers vegna þá ekki í þessu líka?

Ég held að þetta sé ekki rétt leið að fara núna. Mögulegt hefði verið að fara þá leið, og vil ég bara velta því upp án þess að hafa endilega hugsað það mjög djúpt, ég tek það fram, að eigendur rafbíla þar sem eru næg bílastæði, það þarf vitanlega að vera háð því að bílastæði fylgi hverri íbúð, fái hreinlega úthlutað ákveðnu bílastæði og sjái svo sjálfir um að setja þennan búnað upp.

Mér finnst heldur mikið ráðskast með fólk í fjölbýlishúsum að skylda það til að gera þetta. En ég hef skilning á þörfinni, að það þurfi að skýra reglurnar og þetta þurfi að liggja fyrir. En það er svolítið eins og í ráðstjórnarríkjunum að segja fólki að taka þátt í þessu.

Ég óska eftir því að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr.