150. löggjafarþing — 110. fundur
 29. maí 2020.
atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 813. mál (framlenging hlutabótaleiðar). — Þskj. 1427, nál. 1545, 1557 og 1560, breytingartillaga 1546 og 1561.

[19:30]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér framlengingu á svokallaðri hlutabótaleið. Þau tvö mál sem við höfum verið að ræða hér í þingsal síðustu daga, þ.e. aðstoð við greiðslu launa í uppsagnarfresti og svo hlutabótaleiðin, eru mál sem tengjast nokkuð mikið. Það hefur komið fram, og kom fram strax í upphafi þegar ráðherrar málaflokkanna mæltu fyrir þeim, að þau væru mál sem erfitt væri að ræða, erfitt að meta kostnað við eða meta önnur áhrif án tillits til þess hvernig hitt málið færi. Það sem hefur flækt alla umræðu er sú staðreynd að málunum er vísað hvoru til sinnar nefndarinnar og þau eru unnin hvort í sínu lagi. Ef maður skoðar umræðuna sem frá upphafi hefur verið um málin þá hafa ýmsir orðið til þess víða úr flokkum að stinga upp á því að þau yrðu rædd saman í sömu nefnd, annaðhvort sem eitt og sama mál eða aðskilin, eins og nú er til að þau myndu þróast og þroskast saman og að menn hefðu sameiginlegan skilning á því í hvaða átt væri verið að fara. Staðreyndin er sú að upplifunin er á þann veg að þessi mál hafi í meðförum nefnda síðustu daga svolítið verið að færast í ólíkar áttir. Þá vaknar sú spurning hvort það þjóni best hagsmunum þeirra sem málunum er ætlað að þjóna.

Ég ætla ekki að ræða þau bæði. Ég ætla að ræða hlutabótamálið. Ég er sem áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd samþykk nefndaráliti og breytingartillögum frá 2. minni hluta nefndarinnar. Formaður velferðarnefndar og framsögumaður þess álits fór vel og ítarlega yfir það í ræðu sinni fyrr í dag. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar með því að fara í sama farveg heldur nefna nokkur mál. En til aukins skýrleika tek ég fram að ég tek heils hugar undir það sem hv. formaður velferðarnefndar, Helga Vala Helgadóttir, ræddi í sínu máli, um þær forsendur sem liggja til grundvallar þeim breytingartillögum sem minni hlutinn leggur til og annað sem fjallað var um þar.

Mig langar að byrja á því að víkja máli að umræddri skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem kom út í gær. 2. minni hluti bregst við þeirri skýrslu í áliti sínu, þótti rétt að gera það, og í breytingartillögum. Það vakti athygli mína að heyra framsögumann meiri hlutans, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, tala í framsöguræðu sinni eins og ekki gengi hnífurinn á milli skýrslu Ríkisendurskoðunar og þess álits. Ég er einfaldlega ósammála því. Þar finnst mér t.d. verið að rugla saman hugtakinu skilyrðum, sem eru vægast sagt mörg og ítarleg hjá meiri hluta velferðarnefndar, og hugtakinu eftirliti, sem ríkisendurskoðanda verður tíðrætt um. Ríkisendurskoðandi talar mikið um það að á meðan allt bendi til þess að hlutastarfaleiðin hafi nýst vel til að tryggja framfærslu launamanna, styðja við vinnuveitendur vegna samdráttar og viðhalda ráðningarsambandi, sem er nákvæmlega það sem þessu máli var ætlað að gera og er ætlað að gera, hafi komið í ljós, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að um væri að ræða stuðning við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur, að svo virtist sem nokkurt frjálsræði hefði verið á túlkun laganna. Með öðrum orðum þyrfti ekki endilega stífari skilyrði og að þrengja þetta enn frekar heldur þyrfti að hafa eftirlit með því að það yrði framkvæmt sem ætlast var til af lögunum eins og þau voru og þeim lögskýringargögnum sem þá lágu fyrir. Þannig sé haft eftirlit með nýtingu ríkisfjár eins og Ríkisendurskoðun ber að gera og staðinn vörður um hagsmuni ríkissjóðs.

Þá veltir maður því líka fyrir sér hvað hefði mátt fara betur í fyrra málinu sem hægt hefði verið að laga hér. Þá koma upp atriði á borð við það sem við reynum að mæta í áliti 2. minni hluta, t.d. skilgreining á því hvað er „alvarlegur rekstrarvandi“ og hvað er „mikið tekjutap“. Það þarf ekkert að fara saman. Síðan er það sem Ríkisendurskoðun leggur mjög mikla áherslu á í skýrslu sinni, mikilvægi þess að rauntímaeftirlit sé viðhaft og Vinnumálastofnun sé gert kleift að sinna því. Og það er annað sem við bregðumst við í tillögum og áliti 2. minni hluta. Ef við förum yfir þau atriði sem hér er að finna og sérstaklega er drepið á í áliti minni hlutans — ég ætla ekki alveg að skauta yfir það þó að ég ætli ekki að hafa mörg orð um það — þá eru það upplýsingar um fyrirtæki sem nýta sér stuðning. Frumvarpið gerir einfaldlega ráð fyrir því að veittar séu upplýsingar um þau fyrirtæki en í tillögum meiri hluta er gerð tillaga um að það verði einskorðað við fyrirtæki með fleiri starfsmenn en sex. Það er, svo að því sé haldið til haga, fyrirkomulagið sem Vinnumálastofnun viðhefur í dag. Við í 2. minni hluta leggjum hins vegar til að þetta sé haft óbreytt, að það eigi við um öll fyrirtæki af því að við lítum svo á að upplýsingaskyldan sé svo rík og upplýsingagjöfin það mikilvæg og við sjáum heldur ekki rökin fyrir því að gera þann greinarmun.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að 85% þeirra 6.432 fyrirtækja, held ég að sé, sem hafa nýtt sér leiðina séu með sex starfsmenn eða færri. Það er þá verið að undanskilja þann stóra hóp. Ég verð að segja fyrir mitt leyti: Mér þykir miklu æskilegra að birtur verði listi yfir öll þessi fyrirtæki, litlu fyrirtækin líka. Í því felst ákveðið aðhald og ég myndi vilja slaka á, rétt eins og lagt er til í breytingartillögum 2. minni hluta, mörgum af þessum rekstrarlegu skilyrðum sem gefin eru vegna þess að þeim er ætlað að koma í veg fyrir að mjög vel rekin, vel stödd, vel stöndug fyrirtæki, sem vissulega hafa orðið fyrir tekjutapi, það er eitt skilyrðanna, ofnýti úrræðið; koma í veg fyrir að þau nýti sér úrræði sem þau þurfa ekki á að halda. Ég sé ekki fyrir mér að mörg fyrirtæki með sex starfsmenn eða færri sem verða fyrir gríðarlega miklu tekjutapi geti lifað af án þess að nýta sér úrræðið eða muni laða að sér gríðarlega fjármuni sem þau eiga ekki rétt á þó að slakað sé á skilyrðum um arðgreiðslur næstu þrjú árin eða kaup á eigin hlutabréfum. Við vitum að mörg af þessum smærri fyrirtækjum, ekki síst í ferðaþjónustu, þeim atvinnuvegi sem við erum að leggja allt undir núna til að vernda og halda á lífi, eru í eigu einstaklinga sem hafa lagt allt að veði til að halda fyrirtækjunum, koma þeim á laggirnar, m.a. með því að veðsetja eigið húsnæði. Arðgreiðslur næstu ára, ef reksturinn fer samkvæmt áætlun fyrir Covid, hjá svona fyrirtækjum fara í að létta veðum af þeim eignum. Það er ekki óráðsía. Þaðan af síður eiga arðgreiðslur að skapa huglæg tengsl við skattsvik, eins og mér hefur þótt margir skauta ansi nálægt í orðræðunni. Það er einfaldlega himinn og haf þar á milli. Rétt er að benda á í því tilliti að sú atvinnugrein sem mögulega hefur komið illu orði á arðgreiðslur frá íslenskum almenningi á síðustu vikum, mánuðum og árum hefur ekki farið varhluta af beinum eða óbeinum ríkisstuðningi. Það er miklu stærri umræða ef menn ætla að fara að hjóla í lög um arðgreiðslur fyrirtækja. Það er kannski vert að skoða svolítið.

Þau 85% fyrirtækja af 6.432 sem eru með sex starfsmenn eða færri eru ein stærðin sem er vert að hafa í huga þegar verið er að tala um öll þessi stífu skilyrði sem að mínu viti, og okkar sem stöndum að þessu áliti, eru jafnvel líkleg til að ganga gegn yfirlýstu markmiði um að gæta hags launþega hjá viðkomandi fyrirtækjum. Sá hagur er samofinn hag fyrirtækjanna sem um ræðir. Við skoðuðum hvernig menn hafa farið að í nágrannalöndunum og það verður að segjast eins og er að annars staðar á Norðurlöndum eru í gildi kerfi sem buðu upp á miklu sneggri viðbrögð. Það var eiginlega innbyggt í þau kerfi sem þegar eru til staðar að bregðast við sveiflum eins og við erum að upplifa núna. Svona kvaðir, eins og hér er verið að leggja til af hálfu meiri hlutans að lagðar verði á öll fyrirtæki sem nýta sér hlutabótaleiðina, eiga sér ekki hliðstæðu annars staðar á Norðurlöndum. Þó fann ég yfirlýsingu í Danmörku um að arður verði ekki greiddur eða eigin hlutir keyptir á fjárhagsárinu 2021 ef fyrirtæki þiggja meira en 60 milljónir danskra króna í stuðning frá ríkinu. Það eru 1,2 milljarðar íslenskra króna, svo að það sé sett í samhengi. Við vitum að hér á landi erum við að spila á töluvert minni markaði, með lægri fjárhæðir. Þegar við skoðum listann í skýrslu Ríkisendurskoðunar yfir þau fyrirtæki hvers launþegar hafa notið stuðnings eða styrks eftir hlutabótaleiðinni þá hafa 27 fyrirtæki fengið meira en 30 milljónir. Það sem fékk mest, og við vitum öll að það er Icelandair, fékk tæpan milljarð. Næstu fyrirtæki þar á eftir, sem eru öflug og stór fyrirtæki í ferðaþjónustu, eru með 100–200 milljónir og síðan fer þetta hratt niður. Yfir 30 milljóna markið hafa farið 27 fyrirtæki af 6.432. Við erum sammála þeim markmiðum sem stefnt er að, við viljum ekki að úrræðin séu misnotuð. Stjórnendur margra fyrirtækja lifa í nú í þeim veruleika eins og aðrir að upplifa mikið tekjutap en ef reksturinn stendur styrkum fótum er það okkar mat að það sé miklu eðlilegra að stjórnendur stöndugra fyrirtækja sýni þann siðferðislega styrk að ganga ekki í þessa sjóði vegna þess að við vitum alveg hver staða ríkissjóðs er og mun verða.

Við vitum líka að viðskiptavild skiptir fyrirtækin miklu máli. Það er ástæðan fyrir því að þegar upplýsingar fóru á flot um hvaða fyrirtæki þetta væru þá endurgreiddu ákveðin fyrirtæki stuðninginn. Það er hluti af kerfinu okkar. Það er líka hluti af því sem segir að það sé að virka, til að reyna að forðast að það verði of óaðgengilegt. Að skömm sé fólgin í því að sækjast eftir úrræðinu, af því að þá sé maður kominn í lið með einhverjum óæskilegum, getur ekki verið það sem við ætlum að stefna að. Við hljótum að geta verndað ríkissjóð á annan og uppbyggilegri hátt en með því að girða af og gera þetta fullkomlega óaðgengilegt. Við leggjum til 50 milljóna mörk. Fyrirtæki sem hafa fengið styrk eða munu hljóta styrk yfir þeirri upphæð gangast undir þær kvaðir. Þau eru ekki mörg. Ég hefði kannski sagt fyrir tveimur, þremur dögum að þeim ætti eftir að fjölga en nú er ég bara hreint ekki viss af því að ég átta mig engan veginn á áhrifunum af samspili þessara tveggja leiða, þessarar og aðstoðar við laun á uppsagnarfresti. Kannski fækkar þeim bara, kannski þýðir þetta að enginn tekur þetta. En við erum alla vega að koma inn með þær leiðir til að reyna að ýta undir það að lítil fyrirtæki, sem eru með tekjutap einhvers staðar á bilinu 25–75%, geti þegið þennan ríkisstuðning til að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt. Starfsfólkið er betur sett þarna en að fara á uppsagnarfrest en samt er ekki lokað fyrir það að það sé eftirsóknarvert, jákvætt og gott að vera að fara í hefðbundinn rekstur og skila hagnaði innan tíðar. Við erum líka að leggja það til að fyrirtæki sem myndu falla undir þessi skilyrði, geta ekki þegið þetta og á sama tíma greitt út arð á næstu tveim árum, geti endurgreitt án þess að þurfa að greiða 15% álag eins og lagt er til af meiri hlutanum ef þau eiga frumkvæði. Öðru máli gegnir ef menn verða uppvísir að því að hafa reynt að skjóta sér undan þessu og þá er að mínu mati fullkomlega eðlilegt að leggja sektarálag á. Þetta eru svona tilhliðranir sem ég og aðrir sem að þessu áliti standa erum sannfærð um að séu til mikilla bóta.

Við tókumst töluvert á, svo að það sé sagt, um launaþak í lögunum. Það er launaþak í þessu máli, þrjár milljónir. Ég er ekki hrifin af því og er talsmaður flokks sem er ekki hrifinn af því. Við teljum það geta hamlað samkeppnishæfni fyrirtækja. Við teljum að það sé ekki, bara af prinsippástæðum, eðlilegt að Alþingi sé að hlutast til um þau mál. Ég átta mig á því að á móti kemur að menn segja: En eru prinsipp fyrir því að fyrirtæki fái ríkisaðstoð? Það er það ekki en við vitum af hvaða ástæðum það var en þá stígum við ekki meira inn en við þurfum. Ég held að það geti haft verri áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja til lengri tíma litið. Það situr líka í mér að þetta eigi að einskorðast við stjórnendur. Við þekkjum það, vonandi mörg, að það eru ekki alltaf stjórnendur sem eru hæstir í launum, það er bara þannig. Það sem situr mest í mér er að þetta tiltekna ákvæði er ekki í hinum lögunum og breytingartillaga þess eðlis var felld, og ég segi aftur að ég skil ekki samspil þessara mála. Ég ætla bara að nota tækifærið, með hv. formann fjárlaganefndar í salnum, þó að hann sitji nú í hvorugri nefndinni, til að segja að mér hefði þótt eðlilegt að samræmd vinnubrögð hefðu verið í vinnslu þessara tveggja mála. Það truflar hvað þau virðast hafa tekið ólíka sveigju. En svona er þetta. Þetta er mörgum mikilvægt og ég get alveg skilið það líka. Þetta eru bara mismunandi sjónarmið og mismunandi mat á áhrifum, hvort þetta er jákvætt eða neikvætt til lengri tíma eða skiptir máli. Ég held að þetta tiltekna ákvæði, launaþak, sé ekki það sem muni fæla frá þessari hlutabótaleið. Ég hef meiri áhyggjur af tímalengdinni varðandi arðgreiðslurnar, af hömlum við að kaupa eigin bréf og af sektarákvæðinu sem er ekki bara óþarfa 15% ofan á fyrirtæki, sem seinna meir, kannski innan tveggja, þriggja ára, átta sig á því að þau þurftu þetta ekki og vilja endurgreiða, heldur einnig orðsporsáhætta. Þetta er þannig orðað að ég sé fyrir mér að fyrirtæki veigri sér við að koma nálægt því, svo að ég segi það eins og það er.

Við viljum gera vel og meiri hluti Alþingis telur sig gæta hagsmuna ríkissjóðs sem best með þessu. Ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar um neitt annað, ég held að við séum öll að reyna að vanda okkur. Ef þetta frumvarp verður afgreitt hér í þingsal og fer svona frá okkur og leiðir til þess að fyrirtæki veigri sér við að nýta sér úrræðið skulum við átta okkur á því að þá situr þorri fyrirtækja, sem hefur orðið fyrir tekjufalli, 25% upp í 75%, eftir með ekkert sérstaklega mörg úrræði. Það sem verra er, þá skiljum við launþega þeirra sömu fyrirtækja svolítið eftir í lausu lofti. Það er ekki ætlunin. Þess vegna hefði ég óskað eftir því að þetta væri betur ígrundað. Það er alltaf hægt að óska eftir meiri tíma en sannarlega á það við í þessu tiltekna máli. Síðustu minnihlutaálitin og breytingartillögur voru eiginlega ekki tilbúnar fyrr en eftir að umræðan hófst í dag sem er ekki til eftirbreytni. En þetta er svona, þetta er tímasetningarmál og við horfum fram á mánaðamót. Ég vildi óska að í afgreiðslu málsins hér á eftir, í kvöld og mögulega fram á nótt, verði þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram ígrundaðar einlæglega af meiri hlutanum en ekki afgreiddar umhugsunarlaust með því einu að lesa fyrirsagnirnar þar sem stendur: „2. minni hluti“. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[19:51]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum framlengingu á svokallaðri hlutabótaleið sem ég tel að hafi verið ein af betri leiðum í úrræðum sem komu strax í upphafi vegna Covid, og hefur virkað mjög vel. Kom það fram í meðförum nefndarinnar hvað úrræðið hefði heppnast vel, að mati Vinnumálastofnunar og annarra, í því að vernda störfin.

Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um það en mér finnst við samt þurfa að fara yfir nokkur aðalatriði í þessu máli. Upphaflega kom það náttúrlega til, eins og ég sagði, til að vernda störfin og við hvöttum fyrirtækin til að koma með ríkisvaldinu í að vernda störf. Að sjálfsögðu gagnaðist þetta fyrirtækjunum líka og hjálpaði mörgum sem höfðu ekki efni á uppsagnarfresti strax í upphafi og til að draga úr launaútgjöldum fyrirtækisins. En um leið stóðu mörg fyrirtæki, sem voru kannski ekki í rekstrarvanda þá en höfðu ágætis eigið fé, frammi fyrir gríðarlegri óvissu. Slík fyrirtæki, hefði þessi leið ekki komið til, hefðu mörg hver, ef ekki flest, gripið til þess ráðs að segja upp fólki til að takmarka áhættu sína fram í tímann meðan óvissan var hvað mest. Því var þessi leið svo góð og stjórnvöld hvöttu fyrirtæki til að taka þátt í henni. Þá var reynt að hafa leiðina sem almennasta þannig að hægt væri að taka ákvörðun hratt um hvort nýta ætti hana eða ekki og vinna úr þessu.

Það hefur aðeins verið kvartað undan því hvað það taki langan tíma að vinna úr málunum hjá Vinnumálastofnun og að þetta hafi verið óljóst. En það hefði getað orðið enn flóknara ef málið hefði ekki verið svona almennt. Ég vil því segja að ég ætla ekki að útiloka að einhver fyrirtæki hafi misnotað þessa leið eða ekki haft rétt við. Ég ætla ekki að útiloka það. Það getur verið af mörgum ástæðum og á mismunandi hátt hvernig það var misnotað. Í flestum tilfellum held ég að launamaðurinn, stéttarfélögin og stjórnvöld hafi brugðist við ef stjórn eða fyrirtæki voru að misnota þetta eitthvað eða misskildu leiðina. Það var oftast leiðrétt og var ekki við lögin að sakast heldur. Leiðin var almenn og málin skýrðust og það var lagað ef einhverjir voru að misnota sér þetta. Ég held að þau fyrirtæki séu ekki gríðarlega mörg þó að þau séu til. En að fara að nefna í löngum röðum öll þau fyrirtæki, hvort sem þau eru stór eða smá, sem eru vel stæð og eru kannski með margar mismunandi rekstrareiningar innan hvers fyrirtækis, að fara að gagnrýna þau og setja þau á einhvern svartan lista og ganga þannig að orðspori þeirra, ég tel að það hafi ekki að öllu leyti verið rétt að gera það út af því sem ég sagði hér áðan, að að öðrum kosti hefðu þessi vel stæðu fyrirtæki í upphafi, með mjög mikla óvissu fyrir framan sig, tekið ákvörðun fyrir sitt félag og sagt fólki upp. En út af þessari leið var ráðningarsambandið framlengt og fyrirtækin skuldbundu sig til að hafa ráðningarsambandið lengur í gildi. Það gagnaðist Atvinnuleysistryggingasjóði og það gagnaðist launamanninum. Mér finnst þetta skipta gríðarlegu máli og við verðum að hafa það í huga þegar við erum að ræða það hvort þetta hafi verið misnotað eða ekki.

Þar komum við líka inn á nokkur hugtök. Var þetta fyrir fyrirtæki í rekstrarvanda á sama tíma og ríkisstjórnin sagðist ætla að bjarga lífvænlegum fyrirtækjum? Þarna finnst mér við þurfa svolítið að skilja á milli og svo þurfum við líka að skilja á milli þess hvort við vorum að fjalla um tekjufall eða rekstrarvanda þar. Það er hvor sinn vandinn. Fyrirtæki geta orðið fyrir miklu tekjufalli þó að það sé ekki endilega í rekstrarvanda. Mér finnst þetta ekki vera nógu skýrt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þ.e. munurinn á þessu, og því hef ég ekki alveg náð utan um það þegar fólk er að tala um að stöndug fyrirtæki hafi verið að misnota leiðina, hvernig þau voru að misnota hana eða hvert nákvæmlega brotið var, af því að við leggjum mismunandi skilning í þetta. Við þessa leið er fyrst og fremst verið að styðja launamanninn, launamaðurinn fær greiðsluna en ekki fyrirtækin. Fyrirtækin fá ekki eina krónu til sín, en eins og ég sagði áðan nutu sum fyrirtækin góðs af því, því að þá hefði verið minni launakostnaður hjá þeim. Hinn kosturinn hefði kannski verið að nýta eigið fé og segja fólki upp og draga úr áhættunni lengra fram í tímann. Þetta þurfum við að hafa í huga og ég vildi fara svolítið yfir það hér í upphafi.

Það næsta sem ég vil fjalla um er að mikið hefur verið rætt um það hér í dag að þetta frumvarp og hvernig það er úr garði gert ýti fólki eða fyrirtækjum yfir í að nýta sér uppsagnarleiðina. Það held ég að sé að mjög litlum hluta, alveg sama hvað manni finnst um öll þessi skilyrði, flækjustig og annað slíkt og muninn á þeim, því að það er bara þannig að til að komast inn í hlutastarfaleiðina þarf tekjusamdrátturinn ekki að vera nema 25%, þannig að það er svolítið greiðari leið inn en skuldbindingin er að borga, eftir 1. júlí, 50% af laununum sem fyrirtæki. Þannig að öll þau fyrirtæki sem eru með minni tekjusamdrátt en 75% eiga möguleika á að fara inn í hlutastarfaleiðina en ekki inn í uppsagnarleiðina. Þau hafa ekkert val á milli leiða. Ef fyrirtæki eru með minna en 75% tekjusamdrátt hafa þau ekki val um uppsagnarleiðina og því er ekki hægt að segja að eitthvað í þessu frumvarpi sé að ýta þeim fyrirtækjum yfir í hina leiðina af því að þau eiga ekki möguleika á því.

Svo er það hitt. Ef fyrirtæki með 75% tekjusamdrátt eða meiri þá efast ég um að það hafi eitthvert val um það að fara inn í hlutastarfaleiðina af því að þau eiga ekkert eigið fé fyrir 50% af laununum. Þar af leiðandi er búið að draga gríðarlega mikið úr menginu sem er þarna á milli. Mér finnst þetta skipta miklu máli.

Rétt í lokin ætla ég að fara aðeins yfir skilyrðin. Ég tek undir það að mikilvægt var að setja viðurlög. Ef einhver var sannarlega að misnota þetta eða brjóta lögin þá eiga að vera viðurlög. Ég tek undir með ríkisstjórninni að mikilvægt er að hafa virkt eftirlit þannig að þeir sem eru að nýta sér þetta viti að eftirlit sé í gangi og að það séu einhver viðurlög. Það er svolítið mikilvægt atriði.

En svo kemur að skilyrðunum. Skilyrði eru annað en viðurlög og ég er einn af þeim sem finnst þurfa að fara varlega með skilyrðin. Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað verkalýðshreyfingin og talsmenn launþega hafa lagt mikla áherslu á að þessi skilyrði séu inni. Því hef ég með breytingartillögum meiri hlutans, sem mér sýnist minni hlutinn að nokkru leyti taka undir líka, lagt til að reyna að draga aðeins úr skilyrðunum en samt mætast á miðri leið gagnvart þeim sem hafa komið að málinu, af því að þessi mál hafa verið unnin í töluverðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþegana og atvinnurekendurna, og þetta er einhver niðurstaða. En ég segi það alveg hér að ég býst við því að þessi skilyrði og þessi umræða, að fyrirtækin séu sett á svartan lista og annað af því að þau eru með samfélaginu að taka þátt í að vernda störfin, geti spilað inn í að færri nýti sér þessa leið hafi þeir á annað borð möguleika á því. Fyrirtækin munu því horfa á þetta. Á ég að fara að undirgangast þessi skilyrði? Eða á ég að taka einhverja aðra ákvörðun, sem er ekki endilega fyrir uppsagnarleiðina? Ég held að fæst þeirra hafi einhvern möguleika á að fara inn í hana. Þetta þarf að ræða. En þetta var svona viss málamiðlun og það hefur verið dregið aðeins úr þessu sem ég tel að nálgist betur markmið frumvarpsins.

Það hefur líka verið rætt aðeins um sjálfstætt starfandi. Það kom skýrt fram fyrir nefndinni að þeir sitja alveg við sama borð hvað varðar upphæðir frá Atvinnuleysistryggingasjóði og þeir sem fara hlutabótaleiðina. Þeir sem eru sjálfstætt starfandi á eigin kennitölu sitja með sömu upphæðir. Það er bara aðeins annað ferli og þar er verið að notast við það almenna kerfi sem er til til þess að minnka flækjustigið, auka afgreiðsluhraða og annað slíkt. Það er bara þannig að allir sem eru inni í þessu kerfi þurfa að vera virkir í atvinnuleit, sem dæmi, og það getur alveg verið ankannalegt fyrir margar mismunandi stéttir. En það hefur gengið upp hérna og ég held að það sé margt svona sem við eigum að reyna að breyta sem minnst til að hafa kerfið sem skýrast og minnka flækjustigið svo að þetta gangi sem best fyrir sig.

Að lokum ætla ég bara að minna á að það er launþeginn sem fær greiðsluna, ekki fyrirtækin. Þess vegna er svolítið erfitt að tala um einhverjar endurgreiðslur eða að fyrirtækin eigi að endurgreiða þetta og annað slíkt því að í uppsagnarleiðinni, það er munur á þessum leiðum, þurfa fyrirtækin að tekjufæra styrkinn sem dregur þá úr skattalegu hagræði, eins og í uppsöfnuðu tapi eða öðru slíku. Þau þurfa að tekjufæra þetta og uppfylla viss skilyrði á meðan verið er að tekjufæra það yfir einhvern tíma, en það er ekki í þessu, af því að það er launþeginn sem fær fjármunina. Ástæðan fyrir því að fyrirtækin hafa boðist til að endurgreiða er náttúrlega til að reyna að bjarga orðspori sínu eftir að hafa komist á svartan lista fyrir að hafa tekið þátt í því með stjórnvöldum að vernda störfin.

Ég vona að ég hafi náð að útskýra þetta að einhverju leyti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili og vil árétta að þetta hefur verið góð leið og fleiri úrræði hafa bæst við. Tímarnir breytast og þróast og vonandi gengur okkur vel að vinna úr því ástandi sem upp er komið.



[20:03]
Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að ræða við hann um þann hvata sem stjórnvöld hafa ákveðið að setja inn í kerfið til fyrirtækja, um að fara frekar í uppsagnir en að fara í hlutastarfaleiðina, sem blasir við. Fjöldi fyrirtækja í ákveðnum atvinnugreinum á Íslandi hefur orðið fyrir næstum því 100% tekjufalli, eins og við höfum komið inn á áður. Mig langar að lesa smáskilaboð sem mér bárust eftir umræðuna áðan þegar við hv. þingmaður vorum að ræða nákvæmlega það. Ég les þau hér upp, með leyfi forseta:

Smádæmi af fyrirtækinu sem ég vinn hjá sem mig grunar að sé frekar dæmigert. Um er að ræða stóra verslun sem miðar aðallega að ferðamönnum. Hún setti næstum allt starfsfólk sitt á hlutabótaleiðina um leið og opnað var fyrir hana og sagði bara upp örfáum starfsmönnum þann mánuðinn þótt tekjurnar hefðu þá strax pompað niður í næstum ekki neitt. Daginn eftir að uppsagnaleiðin var kynnt var öllum starfsmönnum fyrirtækisins með tölu sagt upp samstundis.

Þetta er raunveruleikinn og við fáum fregnir af þessu á hverjum degi. Nú nálgast mánaðamót þannig að mér finnst mjög óábyrgt að láta eins og það sé val fyrir fyrirtæki sem er að ströggla og vonast til þess að hagur þess vænkist á næstu mánuðum, hvort það ætlar að nota starfsfólk sitt áfram í 25% starfshlutfalli, eða þá í 100% starfshlutfalli næstu þrjá mánuði á launum hjá ríkissjóði.



[20:05]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tækifærið til þess að fjalla um málið. Það er mjög gott dæmi um hvernig breyttar aðstæður geta kallað á önnur úrræði. Þegar áfallið kemur vita fyrirtækin ekki hvað bíður þeirra, hversu lengi tekjufallið mun vara og annað slíkt. Mögulega hefur þessi stóra verslun átt ágætis eigið fé í upphafi og ef ekki hefði komið til hlutabótaleiðarinnar hefði hún sagt mun fleiri starfsmönnum upp. Það er gott dæmi um það að hversu vel hlutabótaleiðin virkar til þess að bjarga þeim störfum og framlengja þau, annars hefði viðkomandi verið sagt upp og núna, þremur mánuðum seinna, hefði hann verið kominn á atvinnuleysisbætur. En vegna hlutabótaleiðarinnar tókst að lengja þetta.

Ég veit ekki hvers konar verslun þetta er, hún mun kannski fara að fá einhverjar tekjur núna en þau vita ekki hvort það gerist, hvort annað áfall kemur í haust, önnur bylgja, eða hvenær tekjurnar koma en eigið fé er orðið minna. Þau eiga því ekki lengur eigið fé til að greiða þessum starfsmönnum 50% í hlutabótaleiðinni, 50% af laununum og því er verið að bjarga þeim fyrirtækjum frá gjaldþroti með uppsagnaleiðinni. Þau höfðu því ekkert annað val. Það hefur nákvæmlega ekkert að gera með muninn á leiðunum eða skilyrði þeirra, ekki neitt.



[20:07]
Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst sorglegt að heyra að hv. þingmaður setur alla áherslu sína á fyrirtækin, og ég finn það hjá öðrum stjórnarliðum, en ekki launamanninn. Þegar við lögðum af stað í þennan leiðangur var stærsta markmið okkar að viðhalda ráðningarsambandi milli launamanns og vinnuveitanda. Mér finnst miður að stjórnvöld og meiri hlutinn á þingi hafi ekki farið í að útfæra hlutabótaleiðina til hagsbóta fyrir launafólk heldur fari frekar í að reyna að bjarga fyrirtækjum og hjálpa þeim að segja upp fólki. Og mér finnst mjög skrýtið að ákveðin verkalýðsfélög séu einhvern veginn að ýta undir það. En það verður að hafa það.

Annað sem ég verð að spyrja hv. þingmann út í er að hann skuli furða sig á hugmyndum um að endurgreiða stuðninginn og hvernig fyrirtækin eigi nú að fara að því. Þá verð ég að benda hv. þingmanni á að í frumvarpi því sem hann styður hér ásamt meiri hlutanum er einmitt fjallað um hvernig (Forseti hringir.) fyrirtækin eiga að endurgreiða ásamt álagi til Vinnumálastofnunar, hafi þau ekki uppfyllt skilyrði (Forseti hringir.) eða einhverja aðra hluti. Endurgreiðsluhugmyndin er því ekki komið frá minni hlutanum heldur úr frumvarpinu sjálfu.



[20:09]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er algerlega rangt að við séum að leggja áherslu á fyrirtæki en ekki launamenn. Í upphafi var það hlutabótaleiðin sem framlengdi ráðningarsambandið og með því að bjóða upp á styrki í uppsagnarfresti geta fyrirtækin staðið við launagreiðslur í frestinum og þá fer fólk aftur úr 90% upp í 100% laun. Vonandi getur það orðið til þess að fyrirtæki geti ráðið aftur þá starfsmenn áður en til uppsagna kemur. Til þess er leikurinn gerður. Ef sú leið hefði ekki komið til hefði fjöldi fyrirtækja til viðbótar farið í gjaldþrot, launamaðurinn hefði misst vinnuna og þurft að bíða í lengri tíma eftir bótum úr Ábyrgðasjóði launa og allt það. Þannig að það stenst bara ekki að (Forseti hringir.) halda svona löguðu fram.



[20:10]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um framlengingu hlutabótaleiðar og ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns. Meginmarkmiðin eru að verja ráðningarsamband og verja störf. Ég er sammála hv. þingmanni um að heilt yfir tókst þetta vel í fyrstu atrennu og ég held að hv. velferðarnefnd hafi gert vel. Það voru allir í fullkominni óvissu. Það er í raun meginniðurstaða skýrslu ríkisendurskoðanda. Þetta úrræði var alls ekki hnökralaust og við eigum að horfa á það og það er sjálfsagt að setja einhver skilyrði nú þegar við vitum eitthvað meira um stöðuna. Ég verð samt að segja, áður en ég ber fram spurningar til hv. þingmanns, af því að ég hygg að það sitji í honum sem við ræðum hér, að þessi skilyrði gangi of langt. Segjum bara eins og er; skilyrðin ganga í raun og veru gegn meginmarkmiðum frumvarpsins. Þannig er það bara. Aðstoð við launamenn með slíkum stuðningi, launamenn sem gætu haldið starfi hjá fyrirtækjum með tekjufall á bilinu 25–75% — það virkilega í rekstri — þýðir að ráðningarsambandið er í uppnámi.

Það er eitt sem ég var ekki sammála hv. þingmanni um í ræðu hans. Þessi úrræði, laun í uppsögn, eru eðlisólík. Hver er raunveruleikinn? Raunveruleikinn er nefnilega sá að nú er maður sennilega þvingaður í það, ef maður horfir á þessi skilyrði, að segja fólki upp. Punktur.



[20:13]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða andsvar. Ég get tekið undir með honum varðandi skilyrðin. Ég kom inn á það í ræðu minni að skilyrðin ganga of langt. Við ræddum það og fórum yfir það í hv. velferðarnefnd. Við fengum umsagnir úr báðum áttum. Fulltrúar launþega lögðu gríðarlega áherslu á þessi skilyrði og jafnvel að herða þau, meðan fulltrúar atvinnulífsins lögðu áherslu á að stytta þyrfti gildistímann til þess að þau gætu gengið upp fyrir launamanninn, til að verja störf launamanna.

Ef ég hefði fengið að semja þetta mál í upphafi hefðu þessi skilyrði ekki verið sett. Ég get alveg sagt það. En ég ætla að fallast á þessa niðurstöðu vegna þess samtals og þeirrar samvinnu sem við höfum átt í gegnum Covid-ástandið sem við höfum verið að takast á við. Þá varð þetta lendingin sem ég ætla að fallast á, þótt ég hefði kosið að skilyrðin væru öðruvísi.

Ég get að hluta til tekið undir lokaorð hv. þingmanns um að þau skilyrði sem við setjum hér ýti fólki í uppsögn. En það sem ég hef verið að benda á er að það er ekki verið að ýta fyrirtækum í uppsagnaúrræðið af því að þau komast ekki inn í það. En ég get tekið undir það að það eru fleiri fyrirtæki sem taka bara þá ákvörðun sem þau hefðu annars tekið í upphafi Covid-ástandsins, að segja upp fólki án þess að nýta sér uppsagnarstuðning stjórnvalda. Það munu koma þannig mál. Ég get tekið undir það.



[20:15]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ærlegt svar, ég átti svo sem ekki von á öðru. Í þessari stöðu, þessari miklu óvissu, fóru fyrirtæki þessa leið, með engin skilyrði og hvatningu til að leita þessarar leiðar, í mikilli rekstrarlegri óvissu, vissulega með sterkan efnahagsreikning, en það gengur líka hratt á hann hjá sumum þegar tekjufallið er nokkurt. Þannig virka viðskipti og þegar fyrirtæki horfa líka framan í það að þurfa að styrkja efnahaginn með öllum ráðum þá skipta skilaboðin máli. Hver eru skilaboðin? Fyrirtækið nýtur stuðnings en maður hreyfir sig ekki í þrjú ár til þess að bjarga fyrirtækinu. Það eru röng skilaboð til atvinnulífsins. Það eru röng skilaboð að mínu viti. Ég er satt að segja rasandi hissa á þessari niðurstöðu.



[20:16]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að skilyrðin eru mörgu leyti svolítil eftiráskilyrði. Fyrirtækin voru hvött til að taka þátt. Ég viðurkenni alveg að mörg þeirra nutu stuðnings af því líka, það hjálpaði þeim að lækka launakostnaðinn. En í grunninn erum við að reyna að verja launasambandið. Þetta getur sent röng skilaboð og haft slæm áhrif, eins og hv. þingmaður kom inn á, og það er ástæðan fyrir þessu, við tókum þá umræðu í velferðarnefnd. Og ég vil gleðja hv. þingmann með því að segja að þetta eru ekki lengur þrjú ár heldur u.þ.b. eitt og hálft ár. Búið er að stytta gildistíma skilyrðanna. Svo getum við rætt hvort ganga ætti enn lengra í því eða ekki. (Gripið fram í.)



[20:18]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð og fín umræða. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að tekið hefði verið tillit til umsagnaraðila, bæði launþega og atvinnurekanda, aðila beggja vegna borðsins. Þá langar mig að hressa upp á minni hv. þingmanns; það er vissulega rétt að ASÍ fagnaði frumvarpinu og var með sterkari skilyrði. Samtök atvinnulífsins sögðu einfaldlega: Það var ekki talað við okkur. Hér er verið að hegna þorra launafólks fyrir afglöp örfárra og Bandalag háskólamanna sagði, svo að ég lesi orðrétt, með leyfi forseta:

„Að lokum átelur BHM stjórnvöld fyrir að hafa eingöngu haft samráð við Alþýðusamband Íslands við gerð frumvarpsins, en ekki önnur heildarsamtök launafólks.“

Þannig að það er rangt að haft hafi verið víðtækt samráð við gerð hinna ítarlegu skilyrða. Fyrst það er komið á hreint langar mig að spyrja hv. þingmann, ekki síst í ljósi orða hans í samskiptum við hv. formann fjárlaganefndar: Sér hv. þingmaður fyrir sér að endurskoða þetta og samþykkja tillögu 2. minni hluta um að hin stífu skilyrði verði bundin við hámarksfjárhæð þeirrar aðstoðar sem viðkomandi fyrirtæki fær fyrir hönd launþega sinna? Þ.e. að þorri þessara litlu fyrirtækja, sem ég ítreka að fara hátt yfir 90%, um 95%, ef við miðum við 30–50 millj. kr. — við miðuðum við 50 millj. kr. í breytingartillögum 2. minni hluta, það má færa þá tölu fram og til baka — en bara að tryggja að þetta séu þá þau fyrirtæki sem spila með umtalsverða fjármuni, þessi minni fyrirtæki sem greiða t.d. arð, til þess einfaldlega að standa undir skuldbindingum svo þau geti haldið úti rekstri, svo þau geti haft fólk í vinnu, svo þau geti haldið uppi íslensku atvinnulífi sem byggist á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Er möguleiki að hv. þingmaður (Forseti hringir.) horfi jákvæðum augum til slíkrar breytingar?



[20:20]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fram kemur m.a. í umsögn Samtaka atvinnulífsins að þau hafi fengið að sjá vissar tillögur og annað þó að það hafi kannski ekki verið endanlega niðurstaðan, en þau fengu að segja skoðun sína og komu að því og annað slíkt. Kannski var ekki farið til allra en alla vega var haft samráð og visst samtal hefur verið í gangi. En varðandi frekari breytingar þá hafa málin verið rædd í dag. Ég hef fylgst með öllum breytingartillögum og skoðað þær allar. Þegar það gengur allt saman upp, þ.e. að feta milliveginn á milli hagsmunaaðila, þá skoða ég auðvitað allar breytingartillögur með opnum hug.



[20:21]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mig langar að venda kvæði mínu í kross og fara beint í annað. Í máli þingmanns, bæði í ræðu hans og í andsvörum fyrr í dag, kom fram nokkuð sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo að hann væri að gagnrýna atriði sem fram kemur í breytingartillögum 2. minni hluta varðandi endurgreiðslu, þar sem 2. minni hluti talar um að endurgreiðsla verði án álags. Hv. þingmaður orðaði það sem svo að þar væri ekki hægt að tala um endurgreiðslur, af því þetta væri til launþega. Nú er það svo að þetta hugtak, endurgreiðslur, er í frumvarpinu. Það er ekki runnið undan rifjum 2. minni hluta. Þar erum við einfaldlega að veikja hið harðorða orðalag með því að draga úr álaginu ef fyrirtæki eiga frumkvæði að því að endurgreiða. En endurgreiðsluhugtakið er í frumvarpinu og tillögum meiri hlutans. Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér hver misskilur hvað í þeim efnum?



[20:22]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa spurningu þannig að ég geti útskýrt mál mitt. Það sem ég á við er eiginlega bara lögfræðin í málinu. Það sem er í frumvarpinu er hluti af viðurlögunum. Ef fyrirtæki hafa nýtt sér úrræðið án þess að hafa rétt til þess eða farið á skjön við þetta þurfa þau að greiða með 15% álagi þann kostnað sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur orðið fyrir af því að þau höfðu ekki rétt á þessu.

Vegna þess hvernig óvissan var, var talið rétt að lækka álagsprósentuna. Flest svona viðurlög eru með 50% álagi en ákveðið var að hafa það 15% í þessu máli. En það sem ég er að tala um og er breytingartillaga minni hlutans, er að fyrirtækin geti greitt þetta til baka áður en þetta er orðið vegna viðurlaga eða vegna þess að þau hafi ekki notað þetta ekki rétt. Þar er stór munur á, þannig að fyrirtækin hafa ekki fengið neitt. Þess vegna er svo erfitt að endurgreiða það. En þarna erum við að tala um þann kostnað sem varð, sem er orðinn að viðurlögum.



[20:24]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég er búinn að sitja hérna síðan kl. fjögur í dag og hlusta á kollega mína í velferðarnefnd fara yfir þetta mál sem við erum búin að fjalla um mjög lengi. Það er afar mikilvægt að hlutabótaleiðin hafi verið farin í upphafi og nú er verið að bæta hana aðeins. Það er alveg klárt að við munum ekki komast að hinum eina sannleika í þessum lögum frekar en í fyrri lögum sem við höfum sett. Mér finnst vera of mikið úr því gert að það séu margir að svindla og fara illa með þessa leið. Ég minni á að 6.400 fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina og þau eru örfá sem hafa verið sökuð um að hafa ekki átt erindi í hana. Að meginhluta hefur það tekist vel.

Ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvernig atvinnulífið kemur út úr þeim hörmungum sem við erum að ganga í gegnum. Í svona ástandi þar sem fótunum er nánast kippt undan okkur, atvinnulífinu og heimilunum, eigum við ekki að setjast í þá stöðu að egna heimilunum gegn atvinnulífinu eða öfugt. Þau geta aldrei án hvor annars verið. Við þurfum að vinna að því að skapa sátt um þær aðgerðir sem við stöndum fyrir. Meiri hlutinn er að ná sátt um þær aðgerðir sem hér eru lagðar til og við erum að reyna að ná sátt við minni hlutann um þær aðgerðir. Auðvitað næst það ekki í öllum tilfellum, en allir eru að gera sitt besta.

Fram undan eru tímar sem við spáum mikið í hvernig fari hjá okkur, hvaða störf skapist á næstunni og hvernig ástandið verður þegar þessi leið rennur sitt skeið í lok ágústmánaðar. Hingað hafa komið 2,5 milljónir farþega á ári en við sjáum nú tölur sem eru óralangt frá því. Þá er slíkt umframframboð á þjónustu og afþreyingu, hótelherbergjum og flugferðum að eitthvað mun undan láta. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að reyna að ná saman í þessum málum eins og hægt er.

Oft er talað um að gerð séu mistök og ég hef heyrt það hér í dag að það séu jafnvel engin viðbrögð við skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kunngerð var í gær. Þá hafði þetta lagafrumvarp verið í smíðum í margar vikur, alla vega marga daga. Mér finnst vera ákall um að hér séu öll viðbrögð alltaf fyrir hendi og krafa um að enginn geri mistök, á meðan við erum enn á siglingu og enn að henda út björgunarbátum til að halda atvinnulífinu í landinu gangandi.

Mér finnst þessi umræða komin á ákveðinn lokapunkt hvað mig varðar. Ég hef engu við það að bæta sem félagar mínir hafa sagt hér í dag. Hér hefur verið talað af mikilli þekkingu og reynslu og ég hef átt orðastað við þetta góða fólk í marga daga. Ég ætla að nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Vinnumálastofnunar, ráðuneytanna og þingsins fyrir að gera okkur mögulegt að keyra öll þessi mál í gegn. Vinnumálastofnun er að taka við 50.000 manns á launaskrá á nokkrum dögum og það er afrek sem gerist í svona hremmingum. Við þurfum að kunna að þakka fyrir og meta það.



[20:29]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með öllum þeim umræðum sem hafa farið hér fram í dag um þetta stóra mál sem við höldum nú áfram með og sem er nokkurs konar arftaki fyrri hlutabótaleiðar. Mig langar aðeins að byrja á að fjalla um fyrri hlutabótaleiðina vegna þess að þegar við vorum með það mál í velferðarnefnd tók ekki mjög langan tíma hjá okkur að komast að góðu samkomulagi á þá leið að við gátum rætt okkur niður á nokkurs konar viðunandi niðurstöðu. Það var ekki mikið sem bar í milli, vil ég segja. Einn af þeim hlutum sem mér fannst við öll vera með í huga var að við myndum huga að þeim sem kallast sjálfstætt starfandi. Svo kom það nú í ljós að svo var ekki og þeir sem teljast sjálfstætt starfandi og einyrkjar hafa svo sannarlega mátt bíða eftir úrlausn sinna mála og teljast varla hafa rétt til að nýta sér hlutabótaleiðina. Það er m.a. þess vegna sem ég ákvað að vera með á minnihlutaáliti sem við leggjum hér fram, að mestu minni hluti velferðarnefndar, þar sem tekið er til þeirra sem eru sjálfstætt starfandi. Mig langar sérstaklega að nefna leigubílstjóra í þessu sambandi vegna þess að í mínum huga hafa þeir sannarlega sinnt framlínuþjónustu. Þar sem ég bý á Akureyri hafa þeir tekið að sér, oft við erfiðar aðstæður, að flytja fólk og flytja vörur og hreinlega flytja nauðsynjar. Ég er mjög áfram um að minnihlutaálit okkar fjalli sérstaklega um þá sem eru sjálfstætt starfandi og jafnvel aðra svokallaða einyrkja.

Mig langar aðeins að fara aftur í það hversu vel okkur tókst að ná saman um fyrri hlutabótaleiðina. Við sáum ekki fyrir það sem síðar kom upp, þ.e. að fyrirtæki nýttu sér leiðina sem með einhverjum hætti áttu kannski ekki að gera það. Samt fóru þau fyrirtæki að lögum en við getum velt því fyrir okkur hvort það hafi verið siðlegt af þeim að nýta sér hlutabótaleiðina. Flest ef ekki öll þessi fyrirtæki hafa endurgreitt eða með einhverjum hætti gert bót á því sem þau lögðu upp með og ég vil byrja á að hrósa þeim fyrir það. Ég vil jafnframt taka undir áhyggjur sem Ríkisendurskoðun hafði af afgreiðslu okkar þegar við náðum þessari niðurstöðu af því að það stingur í augu að lesa að öll velferðarnefnd hefði verið á því að reyna að hleypa sem flestum að úrræðinu, fyrstu hlutabótaleiðinni, vegna þess að við sáum ekki fyrir að sú staða gæti komið upp sem svo varð. En nóg um þetta.

Ég nefndi ríkisendurskoðanda og við fengum mjög góða skýrslu frá honum og góðar ábendingar og jafnvel mjög vel ígrundaðar. Það er ekki oft sem maður les svona efni sem maður skilur, liggur við, eftir fyrsta lestur. En það var þannig í þessu tilfelli og það hjálpaði okkur mjög mikið og sérstaklega vil ég segja að það hafi hjálpað okkur í minni hlutanum til að móta okkar álit. Þegar ég las yfir meirihlutaálitið gat ég ekki séð að þeim hafi þótt jafn auðlesanlegt það sem ríkisendurskoðandi sagði. Ríkisendurskoðandi ákvað að eigin frumkvæði að fara í eftirlit og komst þá að því að Vinnumálastofnun hafði þá þegar ætlað að hefja rannsókn á þessu úrræði. En niðurstaðan hafði orðið sú að Vinnumálastofnun hafði hug á því að rannsaka með haustinu hvernig til hefði tekist. Nú vil ég alls ekki sakast við Vinnumálastofnun vegna þess að ég held að þau hafi sannarlega unnið kraftaverk þar, eins og fram hefur komið hér í dag. Ég vil kannski frekar halda því fram að ráðuneyti félagsmála, sem heldur á þessu öllu saman, hefði átt að standa sig og sjá til þess að Vinnumálastofnun væri gert það kleift samhliða því hamfaraástandi sem starfsfólkið stóð frammi fyrir. Við höfum notið þess frá Vinnumálastofnun, og ég vil líka nefna Persónuvernd, að báðir þessir aðilar og jafnvel Skatturinn mættu á fund velferðarnefndar með engum fyrirvara og svöruðu mörgum spurningum sem við höfðum þá stundina, sem voru jafnvel ekki einu sinni fullmótaðar, þannig að við gátum enn frekar tekið til allt sem við vildum segja.

Ég ætla ekki að lengja þetta mikið. Ég hef vissulega einhverjar áhyggjur af því hvernig til tekst í þetta sinn. En ástæða þess að ég ákvað að styðja minnihlutaálit er sérstaklega sú að mér finnst minni hlutinn virkilega hafa kafað ofan í málið og tekið ábyrgð, ég vil nota það orð. Ég er þó með fyrirvara við 2. málsgrein c-liðar 1. gr., sem fjallar um lágskattaríki, og það er ekki af því að ég sé endilega á móti því úrræði sem þar er fjallað um heldur tel ég að það sé flókið að ætla að skilgreina öll þau hugtök sem finnast á þessu sviði og ég get ekki ákveðið, á þeim skamma tíma sem okkur er gefinn, hvernig best er að haga því. Á sama tíma vil ég líka taka fram að breytingartillaga meiri hlutans varðandi þessa sömu grein er alls ekki fullnægjandi heldur. Það endurspeglast kannski í því að við höfum ekki þann tíma sem við myndum vilja hafa til að vinna þetta álit okkar vel. Ég er að sjálfsögðu ánægð með breytingartillögu minni hlutans sem fjallar um sjálfstætt starfandi, og þá sérstaklega hvað varðar leigubílstjóra, eins og ég hef talað um hér áður, og ég tel að það sé mjög mikilvægt að við náum að fá það í gegn hér í þinginu og það verði samþykkt.

Ég þakka öllum í velferðarnefnd fyrir þessa vinnu og vona sannarlega að við náum góðri niðurstöðu.



[20:38]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hlutastarfaleiðin, sem við ræðum hér nú og stendur til að framlengja með þessu frumvarpi, hafi reynst mörgum fyrirtækjum vel og komið á ögurstundu, ef svo má segja, í rekstri marga þegar óvissan var hér um bil algjör vegna heimsfaraldursins og brast á með afar skömmum fyrirvara með tilheyrandi áhrifum á allt samfélagið.

Tilgangurinn með þessari leið er sá að bjarga störfum og milda það fjárhagslega högg sem fyrirtæki, einkum starfsfólk þeirra, verður fyrir í þessum mesta efnahagssamdrætti sem við höfum séð í ein 100 ár. Þessi leið á að koma og kemur í veg fyrir atvinnuleysi og hina mikilvægu tengingu milli atvinnurekenda og launþega, að halda ráðningarsambandinu. Þegar úrræðinu var komið á um miðjan marsmánuð herjaði veiran hvað mest á landsmenn og úrræði stjórnvalda þurftu að vinnast hratt og frumvörp voru keyrð í gegnum þingið. Við í Miðflokknum höfum stutt þær leiðir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna þess að það er mjög mikilvægt að við stöndum saman í því að lágmarka það tjón sem við höfum staðið frammi fyrir vegna veirufaraldursins. Við í Miðflokknum höfum komið með ýmsar tillögur og hugmyndir í þeim efnum sem hefur því miður ekki verið hlustað á. Ég er óþreytandi að minnast á það hér vegna þess að stjórnvöld hafa óskað eftir samstarfi og hugmyndum en síðan þegar á hólminn er komið hefur það verið sýndarsamstarf af hálfu stjórnvalda. En við í Miðflokknum höfum stutt þessa aðgerð og munum gera það vegna þess að þetta er sú leið sem skynsamlegt er að fara í þeim aðstæðum sem við höfum verið að glíma við.

Hlutabótaleiðin var samþykkt þannig að ekki var nægilega skýrt hverjir áttu rétt á því að nota það úrræði og fjöldi fyrirtækja nýtti sér þann stuðning. Segja má að það hafi verið of mikið í höndum stjórnenda fyrirtækja að meta það hvort þau ættu rétt á stuðningnum eða ekki. Í þessum efnum er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækjanna mikil og víðtæk á tímum veirufaraldurs, sem og endranær, að sjálfsögðu. En ljóst er að sum fyrirtæki þáðu þessa aðstoð án þess að þurfa hana og greiddu síðan til baka. Þau fyrirtæki eru í miklum minni hluta, eins og komið hefur fram hér og kom fram í ræðu Ásmundar Friðrikssonar, en þau voru fyrir vikið í kastljósi fjölmiðla og almennings. Í meiri hluta tilfella var störfum bjargað og þar með rekstrargrundvelli heimilanna.

Það er að sjálfsögðu auðvelt að benda á það sem betur hefði mátt fara. Sá lærdómur sem draga má af hlutabótaleiðinni er að stjórnvöld hefðu þurft að veita ríkari og skýrari leiðbeiningar um markmið úrræðisins og hverjum það var ætlað. Stjórnvöld, og ekki síst almenningur, hafa lýst vanþóknun á því hvernig sum fyrirtæki misnotuðu þetta úrræði, en slík fyrirtæki voru í miklum minni hluta. Það er rétt að halda því til haga. Að sjálfsögðu tóku þessi sömu fyrirtæki mikla áhættu, orðsporsáhættu, og við þekkjum að enginn atvinnurekandi vill hafa það yfir sér að fólk vilji ekki versla hjá viðkomandi, í því felst að sjálfsögðu mikil áhætta. En við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir neikvæða umræðu undanfarnar vikur hvað þetta varðar hefur úrræðið nýst fjölda launamanna. Hins vegar munu þær kvaðir sem felast í frumvarpinu sumar hverjar auðvelda atvinnurekendum þá ákvörðun að hverfa frá notkun þessa úrræðis og leita annarra leiða til að draga úr launakostnaði. En maður spyr sig: Við hverja er að sakast þegar fyrirtæki nýttu sér úrræðið sem gátu komist hjá því? Er það ekki fyrst og fremst löggjafinn sem talaði ekki nógu skýrt um hverjir ættu í raun og veru rétt á því?

Síðan var eftirlitið með úrræðinu náttúrlega ekkert. Komið hefur fram að mikið álag var á starfsmönnum Vinnumálastofnunar og var skiljanlega erfitt fyrir það ágæta fólk, sem hefur staðið sig frábærlega, sem var í því að greiða út bætur en þurfti síðan að sinna eftirlitinu um leið. Hér er náttúrlega fyrst og fremst við yfirvald stofnunarinnar, ráðuneytið sjálft, að sakast að hafa ekki tryggt það að Vinnumálastofnun gæti sinnt þessu eftirliti. Vitað var að það þyrfti að vera eftirlit með þessu, miklir fjármunir í húfi o.s.frv. og fullkomlega eðlilegt að hafa slíkt. Ég minni á að komið hefur fram að í Svíþjóð starfa 100 sérfræðingar við eftirlit með hlutabótaleiðinni þar í landi, þannig að ég myndi segja að ráðuneytið hafi ekki staðið sig í því að gera Vinnumálastofnun kleift að sinna eftirliti hér eins og vera ber.

Við skulum vona að þau fyrirtæki sem nýttu sér þetta úrræði en gátu komist af án þess, dragi lærdóm af málinu og axli þá ábyrgð.

Það eru örugglega tilfelli þar sem hægt hefði verið að halda fólki í óbreyttu starfshlutfalli þó að verkefnin væru fá. En með þessu frumvarpi er úrræðið framlengt og um leið þrengt þannig að það nær eingöngu til 50% starfshlutfalls frá og með 1. júlí. Fleiri skilyrði bætast við, eins og ef fyrirtæki hafa orðið fyrir tekjufalli sem nemur 25%. Það er skynsamlegt svo úrræðið nýtist þeim fyrirtækjum sem lenda sannarlega í vandræðum vegna faraldursins.

Herra forseti. Ég vil hér næst koma inn á arðgreiðslur og kvaðir í frumvarpinu er lúta að greiðslu arðs. Arður er ekkert slæmt fyrirbæri, eins og sumir vilja halda fram, þvert á móti er arður mikilvægur í fyrirtækjarekstri. Með arði er átt við greiðslur fyrirtækis í atvinnurekstri til eigenda sinna. Fyrirtæki getur því aðeins greitt arð að það hafi verið rekið með hagnaði á einhverju tímabili. Opinber umræða um hagnað og arðgreiðslur ber oft þann beiska keim að hagnaður og arðgreiðslur séu af hinu slæma og skerði hag launafólks og jafnvel samfélagsins alls. Það er mikill misskilningur. Ef fyrirtækið skilar ekki hagnaði bresta forsendur rekstrarins og fólk missir vinnuna og allir tapa á endanum. Hagnaður og arðgreiðslur eru því góð fyrir samfélagið og grunnforsenda atvinnurekstrar.

Mörg fyrirtæki leita nú að nýjum fjárfestum enda er erfitt um vik að nálgast lánsfé. Það kann að reynast erfitt ef ekki verður heimilt að greiða út arð næstu þrjú árin, eins og segir í frumvarpinu. Þó standa vonir til þess að því verði breytt áður en frumvarpið verður að lögum. Einnig er rétt að hafa í huga að stjórnendum er samkvæmt hlutafélagalögum óheimilt að takmarka rétt hluthafafundar til að ákveða arðgreiðslu. Jafnvel þótt stjórn geri ekki tillögu til hluthafafundar um arðgreiðslu eiga hluthafar, sem eiga samtals a.m.k. einn tíunda hluta hlutafjár, kröfu um að tilteknum arði sé úthlutað, samanber 2. mgr. 101. gr. hlutafélagalaga.

Nokkur samtök atvinnurekenda skiluðu sameiginlegri umsögn við frumvarpið og segja að þar sé verið að takmarka þennan mikilvæga lögbundna rétt minni hluta hluthafa ef arðgreiðsla verður ekki ákvörðuð nema með tilheyrandi tjóni fyrir félagið, þ.e. að því verði samhliða gert að endurgreiða bætur starfsmanna með álagi, eins og lagt er upp með í frumvarpinu. Ég held að aðalatriðið sé að fara yfir þetta varðandi þessi þrjú ár og stytta þann tíma. Ég tel þetta vera óskynsamlegt eins og lagt er upp með og skilst að von sé á breytingartillögu í þá veru. Ég vona að svo verði. Að mati samtakanna þarf að endurskoða þetta ákvæði, stytta tímabilið og heimilað að takmarka arðgreiðslur.

Þegar mestu skammtímaáhrifin og óvissan er minni hvað veirufaraldrinum varðar þá verða stjórnvöld að leggja strax áherslu á að leita leiða svo atvinnulífið skapi almennt ný störf svo tryggja megi öfluga viðspyrnu. Hlutabótaleiðin er ekki endilega farsælasta leiðin til þess þegar fram í sækir, það má ekki gleyma því. Við verðum að hafa það í huga að hún er neyðarúrræði fyrir fyrirtæki sem lent hafa í miklu tekjufalli. Aftur á móti gæti örvun fjárfestingar til framtíðar; skattbreytingar, breytingar á regluverki og slíku, náð ágætum markmiðum og ekki síst lækkun tryggingagjaldsins, sem við í Miðflokknum höfum talað sérstaklega fyrir og verið óþreytandi að minnast á og m.a. flutt breytingartillögur um þess efnis að það verði fellt niður fram að áramótum og síðan lækkað í framhaldi af því. En því miður var tillaga okkar Miðflokksmanna felld af stjórnarliðum sem hafa síðan verið að kalla eftir hinum ýmsu tillögum. Fleiri sem þekkja til í þessum efnum á viðskiptasviðinu hafa nefnt mikilvægi þess að lækka tryggingagjaldið.

Herra forseti. Ég vil að lokum nefna skýrslu Ríkisendurskoðunar um nauðsynlegt eftirlit með greiðslu hlutabóta, ég kom aðeins inn á það í upphafi ræðu minnar. Hv. þm. Halldóra Mogensen, að ég held, sagði hér í umræðunni að sagan kæmi til með að dæma þetta úrræði. Við skulum vona að það verði jákvætt þegar upp er staðið. En ég held að það sé alveg ljóst að nú þegar hafi eftirlitinu verið ábótavant og að það hafi í rauninni ekki verið neitt. Á það bendir Ríkisendurskoðun í vandaðri skýrslu, frumkvæðisskýrslu, sem kynnt var í gær. Er mjög ánægjulegt að stofnunin skuli hafa sett vinnu í það og náð því á svo skömmum tíma vegna þess að úttektin er mikilvægt innlegg í þessa umræðu.

Eins og segir í skýrslunni hefur komið í ljós að þrátt fyrir áherslur stjórnvalda um að hlutastarfaleiðin væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur, virðist vera að nokkurt frjálsræði hafði ríkt í túlkun laganna. Það verður séð, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, á lögskýringargögnum og lögunum sjálfum að greiddar voru út bætur til fyrirtækja og opinberra aðila sem ekki var í raun lagaheimild fyrir. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni og maður spyr sig: Lásu menn ekki lögin nægilega vel eða voru þau ekki nægilega skýr í þessum efnum? Það er greinilega pottur brotinn í þessari lagasmíði. Auk þess myndi maður ætla að félagsmálaráðuneytið hefði átt að leiðbeina stofnun sinni, Vinnumálastofnun, í þessum efnum í því gríðarlega álagi sem þeir ágætu starfsmenn stofnunarinnar hafa verið. Vinnumálastofnun vinnur samkvæmt lögunum og greiðir bæturnar út samkvæmt þeim. Ef einhver vafatilvik voru varðandi túlkun laganna hefði ráðuneytið átt að aðstoða í þeim efnum. Ekkert hefur komið fram um það og væri rétt að félagsmálaráðherra myndi fara yfir þetta mál í framhaldi af niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, þar sem fram kemur að verið sé að greiða fé úr ríkissjóði sem ekki er í raun lagaheimild fyrir. Það er t.d. ekki ætlast til þess og hvergi er hægt að sjá að sveitarfélög og opinberir aðilar hafi haft heimild til að nýta sér þetta úrræði og heldur ekki fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag. Ég segi þetta hér vegna þess að ég tel nauðsynlegt að fara nánar yfir það. Þó er búið að girða fyrir þessa hluti í hinu nýja frumvarpi en við verður samt að ræða þetta vegna þess að hér eru miklir fjármunir í húfi.

Ég vil í lokin benda á nokkuð athyglisverða athugasemd sem Ríkisendurskoðun nefnir í skýrslunni þegar rætt er um afturvirkar breytingar á staðgreiðslu opinberra gjalda. Í skýrslunni segir:

„Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hafa um 160 launagreiðendur óskað eftir hækkun á áður tilkynntum launum í janúar og febrúar. Heildarhækkun á launum fyrir þessa tvo mánuði nemur rúmum 114 millj. kr. Umræddar hækkunarbeiðnir eru bæði hærri og fleiri en í venjulegu árferði. Ríkisendurskoðun telur að kanna þurfi nánar ástæður fyrir umræddum hækkunum.“

Þetta var aðeins rætt á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun. Ég spurði ríkisendurskoðanda sérstaklega út í þetta atriði og virðist sem svo að þarna hækki aðilar einfaldlega áður tilkynnt laun, launagreiðslur í janúar og febrúar, til að tryggja hærri greiðslur út úr atvinnuleysisbótakerfinu. Hér er náttúrlega um misnotkun á bótakerfinu að ræða og þarf að sjálfsögðu að fylgja því vel eftir. Síðan ítrekar ríkisendurskoðandi að eftirlit Vinnumálastofnunar sé mjög mikilvægt og í ljósi þessa mikla álags sé áríðandi að Vinnumálastofnun sé tryggður sá mannskapur og þeir sérfræðingar sem til þarf til að tryggja virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað, eins og það er orðað í skýrslunni. Í mínum huga er þetta mjög vönduð og góð skýrsla sem kemur alveg á réttum tíma inn í þessa umræðu. Ég veit að Ríkisendurskoðun og það ágæta starfsfólk sem þar starfar lagði mikið á sig til þess að til að klára hana í tíma. Fyrir það ber að þakka.

Ég vil auk þess nota tækifærið, eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi réttilega, og þakka starfsmönnum Vinnumálastofnunar fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem það hefur sinnt núna, starfsfólkið hefur unnið myrkranna á milli við að koma þessum greiðslum til þeirra sem eiga rétt á þeim. Það segir okkur að við eigum hæft og gott starfsfólk í þessum stofnunum. En ég minni líka á að ráðuneytið ber ábyrgð á því að aðstoða í þessum efnum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir starfsmenn Vinnumálastofnunar geti farið ofan í saumana á því hverjir fengju þessa greiðslu og hverjir áttu ekki rétt á henni undir þessum kringumstæðum, undir þessu mikla álagi. Þar finnst mér að ráðuneytið hafi brugðist þessari ágætu stofnun, að hafa ekki hjálpað til við að skera úr um álitaefni. Auðvitað ber ráðuneytinu að gera það. Eins og við höfum rætt hér eru miklir fjármunir í spilunum og þetta er sameiginlegur sjóður okkar landsmanna allra sem við eigum að umgangast af virðingu. En að öðru leyti þakka ég ágæta umræðu.