150. löggjafarþing — 111. fundur
 29. maí 2020.
stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, 3. umræða.
stjfrv., 811. mál. — Þskj. 1555, breytingartillaga 1565 og 1566.

[22:24]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Við erum orðin svolítið þreytt, enda er liðið á kvöldið. Málið var kallað til í efnahags- og viðskiptanefndar á milli 2. og 3. umr. eftir að formaður ASÍ hafði sent okkur öllum bréf og bent á mikla vankanta á frumvarpinu. Í framhaldinu óskaði ég eftir því að við tækjum málið upp í nefndinni. Niðurstaðan varð sú að breyting verði gerð á gömlu 11. gr., sem núna er 12. gr., eftir það sem við gerðum í dag. Þar komi ný málsgrein sem hljóðar svona: „Komi til ráðningar að nýju innan sex mánaða frá uppsagnardegi skal launamaður halda þeim kjörum sem hann hafði þegar til uppsagnar kom í samræmi við ráðningarsamning.“

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar ber uppi þessa tillögu sem ég er sammála. Hún er skárri en ekkert. Best hefði verið að þetta hefðu verið í 12 mánuði, eins og allir kjarasamningar ASÍ gera ráð fyrir, en sex mánuðir eru betra en ekkert. Eftir sex mánuði virka skilyrðin út árið sem þó eru í greininni.

En ég vil bæta því við að starfsmenn skuli endurráðnir í starfsaldursröð, þ.e. að starfsmönnum sem sagt hefur verið upp verði boðið starfið aftur, fari fyrirtækið í gang. Þá verði byrjað á að ráða þá með lengsta starfsaldurinn og síðan koll af kolli. ASÍ leggur mikla áherslu á það og ég tek undir það. Ég hvet hv. þingmenn til að samþykkja báðar breytingartillögurnar vegna þess að þær eru báðar til bóta.

Ég ætla ekki að fara að halda ræðu um málið í heild. Eins og þið vitið og munið vel frá því í dag þá get ég ekki stutt þetta mál. Reyndar er það svo að ég verð að vera á rauðu því að svo alvarleg er staðan.



[22:27]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum nú á lokasprettinum við að afgreiða þetta mál sem hefur að mörgu leyti reynst erfitt að ná utan um. Mikil vinna hefur farið fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og var málið kallað inn á milli 2. og 3. umr., m.a. vegna erindis sem öllum þingmönnum barst frá Alþýðusambandi Íslands. Nefndin kallaði til sín gesti frá Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins. Þar var hlustað á sjónarmið og síðan ræddi nefndin málið. Ég held að nefndin hafi komist að ágætri málamiðlun með þeirri breytingartillögu sem hér er lögð fram. Ég reikna með að enginn sé fullkomlega ánægður með hana og þess vegna held ég að hún sé ágæt. Ég styð hana og ég fagna því að samkomulag skyldi nást um þetta í nefndinni. Ég ætla ekki að setja á langar ræður en ég hvet hv. þingmenn til að styðja þá breytingartillögu sem fram er komin. Ég held að hún sé góð lausn á vanda sem við stóðum öll frammi fyrir.