150. löggjafarþing — 112. fundur
 2. júní 2020.
nýting vindorku.

[14:03]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil við þetta tækifæri beina fyrirspurn til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra varðandi nýtingu vindorku. Nú hefur Orkustofnun lagt til 43 virkjunarkosti til skoðunar í tengslum við vinnu verkefnisstjórnar um rammaáætlun. 34 þeirra fjalla um vindorku, þ.e. vindmyllugarða sem dreifast vítt og breitt um landið.

Ég beindi keimlíkri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra í síðustu viku. Í svörum hans vakti athygli mína að ráðherrann sagði, með leyfi forseta:

„Það er mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun, þ.e. allt sem er yfir 10 MW.“

Í skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um nýjar aðferðir við orkuöflun, sem ráðherra lagði fram fyrir 149. löggjafarþing í nóvember 2018, segir m.a. í 4. kafla, 4.4, þar sem fjallað er um lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, svokallaða rammaáætlun, með leyfi forseta:

„Lögin taka til landsvæða þar sem er að finna orkulindir. Slíkar orkulindir gætu, aðrar en fallvatn og jarðhiti, verið kol og mór, samanber t.d. eldri ákvæði 1. gr. námulaga, …“

Og áfram segir í tilvitnaðri skýrslu:

„Andrúmsloftið fellur hins vegar undir þau verðmæti sem kölluð eru res communes og enginn telst eiga einkarétt á. Vindorka teldist vafalaust til slíkra verðmæta. Gildissvið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun víkur hvorki að vind- né sjávarorku samkvæmt ákvæðum laganna …“

Og enn segir í skýrslu iðnaðarráðherra, með leyfi forseta:

„Rammaáætlun tæki þá einungis til landsvæða þar sem er að finna fallvatn og/eða jarðhitakerfi á afmörkuðu svæði en ekki vindorkuvera.“

Því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra, að teknu tilliti til sterks texta í skýrslu iðnaðarráðherra frá því í nóvember 2018: Deilir ráðherrann og ráðuneyti hans þeirri skoðun sem fram kom hjá umhverfisráðherra í síðustu viku, þ.e. að nýting vindorku falli undir rammaáætlun, eða fór umhverfisráðherra rangt með afstöðu ráðherra og ráðuneytis iðnaðarmála?



[14:05]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst, til þess að svara spurningunni skýrt, þá er það mat ráðuneytisins og mitt persónulega mat sömuleiðis að það er alveg rétt að segja að ráðuneytið hafi ekki haldið því fram að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun en afstaða ráðuneytisins er í rauninni sú að það þurfi að taka af öll tvímæli um það hvort vindorka yfir 10 MW eigi heima í rammaáætlun eða ekki. Í áliti iðnaðarnefndar frá 29. mars 2011, löngu fyrir mína tíð, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í umsögn umsagnaraðila kom fram sú ábending að gildissvið frumvarpsins væri of þröngt afmarkað. Nefndin fellst á þetta sjónarmið.“

Svo er farið yfir það og sagt hérna skýrt:

„Nefndin leggur því til breytt heiti frumvarpsins og víðtækara gildissvið því að öðrum kosti er frumvarpið afmarkað við virkjunarkosti í fallvötnum eða á háhitasvæðum.“

Þannig að ef það er túlkað að vilji nefndarinnar, a.m.k. á þeim tíma, hafi verið að breyta þyrfti orðalaginu vegna þess að annars tæki það eingöngu til jarðvarma og vatnsafls — þar af leiðir að það má alveg segja að það þurfi að skýra það skýrt. Það sem mér finnst skipta máli í þessu er að það gengur auðvitað ekki, ekki í þessum málaflokki frekar en öðrum, að það sé mat eins ráðuneytis að það sé klárt að það heyri undir rammaáætlun en að það sé mat Orkustofnunar sem heyrir undir mig að svo sé ekki. Mér finnst blasa við að það þurfi bara að skýra þetta.

Verkefni okkar umhverfis- og auðlindaráðherra sem vinnum að þessu saman er hins vegar einfaldlega að búa til ramma utan um það hvernig við metum virkjunarkosti í vindorku og hvernig það mat fer fram. Þá þarf auðvitað að horfa til þess að við erum nú þegar með lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslög, valdheimildir sveitarfélaga yfir sínum málum o.s.frv., þannig að það þarf einfaldlega finna leið til að kortleggja hvar vindorkukostir geta verið vegna þess að ólíkt jarðvarma og vatnsafli þá geta þeir í raun og veru verið alls staðar. En við erum ekki á því heldur viljum við horfa til annarra þátta. (Forseti hringir.) Það þarf að kortleggja það. Og hver er ferill slíkra mála? Mín skoðun er sú að það geti alls ekki verið þannig að ferill slíkra mála sé (Forseti hringir.) með nákvæmlega sama hætti og með vatnsafl og jarðvarma. En allt önnur (Forseti hringir.) sjónarmið gilda þegar kemur að þeim framkvæmdum og ég skal koma að því nánar í (Forseti hringir.) seinna svari mínu.



[14:07]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið sem var alveg prýðilegt. Það vekur auðvitað athygli á því að ráðherrarnir tveir, iðnaðarráðherra annars vegar og umhverfisráðherra hins vegar, virðast horfa á málið hvor út frá sínu sjónarhorni. Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann sjái fyrir sér varðandi það að skýra þetta mál og ramma það inn þannig að það liggi ljóst fyrir. Eins og ég kom inn á í ræðu minni eru komnir einir 34 kostir til starfshóps um rammaáætlun 4, og það er auðvitað mjög skrýtin staða ef allt er óljóst um það hvort málið heyri yfir höfuð undir rammaáætlun. Síðan væri, ef tími vinnst til, áhugavert að heyra, bara svona út frá almennum nótum, hver afstaða hæstv. ráðherra er til nýtingar vindorku og uppbyggingar vindmyllugarða.



[14:08]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er ágætur samkvæmisleikur að spyrja okkur til skiptis um afstöðu okkar. Ég átta mig fullkomlega á því hvert hv. þingmaður er að fara og geri enga athugasemd við það. Það er mjög eðlilegt. En málefnalega skiptir auðvitað mestu máli að það þarf að skýra og búa til almennilegt ferli og sú vinna stendur yfir og er í mjög góðri samvinnu á milli okkar, mín og umhverfis- og auðlindaráðherra. Verkefnið er einfaldlega að útbúa ramma og svarað því skýrt hvaða reglur gilda um vindorkukosti og í hvaða ferli þeir eiga síðan að fara. Það verður annað ferli en fyrir jarðvarma og vatnsafl. Það er alveg ljóst.

Mín persónulega afstaða til vindorku er að ég tel að reglurnar þurfi að vera skýrar. Ramminn þarf að vera skýr um það hvað skiptir mestu máli þar. Umhverfissjónarmið eiga við um vindorku eins og aðra kosti, annars konar þó. Í þessum efnum eins og svo oft áður finnst mér líka ágætt að líta til þeirra landa sem komin eru lengra en við, eru með meiri reynslu af uppbyggingu vindorku en við, hafa gert mistök sem við getum þá reynt að forðast. Þess vegna höfum við byggt vinnu okkar á því að horfa til þeirra ríkja þannig að það er einfaldlega verkefnið. Ég sé alveg fyrir mér og geri ráð fyrir því uppbygging vindorku verði hér á landi og myndi fagna því svo lengi sem það er rétt gert.