150. löggjafarþing — 114. fundur
 8. júní 2020.
innflutningur dýra, 3. umræða.
stjfrv., 608. mál (sóttvarna- og einangrunarstöðvar). — Þskj. 1407, nál. m. brtt. 1633.

[17:25]
Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra. Málið fór til atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. og við fengum á fund nefndarinnar Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni og Þorvald H. Þórðarson frá Matvælastofnun. Það bárust einnig umsagnir frá Dýraverndarsambandi Íslands, Félagi ábyrgra hundaeigenda og Samtökum grænkera á Íslandi.

Ég ætla aðeins að reifa það sem kom út úr vinnu nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Í umsögn til nefndarinnar er því velt upp hvort ástæða sé til að endurskoða orðalag ákvæðis er varðar meðferð dýra sem flutt eru til landsins án heimildar eða þegar þau sleppa frá flutningsförum. Í því samhengi er m.a. vísað til meðalhófs og lagt til að ávallt sé beitt vægari úrræðum en þeim að dýri sé tafarlaust lógað eða fargað. Nefndin bendir á að markmiðið með þeirri breytingu sem lögð er til með hinu tilvísaða ákvæði er að gætt sé meðalhófs þegar dýr eru flutt til landsins án heimildar eða þau sleppa frá flutningsförum. Gildandi ákvæði kveður á um að í slíkum tilvikum sé dýrum tafarlaust lógað. Þá hafi komið fram fyrir nefndinni að breytingin veiti svigrúm til að beita vægari úrræðum með því að Matvælastofnun verði veitt heimild til að gefa umráðamönnum dýra kost á að senda þau úr landi, að því skilyrði uppfylltu að smitvörnum sé ekki ógnað. Í því felist m.a. að meðan gerðar eru ráðstafanir um afdrif þeirra dýra séu þau í vörslu Matvælastofnunar. Æskilegt væri að slík einangrun fari fram í móttökustöð gæludýra á Keflavíkurflugvelli, hafi innflutningurinn átt sér stað um Keflavíkurflugvöll en annars staðar þyrfti að gera viðeigandi ráðstafanir hverju sinni.

Nefndin telur með hliðsjón af framangreindu rétt að tekinn sé af allur vafi um að umrædd dýr skuli vera í vörslu Matvælastofnunar á meðan gerðar eru ráðstafanir um afdrif þeirra og leggur til viðeigandi breytingu á orðalagi ákvæðisins.

Við meðferð málsins fyrir nefndinni lagði ráðuneytið til sambærilegar breytingar á 4. málslið 1. efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins er varðar ráðstöfun dýra sem hafa verið sædd eða notuð sem fósturmæður og afkvæma þeirra eftir ólögmætan innflutning á sæði, eggjum eða fósturvísum. Þar sem slík dýr eru íslensk, þ.e. fædd á Íslandi, er talið æskilegt að Matvælastofnun verði heimilt að láta framkvæma áhættumat með tilliti til smitvarna áður en ákvörðun varðandi ráðstöfun verði tekin. Í einhverjum tilfellum gæti niðurstaða slíks áhættumats jafnvel orðið sú að ekki verði krafist aflífunar né brottflutnings heldur yrði dvöl á landinu heimiluð með skilyrðum á grundvelli sóttvarnasjónarmiða, samanber önnur ákvæði laganna.

Nefndin fellst á þau sjónarmið enda í samræmi við markmið frumvarpsins um beitingu meðalhófs við ráðstöfun og leggur til viðeigandi breytingu á frumvarpinu.

Í umsögn Félags ábyrgra hundaeigenda er sett fram það sjónarmið að í þeim tilvikum þegar umráðamaður dýrs hefur falið þriðja aðila að flytja það til landsins með flutningsfari sé ekki rétt að umráðamanni sé gert að bera kostnað af förgun eða flutningi dýrs úr landi, þegar það sleppur úr flutningsfari. Nefndin vill í þessu samhengi minna á að ákvörðun um hvort flytja skuli dýr úr landi eða lóga því byggist á sjónarmiðum um viðbrögð við smitvörnum og skuli því ekki litið á sem refsingu við brot á lögum um innflutning dýra. Hvað varðar sjónarmið um kostnað umráðamanns mætti líta svo á að flutningsaðili sé ábyrgur fyrir flutningi á viðkomandi dýri á meðan á flutningi stendur. Eigi mistök sér stað fari um þann kostnað eftir því sem umráðamaður dýrs samdi um við flutningsaðilann og þeim skilmálum er gilda um flutninginn.

Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin þó rétt að gera skýrara að sá sem er ábyrgur fyrir flutningi dýrs sem sleppur úr flutningsfari fyrir slysni skuli tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi og leggur til breytingu þess efnis.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað 3. og 4. málsliðar 1. efnismálsgreinar 1. gr. komi fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Umráðamaður dýrs, sem er flutt inn án heimildar, skal þá tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Sá sem er ábyrgur fyrir flutningi dýrs, sem sleppur úr flutningsfari fyrir slysni, skal á sama hátt tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Á meðan ráðstafanir eru gerðar um afdrif dýra sem eru flutt inn án heimildar eða sloppið hafa úr flutningsförum skal einangra þau í vörslu Matvælastofnunar. Eggjum, sæði eða fósturvísum skal á sama hátt eyða eða senda úr landi á kostnað innflytjanda, svo og dýrum sem sædd kunna að hafa verið eða notuð sem fósturmæður og afkvæmum sem kunna að hafa fæðst eftir ólögmætan innflutning. Matvælastofnun er þó heimilt að láta framkvæma áhættumat með tilliti til smitvarna áður en ákvörðun um ráðstöfun er tekin samkvæmt 6. málslið og getur á grundvelli þeirrar niðurstöðu heimilað dvöl á landinu að uppfylltum skilyrðum.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis og með fyrirvara.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sigurður Páll Jónsson og hv. þm. Jón Þór Ólafsson, með fyrirvara.



[17:33]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hingað upp í sambandi við þetta nefndarálit og þakka hv. formanni nefndarinnar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir flutning þess. Ég er á þessu máli og vildi segja það hér í pontu að ég fagna því að málið tók breytingum, eins og fram kom í máli framsögumanns og eins og stendur hér, með leyfi forseta:

Í 1. gr. frumvarpsins komi fram nýir málsliðir, svohljóðandi:

„Umráðamaður dýrs, sem er flutt inn án heimildar, skal þá tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Sá sem er ábyrgur fyrir flutningi dýrs, sem sleppur úr flutningsfari fyrir slysni, skal á sama hátt tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Á meðan ráðstafanir eru gerðar um afdrif dýra sem eru flutt inn án heimildar eða sloppið hafa úr flutningsförum skal einangra þau í vörslu Matvælastofnunar. […] Matvælastofnun er þó heimilt að láta framkvæma áhættumat með tilliti til smitvarna áður en ákvörðun um ráðstöfun er tekin skv. 6. málsl. og getur á grundvelli þeirrar niðurstöðu heimilað dvöl á landinu að uppfylltum skilyrðum.“

Ég er algerlega sammála þessu atriði og það varð til þess að ég setti mig á málið skilyrðislaust. Í ljósi þeirrar hugsunar að við þurfum að gæta allrar varúðar í sambandi við sóttvarnir og smitvarnir, ekki síst í því ástandi sem við höfum verið að ganga í gegnum undanfarna mánuði, hefur mér verið ofarlega í huga hvað það skiptir miklu máli að fara varlega í þessum efnum og fagna ég því að þessi breyting hafi verið lögð til. Við ættum að gæta þess í öllum öðrum innflutningi, t.d. hvað varðar innflutning á hráu kjöti, að þar er verk að vinna og munum við ræða það betur síðar.

En ég fagna þessum breytingum og styð þetta mál.



[17:36]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni málsins, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formanni atvinnuveganefndar, fyrir að hafa tekið svo vel á þessu máli um sóttvarnir dýra og innflutning dýra hvað varðar dýravernd, passa upp á að vel sé búið um sóttvarnir en bæta dýravernd við samhliða. Það er mjög gott. Það komu umsagnir hvað þetta varðar frá Dýraverndarsambandi Íslands, Félagi ábyrgra hundaeigenda og Samtökum grænkera, sem eru vegan-samtök á Íslandi sem stilla sinn lífsstíl þannig að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi, hvort sem um er að ræða hvað fólk borðar eða hvers konar klæðnað það velur eða hvað.

Í frumvarpinu eins og það kom frá ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Dýrum, sem eru flutt inn án heimildar eða sleppa úr flutningsförum, skal tafarlaust lógað og fargað bótalaust á kostnað umráðanda svo eigi stafi hætta af. Matvælastofnun er þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað.“

Eins og framsögumaður fór yfir áðan er búið að breyta þessu verulega til að gæta að velferð dýra. Það var líka bent á að þetta væri á kostnað þess aðila sem væri að flytja dýrið inn, jafnvel þó að það væri ekki honum að kenna. Ef dýrið sleppur eða einhvers konar mistök eiga sér stað er það samt sem áður á kostnað eigandans eða innflytjandans. Segjum að dýrið hafi verið sett í sóttkví eða eitthvað svoleiðis og sleppur þaðan. Þetta var leiðrétt líka, sem er mjög gott.

Þetta frumvarp er um breytingu á lögum um innflutning á dýrum, varðandi sóttvarna- og einangrunarstöðvar, og það er búið að laga ofboðslega mikið, eins og ég segi, dýravelferðarvinkilinn með hliðsjón af því sem ofantöldu samtökin nefndu. En ástæðan fyrir því að ég er með fyrirvara er að ekki var tekið á einu sem ég hefði viljað sjá. Það eru heimasóttvarnir, ekki bara fyrir dýr sem eru hjálpardýr eins og hjálparhundar fyrir blinda eða slíkt. Þeir geta fengið undanþágu til að vera með dýrin í heimasóttkví. Mér fannst að það hefði verið hægt að taka betur á því. Var það ekki í fyrra nefndaráliti sem eitthvað kom fram varðandi það? Ég er með fyrirvara á því en annars er þetta mjög vel gert í nánast alla staði varðandi það að efla dýravelferð í þessu frumvarpi, ég vil þakka það.

Ég vildi nefna það í lokin að í nefndarálitinu segir: „Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis, og með fyrirvara.“

Ég var ekki fjarverandi því ég var búinn að hringja mig inn á fundinn. Ég þurfti að víkja af fundi til að sækja börnin mín en ég fór inn á fjarfundinn. Ég hafði ekki tillögurétt eða atkvæðarétt á fundinum en ég sat þó fundinn áfram með seturétt og málfrelsi. Þetta er þá bara leiðrétt hérna munnlega.



[17:40]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra og er fullt tilefni til að lýsa yfir ánægju með hvað málið hefur tekið jákvæðum breytingum í meðförum á Alþingi. Fyrir það vil ég þakka um leið og ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir framsöguna og fyrir mjög trausta forystu fyrir atvinnuveganefnd. Þannig stóð á eftir 2. umr., þegar kom að því að ganga frá nefndaráliti, að við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson settum nöfn okkar undir nefndarálitið með fyrirvara. Fyrirvarinn var sá að við rituðum undir nefndarálitið í trausti þess að á milli 2. og 3. umr. kæmu fyrir nefndina sérfræðingar sem gætu staðfest að með samþykkt frumvarpsins væri í engu ógnað smit- og sóttvörnum vegna innflutnings dýra. Það gekk allt saman eftir, eins og menn hafa heyrt hér. Á fund nefndarinnar á milli 2 og 3. umr. komu góðir gestir, þar á meðal yfirdýralæknir og fulltrúi frá Matvælastofnun, sem hefur veigamiklu hlutverki að gegna í þessu efni.

Frumvarpið hefur tekið breytingum sem eru mjög í þessa átt. Fyrst er að nefna að í nefndaráliti sem flestir nefndarmenn eru á, þar á meðal við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson án fyrirvara að þessu sinni, segir, með leyfi forseta:

„Nefndin lagði í umfjöllun sinni áherslu á smit- og sóttvarnir vegna innflutnings dýra og telur með hliðsjón af þeim upplýsingum er fram komu við meðferð málsins að með samþykkt frumvarpsins sé verið að veita Matvælastofnun úrræði til að tryggja sem best sóttvarnir og lágmarka eins og kostur er smithættu við innflutning dýra til landsins.“

Herra forseti. Ég vil lýsa mikilli ánægju minni með þá áherslu sem fram kemur af hálfu atvinnuveganefndar þegar kemur að smit- og sóttvörnum. Eins og nefnt hefur verið er það atriði okkur öllum ofarlega í huga í ljósi veirufaraldursins sem heimurinn hefur verið að glíma við undanfarnar vikur og mánuði. Ég sé fyrir mér að smit- og sóttvarnir komi við sögu í fleiri málum sem bíða afgreiðslu og hafa verið til meðferðar á vettvangi hv. atvinnuveganefndar. Þess vegna er það mjög ánægjulegt að nefndin hefur í raun markað sér stefnu í því að leggja áherslu á þann þátt mála meðfram ýmsum öðrum áherslum, að sjálfsögðu.

Hér hefur verið rakið ágætlega hvaða breytingar það eru sem orðið hafa á frumvarpinu. Aðalmálið lýtur að meðferð dýra sem flutt eru inn til landsins án heimildar eða þegar þau sleppa frá flutningsförum. Það er niðurstaða nefndarinnar, eins og rakið er í nefndaráliti, að rétt sé að taka af allan vafa um að umrædd dýr skuli vera í vörslu Matvælastofnunar á meðan gerðar eru ráðstafanir um afdrif þeirra. Leggur nefndin til viðeigandi breytingu á orðalagi ákvæðisins og er hana er að finna í nefndarálitinu.

Ég skal ekki lengja umræðuna hér með því að ræða frekari breytingar. Þær eru mjög of ið sama far, eins og stendur í fornum ritum, og gera það að verkum að það er með mikilli ánægju sem ég get stutt þetta frumvarp um leið og ég ítreka þakkir mínar til samnefndarmanna fyrir ánægjulegt samstarf í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, með sérstökum þökkum til hv. formanns nefndarinnar.



[17:45]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en koma stuttlega inn á þetta mikilvæga mál. Þetta er mikilvægt mál, svo sannarlega, vegna þess að mikil verðmæti eru í því fólgin að við varðveitum búfjárstofna okkar sérstaklega fyrir smitsjúkdómum að utan. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að gætt sé fyllstu varúðar þegar kemur að innflutningi á dýrum og öll mistök í þeim efnum geta orðið okkur verulega dýrkeypt.

Ég vil þakka sérstaklega fyrir nefndarvinnuna og þakka fyrir að tekið var tillit til sjónarmiða fulltrúa Miðflokksins í nefndinni sem óskuðu eftir því að málið yrði frekar rætt og þá sérstaklega með tilliti til smit- og sóttvarna. Það er ánægjulegt að sjá að gott samstarf var í nefndinni um þessi mál og ber að þakka þá ágætu vinnu sem þar fór fram, og þakka ég formanni nefndarinnar sérstaklega í þeim efnum.

Það kemur hér fram að nefndin vill í þessu samhengi minna á að ákvörðun um hvort flytja skuli dýr úr landi eða lóga því byggist á sjónarmiðum um viðbrögð við smitvörnum og skuli því ekki litið á sem refsingu við brotum á lögum um innflutning dýra. Hvað varðar sjónarmið um kostnað umráðamanns mætti líta svo á að flutningsaðili sé ábyrgur fyrir flutningi á viðkomandi dýri á meðan á flutningi stendur. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það hefur því miður gerst í Leifsstöð, þegar dýr hafa verið flutt inn, að þau hafa sloppið og það er ekki svo langt síðan það gerðist. Af stað fór umfangsmikil leit og kostnaðarsöm að viðkomandi dýri sem fannst að endingu. En það er alveg ljóst að það þarf að vera á hreinu hver á að greiða slíkan kostnað. Í þessu ákveðna tilfelli komu björgunarsveitirnar að því verkefni sem segir okkur enn og aftur hve fjölbreyttum verkefnum þær sinna og hversu mikilvægar þær eru okkur hér á Íslandi og það góða starf sem þær leggja fram. Ég fagna því þannig sérstaklega að rætt sé um kostnaðinn hér.

Ég vildi einnig koma inn á það í þessu samhengi hversu mikilvægt þetta mál er og við eigum líka að horfa til annarra þátta, þegar kemur t.d. að okkar einstaka hestakyni, íslenska hestinum, og hversu viðkvæmur hann er fyrir smitsjúkdómum að utan. Því miður eru margir hrossastofnar erlendis undirlagðir alls kyns smitsjúkdómum og hefur það valdið miklum vandræðum á meginlandinu, í Bretlandi og Svíþjóð svo að dæmi sé tekið. Í því tilfelli er afar mikilvægt að menn passi upp á búnað sem þarf að sótthreinsa sérstaklega, reiðtygi og annað slíkt. Hestamenn sem fara á sýningar erlendis þurfa að hafa allan varann á í þeim efnum.

Ég vildi bara árétta þetta hér vegna þess að það sýnir okkur hve mikið er í húfi. Við eigum þennan hreina búfjárstofn á Íslandi og ég nefndi íslenska hestinn sérstaklega, hann er ákaflega viðkvæmur fyrir þeim smitsjúkdómum sem gætu borist til landsins. Það þarf því að gæta ýtrustu varkárni í þessum efnum. En þetta er gott mál og ég þakka nefndinni fyrir gott starf og fyrir að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem Miðflokkurinn nefndi sérstaklega í þeirri vinnu. Hér er stigið mikilvægt og gott skref í að vernda verðmæti sem felast í búfjárstofnum okkar á Íslandi og þeim hreinleika sem þeim fylgir.