150. löggjafarþing — 115. fundur
 9. júní 2020.
störf þingsins.

[13:31]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í dag má lesa frétt sem gerir mig verulega hugsi. Þar kemur fram að stærsta bókaverslanakeðja landsins, Penninn Eymundsson, hefur tekið allar nýjar bækur bókaútgáfunnar Uglu úr sölu og endursent þær útgáfunni. Þetta gerist orðalaust og án nokkurra viðvarana. Jakob Ásgeirsson, útgefandi og eigandi Uglu, segir að Eymundsson geri þetta til að refsa sér fyrir að hafa látið lesa bækur sínar inn sem hljóðbækur og streymt þeim til hlustunar á netinu. Slíkt hafa margar útgáfur gert, virðulegi forseti, að undanförnu. Mikil og vaxandi eftirspurn virðist eftir slíku hjá neytendum og fólk hlustar á hljóðbækur, og er ég náttúrlega í þeim hópi, enda með mjög skerta sjón, en fram kemur í sömu Morgunblaðsfrétt að forstjóri Eymundsson hafni þessari skýringu. En eitt um það.

Það er mjög alvarlegt ef markaðsráðandi fyrirtæki í miðlun prentmáls eigi að geta haft sína hentisemi um það hvaða bækur það bjóði til sölu. Bókaútgáfa er mjög mikilvægur hluti af stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi í þessu landi auk þess sem bækur sinna miklu hlutverki í menningu og þjóðmálaumræðu. Fyrirtæki sem fá að njóta markaðsráðandi stöðu eiga að hafa samfélagslegar skyldur. Svona gera menn ekki, að ráðast á litla útgáfu sem hefur staðið sig mjög vel og m.a. gefið út margar perlur heimsbókmenntanna á undanförnum árum. Fyrir utan þetta er það ótækt, ef rétt reynist, að fákeppnirisi á markaði reyni með svona hætti að stýra aðgengi neytenda að tilteknum vörutegundum, í þessu tilfelli að hljóðbókum í streymi á netinu.

Við sem löggjafinn hér á hinu háa Alþingi eigum að fylgjast grannt með þessu máli.



[13:33]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Undanfarin misseri, og ekki síst síðustu daga, hefur mikið verið rætt um hin ýmsu samkomulög á milli ríkis og sveitarfélaga og kannski helst á milli ríkisins og höfuðborgarinnar Reykjavíkur. Ég ætla aðeins að koma inn á eitt af stærri samkomulögunum sem er svokallaður höfuðborgarsáttmáli, sem er gríðarlega mikilvægur sáttmáli: nái hann fram að ganga. En það er kannski lykilatriði, nái hann fram að ganga. Það er mikilvægt að allir aðilar virði það samkomulag og það sé ekki einstefna þannig að ríkið setji inn fjármagn og einungis komist í gegn skipulagslega þær framkvæmdir sem henta höfuðborginni sjálfri.

Ég vildi því leggja áherslu á það að í samkomulaginu er skýrt tekið fram að báðir aðilar þurfi að halda samkomulagið og að hægt sé að endurskoða það gangi það ekki eftir. Það er margt gott í þessu samkomulagi og ljósastýringamálin eru komin vel af stað og eru í forgangi. Mun vonandi fara að fréttast af því í þessum mánuði hver næstu skref verða í því.

Það gengur kannski hægar að koma stórum mikilvægum framkvæmdum af stað sem eru búnar að bíða lengi. Það er eitt af því góða við höfuðborgarsáttmálann að tíu ára framkvæmdastopp hér í höfuðborginni var rofið með honum. En það hefur samt ekki tekist að rjúfa það formlega þar sem skipulagsmál milli Bústaðavegar og Reykjanesbrautar hafa ekki klárast, skipulagsmál varðandi Arnarnesveginn hafa ekki klárast og það hefur þurft að stofna enn eina nefndina varðandi Sundabraut og annað slíkt. Ég vildi bara leggja áherslu á það að til að þetta samkomulag nái fram að ganga þurfa allir aðilar að kappkosta að láta allt samkomulagið ganga eftir og standa við skuldbindingar sínar í því.



[13:35]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Síðustu vikur hafa örfá Covid-19 smit greinst og við erum auðvitað öll þakklát sérfræðingum okkar fyrir góðan árangur og eigum sömuleiðis að vera þakklát almenningi sem lagði mikið á sig til að hefta útbreiðslu faraldursins. Þessar aðgerðir og takmarkanir voru auðvitað nauðsynlegar.

Mestu takmörkunum hefur nú verið aflétt en eftir stendur sumt, þar á meðal smitrakningarappið. Við aðrar aðstæður hefði svona app á vegum stjórnvalda sem safnar upplýsingum um ferðir einstaklinga þótt meiri háttar inngrip í friðhelgi einkalífs og vakið mikla umræðu. Þjóðin sýndi hins vegar ábyrgð og hún sýndi traust en um þriðjungur þjóðarinnar sótti þetta app sem var kynnt sem tímabundin ráðstöfun. Með því létti þjóðin vinnu smitrakningarteymis sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra. Núna þegar opna á landið þá munu ferðamenn annars vegar undirgangast skimun, sem er auðvitað mikilvæg og nauðsynleg forsenda, en þeir verða líka hvattir til að sækja þetta app sem myndi þá rekja ferðir þeirra hérlendis. Þjóðin er sömuleiðis hvatt til að halda áfram að nota appið.

Hér finnst mér þurfa að staldra aðeins við. Ég minni á það að takmarkanir á réttindum fólks og inngrip í einkalíf þess þarf að rökstyðja og það þarf að nálgast það sem frávik. Er virkilega nauðsynlegt af stjórnvöldum að notast við rakningarforrit þegar staðan er sú að smit eru lítil sem engin í samfélaginu? Erum við þá ekki farin að nálgast grundvallarréttindi eins og friðhelgi einkalífs af töluverðri léttúð? Mér finnst vanta samtalið hérna. Ættu stjórnvöld ekki að sýna sömu ábyrgð og almenningur gerði? Þrátt fyrir tvöfalt samþykki, að notandi þurfi að samþykkja appið og síðan að gefa samþykki fyrir notkun upplýsinganna, stendur eftir að aðgerðin er beinlínis hönnuð til að safna upplýsingum um fólk til að afhenda stjórnvöldum þær. Á meðan appið er í símanum (Forseti hringir.) eru ferðir fólks raktar.

Í því ljósi spyr ég hvort stjórnvöld ættu ekki að leiða samtal um það hvenær þau sjái eiginlega fyrir sér að þessari ráðstöfun linni.



[13:38]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Bita fyrir bita, sneið fyrir sneið, þannig hefur meiri hlutinn í Reykjavík unnið gegn Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni undanfarin 20–25 ár. Þrátt fyrir samkomulag sem gert var í nóvember á milli samgönguráðuneytisins fyrir hönd ríkisins og Reykjavíkurborgar um að halda áfram að skoða möguleikann á að byggja flugvöll í Hvassahrauni, þar sem borgaryfirvöld hétu því að ganga ekki gegn starfsemi flugvallarins á meðan, skipuleggja sömu borgaryfirvöld veg sem lagður verður í gegnum flugskýli á flugvellinum. Þetta eru hörmuleg vinnubrögð. Fugvöllurinn í Vatnsmýrinni þjónar mikilvægu hlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og sem slík skiptir staðsetning og umgjörð flugvallarins miklu máli. Mikilvægara er þó það hlutverk flugvallarins að vera miðstöð sjúkraflugs í landinu og er þar um brýnt öryggismál landsmanna að ræða. Hefjast þarf handa við veðurfarslegar rannsóknir á því hvaða áhrif nýbyggingar við Hlíðarenda og ný byggð í Skerjafirði munu hafa á rekstur flugvallarins og hvetja samgönguráðherra til þess að stuðla að því að slíkar rannsóknir fari fram.

Ég skora á meiri hlutann í Reykjavík, þingmenn, samgönguráðherra og ríkisstjórn að tryggja óskerta starfsemi flugvallarins. Ég skora einnig á borgarstjórn Reykjavíkur að axla ábyrgð sína sem höfuðborg allra landsmanna. Það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál allra, ríkis og sveitarfélaga, að tryggja öruggar samgöngur til höfuðborgarinnar, auka ferðafrelsi en um leið tryggja jafnan rétt Íslendinga til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Reykjavíkurborg er að bregðast hlutverki sínu sem höfuðborg landsins þegar yfirlýst markmið borgaryfirvalda er að flytja innanlandsflugvöllinn okkar í Vatnsmýrinni með slíkum yfirgangi, að koma flugvellinum fyrir kattarnef án þess að annar jafn góður kostur sé tilbúinn til notkunar. Samningur um sölu ríkisins á landi undir neyðarbrautina í Vatnsmýrinni í mars 2013, rétt fyrir alþingiskosningar, er síðan kafli út af fyrir sig. Ég hef lengi talað fyrir því að það mál verði skoðað ítarlega. Hér er beitt hinni svokölluðu salami-aðferðafræði af hendi Reykjavíkurborgar; sneið fyrir sneið, bita fyrir bita. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:40]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Því miður er það svo að okkur hefur ekki tekist á síðustu áratugum að fara í almennilega uppbyggingu á samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Af nýframkvæmdum samgöngumannvirkja hafa eingöngu 16% runnið til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu þar sem 70% íbúa búa. Vonandi sjáum við fram á breytta tíma í þessum efnum.

Í september sl. var skrifað undir tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var samkomulag sem var gert milli samgönguráðherra og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með samkomulaginu var að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumála. Leita skal leiða við að dreifa umferðarálagi með markvissum hætti og bæta þannig nýtingu innviða. Jafnframt á að stuðla að því að loftslagsmarkmiði stjórnvalda um sjálfbært kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð með eflingu almenningssamgangna, deilihagkerfis í samgöngum og bættum innviðum fyrir aðra vistvæna samgöngumáta og auk þess að hvetja til breyttra ferðavenja og orkuskipta.

Mikilvægt er jafnframt, og það er hluti af markmiðunum, að auka umferðaröryggi með það að markmiði að draga stórlega úr umferðarslysum. Lykilatriði er auðvitað að bæta umferðarflæði hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka mikilvægt að íbúar hafi raunverulegt valfrelsi um samgönguleiðir. Þess vegna verðum við, samhliða því að það þarf að sjálfsögðu að ráðast í betrumbætur á stofnvegum, að tryggja öruggar og góðar leiðir fyrir gangandi og hjólandi. Síðast en ekki síst þurfum við öflugar almenningssamgöngur sem í þessu verkefni gengur undir nafninu borgarlína. Borgarlína er ekkert lykilsvar við öllum vandamálum sem við glímum við í samgöngumálum en það er og verður alltaf að vera hluti af lausninni. Þess vegna er fagnaðarefni að við munum fljótlega afgreiða hér samgönguáætlun og áætlun um félag sem (Forseti hringir.) mun standa undir þeim framkvæmdum sem skrifað er undir í þessum höfuðborgarsáttmála.



[13:42]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í dag verður til grafar borinn í Houston í Texas George Floyd sem þann 25. júní sl. var tekinn af lífi af lögreglumanni án dóms og laga um hábjartan dag vegna gruns um að hafa framvísað fölsuðum 20 dollara seðli. Hann var óvopnaður og handjárnaður, lá varnarlaus í götunni meðan lífið var murkað úr honum. Vegfarendur reyndu að skerast í leikinn en allt kom fyrir ekki. Fórnarlambið reyndi að biðjast vægðar án árangurs með orðum sem farið hafa sem eldur í sinu um heiminn: I can´t breathe. — Ég næ ekki andanum. Um allan heim hafa fulltrúar stjórnvalda og alls kyns samtaka lýst hryllingi yfir þessum villimannlegu aðförum sem varpa ljósi á það hvílík meinsemd kynþáttahyggjan er. Í hópi ráðamanna sem hafa tjáð sig má nefna Angelu Merkel, Emmanuel Macron og Boris Johnson.

Skemmst er líka að minnast þess hvernig Justin Trudeau tjáði sig aðspurður um mat sitt á framgöngu Trumps Bandaríkjaforseta, með langri, innihaldsríkri og þrunginni þögn. Íslenskir ráðamenn hafa líka tjáð sig með þögn um þessa miklu atburði í Bandaríkjunum en sú þögn hefur ekki verið þrungin neinu sérstöku innihaldi eða verið sérlega innihaldsrík heldur bara þögn. Ísland hefur rödd á alþjóðavettvangi. Hingað líta aðrar þjóðir og vænta þess að hér séu málsvarar mannúðar, jafnréttis og friðsamlegra lausna. Og þegar alda hneykslunar og sorgar fer um heiminn vegna ofbeldis lögreglunnar í garð hörundsdökkra í Bandaríkjunum er það í meira lagi hjárænulegt (Forseti hringir.) að hvorki skuli heyrast hósti né stuna frá íslenskum stjórnvöldum. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því um hvað fólk er reiðubúið að gera málamiðlanir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:45]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Úrskurðarnefnd lögmanna hefur nýlega úrskurðað að Almenn innheimta, sem sér um innheimtu á smálánum fyrir smálánafyrirtæki, hafi brotið innheimtulög og sendi lögmanninum sem er eigandi Almennrar innheimtu, áminningu vegna ólöglegrar innheimtu. Á heimasíðu Neytendasamtakanna segir að lántakendur sem tóku lán hjá smálalánafyrirtækjunum fram í júní á síðasta ári gætu mögulega hafa ofgreitt stórar fjárhæðir. Þeir gætu þar með átt rétt á endurkröfu frá smálánafyrirtækinu. Sé það tilfellið ætti fólk ekki að greiða krónu til viðbótar fyrr en kröfuhafi getur sýnt fram á réttmæti krafnanna. Fólk er hvatt til að fara fram á leiðréttingu.

Þá staðfesti kærunefnd neytendamála nú í maí þá ákvörðun Neytendastofu að íslensk lög gildi um lán smálánafyrirtækja og það þótt þau væru skráð í Danmörku. Þá kemur fram á heimasíðu Neytendasamtakanna að smálánafyrirtæki sæti nú lögreglurannsókn í Danmörku vegna gruns um peningaþvætti og hafi hætt útlánastarfsemi og vísað er á Almenna innheimtu hafi lántakendur athugasemdir.

Hvernig stendur á því að við hér á Alþingi leyfum svona ólöglega innheimtu og það án eftirlits sem smálánafyrirtæki hafa nýtt sér til að klekkja á fátæku fólki? Almenn innheimta virðist hafa þann eina starfa að innheimta ólögleg smálán og kemst upp með það í flestum tilfellum af því að það er í eigu lögmanna og fellur ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og þarf því ekki innheimtuleyfi. Þessi gjörningur er gerður með undanþágu frá innheimtulögum sem við hér, löggjafinn, Alþingi, getum ekki réttlætt með nokkru móti og er okkur til háborinnar skammar. Eða eins og segir orðrétt á heimasíðu Neytendasamtakanna, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan í þessum tveimur málum sýnir svo ekki verður um villst að innheimtustarfsemi þrífst án raunverulegs eftirlits og viðurlaga. Það eitt og sér er gróft brot á neytandarétti og hafa Neytendasamtökin ítrekað bent á þessar brotalamir í lögum. Nú þarf löggjafinn að hysja upp um sig buxurnar.“

Eigum við að gera það? Ef ekki, hvers vegna ekki?



[13:47]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. 1.114 er ekkert rosalega há tala. 1.140 ekki heldur. Hvor tala um sig er t.d. rétt rúmlega fjöldi þeirra sem býr í Vesturbyggð. En 1.114 og 1.140 eru ekki bara tölur. Þetta er fjöldi þeirra sem annars vegar bíða eftir augasteinsaðgerðum á Íslandi og hins vegar eftir liðskiptaaðgerðum. Fólk sem kvelst heima hjá sér, er á verkjastillandi allan sólarhringinn, er félagslega heft en fær ekki úrlausn sinna meina. Á sama hátt er talan 62 ekki mjög há tala en það bíða 62 konur eftir brjóstnámi að hluta eða öllu leyti vegna krabbameins. Þessar tölur, herra forseti, eru síðan í október. Þær hafa væntanlega hækkað núna í Covid-ástandinu. En það versta er að þessar tölur eru manngerðar. Það er hægt að vinna bug á þessum biðlistum. Það er hægt að bæta líf þessa fólks, þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, og það er jafnvel hægt að auka lífslíkur þeirra með því að ráðast að vandanum. En það er ekki hægt út af pólitískum trúarkenningum. Það er ekki hægt af því að það má ekki versla við einstaklinga og fyrirtæki sem geta gert þessar aðgerðir, af því að þeir gætu grætt aðeins á því. Á meðan þessu fer fram lengjast hinir manngerðu biðlistar.

Herra forseti. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra sofi vel því að fólkið á biðlistunum gerir það ekki.



[13:49]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar taldi óþarft að ljúka frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegsráðherra vegna Samherjamálsins. Að stoppa athugun kemur eitt og sér ekki á óvart þegar þessir þrír stjórnarflokkar eiga í hlut. Það sem er hins vegar alvarlegt er hvernig meiri hlutinn ráðskast með hlutverk sitt með þeim hætti að þau telja það duga að henda inn einni bókun til að stoppa mál og koma í veg fyrir frekari umfjöllun. Með svona afgreiðslu, sem á endanum mun koma til kasta forseta þingsins, býður meiri hlutinn upp á feluleik og gerir málið sjálft að stórmáli því að það er ekkert smámál að draga tennurnar úr eftirlitshlutverki Alþingis og þangað beini ég sjónum mínum. Í því felst mikil pólitísk ábyrgð. Það er ólýðræðislegt og óboðlegt.

Við erum margbúin að upplifa það af hálfu stjórnarflokkanna að ef þeir sitja ekki sjálfir á skýrslum þá eru þeir hreinlega á móti skýrslubeiðnum sem við höfum lagt fram hér á þinginu, eins og að bera saman greiðslur Samherja fyrir veiðiheimildir í Namibíu og greiðslur á Íslandi. Þar var eftir því tekið hversu eindregið Sjálfstæðisflokkurinn var á móti. Þar fyrir utan er gert lítið úr fyrirspurnum þingmanna. Menn eru lengur að svara en nokkur dæmi finnast um í þingsögunni. Og nú á að gera allt til þess að kippa eftirlitshlutverki Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu úr sambandi.

Hvernig verður það, herra forseti, þegar framvegis verða gerðar frumkvæðisathuganir, á þá meiri hluti með þessum hætti að geta komið í veg fyrir afgreiðslu mála og hindra þannig að mál fái fullnægjandi meðferð? Á þetta í alvörunni að verða fordæmi hér á hinu háa Alþingi, algerlega óháð því máli sem hér var undir? Auðvitað vitum við að þetta er mjög viðkvæmt mál fyrir ríkisstjórnina, Samherjamálið, fiskveiðistjórnarkerfið og sérhagsmunirnir sem þarna liggja undir. En burt séð frá því eru þessi vinnubrögð óboðleg og sannarlega ekki hluti af margboðaðri eflingu Alþingis. Og þetta er í boði Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeirra arfleifð verður sú að þau standa í vegi fyrir öllum þeim skrefum sem minni hlutinn hefur reynt að stíga (Forseti hringir.) til að sinna eftirlitshlutverki sínu, sérstaklega þegar málin hafa verið viðkvæm, pólitískt viðkvæm, og við höfum, því miður, herra forseti, séð þetta áður.



[13:52]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Enn einu sinni vil ég gera nýsköpun og þróun að umtalsefni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að atvinnuhorfur háskólanema í sumar eru slæmar og mörg nýsköpunar- og sprotafyrirtæki eiga í erfiðleikum með að sinna mikilvægum verkefnum vegna fjárskorts. Síðastliðinn föstudag úthlutaði Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkjum á grundvelli viðbótarfjármagns sem var veitt í sjóðinn vegna heimsfaraldurs Covid-19 og takmarkaðra atvinnutækifæra í sumar. Samtals voru þetta 360 millj. kr. til 284 verkefna vegna 426 nemenda. Umsóknir voru hins vegar fyrir 1.401 námsmann og mun fleiri verkefni. Samtals var sótt um 3.980 mannmánuði en 1.200 var úthlutað. Árangurshlutfall var 30% þannig að augljóst er að þörfin er miklu meiri en unnt var að sinna. Lausleg yfirferð yfir úthlutanir sýnir að a.m.k. tveir þriðju hlutar þeirra runnu til verkefna hjá stofnunum og skólum sem eru fjármagnaðir af ríki eða sveitarfélögum. Mikill minni hluti rann til verkefna hjá fyrirtækjum. Allt þetta sýnir að enn er brýn þörf á að koma til móts við nýsköpun og þróun, ekki síst hjá sprotafyrirtækjum, og sinna um leið þörf háskólanema fyrir atvinnu við verkefni sem hæfa þeirra námi og veita dýrmæta reynslu og þjálfun.

Hér er hægt að slá tvær flugur í einu höggi. Ég vil því skora á Alþingi að bregðast við þessu með því að veita án tafar a.m.k. 250 millj. kr. til Nýsköpunarsjóðs námsmanna til að geta veitt fleiri styrki. Okkur er þetta í lófa lagið við afgreiðslu fjáraukalaga. (Forseti hringir.) Umsóknir liggja fyrir og sömuleiðis mat á þeim umsóknum. Úthlutun á því að geta gengið hratt og vel fyrir sig og skilað miklum árangri fyrir nýsköpun í landinu.



[13:54]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér á eftir greiðum við atkvæði um varnir gegn hagsmunaárekstrum æðstu stjórnenda ríkisins. Málið er framfaraskref og margt gott í frumvarpinu að finna en þar er ekkert sjálfstætt eftirlit með því að reglunum verði fylgt. Ekki nóg með það, það er nákvæmlega ekkert eftirlit með því að ráðherrar fylgi reglum um skráningu hagsmuna sinna. Hvers vegna ekki? Skýrustu svörin sem ég hef heyrt eru að ekki hafi náðst samstaða í meiri hlutanum um sjálfstætt eftirlit, nú eða eftirlit yfir höfuð, gagnvart því hvernig ráðherrar sinna vörnum sínum gegn hagsmunaárekstrum. Meiri hlutinn náði þó samstöðu fyrir helgi þegar hann lýsti því yfir að tilgangslaust væri að halda áfram að kanna hagsmunatengsl hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, vegna tengsla hans við sjávarútvegsfyrirtækið Samherja. Um það náðist samstaða í meiri hlutanum. Þessi samstaða þýðir að ráðherrann, sem sagði á opnum fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hann hefði ekkert að fela í þessu máli, getur falið sig á bak við það að meiri hluti nefndarinnar hafi ákveðið að ekkert sé að finna, ekkert að sjá hér eins og sagt er. Meiri hlutinn rannsakar sem sagt sjálfan sig og kemst að því að ekkert sé athugavert við stjórnarhætti ráðherra síns. Það er auðvitað ekki mjög trúverðug niðurstaða, það verður að segjast eins og er. Sú málsmeðferð meiri hlutans setur einnig hættulegt fordæmi gagnvart skýlausum rétti minni hlutans til að hafa eftirlit með verklagi og störfum ráðherra sem sitja einmitt í skjóli meiri hlutans. Hreinlegast hefði verið fyrir meiri hlutann að afgreiða málið með skýrslu að aflokinni gagnaöflun og gestakomum til að ræða mætti málið í þingsal en meiri hlutinn hefur ekki minna að fela en svo að hann getur ekki hugsað sér að ræða þetta mikilvæga mál í þingsal.



[13:57]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er víst þannig að u.þ.b. helmingur af íslenskum landvistkerfum eru metin í lélegu vistfræðilegu ástandi. Ríkir mikið ójafnvægi í kolefnisbúskap þessara kerfa og það verður líka mikil losun gróðurhúsalofttegunda frá löskuðum vistkerfum. Áætlað er að um 8 milljónir tonna af koldíoxíðsígildi losni frá framræstu votlendi ár hvert en það er minna vitað um losun frá röskuðum þurrlendisvistkerfum eða fullkomlega eyddu landi. Til þess að geta staðið við þær skuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist í gegnum samkomulag Íslands við ESB og Noreg um sameiginleg markmið um minni losun slíkra lofttegunda frá landi fyrir árið 2030, og þá innan Parísarsamkomulagsins, þarf sannreynanlegar upplýsingar um losunina. Sama gildir vegna markmiða ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland 2040.

Á síðasta hausti kom hingað ráðgjafateymi frá ESB til að vinna með okkur að úttekt á losun og bindingu innan svokallaðs landnýtingarhluta. Í úttektinni kom fram að ítarlegri upplýsingar um losun frá röskuðu landi eru annað af tveimur lykilatriðum sem Ísland þarf að bæta til að efla kolefnisbókhaldið, sem nauðsynlegt er. Þess vegna þarf að setja upp fimm ára grunnmælingaverkefni. Það er þá verkefni sem er samstarfsverkefni Landgræðslunnar, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktarinnar. Stjórnvöld þurfa að fjármagna það sérstaklega og áætluð fjárþörf er um 100 millj. kr. á ári í fimm ár. Þetta verkefni þolir enga umtalsverða bið, herra forseti, enda er það sameiginleg áskorun til allra flokka á Alþingi að tryggja sem best framtíð fólks í þessum efnum og slík alvörumál krefjast mikils metnaðar.



[13:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ýmis konar stórmál ganga yfir okkur þessa dagana og ég hef smááhyggjur af því að það sem er kannski stærsta málið sem hefur frést af í dag kom ekki alveg strax í fréttirnar. Eitt af því, sem er risastór frétt, er yfirlýsing sem kemur frá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi yfirlýsinga stjórnvalda vegna kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga um að öll vinna sé samkvæmt því leiðarljósi sem var markað með lífskjarasamningnum […]. Stjórn VR styður í einu og öllu kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og allra stétta og gerir ekki kröfu um að aðrir fái það sama eða minna en við fengum heldur fögnum við því ef aðrir ná betri árangri sem við getum svo haft að leiðarljósi í næstu samningum.“

Það er nefnilega dálítið áhugavert að takmark stjórnvalda sé einmitt lífskjarasamningurinn gagnvart stéttum sem fengu ekki að semja þar um. Það segir enn fremur í yfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Því skal svo haldið til haga að það eina sem raunverulega ógnar lífskjarasamningnum eru stjórnvöld sjálf. Það stendur ekki steinn yfir steini þegar kemur að efndum loforða og hefur mest allur tími og vinna verkalýðshreyfingarinnar farið í það að endursemja og krefja sömu stjórnvöld um sömu hluti og samið var um og skrifað var undir.“

Svo segir síðar: „Og fátt sem getur komið í veg fyrir að samningum verði sagt upp í haust.“

Þetta er ekki lítil frétt. Þetta er stór frétt. Það er stórkostlega alvarlegt mál ef ekki er verið að sinna því sem skrifað var undir í lífskjarasamningunum gagnvart ýmsum atriðum sem stjórnvöld lofuðu aðkomu að og að samningum, sem ekki er staðið við, sé haldið að öðrum starfsstéttum og þær eigi að fara eftir þeim viðmiðum. (Forseti hringir.) Stjórnvöld geta ekki lengur falið sig á bak við plögg sem þau hafa sjálf gert marklaus.



[14:01]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Haft er eftir formanni Landssambands lögreglumanna í fjölmiðlum í morgun að kjaraviðræður lögreglumanna við íslenska ríkið gangi mjög hægt og í raun ekki neitt. Hann segir að viðræðurnar séu í raun í algjörri pattstöðu og bætir við að þolinmæði lögreglumanna sé á þrotum. Í fréttinni kemur einnig fram að eitt af því sem viðræðurnar strandi á sé að lögreglumenn fái ekki útkljáðar bókanir frá síðustu kjarasamningum. Þar er til að mynda bókun um svokallað vopnaálag lögreglumanna sem þeir fá enga úrlausn í þrátt fyrir að harkan í afbrotum hafi sífellt aukist og lögreglumenn megi búast við því hvenær sem er, jafnvel einir á ferð, að þurfa að takast á við harðsvíraða afbrotamenn, eins og hefur reyndar margoft komið fram í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra á umliðnum árum um aukna hörku í mörgum brotaflokkum. Ríkið hefur ekki staðið við þessa bókun þrátt fyrir að hún hafi verið hluti af samningi við lögreglumenn. Að stærstum hluta virðast viðræðurnar stranda á þessu. Í hvaða stöðu eru lögreglumenn sem hafa ekki verkfallsrétt og geta ekki beitt neinum ráðum til að fá kjör sín leiðrétt? Þeir verða í raun að láta þvermóðsku stjórnvalda og viðsemjenda sinna yfir sig ganga og vonast eftir góðu veðri.

Herra forseti. Staðreyndin er auðvitað sú að kjör lögreglumanna hafa smám saman færst langt frá sambærilegum stéttum allar götur frá því að þeir afsöluðu sér verkfallsréttinum gegn því að laun þeirra fylgdu ákveðnum viðmiðunarstéttum. Ég lagði fram frumvarp í haust um að færa lögreglumönnum verkfallsréttinn að nýju. Margir þingmenn í þessum sal studdu sambærilegt frumvarp fyrir nokkrum árum, skömmu eftir hrun, og töluðu fyrir því hér úr þessum stól, þingmenn sem hér sitja enn og sitja sumir núna í stjórn. Hvar er stuðningur þeirra við lögreglumenn núna?



[14:03]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú hillir undir afgreiðslu samgönguáætlunar. Í henni eru margar stórar og mikilvægar framkvæmdir undir sem líklegar eru til að skapa ný tækifæri í íslensku samfélagi og stuðla að allra handa nýsköpun. Þar á meðal er samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins sem fær staðfestingu hér á Alþingi þegar samgönguáætlun verður samþykkt með fjárlögum hverju sinni og með samþykkt frumvarps um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, en 2. umr. um það frumvarp er á dagskrá Alþingis í dag. Stóru tímamótin með sáttmálanum eru að með honum sameinast ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samgönguskipulag fyrir alla íbúa á höfuðborgarsvæðinu, hvaða ferðamáta sem þeir kjósa. Það er ekki bara samkomulag um skipulag heldur líka um fjármögnun, uppbyggingu mannvirkja og almenningssamgöngur til 15 ára.

Samvinna sveitarfélaganna um skipulag umferðar um svæðið í heild er risastórt skref og aðkoma ríkisins tryggir samspil við umferð að og frá svæðinu í flugi, um hafnir og stofnbrautir, m.a. með tengingu við skipulag Sundabrautar en gert er ráð fyrir að tillögur um legu hennar liggi fyrir í lok sumars. Í samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum við innviði allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrautir, sérakreinar fyrir forgangsumferð, göngu- og hjólastíga, auk þess sem átak verður gert í umferðarstýringu. Greiningarvinna vegna útboðs á ljósastýringu er hafin en betri umferðarstýring getur haft veruleg áhrif á umferðarflæði.

Tilgangur samgöngusáttmálans er að flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Uppfærð framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans verður áfram hluti af samgönguáætlun (Forseti hringir.) og þannig er aðkoma Alþingis tryggð. Virðing allra samningsaðila fyrir samkomulaginu og heilindi í vinnu að framgangi þess er svo lykill að árangri.