150. löggjafarþing — 115. fundur
 9. júní 2020.
Orkusjóður, 2. umræða.
stjfrv., 639. mál. — Þskj. 1083, nál. m. brtt. 1643, breytingartillaga 1644.

[14:45]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, um frumvarp til laga um Orkusjóð. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Valdimar Össurarson frá Valorku ehf., Jón Ingimarsson frá Landsvirkjun, Jakob Björnsson frá Orkusjóði, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins og Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkusjóði.

Nefndinni bárust umsagnir og erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ríkisendurskoðun, Samtökum iðnaðarins og Valorku ehf.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sér lög um Orkusjóð og felld niður 8. gr. laga um Orkustofnun sem kveður á um sjóðinn og hlutverk hans. Um leið er hlutverki Orkusjóðs breytt í þá átt að sjóðurinn fái svigrúm til að styrkja orkutengd verkefni í samræmi við almenna stefnumótun stjórnvalda á sviði orkumála, nýsköpunar, byggðamála og loftslagsmála. Reglugerðum um Orkustofnun, nr. 400/2009, og um Orkusjóð, nr. 185/2016, verði einnig breytt til samræmis. Ein meginbreytingin felst í breyttu hlutverki Orkusjóðs sem ekki verði lengur afmarkað við að styðja við verkefni sem draga úr nýtingu jarðefnaeldsneytis, heldur einnig verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda.

Með frumvarpinu er lagt til að í stað þess að ráðherra skipi þriggja manna ráðgjafarnefnd skipi hann þrjá einstaklinga í stjórn sjóðsins. Nokkur umræða varð í nefndinni um skipun stjórnar og hvort setja ætti frekari skilyrði en nú er gert við skipun ráðgjafarnefndarinnar út frá hæfisreglum stjórnsýslulaga og þekkingu á málaflokknum, með vísan til þess að um er að ræða ráðstöfun á opinberu fé. Í því samhengi vill meiri hlutinn benda á að með 3. gr. reglugerðar nr. 185/2016, um Orkusjóð, er kveðið á um að ráðgjafarnefndinni sé skylt að leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga eftir því sem við á, áður en tillaga er gerð til ráðherra um styrki eða lánveitingu úr Orkusjóði eða niðurfellingu á endurgreiðsluskyldu lána. Jafnframt starfar ráðgjafarnefndin samkvæmt verklagsreglum nr. 654, samanber auglýsingu í Stjórnartíðindum frá 29. júní 2016, en reglurnar eru settar á grundvelli fyrrgreindrar reglugerðar. Þar segir að þeir einstaklingar sem sitji í ráðgjafarnefnd skuli gæta að hæfisreglum við ákvarðanatöku og að við mat á vanhæfi skuli hafa til hliðsjónar ákvæði stjórnsýslulaga.

Meiri hlutinn telur, með vísan til þess að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé að öðru leyti gert ráð fyrir breytingu á fyrirkomulagi á skipun í stjórn, að ekki sé þörf á að leggja til breytingar þar á og áréttar meiri hlutinn að í því felst sá skilningur að í reglugerð sé áfram kveðið á um skyldu stjórnar til að leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga við gerð tillagna til ráðherra. Jafnframt sé skýrt að þegar kemur að skipun í stjórn sé farið að hæfisreglum stjórnsýslulaga, og á sama hátt sé gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga við mat á mögulegu vanhæfi stjórnarmanns við meðferð og afgreiðslu mála.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Orkusjóður verði fjármagnaður með framlögum úr ríkissjóði á grundvelli fjárlaga hverju sinni, sem og vaxtatekjum sjóðsins, samanber 6. gr. frumvarpsins. Í umsögn Ríkisendurskoðunar er bent á að samkvæmt því teldist Orkusjóður A-hluta ríkisstofnun og þyrfti því að gera sérstök reikningsskil sem yrðu hluti A-hluta ríkisreiknings. Þá vekur Ríkisendurskoðun einnig athygli á því í minnisblaði til nefndarinnar að mögulega sé skörun við ákvæði laga um opinber fjármál. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur undir ábendingarnar og bendir á að samkvæmt lögum um opinber fjármál eigi stjórn sjóðsins hvorki að geta flutt fjárheimildir á milli ára né talið vaxtatekjur til tekna sjóðsins.

Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið en áréttar mikilvægi þess að við lagasetningu sé gætt samræmis við lög um opinber fjármál og leggur til breytingar þar á. Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að við ákvörðun um framlag til sjóðsins samkvæmt 6. gr. verði tekið tillit til þess að ekki verði hægt að ráðstafa vaxtatekjum af fé sjóðsins og þess að fjárheimildir færist ekki á milli ára.

Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Orðin „og vextir af fé sjóðsins“ í 6. gr. falli brott.

2. Orðin „ára eða“ í síðari málslið 1. mgr. 8. gr. falli brott.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir þetta álit rita Lilja Rafney Magnúsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson.

Ég vil einnig óska eftir að málið verði tekið til atvinnuveganefndar á milli 2. og 3. umr. vegna mögulegrar smávægilegrar breytingar á málinu sem ég vil fara aðeins betur í gegnum.



[14:51]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka framsögumanni fyrir ágæta yfirferð yfir nefndarálitið. Þetta er mjög áhugavert mál að mörgu leyti enda gríðarlega mikilvægt að Orkusjóður sé efldur og styrktur og vonandi verða þau skref sem eru tekin til þess að gera það og auðvelda sjóðnum starfsemi sína.

Mig langar að nýta tækifærið, herra forseti, og vekja athygli á því að ég sat reyndar fundinn í gegnum fjarfundabúnað þannig að ég var þátttakandi í umræðunni og tók í sjálfu sér þátt í öllu á fundinum. En þrátt fyrir það verð ég að viðurkenna að tvennt fór fram hjá mér og mig langaði að ræða það stuttlega við hv. framsögumann, sem er nú reyndar þegar búinn að óska eftir að málið verði kallað inn á milli 2. og 3. umr. Einhvern veginn fór það fram hjá mér við umræðuna í nefndinni að það kom mjög áhugaverð ábending frá Samtökum iðnaðarins um að Orkusjóður verði skyldaður til að birta opinberlega árlega skýrslu um starfsemi sína og úthlutun styrkja til verkefna. Ég veit að það var rætt í nefndinni á sínum tíma og var umræðan um það almennt jákvæð, enda held ég að það sé bara mjög gott mál að gagnsæi sé aukið, að það sé skýrt hvað sjóðurinn gerir hverju sinni. Mig langaði að kalla eftir afstöðu hv. framsögumanns gagnvart þeirri athugasemd Samtaka iðnaðarins og hvort ekki væri eðlilegt að skoða betur að bæta því við.



[14:53]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir ábendingu hv. þingmanns um þennan þátt. Þetta var komið inn í drög og vinnslu málsins, varðandi rekjanleika og gagnsæi og verkefni sem er verið að vinna á vegum sjóðsins, og ég held að ég sé alveg 100% öruggur með að þetta sé hjá Orkustofnun í dag. Þá vinna menn slík gögn og það er bara mjög gott að sú ábending komi fram frá nefndinni um þau verkefni sem eru unnin og fjárveitingar og annað, hvernig farið sé með fjármagn. Þannig að það er allt í átt að gagnsæi og rekjanleika. Ég tek bara undir þessi sjónarmið.



[14:54]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, Njáli Trausta Friðbertssyni, kærlega fyrir svarið og er glöð að heyra að hann sé til í að skoða þetta á milli umræðna. Í því samhengi kom sambærileg athugasemd frá Landsvirkjun varðandi einmitt mikilvægi þess að eftirlit sé haft með framvindu verkefna og mat gert á árangri þeirra og að öll skjöl með upplýsingum um verkefni og rekjanleika séu á hreinu. Þá var reyndar önnur áhugaverð athugasemd í umsögn Landsvirkjunar um mikilvægi þess að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um heimildir til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka í tengslum við jarðhitaleit. Það sem er nefnilega svo áhugavert við Orkusjóð, og svo sem mjög marga aðra sjóði, er að hann styrkir svo ótalmargt, ólíka þætti orkuframleiðslu, mjög oft í því skyni að minnka t.d. olíunotkun sem hlýtur að vera markmið sem við tökum heils hugar undir. Það er samt sem áður mjög mikilvægt að það séu skýrar reglur og skýr rammi um hvernig það er gert og ég held reyndar að sjóðurinn hafi verið að gera það mjög vel fram að þessu. Telur hv. framsögumaður að ekki sé ástæða til þess að skoða þetta samhliða? Þetta er nánast það sama og Samtök iðnaðarins voru að benda á.



[14:56]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er einmitt það sem við þurfum að gera milli 2. og 3. umr., fara aðeins betur í gegnum umsagnir Samtaka iðnaðarins og Landsvirkjunar. Þetta er ótrúlega merkilegur sjóður með 50 ára sögu sem hefur átt stóran þátt í orkuskiptum á Íslandi og jarðhitavæðingu og við þurfum að fara aðeins betur í gegnum þá þætti sem snúa að því tvennu. Ég tek bara, eins og ég sagði í fyrra svari, undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður kemur inn á og ég vona að við náum að afgreiða málið í nefndinni hratt og vel með tilliti til þeirra athugasemda.



[14:57]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Orkusjóður er mjög mikilvægur sjóður fyrir uppbyggingu orkuinnviða á Íslandi. Markmiðin voru fyrst um rafmagn og hita og nú á að fara að útvíkka hlutverk þessa mikilvæga sjóðs svo það nái til sjálfbærni. En það sem vantar er það sem ég nefndi ítrekað við hv. framsögumann málsins, Njál Trausta Friðbertsson, í nefndinni, að hafið sé yfir vafa eins mikið og hægt er að ráðherra geti misnotað þetta vald. Það er hann sem samþykkir á endanum tilnefningar. Það eina sem ég lagði til var að við færum sömu leið og við fórum fyrir sex vikum varðandi Matvælasjóð. Skipað yrði fagráð, ekki bara þessir þrír aðilar sem ráðherra skipar sjálfur, ekki bara þannig að þeir geti leitað ráða einhvers staðar, nei, að það sé skylda, eins og við sögðum fyrir sex vikum, að skipa fagráð, skipað sjö aðilum úr háskólasamfélaginu, nýsköpunargeiranum, iðnaðinum, ekki bara að þessir þrír aðilar ráði sem ráðherra skipar og samþykkir svo.

Við samþykktum um Matvælasjóð að skylt yrði að skipa sjö manna fagráð til að styðja fjögurra manna stjórn, ekki bara eins og er með Orkusjóð núna, þegar ráðherra á að skipa þrjá menn. Nei, skipað af hagsmunaaðilum í greininni líka. Ráðherra hafði enn þá minna vald þar en samt ákváðum við að setja inn fagráð til að styðja það, styðja að fleiri sjónarmið kæmust að og draga úr freistnivanda. En Matvælasjóður, sem við gerðum allt það fyrir, hefur það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla í landbúnaði og sjávarútvegi á meðan Orkusjóður hefur miklu víðtækara, stærra og mikilvægara hlutverk fyrir hagsmuni landsins. (Forseti hringir.)

Breytingartillaga mín liggur fyrir. Þegar málið verður tekið inn til nefndar milli 2. og 3. umr., þurfum við ekki að skoða þetta betur, hv. framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson?



[14:59]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek svo sannarlega undir með hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni um mikilvægi Orkusjóðs í 50 ár. Varðandi orkuskipti og hitaveituvæðingu landsins: Þetta er ein helsta auðlind okkar og þar hefur Orkusjóður gegnt gríðarlega stóru hlutverki. Ef ég man rétt þá er það yfir 100 milljarða sparnaður fyrir íslenskt þjóðarbú á ári að hafa hitaveitu eins og við rekum hana í dag í stað þess að nota ýmsa aðra orkugjafa til að hita upp húsnæði á Ísland. Það er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni.

Eins og ég kom inn á rétt áðan þegar ég flutti álit meiri hluta nefndarinnar er kveðið á um að ráðgjafarnefndinni eða stjórninni sé skylt að leita umsagnar Orkustofnunar og annarra sérfræðinga eftir því sem við á áður en gerðar eru tillögur til ráðherra um styrki eða lánveitingar úr Orkusjóði eða niðurfellingu á endurgreiðslu lána. Einnig er tekið fram í álitinu að jafnframt starfar ráðgjafarnefndin samkvæmt verklagsreglum nr. 654, með auglýsingu í Stjórnartíðindum frá 29. júní 2016, en reglurnar eru settar á grundvelli fyrrgreindrar reglugerðar. Þar segir að þeir sem sitji í ráðgjafarnefnd skuli gæta að hæfisreglum við ákvarðanatöku og að við mat á vanhæfi skuli hafa til hliðsjónar ákvæði stjórnsýslulaga.

Eins og kemur fram í meirihlutaálitinu telur meiri hlutinn, með vísan til þess að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé að öðru leyti gert ráð fyrir breytingu á fyrirkomulagi á skipun í stjórn, að ekki sé þörf á að leggja til breytingar þar á og áréttar meiri hlutinn að í því felst sá skilningur að í reglugerð sé áfram kveðið á um skyldu stjórnar til að leita umsagnar Orkustofnunar og annarra sérfræðinga. Jafnframt sé skýrt tekið fram að við skipun stjórnar sé farið að hæfisreglum stjórnsýslulaga og á sama hátt sé gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga við mat á mögulegu vanhæfi stjórnarmanns við meðferð og afgreiðslu mála. Þannig að það er álit meiri hluta nefndarinnar (Forseti hringir.) að hér sé nægilega tekið á málum sem snúa að þeim þáttum.



[15:02]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, segir að það sé mat meiri hluta nefndarinnar, og það er í nefndarálitinu og því greinilega mat nefndarinnar, að þau almennu hæfisskilyrði sem komu fram í nefndinni séu bara það, viðkomandi sé með hreint sakavottorð og svona. Það heldur ekki neitt. Og það þurfi að leita álits Orkustofnunar, eins aðila. Hjá Matvælasjóði, eins og við fórum yfir, er það ekki bara þannig að ráðherra skipi þrjá aðila eins og hjá Orkusjóði núna, sem hann ræður alla sjálfur, og samþykkir síðan tillögur frá þeim eða hafnar. Nei, hjá Matvælasjóði eru fjórir aðilar skipaðir í stjórn, þar af tveir frá hagsmunaðilum, og svo sjö manna undirnefnd, fagráð sem skal skipa og það verður að taka tillit til sjónarmiða þess.

Hv. þingmaður er ekki að plata neinn ef hann heldur því fram að þetta sé ekki sterkari umgjörð til að tryggja faglegri sjónarmið, betri nýsköpunarsjónarmið, að betur verði farið með almannafé þegar umgjörðin er eins og við samþykktum hana fyrir sex vikum hjá Matvælasjóði. Það veit hv. framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson. Það er að sjálfsögðu hægt að hafa umgjörðina svoleiðis en ef hann vill það ekki og hann hefur sannfært meiri hluta nefndarinnar um að gera það ekki, sem sannfærir síðan meiri hlutann á þinginu um að gera það ekki, þá dregur hann allt það fólk með sér inn í það.

Nú erum við að fara í sjálfbærnina, vindmyllur og svoleiðis, mögulega smávirkjanir. Hvað gerist ef síðan er úthlutað til félaga sem eru einhvern veginn háð eða tengd ráðherrum í hans hans, tengd þingflokki hans, félög tengd stjórnmálaflokkum í þessari stjórn fara að fá úthlutað úr sjóðnum? Menn fara að segja: Þetta er ekki gott.

Eigum við ekki frekar að undirbyggja þetta með faglegum sjónarmiðum með sjö manna fagráði eins og við gerðum með Matvælasjóð sem tryggir það og heldur vel utan um það að ráðherrar freistist ekki til að misfara með almannafé þegar kemur að Orkusjóði og skemma orðspor sjóðsins eftir alla þessa góðu og frábæru vegferð? Við getum gert það. Það væri faglegt að gera það. Það væri skynsamlegt að gera það. Það væri gott fyrir okkur öll að gera það (Forseti hringir.) og við höfum tækifæri til þess milli 2. og 3. umr.



[15:04]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í frumvarpinu og meirihlutaáliti nefndarinnar að stjórninni sé gert að ræða við sérfræðinga og bera tillögur sínar undir sérfræðinga. (JÞÓ: Eftir því sem við á.)„Skylt“ stendur í meirihlutaálitinu. (JÞÓ: Við á.)Það er ráðherra sem tekur síðan lokaákvörðunina. Það kemur alveg skýrt fram í þeirri umgjörð sem hér er um að ræða.

Síðan vil ég segja að ég skoðaði aðeins hverjir hafa setið í Orkusjóði á undanförnum 20 árum. Ég get ekki séð betur en þetta hafi bara gengið mjög vel, hæft fólk og vel störfum sínum vaxið í málaflokknum, enda hefur sagan verið ótrúlega góð og öflug allan þennan tíma. (JÞÓ: Við erum að breyta því núna.)Við erum hér með hæfisreglur, við erum með stjórnsýslureglur sem vísað er til að gildi um þetta eins og annað, um hæfi og annað sem við kemur rekstri sjóðsins, sem við erum hér að setja ný lög um. Þannig að við teljum ekki þörf á því. Þetta hefur gengið vel og er mjög skýrt hvað verið er að leggja til, í hvað lög er vísað, þannig að við teljum að það sé mjög fullnægjandi hvernig staðið er að málum.



[15:06]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Megnið af því sem ég fer yfir í þessari ræðu kom fram í andsvörum við hv. framsögumann málsins, Njál Trausta Friðbertsson. Kannski að ég fari aðeins yfir málið og lýsi í hverju breytingartillaga mín felst. Við ræðum frumvarp til laga um Orkusjóð. Taka á það hlutverk sem Orkusjóði hefur verið falið og setja inn í Orkustofnun og búa til sérstakan sjóð um það. Eins og ég nefndi áðan vorum við að samþykkja lög um Matvælasjóð fyrir sex vikum síðan. Frumvarpið kom frá ráðherra, hann skipar stjórn fjögurra manna, tveir eru skipaðir eftir tilnefningu hagsmunaaðila og ráðherra skipar hina tvo. En atvinnuveganefnd, sem við hv. þingmenn, Njáll Trausti Friðbertsson og ég, sitjum í, vildi bæta við sjö manna fagráði til að hleypa fleirum að og hafa betri og faglegri aðkomu, það yrði að skipa slíkt ráð og leita til þess eftir sjónarmiðum og samráði. Það er til að úthlutanir af almannafé úr sjóðnum séu faglegar og ákveðnar út frá sem flestum sjónarmiðum sem skipta hagkvæmni og skilvirkni þessa sjóðs máli og að vel sé farið með almannafé. Þetta settum við inn um Matvælasjóð.

Breytingartillaga mín er sú að það verði líka þannig hvað varðar Orkusjóð.

Samkvæmt frumvarpinu skipar ráðherrann þrjá aðila, hann skipar þá alla sjálfur, og þeir eiga að leita sér ráðgjafar hjá Orkustofnun og einhverjum öðrum aðilum ef tilefni er til. Þeir þurfa ekkert endilega gera það, en geta það ef þeir sjá tilefni til. Hvað Matvælasjóð varðar, sem við settum lög um fyrir sex vikum síðan, ákváðum við að skipað yrði fagráð sjö aðila, úr háskólasamfélaginu, nýsköpunarsamfélaginu, iðnaðinum, og að það yrði að hafa samráð við fagráðið við útdeilingar úr sjóðnum.

Hvers vegna skiptir það máli? Jú, það skiptir máli vegna þess að eins og hv. þingmaður og framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, sagði áðan er verið að spila með hvað marga milljarða? 100? Eða var það milljarður? (NTF: Hagnaður samfélagsins á ári.) Já, það er hagnaður samfélagsins á ári. Alveg rétt. Við orkuskipti sem áttu sér stað með hitaveitu voru það 100 milljarðar á ári. Þannig að það eru engar smáfjárhæðir sem um er að ræða sem svona sjóður spilar með. Þar sem freistnivandinn er síður til staðar þar sem fagleg sjónarmið fá að ráða er líklegt að það geti skilað samfélaginu ávinningi. Það er það eina sem ég er að benda á.

Ég spyr hvers vegna hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framsögumaður nefndarinnar í málinu, Njáll Trausti Friðbertsson, þráast við að gera það sem mig minnir Lilja Rafney Magnúsdóttir hafi gert varðandi Matvælasjóð, að setja faglegt ráð undir þessa stjórn, skipuðu fólki sem kemur víða að úr samfélaginu til að fá fram fagleg sjónarmið. Faglegt ráð sem maður verður að hafa samráð við, verður að bera tillögurnar undir og fá nákvæmar athugasemdir við. Það er nákvæmlega það sem fagráð myndi gera. Hvers vegna þráast þá framsögumaður málsins við að samþykkja það í þessu máli eins og við gerðum varðandi Matvælasjóð fyrir sex vikum síðan? Í andsvörum við mig áðan sagði framsögumaður málsins að hæfisskilyrði væru til staðar. En við vitum að í nefndinni var sagt: Hæfisskilyrðin eru bara almenn hæfisskilyrði. Að maður sé ekki á sakaskrá, eitthvað smávegis svoleiðis. Það mun ekki koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir varðandi skipanir í þessa stjórn, að skipa rétta fólkið sem kemur í rauninni með tillögur sem ráðherra eru þóknanlegar. Ef maður getur skipað fólk án þess að það sé faglegur rammi í kringum skapar það freistnivanda og hætta er á að illa sé farið með almannafé úr Orkusjóði. Þarna eru almennar reglur, eins og hv. þingmaður nefndi, í staðinn fyrir að við gerum eins og varðandi Matvælasjóð.

Förum aðeins yfir frumvarpið sem tekur Orkusjóð út úr Orkustofnun og gerir hann sjálfstæðan. Meiri hlutinn vill ekki setja þessa faglegu umgjörð til að forðast freistnivanda og tryggja að almannafé skili sér rétt og vel þangað sem það á að skila sér.

1. gr. er bara um Orkusjóð, með leyfi forseta:

„Starfrækja skal sjóð í eigu íslenska ríkisins sem nefnist Orkusjóður. Ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins og heyrir hann stjórnarfarslega undir ráðherra.“

Ég mun greiða atkvæði með 2. gr., því að það er þessi góða breyting á hlutverki sjóðsins sem er tilgangurinn með frumvarpinu. Með leyfi forseta:

„Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Frábært. Við erum að færa sjóðinn úr því hlutverki sem hann hefur haft, sem hefur skilað þjóðarbúinu gríðarlegum ávinningi, yfir í að fara að nota sjóðinn til að færa okkur í endurnýjanlegra, sjálfbærara og sjálfstæðara fyrirkomulag á orkunýtingu í landinu. Og einmitt þess vegna er þeim mun mikilvægara að framkvæmdin sé hafin yfir vafa, að við höfum umgjörð sem passar upp á að freistnivandi sé ekki fyrir hendi, sem er það sem breytingartillaga mín felur í sér. Það er það sama og við gerðum fyrir sex vikum síðan.

Áfram í 2. gr., með leyfi forseta:

„Orkusjóður styður jafnframt við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.“

Hvers vegna erum við þá ekki með fagráð sem gæti ráðlagt, sem skal og verður að ráðleggja þessari þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar? Þeir eiga að starfa og verkefnin eiga að vera á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Hvers vegna fáum við þá ekki aðila sem til þekkja í fagráð sem aðstoðar þessa þriggja manna ráðherrastjórn við hvernig úthlutað skuli fé úr þessum sjóði? Það er borðleggjandi. Að sjálfsögðu væri það faglegt. Að sjálfsögðu myndi það tryggja betur að tilgangi laganna væri náð, eins og segir í nefndaráliti með frumvarpi um Matvælasjóð sem við samþykktum fyrir sex vikum síðan. Þar segir meiri hlutinn, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn fellst á mikilvægi þess að tryggja breiðari aðkomu að sjóðnum svo tryggt verði að markmið sjóðsins nái fram að ganga. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að stjórn sjóðsins verði skylt að skipa allt að sjö manna fagráð til fjögurra ára í senn. Fagráð verði stjórninni til ráðgjafar um fagleg málefni og veiti umsagnir um úthlutanir úr sjóðnum auk almennrar ráðgjafar við stjórnina eftir því sem hún óskar.“

Væri ekki farsælla að setja svona fagráð í Orkusjóð eins og við settum í Matvælasjóð? Að sjálfsögðu. Áfram, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að m.a. verði litið til háskólasamfélagsins við skipan fagráðs ásamt því að líta til reynslu og þekkingar úr atvinnulífinu og til frumkvöðla og nýsköpunargeirans.“

Væri ekki faglegra og farsælla og líklegra til að minnka freistnivanda að setja þannig fagráð líka undir Orkusjóð? Að sjálfsögðu, hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson.

Ég held áfram með frumvarpið um Orkusjóð, 3. gr.

„Ráðherra skipar þrjá einstaklinga í stjórn Orkusjóðs til fjögurra ára, þar af skal einn skipaður formaður.“

Ráðherra skipar bara alla, á meðan hann skipar fjóra í stjórn Matvælasjóðs en tveir verða að vera tilnefndir af öðrum aðilum. Þar er meiri aðkoma utanaðkomandi aðila og betur passað upp á það sé ekki geðþótti ráðherra sem ræður eða gerræðisleg ákvörðun. Freistnivandinn er tekinn af honum þannig að betur er farið með almannafé.

Áfram, með leyfi forseta, í 3. gr.:

„Stjórn Orkusjóðs skal hafa yfirumsjón með umsýslu sjóðsins í samræmi við hlutverk hans. Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkusjóðs undir yfirstjórn stjórnar sjóðsins.“

Þegar kemur að 4. gr. verð ég á rauðu þar, því að þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Orkusjóðs gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og framlög úr Orkusjóði í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda …“

Ráðherra ákveður áherslur og stefnumótun. Ráðherra skipar þrjá aðila. Það eina sem þarf að passa upp á eru almenn skilyrði um hæfi eins og eru í stjórnsýslulögum sem eru lágmarksskilyrði. Ráðherra getur þar af leiðandi skipað nánast hvern sem hann vill. Og ráðherra skrifar undir tillögurnar um útdeilingu á almannafé sem koma frá þessari þriggja manna ráðherraskipuðu nefnd sem starfar nákvæmlega eftir þeim reglum og stefnu sem ráðherra setur fram.

Þetta býður upp á freistnivanda, að illa sé farið með almannafé. Við getum að sjálfsögðu komið í veg fyrir það eða gert það betra með því að skipa sjö manna fagráð eins og við gerðum með Matvælasjóð. Hvers vegna þráast framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, við? Hverjir munu fá útdeilt úr sjóðnum? Hverjir munu á endanum fá útdeilt úr sjóðnum? Nú erum við að færa okkur yfir í sjálfbærnina með þessari breytingu, sem er frábært. Hverjir munu fá útdeilt úr þessum sjóði? Litli aðilinn, Fallorka, sem kom þarna, var ekki ánægður með þetta frumvarp eins og það var sett fram. Hann sagði að litlu aðilarnir yrðu í mjög slæmri stöðu gagnvart því að fá fjárveitingar úr sjóðnum. Hverjir munu fá fjárveitingar úr þessum sjóði? Eru þar einhverjir stórir og sterkir aðilar sem þar verða leiðandi? Jú, það hlýtur að vera, alla vega miðað við það sem Fallorka telur. Og hvaða aðilar verða það? Verða það kannski einhverjir aðilar sem eru tengdir inn í stjórnmálaflokka? Tengdir einhverjum? Það er það sem er hættan. Að sjálfsögðu er það hættan. Og ef það gerist, ef umgjörðin er ekki góð, eins og kemur fram í traustskýrslu forsætisráðherra, er vafi eða hætta á því að verið sé að beita almannavaldi í þágu sérhagsmuna sem grefur undan trausti á stjórnmálunum. Það er skýrt í traustskýrslu forsætisráðherra og við eigum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir það. Það er okkar hlutverk hérna ef við ætlum að gera þetta vel.

Ég held áfram með 4. gr., með leyfi forseta:

„Stjórn Orkusjóðs gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og framlög úr Orkusjóði í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda sem og fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.

Orkusjóði er ekki heimilt að veita Orkustofnun styrki eða lán af fé sjóðsins.“

Það er allt og sumt, það er eina takmörkunin.

5. gr., um eftirlit, með leyfi forseta:

„Þeir sem hljóta styrk eða lán frá Orkusjóði skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum stjórnar Orkusjóðs.“

Þarna komu Samtök iðnaðarins, ef ég man rétt, inn á að þyrfti að hafa meira gagnsæi. Ég held að framsögumaður málsins ætli að gera það og það er vel.

„Ríkisendurskoðun annast árlega endurskoðun reikninga Orkusjóðs.“

Það er gott. Greiði atkvæði með því.

6. gr., um tekjur.

„Tekjur Orkusjóðs eru framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni, og vextir af fé sjóðsins.“

7. gr., kostnaður af rekstri.

„Kostnaður af rekstri Orkusjóðs greiðist af tekjum hans eða eigin fé.“

8. gr. er um reglugerðarheimild. Þar er mögulegur freistnivandi ráðherra. Ég fer yfir hana.

„Ráðherra skal setja í reglugerð nánar fyrirmæli um skilyrði fyrir framlögum úr Orkusjóði, undirbúning úthlutunar, lánveitingar, þar með talið vexti og önnur útlánakjör, greiðslur, eftirlit með framkvæmdum sem Orkusjóður veitir fé til og heimildir til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka.“

Fella niður endurgreiðsluskyldu, það eru alls konar hlutir þarna. Áfram er það ráðherra sem setur skilyrði í reglugerð fyrir framlögunum á þessum forsendum, sem býður að sjálfsögðu upp á freistnivanda. Ef maður ræður hver skilyrðin eru þá getur maður lagað þau að þeim aðilum sem maður vill helst að fái úr sjóðnum. Ráðherra hefur ofboðslega mikið vald í þessu frumvarpi, þar er ofboðslega mikill freistnivandi. Ætli ráðherra láti freistast? Kannski ekki þessi ráðherra en við vitum ekkert hver verður næsti ráðherra. Ætli hann freistist? Við höfum ekki hugmynd um það. En það er freistnivandi til staðar í þessu frumvarpi, gríðarlegur freistnivandi, að fara illa með Orkusjóð. Það er ekki gott.

9. gr. er gildistökuákvæði, lögin öðlast þegar gildi.

Ég hef sagt það sem ég vildi segja. Ég hef lagt fram breytingartillögu um að við setjum fagráð inn í Orkusjóð til að takmarka freistnivanda ráðherra og auka faglega nálgun á því hvernig fé er úthlutað úr sjóðum hvað varðar nýsköpun og að háskólasamfélagið komi að. Það er til að ná fram tilgangi laganna sem er alveg skýrt að eru orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunar, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Að sjálfsögðu þurfum við að hafa meiri aðkomu að þessu og þurfum að tryggja hana, eins og við gerðum varðandi Matvælasjóð, með því að það sé skylda að skipa sjö manna fagráð sem aðstoði stjórn Orkusjóðs við að útdeila almannafé á faglegustum forsendum með sem minnstum freistnivanda.