150. löggjafarþing — 118. fundur
 16. júní 2020.
störf þingsins.

[12:32]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Sá gleðilegi atburður varð hér í gær að loksins var skilað svari við fyrirspurn minni sem hefur verið lögð fram sjö sinnum, fyrst fyrir rúmum tveimur og hálfu ári. Það varðar sölu og meðferð á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs á árunum 2008–2019 og kemur fram í svarinu að hér er um að ræða 4.210 íbúðir sem voru seldar fyrir u.þ.b. 72 milljarða.

Ég vil nota tækifærið og þakka forseta fyrir liðveislu í þessu máli — það er búið að vera ansi harðsótt — og einnig starfsmönnum þingsins sem hafa komið að því. Eins og við vitum öll er eftirlitsskylda þingmanna mjög rík og fyrirspurnaréttur þeirra er tryggður, bæði í stjórnarskrá og í þingskapalögum og þess vegna er mjög áríðandi að framkvæmdarvaldið liggi ekki á upplýsingum sem eru nauðsynlegar fyrir þingmenn til að halda uppi eftirlitshlutverki sínu. Það leiðir hugann að því að auðvitað þarf að vinna úr þessu svari. Það verður töluverð vinna og athyglisverð.

Þessi úrslit í gær leiða hugann að því að annað mál er í gangi núna sem varðar störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. aðgang þingmanns að frumskýrslu setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols. Málefni Lindarhvols eru núna til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af því að komin er fram lokaskýrsla ríkisendurskoðanda. Ekki verður hægt að vinna það mál til lykta nema bera saman þessi tvö plögg. Þess vegna heiti ég á forseta að vera jafn mikill liðveislumaður í því að þessar upplýsingar verði gerðar aðgengilegar þingmanni líkt og gert var í því tilfelli sem ég nefndi hér áðan.



[12:34]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Að fela sig á bak við trúnað og lokaðar dyr. Ofbeldi þrífst í þögn þegar gerendur fá að komast upp með hegðun sína í skjóli þess að aðrir annaðhvort þegi eða skilji ekki hvað er í gangi. Nefndarvinnan hér á þingi er almennt séð á bak við luktar dyr og bannað er að vitna beint í orð manna. Fyrir því fyrirkomulagi eru ágætisrök en á sama tíma er hægt að misnota það skjól sem það bann veitir til að fela ofbeldi. En það eru ekki bara orð sem tjá ofbeldi. Það er ekki síður athafnir sem geta birst í duldum hótunum, ásökunum eða annarri áreitni. Með það í huga vil ég minna á að það eru Píratar sem hafa helst talað um gagnsæi í nefndum og opna nefndarfundi á meðan að ýmsir aðrir hafa viljað halda í þann huliðshjálm sem getur falið ofbeldi. Vinsamlegast hafið það í huga í framhaldinu, þau sem hafa séð eða heyrt: Segið eitthvað.

Á þessum vettvangi felum við okkur oft á bak við að störfin hérna séu í pólitískum ágreiningi á einhvern hátt sem sé bara mjög eðlilegur. Það er á vissan hátt skiljanlegt. En aftur, hægt er að nota það sem skálkaskjól fyrir óásættanlega hegðun og áreitni sem við eigum að gera greinarmun á og upplýsa um.



[12:36]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera aðeins á undan minni framtíð og vera í hátíðarskapi í dag í tilefni þess að á morgun er 17. júní, og lýsa yfir stolti mínu, hvað ég er stoltur af þjóð minni; hvað hún hefur staðið sig vel í samstöðu í baráttunni við Covid-19. Það hefur sýnt manni að sá kraftur sem því fylgir að standa saman gefur mikinn árangur. Þríeykið fræga hefur staðið sig með afbrigðum vel og er mjög ánægjulegt að sjá hvað það ætlar að endast vel. Það sást vel í gær þegar byrjað var að opna landamærin, en þríeykið hefur verið þar í undirbúningi og er að vinna við það og nýtur þar fulls trausts þjóðarinnar. Það lofar góðu eftir því sem fréttir gærkvöldsins sögðu manni.

En framtíðin er óljós og við vitum ekki alveg hvað hún ber í skauti sér í þessum efnum frekar en öðru í lífinu. Nú berast fréttir af endurupptöku faraldursins úti í heimi, en ég trúi því og treysti að okkur takist að halda áfram á þessari vegferð. Við höfum reynslu í þeim efnum og það hefur tekist vel og við getum byggt á þeirri reynslu áfram. En það sem er nú þegar komið inn á borð hjá okkur stjórnmálamönnum er að fást við efnahagslegar afleiðingar faraldursins og það verður þungur róður. En ég trúi því, og við höfum líka reynslu af því að vinna okkur upp úr efnahagslegum krísum, að við getum lært af því öllu saman og framtíðin geti verið björt.



[12:38]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Fjórði orkupakkinn er í sjónmáli. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn minni um mat á fjórða orkupakkanum. Þar er lýst hefðbundinni aðferð með skipan vinnuhóps og öðru í þeim dúr. Ekkert er minnst á að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir sem reyndust þýðingarmiklar í umræðum liðins árs um þriðja orkupakkann en komu seint fram.

Helstu fjölmiðlum austan hafs og vestan ber saman um að dómur þýska stjórnlagadómstólsins, 5. maí sl., sé eins konar lögfræðilegt eldgos á vettvangi Evrópusambandsins. Dómurinn ber með sér yfirlýsingu um að Þýskaland sé sjálfstætt ríki sem aðild á að samstarfi fullvalda ríkja en ekki runnið inn í evrópskt ríkjasamband. Þetta á jafnt við um okkur. Við Íslendingar getum ekki látið undan kröfum um afsal forræðis yfir auðlindum okkar. Raforkan er ekki eina dæmið um þjóðarhagsmuni. Innflutningur hráa kjötsins ógnar dýraheilbrigði og lýðheilsu og verður að hrinda með lagasetningu. Tími er kominn til að Íslendingar spyrni fast við fótum og fari þar að dæmi Þjóðverja í liðnum mánuði.

Í tilefni af svari ráðherra er rétt að árétta að hinn stjórnskipulega þátt og aðrar lögfræðilegar spurningar sem snúa að fjórða orkupakkanum þarf að kanna mun fyrr í ferlinu en gert var. Nú er rétti tíminn til að leita álits sérfræðinga á fjórða orkupakkanum áður en það er um seinan.



[12:40]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Fyrr í ár fórum við virðulegur forseti og einn hv. þingmaður til, til Nýja-Sjálands í opinbera heimsókn. Við hittum þar þingið. Það er ýmislegt líkt með Íslandi og Nýja-Sjálandi, bæði stjórnarfarslega og menningarlega eins og við er að búast. Eitt af því sem er frábrugðið á Nýja-Sjálandi er að nefndarfundir, sem þó eru að mörgu leyti svipaðir þeim sem við höfum hér, eru opnir. Þegar gestir koma þá eru þeir fundir opnir. Ég spurði sérstaklega við það tilefni hvort þetta væri á einhvern hátt umdeilt og svarið var nei. Þar ríkti full sátt um þetta og þótti ekkert tiltökumál og þótti ekki valda neinum vandræðum.

Mér hefur fundist það furðulegt að hér á Íslandi, þegar breyta á einhverju, t.d. að opna nefndarfundi, er mjög stutt í það að fólk, og sér í lagi þingmenn, setji fyrir sig ýmsar hindranir sem eru kannski ekki svo mikið á rökum reistar heldur eru miklu frekar einfaldlega íhaldssemi, ótti við breytingar. Það er kaldhæðnislegt að úr sömu átt koma yfirleitt digurbarkalegar yfirlýsingar um mikilvægi hugrekkis og þors en svo þegar á að breyta einhverju verður allt ægilega erfitt viðureignar og ægilega skuggalegt. Það er jú víst fortíðin, hvernig hlutirnir hafa verið gerðir í aldanna rás, sem skiptir mestu máli. Þar er að finna hlýja öryggið þar sem fólk veit við hverju er að búast.

Ég legg til enn og aftur, virðulegi forseti, eins og ég hef gert áður, að við lítum meira til framtíðar og reynum sem þjóðríki og sem lýðveldi að vera best í einhverju. Við getum það alveg. Ég legg til að við reynum það. Ég legg til að við lítum fram á veginn, inn í framtíðina, ekki bara aftur á bak.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[12:42]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Tvær af fréttum morgunsins fengu mig til að hugsa um stöðnun annars vegar og óreiðu eða ringulreið hins vegar. Það var annars vegar árás Norður-Kóreumanna á samráðsskrifstofu á Kaesong-iðnaðarsvæðinu og hins vegar átök kínverskra og indverskra herja í Galwan-dalnum. Í báðum tilfellum er um að ræða eldgamlar staðnaðar deilur sem eru núna að breytast í ákveðna ringulreið.

Í kerfisfræðum er stundum vísað í hugtakið jaðar óreiðunnar með tilvísun í það að ef stöðnun er of mikil þá gerist ekki neitt. Alkul er skilgreint sem skortur á þrýstingi og hreyfingu en ef óreiða eða ringulreið er of mikil þá virka hlutirnir heldur ekki, það leysist allt upp. Við leitumst alltaf eftir einhverju jafnvægi og jafnvægi í stjórnmálum bæði innan lands og utan kallar auðvitað á að við sem stundum stjórnmál reynum að finna þetta jafnvægi, reynum að vera á jaðri óreiðunnar öllum stundum. Og þegar við horfum til baka yfir þetta ár, þar sem hefur kannski verið fullmikil ringulreið, að flestra mati held ég, með Covid og mótmælin í Bandaríkjunum og víðar og ýmis vandræði í gangi, þá verður maður að spyrja: Höfum við ekki mikla og ríka skyldu til að reyna að draga aðeins úr óreiðunni núna og svo gefa kannski í seinna þegar stöðnunin er orðin of mikil?

Mig langar í lokin að benda á góða grein Gauta B. Eggertssonar í Kjarnanum í morgun um heift og blindni á eðlilegar siðvenjur, sem stendur stundum í vegi fyrir að við getum fundið þetta jafnvægi. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvenær er of mikil óreiða, hvenær of lítil og reynum að haga samfélaginu eftir því.



[12:44]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við samþykktum í gær frestun á framlagningu endurskoðaðrar ríkisfjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps. Samhliða samþykktum við að færa samkomudag Alþingis til 1. október. Það er ærið verkefni fyrir höndum á tiltölulega skömmum tíma og mikilvægt að ný og endurskoðuð stefna liggi fyrir svo fljótt sem auðið er, eins og lög um opinber fjármál mæla fyrir.

Þrátt fyrir góðan árangur gagnvart veirunni og að efnahagslegri þoku sé eitthvað að létta er enn töluverð efnahagsleg óvissa. Við erum enn að vinna með Covid-tengdar efnahagsaðgerðir og er ljóst að hallinn verður verulegur á þessu ári. En þannig verðum við einfaldlega að láta ríkisfjármálin vinna með efnahagslífinu, atvinnulífinu og heimilunum. Óhjákvæmilega fylgir því að fjármagna verður það sem upp á vantar með lántökum.

Aðrar ráðstafanir: Þrátt fyrir að forsendur fjárlaga og fjármálastefnu séu brostnar væru slíkar ráðstafanir óráð, hvort heldur á tekju- eða gjaldahlið. Það eru sannarlega miklar áskoranir sem fylgja því verkefni sem fram undan er. Ein sú stærsta er að vinna hratt niður það atvinnuleysi sem fylgir og að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Stöðugt endurmat og forgangsröðun útgjalda er viðvarandi verkefni en mun reyna verulega á sem aldrei fyrr. Stjórnvöld og fleiri aðilar hafa verið að vinna með sviðsmyndir og í samantekt hagfræðings Alþingis gefur meðaltal þeirra sviðsmynda niðurstöðu fyrir 8,7% samdrátt vergrar landsframleiðslu fyrir þetta ár en 5,1% hagvöxt á því næsta. Verkefnið hefur verið að beita ríkisfjármálunum og bráðaaðgerðum í gegnum þetta og fram undan er verkefnið að vaxa út úr þessum skelli.



[12:47]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í velferðarnefnd liggur frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán. Þetta frumvarp er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar og lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði á liðnu ári og því er ætlað að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði, sem einnig ætti að nýtast þeim sem hafa misst sitt húsnæði og hafa ekki verið í eigin húsnæði í a.m.k. fimm ár. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að auka hvata fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar tekjulægri hópum samfélagsins.

Hugmyndin að hlutdeildarlánum er fengin frá Skotlandi og þar hafa þau gefið góða raun og hafa leitt til aukins framboðs á hagkvæmu húsnæði. Þar hefur einnig verið raunin að uppbygging hefur aukist í dreifbýlinu. Eðli málsins samkvæmt eru nýbyggingar úti á landi, þar sem ríkir markaðsbrestur á fasteignamarkaði, dýrari en það sem eldra er. Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum skapast hvati til þess að byggja úti á landi.

Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána til íbúðarkaupa á köldum svæðum. Önnur úrræði sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svarar þeirri gagnrýni. Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í Blönduósbæ, Dalabyggð, Akureyrarbæ, Norðurþingi, Súðavíkurhreppi, Borgarbyggð, Árborg og Ísafjarðarbæ. Álíka mörg verkefni eru í pípunum.

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur tekur undir þau sjónarmið að ekki gildi sömu viðmið um fasteignamarkað á stórhöfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum úti á landi. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma á móts við sérstakar aðstæður þar.



[12:49]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa verið til umræðu hér í þingsal. Ég ætla ekki að gera störf nefndarinnar að umtalsefni hér enda heppilegra að þau séu rædd á fundum hennar. En í gær, 15. júní, barst hins vegar bréf til nefndarinnar og er bréfið svar hæstv. forseta Alþingis við fyrirspurn nefndarinnar um með hvaða hætti nefndum sé almennt fært að ljúka frumkvæðisathugun. Mér finnst rétt að segja frá því hér að bréfið sé komið því að málið hefur borið á góma í þingsal og svarið getur átt við allar nefndir þingsins.

Þar kemur m.a. fram að langalgengast er að frumkvæðismál séu í formi svonefndra upplýsingafunda þar sem nefnd fær á sinn fund gesti í tengslum við mál sem hafa verið til umræðu á opinberum vettvangi. Það er almennt gert að tillögu nefndarmanns eða nefndarmanna og nægir að fjórðungur eða þrír nefndarmenn óski eftir að mál sé tekið upp. Það er hins vegar í höndum meiri hluta nefndarinnar hverju sinni að ákveða hvernig farið er með hvert mál. Tiltölulega fáum frumkvæðismálum lýkur með skýrslu til þingsins og nefndir hafa aðeins skilað þinginu einu áliti og sex skýrslum um athuganir sínar frá 2010. Einnig kemur fram að frumkvæðismál teljast ekki til hefðbundinna þingmála í merkingu III. kafla þingskapa og fá því ekki sérstakt máls- eða skjalsnúmer nema athugun ljúki með skýrslu. Í bréfinu eru raktar sjö leiðir til að ljúka frumkvæðisathugunum. Þar kemur m.a. fram að flestum athugunum ljúki án þess að sérstaklega sé bókað um lok þeirra eða að þeim ljúki með formlegum hætti.

Að lokum þakka ég hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir samstarfið í stjórn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nú þegar hún hefur hætt störfum í nefndinni og hverfur til annarra nefndarstarfa.



[12:51]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kem ánægður hingað upp til að þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra skjót viðbrögð þegar hann hækkaði bílastyrki til fatlaðra um 20% og reddaði þar með þeim bílum sem höfðu hækkað um milljón í hafi vegna gengisfalls. En á sama tíma vil ég senda út þau skilaboð að ömurlegt er til þess að hugsa að meiri hlutinn í Reykjavíkurborg skuli ganga það langt að ætla að stoppa ferðir þessara sömu einstaklinga og annarra fatlaðra um göngugötur Reykjavíkurborgar. Skýringin á þeim ósköpum er sú að engin bílastæði séu fyrir fatlaða í göngugötunum. En hver tók burtu bílastæði fatlaðra, þau sem voru í göngugötunum? Það er sama borg, Reykjavíkurborg. Og önnur skýring er sú að ekki sé hægt að hafa göngugötur opnaðar fyrir fatlaða af því að ef fatlaðir einstaklingar á bíl keyra um göturnar eins og má, brýtur sá sem kemur næstur á eftir lög. Og þá er það hinum fatlaða að kenna.

Hvers lags skilaboð eru þetta? Hvers lags fordómar eru í gangi?

Þetta endurspeglast líka í nýrri frétt þar sem verið er að opna hús á Borgarfirði eystra. Þar segir orðrétt í fréttinni, með leyfi forseta:

„Vantar lyftu sem kostar 7 milljónir.

Húsið er enn þá lyftulaust og því illaðgengilegt hreyfihömluðum með bröttum stiga. Húsið var dýrara en búist var við og til að spara var því frestað að kaupa 7 milljóna kr. lyftu en lyftustokkurinn er klár. Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, hafa gert athugasemd við þessa ráðstöfun.“

Það var of dýrt að setja lyftuna inn. En hvað kostaði lyftan? Jú, 7 milljónir. Hvað var hún af heildarkostnaðinum? 3,5%. Myndi þetta hús verða opnað ef það vantaði stiga? Myndi byggingarfulltrúi opna slíkt hús? Eða ef vantaði glugga eða hurðir eða ef það væri bara óeinangrað? Nei, aldrei.



[12:53]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Síðar á dagskrá þessa fundar er mál um stofnun félags milli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu, svokallað ohf-mál. Ég vona innilega að við berum gæfu til að klára það mál. Við hefðum betur haft það á dagskrá á fundi okkar á föstudaginn síðasta, en það fór eins og það fór.

Það hefur hins vegar vakið athygli mína í umræðum um málið að hlusta á hv. þingmenn Miðflokksins og ekki bara um það mál heldur í öllum þeim málum sem tengjast samgöngumálum almennt. Þar skera þeir sig nokkuð úr. Þeir hafa talað fyrir því að hafa vilja sveitarstjórna, þar sem 230.000 íbúa landsins búa, að engu og kasta fyrir róða þeirri miklu vinnu sem þær sveitarstjórnir og ríkisvaldið hafa farið í. Það má sjá í tillögu sem er verið að fjalla um á eftir, handan götunnar í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem fulltrúi Miðflokksins í borgarstjórn leggur til að borgarlínuverkefninu verði frestað um óákveðinn tíma.

Mér finnst þetta sérkennilegt, forseti, sérstaklega hjá flokki sem hefur stært sig af því á stundum að taka mikið tillit til staðreynda og gagna, því að allar staðreyndir og gögn sýna svo ekki verður um villst að heildarlausnin á skipulagi umferðarmála á höfuðborgarsvæðinu er þessi samþætta lausn stofnbrauta og borgarlínunnar. Mér finnst þetta oft jaðra við að vera merki um þessa furðulegu hugsun, sem maður sá oft víða og ég hélt að væri horfin, að einstrengingsháttur sé dyggð. Að það að standa einn einhvers staðar á móti öllum öðrum sé í sjálfu sér dyggð. Svo er ekki. Samstarf (Forseti hringir.) og samkomulag um góð mál er dyggð.



[12:55]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Síðustu ár hefur orðið mikil vitundarvakning um matarsóun, enda er um þriðjungi matvæla sem við kaupum hent með tilheyrandi sóun og sótspori. Við neytendur berum þar öll ábyrgð en við erum ekki ein. Sennilega hefur einhver stærsta einstaka matarsóun síðari tíma átt sér stað vegna kórónufaraldursins. Erlendis, þar sem hagkvæmnin ein hefur ráðið ríkjum, gerðist það að stórum sláturhúsum og afurðastöðvum varð að loka vegna þessa faraldurs. Gríðarlega mikil sóun hlaust af því þar sem farga þurfti sláturdýrum og hella niður mjólk og grænmeti rotnaði á ökrum. Þetta er til áminningar um það að til þess að við séum örugg um okkar matvælaframleiðslu verður einnig að hafa í huga að þanþolið í kerfinu sé í lagi, að við séum ekki með öll eggin í sömu körfunni. Fæðuöryggi snýst ekki eingöngu um það að við framleiðum nægan mat hér heldur líka að við getum komið honum á markað til landsmanna.

En af hverju er ég að tala um þetta hér? Verð á ýmsu grænmeti hefur hækkað vegna þess að framboð á því minnkaði af því það fengust ekki farandverkamenn í Evrópu í uppskeruna. Þess vegna og í því samhengi verð ég að segja að það er afar ánægjulegt að við séum búin að semja við íslenska garðyrkjubændur um að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu árum. Við getum lítil áhrif haft á það sem gerist úti í hinum stóra heimi en við getum séð til þess að við framleiðum stærri hlut af því sem við borðum hér heima með skynsamlegum hvötum í samningum sem draga úr sótspori landbúnaðar og auka framleiðni. En um leið verðum við alltaf að huga að því vel og vandlega þegar við kaupum inn að við ætlum að nýta það en ekki að henda.



[12:57]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna tvö atriði sem fram hafa komið í þessari umræðu. Í fyrsta lagi finnst mér ástæða til að taka undir með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni að dómur þýska stjórnlagadómstólsins er afar merkilegur og enn ófyrirséð hvaða áhrif hann hefur. Hann lýsir auðvitað ákveðnum ágreiningi sem á sér stað innan Evrópusambandsins um valdmörk þjóðríkja og svo hinna yfirþjóðlegu stofnana. Það er mjög áhugavert fyrir okkur að fylgjast með því. Í okkar tilviki er ekki eða á ekki að vera neinn ágreiningur um það að Ísland er ekki bundið af því að innleiða tilskipanir eða reglugerðir frá Evrópusambandinu. Það er okkar val. Það er hins vegar ljóst að það að menn geti sagt nei þýðir ekki að þeir eigi að segja nei og það þarf að vera einhver skynsemi í því hvenær menn nota tækifæri sín til að segja nei.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna er það sem fram kom hér áðan frá fleiri en einum hv. þingmönnum Pírata um það að hafa opna nefndarfundi. Sem talsmaður umbreytinga og róttækni í þingsalnum finnst mér rétt að taka undir að það geta verið rök fyrir opnum nefndarfundum, og raunar er það svo að opnir nefndarfundir eru miklu tíðari í dag en var hér fyrir um tíu árum eða eitthvað svoleiðis. Þeir voru óþekktir hér lengi en eru ekkert sjaldgæfir í dag þó að það sé undir nefnd komið hverju sinni að velja tilefnið. Það eru kostir og gallar. Gallarnir eru kannski þeir að ekki næst sama trúnaðarsamtal innan nefndar eins og menn hafa nefnt og eins að gestir geti verið tregari til að veita nefnd þær upplýsingar sem um er beðið. (Forseti hringir.) En kosturinn er auðvitað sá að ef fundurinn er opinn og tekinn upp og öllum aðgengilegur er ekki hægt að koma með rangar lýsingar á því sem gerist á nefndarfundum. Í því er auðvitað ákveðinn kostur fólginn líka.



[13:00]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Á síðustu vikum og mánuðum hafa borist margar jákvæðar fréttir sem benda til þess að við séum a.m.k. að ná einhverjum árangri þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum, hvort sem er á láði, legi eða lofti. Við sjáum öra fjölgun rafbíla í flota landsmanna. Við heyrum fréttir af flugvélum sem fljúga á rafmagni og sömuleiðis spennandi þróun í orkuskiptum á sjó. Á aðalfundi Landverndar nýverið var samþykkt áskorun til stjórnvalda um að banna innflutning bensín- og dísilbíla fyrir árið 2023 og innflutning vinnuvéla og -tækja sem ganga ekki fyrir hreinum orkugjöfum fyrir árið 2025. Sannarlega metnaðarfullt markmið, en staðreyndin er að til þess að ná alvöruárangri þá verðum við líka að setja okkur alvörumarkmið. Staðreyndin er þó sem betur fer að Íslendingar virðast ætla að taka þátt í orkuskiptum. Þannig eru 45% af nýskráðum bílum á Íslandi það sem af er þessu ári raf- og tengiltvinnbílar.

En því miður er þó enn nokkuð af hindrunum í vegi frekari fjölgunar rafbíla, a.m.k. í huga fólks. Helsti flöskuhálsinn nú er að það eru enn of fáar hleðslustöðvar á hverjum stað, jafnvel bara ein eða þrjár eins og er við Staðarskála. Það þýðir að á vinsælum ferðaleiðum getur myndast biðröð en þess á milli er notkunin auðvitað minni og því á mörkunum hvort fjárfesting í fleiri hleðslustöðvum borgi sig. Við þurfum að bregðast við því á einhvern hátt. Ein leiðin væri sú sem Þjóðverjar hafa valið, að gera hleðslustöðvar að skyldu á hverri bensínstöð. En önnur leið sem mig langar að nefna hér og er að vinna að væri að gera breytingar á hlutverki Rariks og fela því að flýta fyrir uppbyggingarstarfi hleðslustöðva á lykilsvæðum um landið. Þannig tel ég að við gætum tekið stærri og hraðari skref í átt að orkuskiptum í samgöngum.



[13:02]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Það eru tvö mál, sem má kannski kalla réttindamál, sem mig langar að taka upp hér í dag, sem við á Alþingi þurfum að horfa til og hæstv. ráðherrar sem fara með þá málaflokka. Fyrst vil ég taka undir með hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni um að það er ólíðandi hvernig hægt er að láta aðgengismálin reka á reiðanum. Það þarf að vera alveg skýrt og hæstv. félagsmálaráðherra þarf að kanna það með okkur hvernig við getum komið aðgengismálum inn í reglubundið eftirlit með byggingum, bara eins og er með byggingareftirlit, brunaeftirlit og annað slíkt. Það eru engar byggingar eða teikningar samþykktar nema þær uppfylli brunavarnakröfur, kröfur um flóttaleiðir og annað slíkt og aðgengismál fyrir fatlaða eru af algjörlega sama meiði. Þetta er öryggismál, þetta er réttindamál og þarna þurfum við að finna einhverja lausn þannig að aðgengismál falli inn í það eftirlit sem er nú þegar til staðar og passar vel.

Hitt sem ég vildi nefna og við þurfum að kanna er hvort við getum gert einhverjar breytingar vegna kjaraviðræðna. Það er ólíðandi að hópar séu ítrekað með útrunna kjarasamninga. Af hverju í ósköpunum er það? Er það eitthvað í því ferli sem við höfum búið til hérna eða gert að venju eða sett lög um eða annað slíkt sem gerir að verkum að það er hægt að leyfa sér að fara langt fram yfir gildistíma um að ná kjarasamningum? Ég er sérstaklega með hugann við félaga mína í lögreglunni. Þeir hafa ekki verkfallsrétt en þetta virðist líka vera lenskan hjá öðrum stéttum sem hafa þó verkfallsrétt. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til að breyta þessu og koma í veg fyrir þetta því að það er mjög bagalegt fyrir alla aðila að málum skuli vera þannig háttað.