150. löggjafarþing — 119. fundur
 18. júní 2020.
ályktun Félags prófessora.

[10:46]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar síðastliðinn mánudag sagðist hæstv. fjármálaráðherra ekki skammast sín fyrir að hafa vakið athygli á meintri stjórnmálaþátttöku Þorvaldar Gylfasonar við ráðningarferli ritstjóra norræna fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review. Á sama fundi sagði hæstv. ráðherra, um framkomu sína, með leyfi forseta: Ég tel mig ekki hafa verið að senda nein skilaboð inn í akademíuna en ég hef oft furðað mig á þeim skilaboðum sem akademían sendir stjórnvöldum.

Forseti. Daginn eftir umræddan fund sendi stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla frá sér yfirlýsingu vegna ráðningarferlisins þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

„Félag prófessora við ríkisháskóla mótmælir harðlega hinum pólitísku afskiptum íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytisins af ráðningarmálum tímaritsins. Þessi afskipti skortir málefnalegan grundvöll og afhjúpa skilningsleysi á vísindastarfsemi. Þau setja hið norræna tímarit niður og eru ráðuneytinu til álitshnekkis. Íslenskt samfélag þarf síst á því að halda að stjórnvöld leggi stein í götu vísindamanna sem falast er eftir til starfa í krafti þekkingar sinnar.“

Í umfjöllun sænska dagblaðsins Dagens Nyheter kemur einnig fram að fráfarandi ritstjóri tímaritsins, hinn heimsþekkti hagfræðingur Lars Calmfors, óttist að sú afstaða Íslands að leggjast gegn því að Þorvaldur komi til greina í ritstjórastöðuna á pólitískum forsendum geti skaðað trúverðugleika tímaritsins. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi móttekið þessi skilaboð akademíunnar, hvort hann taki þau til sín og hvort þau hafi breytt afstöðu hans.



[10:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki nein meint pólitísk þátttaka prófessorsins sem verið var að vekja athygli á. Vakin var athygli á því að prófessorinn hefði verið virkur í pólitík á sínum tíma, verið formaður í stjórnmálaflokki. Og já, ég tel að það sé alveg málefnalegt innlegg í umræðu um einstakling hvort hann hafi verið virkur í pólitík eða ekki. Það var aldrei fullyrt að viðkomandi væri enn formaður í flokki og áður en gengið var frá ráðningu var tekið af skarið með það.

Ég verð að segja að mér þykir stjórn Félags prófessora hafa fallið á þessu prófi, fallið á prófinu um raunhæfa verkefnið sem við höfum hér verið að ræða um. Ekki er tekið tillit til ólíkra sjónarmiða, ekki getið heimilda o.s.frv., byggt er á einhliða frásögn af málinu og komist að niðurstöðu algerlega án þess að ígrunda allar hliðar málsins.

Hér er einfaldlega ekki um að ræða mál sem réðist á pólitískum forsendum. Þessi ályktun hefur nákvæmlega ekkert vægi í umræðunni um þetta mál og það sama gildir um áhyggjur þessa prófessors í Svíþjóð, sem hv. þingmaður segir að sé heimsþekktur, og ég veit að hann er mikils virtur í Svíþjóð. Þá skiptir það bara engu máli inn í umræðu dagsins í dag hver upplifun hans er. Hann virðist hafa haft áhrif á að staðan var boðin Þorvaldi án þess að við Íslendingar værum spurðir og það er forkastanlegt. Það er aðalatriði máls að menn séu hér að véla um stöður sem við eigum að hafa áhrif á hvernig fara, hver velst til starfans. Og það er það sem hefur afhjúpast í þessu máli. Ég bendi hv. þingmanni að reyna að átta sig á aðalatriði málsins sem er að menn ætluðu sjálfir, án þess að spyrja okkur Íslendinga, að ráða þessu máli til lykta. Það er hneykslið í þessu máli.



[10:50]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra gefur prófessorum falleinkunn. Mér þykir vissulega leitt að heyra hvað hæstv. ráðherra ber litla virðingu fyrir fræðasamfélaginu. (BjarnB: Er það fræðileg niðurstaða?) Hæstv. ráðherra hefur lýst þeirri skoðun að kunningsskapur Lars Calmfors við Þorvald Gylfason sé líklega að baki því að hann hafi tilnefnt Þorvald í starfið. Calmfors brást við þessum ummælum hæstv. ráðherra í viðtali við Kvennablaðið þar sem hann sagðist aldrei á 50 ára starfsferli sínum hafa verið sakaður um kunningjaspillingu. Calmfors ítrekaði að hann hefði mælt með Þorvaldi í starfi vegna hæfis, hann væri fjölhæfur hagfræðingur með hagnýta reynslu og alþjóðlega viðurkenndur sem slíkur. Þá sagði Calmfors, með leyfi forseta:

„Í stuttu máli finnst mér ummæli ráðherrans, eins og þau eru í þeirri þýðingu sem mér var send, stórfurðuleg. Það hendir alla að segja eitthvað í hugsunarleysi undir álagi. Engu að síður þætti mér við hæfi að fá afsökunarbeiðni frá ráðherranum þegar hann er búinn að hugsa málið.“

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann búinn að hugsa málið og hyggst hann biðja Lars Calmfors afsökunar? En Þorvald Gylfason?



[10:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er nú að verða ansi skrautlegt. Þessi málflutningur er að verða ansi skrautlegur. Í fyrsta lagi er það ekki rétt að ég hafi fullyrt neitt um þetta. Ég sagði: Úr fjarlægð lítur þetta þannig út eins og hér séu tveir gamlir kunningjar að spjalla sín í milli og ráðstafa þessari tilteknu stöðu, úr fjarlægð. Ég veit náttúrlega ekkert um það, ég tók það skýrt fram. Ég hafði ekki einu sinni hugmynd um það hvort þeir þekktust vel, þessir tveir einstaklingar, en það er nú komið fram í millitíðinni, staðfest af þessum sænska prófessor, uppáhaldsprófessor hv. þingmanns, að þeir voru vinir. Það er það eina sem hefur gerst í millitíðinni. Og hvers vegna í ósköpunum ætti ég að fara að biðja einhvern prófessor úti í Svíþjóð afsökunar á því að benda á það sem allir sjá, eftir að gögn málsins hafa núna komið fram, að án þess að við Íslendingar værum spurðir voru menn byrjaðir að tala saman og póstur farinn á íslenska prófessorinn þar sem staðan var boðin. (Gripið fram í.) Hver ætlar að biðja (Forseti hringir.) okkur afsökunar á því? Hver ætlar að biðja okkur Íslendinga afsökunar á því að menn eru að véla með mál þar sem við áttum (Forseti hringir.) allan rétt á að hafa aðkomu að, að okkur forspurðum?