150. löggjafarþing — 119. fundur
 18. júní 2020.
staðsetning starfa.
fsp. AFE, 904. mál. — Þskj. 1591.

[12:23]
Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég sendi skriflega fyrirspurn á alla hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrr í vetur og spurði um vinnu við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar. Í henni er gerð sú krafa að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024. Það er sannarlega verðugt markmið og mikilvægt, frú forseti.

Þrátt fyrir að eiga reyndar enn eftir að fá svör frá fimm hæstv. ráðherrum ákvað ég að það væri komið efni í að hefja munnlega eftirfylgni með þessum fyrirspurnum og mun þeirri eftirfylgni svo ljúka með framlagningu þingmáls í haust.

Ég viðurkenni að svar hæstv. dómsmálaráðherra við fyrri fyrirspurn minni olli mér nokkrum vonbrigðum en samkvæmt því svari hefur dómsmálaráðuneytið ekki ráðið í starf utan höfuðborgarsvæðisins. Þó má segja til hróss að verkefni hafa verið flutt til embætta utan höfuðborgarsvæðisins en þau eru því miður hvorki talin upp né gefinn upp fjöldi þannig að það er erfitt að átta sig á umfangi þess. Ráðuneytið hefur ekki heldur mótað sér áætlun um hvernig á að uppfylla þessa fyrrnefndu kröfu byggðaáætlunar. Þá má nefna að lengi hafa verið áhyggjur af því að t.d. lögregluembætti séu undirmönnuð og jafnvel dæmi um að örfáir lögregluþjónar beri ábyrgð á eftirliti með stórum landsvæðum. Í því samhengi verð ég að ítreka að það er löngu tímabært að semja við lögregluþjóna eins og við ræddum áðan og skora ég á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að það verði gert.

Frú forseti. Staðreyndin er að þetta þarf allt að vinna saman. Sterk höfuðborg þjónar sterkri landsbyggð og sterk landsbyggð og fleiri sterkir kjarnar þjóna sterkri höfuðborg. Því er hið augljósa ójafnvægi hvað varðar staðsetningu opinberra starfa svo alvarlegt. Ég hef áður nefnt það hér að við þurfum e.t.v. að taka upp byggðagleraugu, rétt eins og við tölum um kynjagleraugu, og velti því upp hvort hugsanlega ætti reglan að vera sú að þegar auglýsa á störf þurfi að færa sérstaklega rök fyrir því af hverju eigi að staðsetja tiltekið starf í Reykjavík frekar en annars staðar.

Ef það er eitthvað jákvætt sem hefur komið út úr Covid-faraldrinum er það sú staðreynd að fjölda starfa mætti vinna hvaðan sem er og hafa stórfyrirtæki á borð við Facebook og Twitter tilkynnt starfsfólki sínu að það þurfi ekki að snúa aftur á skrifstofu sína frekar en því sýnist. Svipaðar fréttir af jákvæðri reynslu íslenskra fyrirtækja hafa einnig heyrst og ætla mörg þeirra að auka frjálsræði hvað varðar staðsetningu starfsmanna sinna.

Frú forseti. Ef einhvern tíma er tækifæri til að stíga stór skref varðandi staðsetningu starfa þá er það núna. Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra þeirrar einföldu spurningar hver stefna hennar er varðandi staðsetningu starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess.



[12:26]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu umræðu. Frá því að ég kom í ráðuneytið hefur áhersla mín verið sú að fólk hafi sem mest val um hvar það býr og geti starfað þar í nágrenninu. Þær öru tæknibreytingar sem orðið hafa á síðustu árum skipta auðvitað sköpum, bæði til að geta fjölgað störfum án staðsetningar og aukið frelsi fólks til að búa þar sem það kýs. Tækifæri fólks á landsbyggðinni til aukinna lífsgæða verða best tryggð með því að færa þangað störf eða að hafa störf án staðsetningar sem hægt er að sinna þar sem fólk kýs að búa. Vegna þessa hef ég í ráðuneyti mínu reynt að hraða innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu eins og kostur er af því að það sparar í senn fjármuni fyrir skattgreiðendur og gefur tækifæri til að fjölga störfum sem ekki eru bundin við einn stað.

Rafræn þjónusta mun einnig opna möguleika á að þjónustan fari fram hjá embættum sem eru fjarri þeim sem sækja þurfa þjónustuna. Það sjáum við mjög skýrt hjá sýslumannsembættunum. Þar eru gríðarlega mörg tækifæri með aukinni rafrænni þjónustu til að færa verkefni sem sinna má hvar sem er á landinu. Þó að flestir sem sækja þá þjónustu séu á höfuðborgarsvæðinu er hægt að sinna henni með rafrænum hætti hvar sem er. Ég hef unnið að því að innleiða hraðar rafræna þjónustu á því sviði og Covid-19 faraldurinn hefur opnað augu margra fyrir kostum fjarvinnu og tækifærunum í fjarfundum og öðru slíku og mun sú þróun vonandi halda áfram. Ég held að ungt fólk sjái tækifæri í því að geta búið í minni samfélögum þar sem helstu innviðir erum við höndina, ekki einungis tækifæri fyrir þá sem vinna verkefni fjarri höfuðborgarsvæðinu heldur þá sem vinna störf um allan heim og geta valið sér staðsetningu á Íslandi.

Ég legg áherslu á að auka valfrelsi um búsetu á grundvelli góðra innviða. Það er best til þess fallið til að skapa fjölbreytt störf og fjölbreytt samfélag í byggðum landsins. Í ráðuneytinu hefur verið unnið að nauðsynlegum undanförum rafrænna þinglýsinga, kvaðayfirferð sýslumanna og leiðréttingu skráningar kröfuhafa. Það eru allt atriði sem sinna má annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu af því að þeim verður sinnt að fullu rafrænt, þó að enn þá þurfi einstaklinga til að fylgjast með og klára þau mál sem ekki fara sjálfkrafa í gegn. Með rafrænum þinglýsingum verður unnt að þinglýsa skjölum í meginatriðum með rafrænum og sjálfvirkum hætti, en breytt framkvæmd við þinglýsingar mun bæta þjónustustigið og stuðla að öruggari og samræmdri málsmeðferð. Jafnframt er reiknað með að verkefnið muni með tímanum skila umtalsverðri hagræðingu hjá sýslumannsembættum, en rafrænar þinglýsingar eiga að komast í gagnið á þessu ári.

Við höfum verið að endurmeta verkefni hjá sýslumannsembættunum með það að markmiði að geta fært þau til og látið önnur embætti vinna þau með rafrænum hætti frá sínum svæðum. Í rauninni eru fjölmargir kostir við það, ekki bara að einstaklingar geta sótt um starf hvar sem er á landinu, hvar þeir kjósa að búa, eða hjá hvaða sýslumannsembætti þeir starfa, heldur mun það líka létta á því embætti sem er langþyngst í vöfum, þar sem eru allt of langir biðlistar og í raun algerlega óboðleg þjónusta á svo mörgum sviðum. Ég hef nú þegar fært verkefni við rafræna útgáfu á reglugerðasafni frá höfuðborgarsvæðinu til embættis sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Það er átaksverkefni til fimm ára og leiðir af sér fleiri stöðugildi við sýslumannsembættið í Eyjum. Það hyggst ég gera varðandi fleiri verkefni sem verða þá að fullu rafræn og verður hægt að sinna þeim víða um land. Það eykur þá valfrelsi fyrir þá sem sækja um stöður.

Við erum að meta grundvöll sýslumannsembættanna á grundvelli heildstæðs mats, finna tækifæri til að styrkja embættin og bæta um leið þjónustuna og auka þar rafræna þjónustu. Einnig eru ýmis umbótaverkefni á sviði stafrænnar þjónustu í vinnslu en fyrst og fremst hef ég lagt ríka áherslu á að fylgja eftir þessum verkefnum. Ég tel að með áherslu á rafræna þjónustu sé stuðlað að fjölgun starfa án staðsetningar sem og færslu á einhverjum verkefnum sem hægt er að sinna annars staðar á landinu en þar sem mest er óskað eftir þjónustunni, og að auki er stór kostur að auka hagkvæmni í ríkisrekstri í leiðinni.



[12:31]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja þessa tímabæru umræðu. Það er stöðugt þörf á að ýta á þetta atriði. Sömuleiðis þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að gefa allskýr svör varðandi þetta og stefnu ráðuneytisins. Ég var staddur á Ströndum um síðustu helgi og þar ræddi ég við þjóðfræðing sem þar starfar. Þar er heilt svið háskólans staðsett, Þjóðfræðistofa, Rannsóknasetur Háskóla Íslands, með tveimur þjóðfræðingum. Það gengur mjög vel og tæknilega er ekkert í vegi fyrir því að störfin gangi vel fyrir sig. Þeir sinna fræðistörfum á staðnum og í háskólanum hér ef svo ber undir.

Hæstv. ráðherra tæpti aðeins á rafrænum þinglýsingum. Er stefna ráðherra sem sagt sú að rafrænar þinglýsingar flytjist meira og minna (Forseti hringir.) út um landið, hugsanlega til sýslumannsembætta, (Forseti hringir.) sem geta mjög vel sinnt þessu?



[12:33]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Fyrr í vetur lagði ég fram þingsályktunartillögu um söfnun upplýsinga um dreifingu starfa. Á þessari tillögu eru þingmenn úr öllum flokkum auk þess þingmanns sem stendur utan flokka. Tillagan felur í sér að gera Hagstofu Íslands kleift að taka saman gögn um dreifingu starfa um landið vegna þess að þegar kemur að slíkum gögnum stöndum við höllum fæti í samanburði við önnur lönd. Töluverð eftirspurn er eftir slíkum gögnum hjá fagaðilum og hagsmunaaðilum enda bárust mjög jákvæðar umsagnir um málið.

Til viðbótar við mikilvægi slíkrar upplýsingasöfnunar í tengslum við uppbyggingu á samgöngumannvirkjum skiptir hún máli þegar kemur að byggðarannsóknum, vinnumarkaðsrannsóknum og öðrum samfélagslegum rannsóknum ef marka má markmið umræðunnar hjá hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur og svör hæstv. dómsmálaráðherra.

Mig langar að nota tækifærið hér og hvetja til þess að þetta ágæta mál hljóti brautargengi. Lykillinn að því að þau markmið, (Forseti hringir.) sem hér eru sett, nái fram að ganga hlýtur að vera að við vitum hvað (Forseti hringir.) við erum raunverulega að tala um, hvernig störfin dreifast og hvernig þau hanga saman (Forseti hringir.) við búsetu fólks og vænta búsetu.



[12:34]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari mikilvægu umræðu og góðri sýn hæstv. ráðherra sem hefur sýnt það í verki að hægt er að flytja störf til og endurhugsa verkefnin. Ég kem hingað upp aðallega til að leggja áherslu á að það er af tveimur ástæðum sem ég styð að störfum sé dreift sem víðast um landið. Það er helst vegna meðferðar á opinberu fé því að oftast er húsnæðiskostnaður og starfsmannavelta minni og starfsmannaumsýsla og annað margfalt ódýrara úti um landið. Og oftast er það svo að því minni sem yfirbyggingin er því lægri verður millilagakostnaðurinn við rekstur. Ég vildi hafa það í huga. Síðan eru það náttúrlega líka byggðalegu sjónarmiðin. Sýslumenn eru t.d. einu beinu tengsl ríkisvalds í hverju samfélagi fyrir sig. Því er mikilvægt að úti um allt land séu öflugar stofnanir.



[12:35]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil einnig taka undir með hæstv. ráðherra þegar hún nefnir að færsla starfa út á land sé í bígerð og það hefur reyndar verið lengi. Landsbyggðin hefur mátt búa við það í áratugi að horfa á eftir stöðugum straumi fólks á höfuðborgarsvæðið. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna atvinnutækifæra sem finnast hér á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafa þvílíkt aðdráttarafl að allir vilja koma hingað. Það má ekki ræða þessa hluti eins og störf úti á landsbyggðinni eigi að vera einhvers konar ölmusa. Ég vara við að þetta sé rætt á þeim nótum. Ég held að það verði að líta á netið og ný atvinnutækifæri sem tækifæri og vil benda á hugmynd um að færa stofnanir og ráðuneyti. (Forseti hringir.) Nú er tækifæri til að færa einhver þeirra út á land (Forseti hringir.) vegna þess að fjarfundir og tölvuvinnsla eru auðveldari nú. (Forseti hringir.) Það á að virka í báðar áttir.



[12:37]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu hér í dag eins og fleiri hafa gert. Mér fannst ástæða til að koma hingað upp þegar ég heyrði sýslumenn nefnda sem dæmi þar sem staðan hjá þeim og aðgengi að þeim er oft afleitt á landsbyggðinni.

Mig langar líka að nefna uppsögn aðstoðarmanna tollstjóra á Seyðisfirði. Það finnst mér vera með því stóra sem er að gerast í Norðausturkjördæmi og verður að stoppa með öllum ráðum. Síðan eru skatturinn og tollurinn sameinaðir og eru að leita að nýju húsnæði. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé sniðugt núna að dreifa þeirri starfsemi hringinn í kringum landið.



[12:38]
Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari góðu og að mínu mati mikilvægu umræðu. Ég fagna því auðvitað að hæstv. ráðherra tali hér um aukna rafræna stjórnsýslu og sjái tækifærin sem í henni felast. Það sýndi sig svo vel í Covid-faraldrinum að allt í einu gátu ótrúlegustu hlutir og ótrúlegustu fundir átt sér stað í gegnum internetið. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fylgja eftir þeirri reynslu og nýta hana til að byggja til framtíðar og fara að hugsa hlutina svolítið öðruvísi.

Ég fagna því líka sem hæstv. ráðherra sagði um að nýta sýslumannsembættin betur, nýta mannauðinn. Hann er um allt land og nægir kraftar til að vinna að alls kyns verkefnum. Þar eru aukin tækifæri en þau hverfa auðvitað ef við grípum þau ekki og ég skora á hæstv. ráðherra að vinna að því. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni eru gríðarleg tækifæri í sterkum kjörnum um allt land og ég held að sterkt höfuðborgarsvæði og sterk landsbyggð séu raunverulega lykillinn að auknu jafnvægi í landinu. Við eigum einmitt ekki að vera að stilla þeim upp sem andstæðum og alls ekki að tala um að störf, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni, séu einhvers konar ölmusa.

Frú forseti. Að lokum langaði mig að þakka aftur fyrir umræðuna en líka að minna hæstv. ráðherra á að enn liggur inni í ráðuneytinu fyrirspurn mín um mögulegan flutning starfsþróunarseturs lögreglunnar til Akureyrar(Forseti hringir.) og ég hlakka til að fá (Forseti hringir.) svar við þeirri fyrirspurn líka.



[12:40]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa góðu umræðu. Það er lykilatriði að í þessu felst fyrst og fremst áhersla á að auka rafræna þjónustu. Það mun bæta þjónustuna og meðferð opinbers fjár en sýn mín á sýslumannsembættin er líka að þau séu öflug embætti á sínu svæði, sem fyrst og fremst þjónusta fólk, sama hvaða fólk leitar þangað, hvar sem það hefur lögheimili þannig að það geti leitað til þess sýslumannsembættis sem næst er og geti fengið afgreiðslu sinna mála, sama hvaða mál það er. Það getur þá verið sent til afgreiðslu hvar sem er á landinu þar sem rafræn þjónusta er veitt. Ég held að þarna sé gullið tækifæri af því að það skilar ekki bara fleiri störfum án staðsetningar heldur líka og fyrst og fremst bættri þjónustu og ekki bara úti um allt land heldur myndi þetta líka létta verulega á embættinu á höfuðborgarsvæðinu þar sem væri hægt að stytta biðtíma og annað í hinum ýmsum málum sem þar heyra undir.

Ég var spurð sérstaklega um þinglýsingar. Ég hef farið í sérstakt átak til að hraða því ferli en hægt hefur gengið að koma því á fót enda ýmislegt sem þarf að gera tæknilega svo að það gangi allt saman upp. En ég hef hug á því að skoða hvort annað sýslumannsembætti en á höfuðborgarsvæðinu gæti tekið að sér rafrænar þinglýsingar að fullu.

Tollamál heyra síðan undir fjármálaráðherra en ég ítreka þessa sýn mína á sýslumannsembættin í heild sinni og tek undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um að auðvitað þurfi líka að liggja fyrir skýrar greiningar og það eru greiningar sem ég er líka að gera sérstaklega á sýslumannsembættunum, hvar sé hægt að styrkja, nýta fjármuni betur, nýta fólk betur og auglýsa síðan störf án staðsetningar.