150. löggjafarþing — 119. fundur
 18. júní 2020.
opinber störf og atvinnuleysi.
fsp. SPJ, 884. mál. — Þskj. 1543.

[13:34]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég er landsbyggðarþingmaður og mikill áhugamaður um uppbyggingu á landsbyggðinni. Það má til gamans geta þess að við í Miðflokknum erum það öll og lögðum sérstaka áherslu á það í kosningabaráttunni árið 2017 hvernig standa mætti að uppbyggingu á landsbyggðinni. Í því sambandi langar mig að beina spurningum til hæstv. ráðherra um opinber störf sem gætu verið á landsbyggðinni. Það er ánægjulegt að sjá að í vinnslu hjá ríkisstjórninni er undirbúningur að opinberum störfum og það er spurning hvar hægt er að koma þeim fyrir, hvort landsbyggðin gæti komið þar til greina. Þess má geta að töluvert af opinberum störfum er úti á landi og þar má nefna t.d. Byggðastofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Matvælastofnun, Landmælingar Íslands, þýðingar fyrir utanríkisráðuneytið, Fæðingarorlofssjóð, Vinnumálastofnun og svo mætti áfram telja og er það vel.

Það er oft þannig með opinber störf að viðkomandi sveitarfélög þurfa oft að verja þau og það kemur of oft fyrir að störfin hverfa til höfuðborgarsvæðisins. Það er oft fyrirvaralaust og veldur viðkomandi byggðarlögum skaða því að uppbygging hlýtur að byggjast á atvinnu fyrst og fremst þannig að allar hugmyndir um uppbyggingu á landsbyggðinni eru í mínum huga mjög áhugaverðar. En spurningarnar sem ég lagði fyrir eru tvær:

1. Hversu mörg opinber störf hafa verið auglýst á þessu ári, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni?

2. Hvernig telur ráðherra að ríkið geti unnið gegn atvinnuleysi á landinu eftir Covid-19 faraldurinn? Kæmi til greina að byggja upp ný störf á landsbyggðinni?

Mér þætti vænt um að fá góð svör við því.



[13:37]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægan þátt í opinberu stjórnsýslunni, í þróun opinberra starfa á landinu. Þar á ég við að við eigum að fylgjast reglulega með fjölda þeirra, tegund þeirra, hvar þau eru að verða til, hvers vegna þau verða til þar sem þau verða til o.s.frv. Ég vil byrja á því að segja að í starfalegu samhengi, ef maður mætti orða það þannig, og þá er ég ekki bara að vísa í opinber störf, stöndum við á mjög miklum tímamótum. Þær tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað, og það hefur ekki síst sýnt sig í viðbrögðum við Covid-19 heimsfaraldrinum, eru slíkar að það er allt að breytast. Við eigum og getum hagnýtt okkur tæknina til þess að gera starfsemi hins opinbera sveigjanlegri, alveg eins og við sjáum að atvinnulífið gerir. Og ég vil meina að við séum að gera þetta upp að vissu marki. Þetta held ég að við höfum öll séð og lært, líka við hér á þinginu. Sannarlega hefur þetta verið þannig í ráðuneytinu hjá mér og í öðrum ráðuneytum. En laus störf hjá stofnunum ríkisins eru auglýst á vefnum starfatorg.is. Svarið við fyrirspurn hv. þingmanns miðast við birtar auglýsingar þar það sem af er þessu ári. Það tekur ekki til starfa á vegum sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila. Þetta eru sem sagt stofnanir ríkisins sem ég er hér sérstaklega að greina frá, en frá áramótum hafa eitt 1.009 störf verið auglýst á starfatorgi og það má segja að hlutfallið sé nánast jafnskipt milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, 515 störf á höfuðborgarsvæðinu, 503 störf annars staðar á landinu. Ég hef væntingar um að starfstækifærin verði enn fleiri á landsbyggðinni á næstunni, ekki síst í ljósi þess sem ég var hér að rekja, að fjarvinna er orðin raunhæfari kostur og við erum með nýfengna reynslu af fjarvinnslu af ýmsu tagi. Stjórnendur hafa fengið æfingu og jafnvel sjálfstraust í að skipuleggja slíkt vinnufyrirkomulag og það hefur tekist með farsælum hætti. Þess háttar fyrirkomulag tel ég að muni ekki síst nýtast íbúum á landsbyggðinni þegar störf hjá hinu opinbera losna. Ég kem vonandi aðeins aftur að þessu atriði síðar í mínu svari.

Spurt er hvernig ríkið geti unnið gegn atvinnuleysi. Það er alveg ljóst að þessi heimsfaraldur hefur víða valdið miklum búsifjum hér á landi. Við höfum hins vegar verið að byggja upp sterka fjárhagsstöðu til að takast á við erfiðari tíma á undanförnum árum og erum núna að nýta af miklum þunga, bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, þessa góðu stöðu. Þar gerum við til að mynda mótvægi og skjól fyrir fyrirtæki og að sjálfsögðu heimilin til að verja þau gegn fyrstu efnahagslegu áhrifunum af völdum veirunnar. Það má vera að þörf verði fyrir áframhaldandi mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda næsta haust, þá er ég að vísa í sérstakar sértækar aðgerðir, og næsta vetur þegar það verður komið betur í ljós hversu mikið af atvinnustarfsemi landsins fer forgörðum, sérstaklega í ferðamennskunni. Kostnaður við þessar aðgerðir verður meiri en við eigum eldri dæmi um. Stærstur hluti kostnaðarins felst í því að bæta upp tekjumissi þeirra sem hafa orðið fyrir skerðingu eða atvinnumissi, hvar sem þeir búa á landinu. Því miður er útlit fyrir að í stað fyrra jafnvægis í þjóðarbúskapnum myndist einn mesti framleiðsluslaki í nútímahagsögu. Helsta birtingarmynd þess er atvinnuleysi sem gæti jafnvel orðið meira en eftir fall bankakerfisins haustið 2008. Þetta er efnahagslega aðalviðfangsefnið í dag. Þótt skellurinn orsakist af tímabundnu ytra áfalli er viðbúið að hann muni hafa áhrif á eftirspurn í mun lengri tíma en út þetta ár.

Við þessar aðstæður er þess vegna afar mikilvægt að við mótum áætlun um endurreisn efnahagslífsins og opinberra fjármála sem verði til þess fallin að örva hagvöxt og atvinnusköpun á landsvísu þar sem við verðum fyrst og fremst með augun á atvinnustiginu. Slík stefnumörkun og áætlanagerð mun koma mikið við sögu við vinnu að nýrri fjármálaáætlun og fjármálastefnu sem fram undan er sem ég vænti þess að leggja fyrir þingið í haust.

Ég vil alveg í blálokin nefna að við erum með verkefni í gangi sem snýr að því að fela ráðuneytum og stofnunum að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Þar er markmiðið að 5% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði án sérstakrar staðsetningar fyrir árslok næsta árs og í árslok 2024 verði hlutfallið komið upp í 10%.



[13:42]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Það er í starfslýsingu sérhverrar ríkisstjórnar að skapa störf en á því prófi hefur ríkisstjórnin því miður fallið. Einungis 5% af aðgerðum hennar núna renna í nýsköpun. Atvinnuleysi hefur aldrei verið eins mikið og stefnir í að aukast með haustinu. Að skapa störf, líka opinber störf, skiptir máli í svona ástandi. Allar ríkisstjórnir um allan heim eru að gera það til að bregðast við kreppunni en ekki hér, því að formanni Sjálfstæðisflokksins finnst það víst vera versta hugmynd sem hann hefur heyrt, eins og hann orðaði það, þegar ég nefndi þennan möguleika. Það að fjölga opinberum störfum fjölgar ekki bara störfunum heldur bætir það þjónustuna við okkur sjálf því að hér vantar hjúkrunarfræðinga, lögreglumenn, vísindafólk, sjúkraliða og sálfræðinga o.s.frv. Auðvitað þarf einnig að fjölga störfum í einkageiranum en það er kostnaðarsamt, herra forseti, að hafa fjármálaráðherra sem sér ekki verðmæti í fleiri opinberum störfum. Það er hugmyndafræðilegur ágreiningur sem Samfylkingin er a.m.k. ekki hrædd við að takast á um við Sjálfstæðisflokkinn. (Forseti hringir.) En það vekur athygli að sem fyrr þegja Vinstri grænir í þessari umræðu.



[13:44]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og það sem fram kom í hans ræðu. Það er ánægjulegt að heyra að þessi vinna er í gangi á ýmsan hátt. Mér kom það í hug núna þegar ég sat í sætinu og var að hlusta á ræðuna að það hefur oft og tíðum verið erfitt að fá fólk, sérstaklega menntað fólk, til flytja út á land þó að störf séu í boði, lækna o.s.frv. Það er oft erfitt að fá suma til að flytja út á land þó að margir vilji gera það, sérstaklega ungt fólk sem er að hefja búskap og sér þar ódýrari leiðir til að kaupa sér húsnæði og annað slíkt. En oft hefur verið velt upp þeirri hugmynd hvort hægt sé að vera með þá gulrót sem felst í skattalegum hvötum, einhvers konar skattalegt hvatakerfi eins og er t.d. í Noregi. Mig langar að varpa þeirri spurningu til ráðherrans hér og nú hvernig þær hugmyndir horfi við honum. Það kom greinilega fram í ræðu ráðherrans að hann og ríkisstjórnin, eins og við öll, hefur áhyggjur af framvindu mála í sambandi við Covid-fárið og hvernig því mun vinda fram atvinnulega séð. Það er mjög brýnt að vera á tánum í því sambandi og taka ákvarðanir fyrr en seinna þegar vandamálin blasa við fyrir framan okkur.



[13:46]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst svara vangaveltum um hvata sem stjórnvöld gætu beitt. Ég myndi kannski segja sem svar við því að það sem stjórnvöld hafa sögulega verið að gera er að koma með fjárfestingarsamninga. Þegar við skoðum helstu forsendur þess að gera slíka fjárfestingarsamninga eru það oft á tíðum þær að það sé réttlætanlegt með tilliti til atvinnuástandsins á viðkomandi svæðum og stuðningurinn falli vel að markmiðum um að dreifa störfum um allt landið og efla atvinnustigið. Þannig eigum við, svo dæmi sé tekið, fjárfestingarsamninga á borð við þann sem gerður var um kísilver á Bakka, álverið hjá Fjarðaáli og fleiri dæmi nokkra áratugi aftur í tímann, allt aftur í álverið í Straumsvík. Það eru skattalegu hvatarnir sem stjórnvöld hafa einkum horft til.

Ég held að það sé alveg tímabært að velta því fyrir sér hvort við ættum að velta betur fyrir okkur möguleikanum á skattalegum hvata vegna mannauðs, og segja einfaldlega: Við erum tilbúin til að gera ívilnanir, ekki bara til þess að laða til landsins innflutning á stáli og bárujárni og vélum og tækjum og tólum til að fara í framleiðslu, heldur líka til að fá til landsins hugvit, fá til landsins sérstaka þekkingu. Hversu langt værum við tilbúin til að ganga í því? Ég hef lagt fyrir þingið og fengið samþykktar reglur sem draga sérfræðinga til landsins með ívilnunum í tekjuskatti en það má velta því fyrir sér hvort við göngum þar nógu langt og hvort við ættum að ganga lengra.

Varðandi opinberu störfin verð ég bara að segja að þau eru ekki ein og sér lausn á efnahagskreppunni. Það er það sem ég á við þegar menn koma með það sem svar við efnahagsástandinu að fjölga bara opinberum starfsmönnum. Opinbera starfsemin geymir gríðarleg verðmæti fyrir samfélagið og allur sá mannauður sem þar starfar. (Forseti hringir.) En það er ekki lausn á efnahagskreppunni, ekki einkenni lausnarinnar, að það skorti á að fjölga opinberum starfsmönnum. Það hefur verið minn punktur þegar ég og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson höfum verið að ræða þetta.