150. löggjafarþing — 127. fundur
 25. júní 2020.
hollustuhættir og mengunarvarnir, 2. umræða.
stjfrv., 436. mál (viðaukar). — Þskj. 600, nál. m. brtt. 1696.

[23:02]
Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þetta er að mörgu leyti býsna stórt mál, þó að það sé kannski ekki af þeirri stærðargráðu sem Orkusjóðurinn er, eins og hefur sýnt sig vera hér í dag, en við verðum kannski fram undir morgun að ræða þetta miðað við stærðarmörkin á því, en allt í góðu, ég er til í það.

Eins og hv. þingmenn vita lagði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fram frumvarp um breytingu á þessum lögum. Það var ja, hvað getum við sagt, býsna veigamikið að einhverju leyti. Þar greindi fyrir um verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga þar sem fylgdi með listi þar sem voru miklar tilfærslur um hvað væri hvorum megin, þ.e. heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna megin eða ríkisins megin, allt eftir því hvað er í viðauka III eða viðauka IV, eins spennandi og það er nú. Og svo í ljósi þess hvaða starfsemi væri þess eðlis að ekki lengur þyrfti starfsleyfi útgefið frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna.

Hv. umhverfis- og heilbrigðisnefnd fjallaði býsna vel um málið og kom berlega í ljós að umtalsverðar athugasemdir ansi margra voru um akkúrat þær tillögur sem lagðar voru fram í umræddu frumvarpi. Þá brugðum við á það ráð að reyna að vinna þetta aðeins betur í fínni samstöðu í nefndinni og skoða hvort hægt væri að ná einhverjum breytingum sem lagðar voru til í frumvarpinu þó að ekki yrði gengið alveg eins langt og þar var kveðið um. Ég ætla ekki, forseti, að lesa nefndarálitið. Hv. þingmenn hafa kynnt sér það. Kannski ég lesi hér kaflann Almennt, af því að þar er komið nokkuð vel inn á skoðun nefndarinnar. Hér er verið að fjalla um að fækka flokkum starfsemi sem háð er útgáfu starfsleyfa eða er skráningarskyld og verkaskiptingu á milli, eins og ég sagði í upphafi. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Við meðferð málsins komu fram umfangsmiklar athugasemdir við efni frumvarpsins og ljóst er að ekki ríkir einhugur um þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu. Fram komu sjónarmið þess efnis að fækkun flokka ætti frekar að vera áfangaskipt og lögð var áhersla á að lögin þörfnuðust heildarendurskoðunar til skýringar og einföldunar. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og telur nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, enda sé lagaumhverfið flókið og torskilið. Slík heildarendurskoðun þurfi að fara fram í víðtæku samráði við hlutaðeigandi aðila, þ.e. heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, sveitarfélögin sjálf, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og atvinnulífið. Auk þess skuli við þá vinnu hafa samráð við önnur ráðuneyti eða stofnanir, sérstaklega í þeim tilvikum þegar starfsemi er háð eftirliti fleiri aðila eða þar sem sækja þarf um fleiri en eitt starfsleyfi fyrir sömu starfsemina, og tryggja aðkomu eftirlitsaðila þar sem við á þegar ekki er talin þörf á sérstöku starfsleyfi. Nefndin telur að best fari á því að eftirlit fari fram sem næst starfsemi hverju sinni en hlutverk stofnana ríkisins sé að huga að samræmingu og veita aðstoð þegar með þarf. Þar verði hugað að því hvernig þekking í nærumhverfi nýtist sem best, samskipti við stjórnvöld og upplýsingagjöf sé sem aðgengilegust og atvinnustarfsemi búi við sambærilegar aðstæður óháð staðsetningu um landið. Þá telur nefndin að við endurskoðunina eigi að stefna að því að auka veg rafrænnar stjórnsýslu sem mest.“

Forseti. Síðan er farið yfir þær breytingar sem nefndin telur að eigi að gera, en í stuttu máli sagt snýr afgreiðslan sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd leggur til að því að skýra mjög gróflega, eins vel og hægt er, á milli þessara stofnana og stjórnsýslustiga með viðauka III og VI. Það eru að mig minnir einir sjö flokkar starfsemi sem ekki fá lengur starfsleyfi heldur flokkast á öðrum stað, en svo er hvatt til heildarendurskoðunar á málaflokknum og að þar verði farið betur yfir þetta. Textinn sem ég las upp áðan er þá nokkurs konar kompás nefndarinnar um það hvert eigi að stefna í þeirri heildarendurskoðun.

Nokkuð var rætt um hvort ætti að vera inni í þessu líka flokkurinn „önnur sambærileg starfsemi“, þ.e. að heilbrigðisnefndirnar gætu enn flokkað hvar þyrfti starfsleyfi ef það væri sambærilegt annarri starfsemi. Nefndin taldi að það yrði að vera inni því að ekki væri hægt að búa til tæmandi lista yfir þá starfsemi sem uppi væri eða kæmi upp hverju sinni og að sjálfsögðu er þetta eitt af þeim atriðum sem farið verður yfir í heildarendurskoðun. Vegna þessa eru lagðar fram umtalsverðar breytingartillögur sem finna má í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið skrifaði framsögumaður, sá sem hér stendur, Bergþór Ólason formaður, með fyrirvara, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón Brjánsson, með fyrirvara, Hanna Katrín Friðriksson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Já, það gleymdist mögulega að skrifa hér, ég er að uppgötva það núna, hæstv. forseti, og mér þykir það mjög leitt, ég hefði viljað vita af því og hefði verið minnsta mál að prenta það, og er kannski hægt enn, en ég held ég fari rétt með, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson getur kannski gert grein fyrir því sjálfur, að hann studdi málið eða lýsti sig samþykkan, held ég að orðalagið sé, sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Nefndin leggur sem sagt til, forseti, áður en ég yfirgef hann alveg, ég veit að hann kvíðir þeirri stundu, að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gert er grein fyrir í nefndarálitinu.



[23:09]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, vissulega lýsti ég mig samþykkan þessu. Þar sem ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni lýsti ég mig samþykkan þessari afgreiðslu og styð tvímælalaust frumvarpið eins og það er. Mig langar til að fara aðeins örstutt yfir ferlið í málinu. Þegar það kom til nefndarinnar var það gjörsamlega ómögulegt. Ég var með öll rauð flögg uppi í málinu því að það var algjört spaghettí. En nefndin fór í þrjá ef ekki fjóra hringi með það, með stöðugum endurbótum og betrumbótum og kallaði eftir umsögnum aftur og þegar allt kom til alls var fyrirmyndarvinna á frumvarpinu sem kom algerlega ónýtt til þingsins, ef þannig má orða það. Niðurstaðan var bara mjög góð. Ég hafði ekki planað að tala mikið um það þó að það hafi kannski farið þannig. Það er í raun mjög flókið að tala um þetta mál því að breytingarnar eru svo miklar og maður getur ekki talað um frumvarpið eins og það var því að það er bara farið, allt öðruvísi frumvarp núna, kannski meira í áttina að því sem það var áður en það var lagt upp, en það eru svona straumlínulagaðar breytingar á því eins og nú er. Ég þakka nefndinni kærlega fyrir góða vinnu — og meira svona.



[23:11]
Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið því að hann minnti mig þá akkúrat á það sem ég hafði gleymt að gera í framsöguræðu minni, að þakka hv. nefnd fyrir góða vinnu í málinu. Ég myndi kannski ekki nota alveg sömu orð og hv. þingmaður notaði til að lýsa frumvarpinu, gæðum þess, efni og hvernig við unnum það. En í grundvallaratriðum erum við hv. þingmaður sammála um að það þurfti að gera ýmislegt til að sú samstaða næðist innan nefndarinnar sem náðist, þannig að við öll vorum sammála um að fara í þessa afgreiðslu. Við prófuðum leiðir, hv. nefndarmenn voru mjög liðlegir mér sem framsögumanni í því að leyfa mér að prófa að fara með það í þessa eða hina áttina og kanna, með því jafnvel að bera það undir umsagnaraðila, hvort þetta virkaði og jafnvel að kalla það inn aftur. Þannig að ég verð að taka undir með hv. þingmanni að þessi vinna var til fyrirmyndar.



[23:12]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði nú bara að láta hitt duga svo sem, en hv. þingmaður minntist einmitt á — og þarf að minnast á — umsagnaraðilana sem komu að og voru rosalega hjálplegir. Þar fóru fremstir í flokki ungir umhverfissinnar sem voru með gríðarlega nákvæmar og góðar umsagnir um þetta mál og útskýrðu mjög vel af hverju það væri þetta sem væri að. Það var mjög vel gert og mjög vel komið til móts við það að kalla eftir viðbótarumsögnum af því að það urðu svo miklar breytingar á málinu frá fyrstu útgáfu yfir í aðra útgáfu, kallað var á viðbótarumsagnir um það, og síðan varð alla vega þriðja útgáfa og nokkrir snúningar á því hvað átti að vera inni og hvað ekki, eins og farið var yfir í framsöguræðunni.



[23:13]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sem tekið hafa einhverjum breytingum frá þeim tíma. Við höfum líka hlýtt á greinargott nefndarálit hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, sem rammar vel inn þann anda og þá vinnu sem fram fór í nefndinni sem var með ágætum. Markmið þessara breytinga á lögunum er að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi það að gera átak í að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings, eins og það heitir, samhliða því að leggja áherslu á að stjórnsýslan sé skilvirk og réttlát. Við þekkjum yfirlýsingar af þessu tagi. Þær hafa reynst misjafnlega og ekki alltaf verið sem skyldi og ekki endilega í þágu einföldunar eða í þágu almennings. Þær hafa jafnvel snúist upp í andhverfu sína. Þetta var sömuleiðis rætt í nefndinni og menn voru sammála um að nauðsynlegt væri að stíga heldur varlega til jarðar.

Í frumvarpinu var í upphafi stefnt að því að fella út tugi fyrirtækjaflokka sem yrðu hvorki starfsleyfisgildir né skráningarskyldir, en heilbrigðiseftirliti í sveitarfélögunum var engu að síður ætlað að hafa tilfallandi eftirlit með umræddri starfsemi sem þessu tengdist. Alls eru 187 flokkar starfsemi tilgreindir í viðaukum IV og V í lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem heilbrigðisnefndirnar hafa gefið út starfsleyfi fyrir. Ekki verður lengur gerð krafa um útgáfu starfsleyfis fyrir 41 flokk starfsemi. Gerðar eru breytingar á heitum á ýmsum flokkum og þeir sameinaðir í nýja flokka en þær breytingar hafa áhrif á 53 flokka starfsemi.

Þarna er að finna veigamikla starfsemi á borð við snyrtistofur, stóra rafmagnsspenna, samkomusali, hestaleigur, kvikmyndahús, kjötreykingu, reiðhallir og verkfræðiaðstöðu fyrirtækja. Það má ganga að því sem vísu að talsverður fjöldi mála komi upp sem snertir þessa starfsemi. Það fer eftir svæðum, t.d. ef kjötreyking er sett upp í íbúðabyggð eða olíuleki kemur frá spennistöðvum. En heilbrigðiseftirlitin hafa fengið kvartanir á borð við þær sem hér um ræðir.

Í kjölfar lagabreytinganna hefði orðið afar snúið fyrir heilbrigðiseftirlitin að hafa aðkomu að slíkum málum þar sem ekki er að finna neina leiðsögn í regluverkinu eftir þær breytingar sem boðaðar höfðu verið í frumvarpinu. Nefndin var sammála um þá meginforsendu að best færi á því að eftirlitið færi fram sem næst starfsemi hverju sinni, en að hlutverk stofnana ríkisins ætti aftur á móti vera það að huga að samræmingu og veita aðstoð ef með þyrfti, og er það áréttað í nefndaráliti.

Það er mat nefndarinnar að nauðsyn beri til að fram fari heildarendurskoðun á lögunum eins fljótt og hægt er, og varhugavert sé að klippa á og skera af lagatextanum og hlutverkum einstakra þátta í stjórnkerfinu nema að undangenginni vandaðri vinnu og miklu samráði við hlutaðeigandi, og jafnvel að gera um þetta áhættugreiningu. Það gerði nefndin sér ljóst þegar farið var að lesa yfir lögin, kynna sér þau og greina hversu flókin og torskilin þau væru í rauninni. Heilbrigðiseftirlitin voru alveg skýr í viðtölum við okkur og kvörtuðu jafnvel undan því að lítið eða takmarkað samráð hefði verið haft við nefndirnar í vinnunni við frumvarpið og ekki heldur við þau fyrirtæki sem breytingarnar varða. Það má telja víst að ýmislegt uppbyggilegt gæti komið út úr slíkri vinnu sem myndi bæta þetta mál. Umhverfis- og samgöngunefnd vill í þessum efnum fara með löndum, eins og framsögumaður nefndi, skoða allar lagaumgjörðina í þaula. Hún gerir engu að síður breytingar á lögunum en varar við því og leggur til að lögin verða endurskoðuð en vill ekki að gripið verði inn í einstök atriði sem við höfum ekki fulla stjórn á hvaða afleiðingar hafi.

Ég stend að þessu nefndaráliti með fyrirvara sem gengur fyrst og fremst út á brýningu um heildarendurskoðun á þessum lögum. Þá finnst mér líka umhugsunarefni og nauðsynlegt að tryggja að inni séu áfram skýr ákvæði um aðkomu yfirvalda að einum þætti af þessum 187 eða jafnvel fleirum, aðkomu yfirvalda að vinnubúðum. Það vakti athygli mína, af því að ég bý nú í landsbyggðarkjördæmi þar sem þessi mál hafa komið við sögu, eins og við þekkjum raunar úr fréttum. Það varðar aðbúnað verkafólks. Málið hefur skánað mjög en áður en breytingafrumvarpið var lagt fram átti að fella niður aðkomu að öllum vinnubúðum, eftir því sem best varð séð. Við þekkjum öll umræðuna úr fjölmiðlum um aðbúnað verkafólks og hann hefur satt best að segja ekki verið landsmönnum til mikils sóma. Rýmum sem erlendu verkafólki hefur verið holað niður í hefur oft verið verulega áfátt, svo ekki sé meira sagt. Það má líka nefna íverustaði farandverkafólks í sláturhúsum.

Þessi atriði verður að fella í vandaðar skorður þannig að þau verði aðgengileg fyrir heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna að vinna eftir og að því lýtur þessi litli fyrirvari minn líka.

En að öðru leyti þakka ég fyrir vinnunni í nefndinni. Mér fannst skynsamlega á þessu tekið og niðurstaðan vera varfærin og í þágu þessarar þjónustu þar sem svo mjög hefur mætt á, fyrst og fremst sveitarfélögum og heilbrigðisnefndum þeirra. Þar er mikill áhugi fyrir að þetta eigi sér sess áfram. Og eins og fram kom í nefndaráliti og hjá framsögumanni ætti þetta kannski heima í nærsamfélaginu þar sem staðarþekking er betri, en umsjá og ráðgjöf ætti heima hjá opinberri stofnun ríkisins.



[23:23]
Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, stuðninginn og samvinnuna við málið og skil vel athugasemdir hans, en ég hygg að við séum sammála. Mér þótti gott að heyra að fyrirvarinn sneri ekki á neinn hátt að því í hvaða átt við vildum fara með heildarendurskoðun, heldur hugði ég að við öll sem skrifuðum undir álitið, hvort sem var með fyrirvara eður ei, værum samsinna hvert ætti að stefna.

Ég kom hingað upp bara vegna þess að hv. þingmaður nefndi sérstaklega vinnubúðir sem var búið að flagga á fundi nefndarinnar að hún myndi hafa sérstaklega í huga. Það er enn þannig að starfsmannabúðir eru starfsleyfisskyldar þrátt fyrir þær breytingar sem verið er að gera hér og í ljósi orða hv. þingmanns er ég sammála því að þetta sé eitt af því sem við þurfum að huga sérstaklega að, en vildi bara ítreka það. Ég þarf ekkert sérstaklega að fá nein svör við því en vildi draga þetta fram.



[23:24]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt, ég hefði átt að geta um það að þetta varð að umfjöllunarefni og það var eitt af því sem tekið var tillit til. Ég undirstrika það bara að það var hin skynsamlegasta niðurstaða sem fékkst í þetta efni og í staðinn fyrir að afgreiða málið í hálfgerðri blindni var þessi niðurstaða fengin. Heilbrigðisnefndirnar í sveitarfélögunum gegna miklu hlutverki. Ég tel að þær eigi að fá að gera það áfram. Það er mín skoðun að við eigum að virkja fagkunnáttu í sveitarfélögunum að þessu leyti. Hin minni sveitarfélög hafa sameinast um heilbrigðisnefndir og það er ágætt. Við eigum að ýta undir að sveitarfélög í heild sinni sameinist þótt þeim fækki og verði öflugri stjórnsýslueiningar. En á þetta var drepið í gestakomum og sérstaklega hjá fulltrúum heilbrigðisnefnda að þau legðu á það áherslu að nefndirnar fengju sitt góða skilgreinda hlutverk. Hins vegar megum við auðvitað hafa það í huga og það er nauðsynlegt að Umhverfisstofnun og opinberar stjórnsýslueiningar eiga að hafa sitt rými og sitt skilgreinda hlutverk og við eigum, eins og fram kom í nefndarálitinu og í umræðunni, að nýta okkur hina nýju tækni, rafræna tækni, eins og mögulegt er. Það er hægt að gera í ríkari mæli en við gerum kannski í dag.