150. löggjafarþing — 128. fundur
 26. júní 2020.
félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða, 2. umræða.
stjfrv., 666. mál. — Þskj. 1130, nál. m. brtt. 1836.

[18:08]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu við frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá hv. velferðarnefnd. Nefndin hefur fjallað um málið, fengið til sín gesti og farið yfir þær umsagnir sem bárust.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Lagt er til að komið verði á fót nýju kerfi félagslegs stuðnings við aldraða sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Gert er ráð fyrir því að hámark mánaðarlegra greiðslna til einstaklings samkvæmt lögunum geti numið 90% af fjárhæð fulls lífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar, auk 90% af mánaðarlegri fjárhæð fullrar heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þegar það á við.

Hér er kafli um mat á kostnaði ríkissjóðs við lögfestingu. Þar segir að ljóst sé af ákvæðum frumvarpsins að lögfestingu þess fylgi kostnaður fyrir ríkissjóð. Við framlagningu málsins fylgdi því ekki kostnaðarmat líkt og skylt er samkvæmt 66. gr. laga um opinber fjármál. Óskað var eftir því við félagsmálaráðuneytið að nefndinni yrði sent kostnaðarmat ráðuneytisins vegna málsins. Nefndinni barst mat ráðuneytisins á áhrifum lagasetningar 30. apríl 2020, þar sem fram kemur greining og mat á fjárhagslegum áhrifaþáttum fyrir ríkið.

Réttur til viðbótarstuðnings samkvæmt frumvarpinu getur stofnast bæði hjá einstaklingum sem eru á skrá hjá Tryggingastofnun ríkisins og eiga minni rétt en sem svarar hámarki félagslegs viðbótarstuðnings og hjá einstaklingum sem eiga engan rétt samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Í kostnaðarmati ráðuneytisins kemur fram að stuðningurinn muni ná til um 400 ellilífeyrisþega, miðað við mat Tryggingastofnunar frá nóvember 2019 og muni kostnaður við stuðning til þeirra nema um 461 millj. kr. á ári miðað við verðlag ársins 2019. Ef miðað er við 3,5% hækkun greiðslna á milli ára væri árlegur kostnaður árið 2020 um 477 millj. kr.

Áætlað er að kostnaður vegna þeirra sem ekki eiga réttindi í almannatryggingakerfinu en hafa fengið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sé minni háttar. Gert er ráð fyrir því að þeir sem uppfylla skilyrði fyrir félagslegum viðbótarstuðningi hafi að jafnaði búið hér á landi í fjögur ár og eigi því að minnsta kosti einhver réttindi til ellilífeyris. Í mati ráðuneytisins er gert ráð fyrir því að um þrír einstaklingar geti átt fullan rétt til félagslegs viðbótarstuðnings sem getur numið um 3,5 millj. kr. á ári, fyrir hvern einstakling.

Þá kemur einnig fram í kostnaðarmati ráðuneytisins að áætlaður kostnaður við innleiðingu nýs bótaflokks hjá Tryggingastofnun sé um 30 millj. kr. á árinu 2020, sem verði einsskiptiskostnaður, en auk þess verði árlegur kostnaður stofnunarinnar um 40 millj. kr.

Miðað er við að árlegur kostnaður vegna frumvarpsins geti orðið allt að 530 millj. kr. Þar sem gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. júlí 2020 gerir ráðuneytið ráð fyrir því að kostnaður yfirstandandi árs verði um 280 millj. kr. auk um 30 millj. kr. innleiðingarkostnaðar.

Hér er svo talað um afmörkun í gildissviði frumvarpsins og ótímabundið dvalarleyfi og rétt EES- og EFTA-borgara til viðbótarstuðnings. Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins segir að lögin taki til einstaklinga sem eru 67 ára og eldri, hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og dvelja varanlega á Íslandi. Í 2. mgr. 2. gr. segir að ef um erlendan ríkisborgara er að ræða sé það skilyrði að hann hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga, nr. 80/2016.

Í umsögn Útlendingastofnunar um málið er bent á að af skilyrði frumvarpsins um ótímabundið dvalarleyfi megi ætla að ríkisborgarar EFTA-ríkjanna og ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins sem dvelji ótímabundið hér á landi eigi ekki rétt til félagslegs viðbótarstuðnings. Útlendingar sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanskildir kröfum útlendingalaga um ótímabundið dvalarleyfi. Réttur EES- og EFTA-borgara til ótímabundinnar dvalar er því ekki bundinn því skilyrði að viðkomandi hafi fengið ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.

Í minnisblaði sem nefndinni barst frá ráðuneytinu 14. apríl 2020 segir að allir sem geti sest að hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga geti fallið undir frumvarpið. Af því má ráða að ætlunin sé að EES- og EFTA-borgarar geti notið sama réttar og aðrir erlendir ríkisborgarar til félagslegs viðbótarstuðnings samkvæmt frumvarpinu.

Nefndin leggur því til breytingu þess efnis að viðkomandi teljist uppfylla skilyrði 2. mgr. 2. gr. hafi hann ótímabundið dvalarleyfi eða rétt til ótímabundinnar dvalar, samkvæmt 87. eða 88. gr. laga um útlendinga samanber 91. gr. laganna. Með þessu eiga ríkisborgarar Norðurlandanna, þar með talið Álandseyja, Færeyja og Grænlands, einnig rétt á greiðslum samkvæmt frumvarpinu enda mega þeir dveljast hér á landi án dvalarleyfis.

Síðan segir hér um dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis að í umsögn Útlendingastofnunar sé bent á að eitt skilyrða þess að fá útgefið ótímabundið dvalarleyfi sé að framfærsla viðkomandi sé trygg. Því felist ákveðin þversögn í orðalagi ákvæðis 3. mgr. um að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. 2. gr. hafi erlendur ríkisborgari dvalarleyfi hér á landi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, enda hafi hann verið búsettur hér á landi í a.m.k. tvö ár þegar sótt er um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Nefndin bendir á að með ákvæðinu er aðeins vísað til þeirra tegunda dvalarleyfa sem geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, en ekki til þess að viðkomandi uppfylli öll skilyrði ótímabundins dvalarleyfis þegar hann sækir um viðbótarstuðning. Þannig sé Tryggingastofnun heimilt að líta til sanngirnissjónarmiða við ákvörðun um að veita undanþágu á grundvelli 3. mgr. og getur þetta t.d. átt við þegar framfærsla hefur fallið niður, svo sem vegna andláts þess sem hana ábyrgist, eða ef viðkomandi þarf að hætta störfum sökum varanlegrar örorku áður en hann fær ótímabundið dvalarleyfi.

Svo er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar en í 4. mgr. 2. gr. segir að fjölskyldumeðlimir sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar falli ekki undir lögin hafi sá aðili sem óskað var sameiningar við hér á landi ábyrgst framfærslu þeirra. Sama á við hafi annar aðili sem deilir heimili með viðkomandi ábyrgst framfærslu hans. Nefndin bendir á að dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga er ekki ótímabundið dvalarleyfi. Einstaklingar sem dvelja hér á landi vegna dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar uppfylla því ekki skilyrði 2. mgr. 2. gr. nema viðkomandi hafi í kjölfarið fengið ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt 58. gr. laganna. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að tiltekins óskýrleika kynni að gæta varðandi gildissvið 4. mgr. að þessu leyti. Annars vegar mætti skilja ákvæðið þannig að þeir sem dvelja hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar ættu ekki rétt á viðbótarstuðningi, en í því fælist ekki efnislegt skilyrði sem gengi lengra en ákvæði 2. mgr. Hins vegar mætti skilja ákvæðið þannig að hafi dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis sem viðkomandi hafi fengið gæti hann ekki átt rétt á félagslegum viðbótarstuðningi samkvæmt frumvarpinu.

Að höfðu samráði við ráðuneytið telur nefndin réttara að hinn fyrri skilningur verði lagður til grundvallar, þ.e. að þeir sem eru á dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar geti ekki átt rétt til félagslegs viðbótarstuðnings. Í því sambandi bendir nefndin á að það er almennt skilyrði þess að viðkomandi fái ótímabundið dvalarleyfi að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér.

Í ljósi þess að ákvæði frumvarpsins taka almennt ekki til þeirra sem eru með tímabundið dvalarleyfi telur nefndin 4. mgr. 2. gr. ekki hafa neina sjálfstæða þýðingu, umfram það sem er áréttað í 2. mgr. 2. gr. Til þess að fyrirbyggja þann misskilning sem gerð hefur verið grein fyrir að framan leggur nefndin til að 4. mgr. 2. gr. falli brott.

Þá er talað um endurkröfur. Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild Tryggingastofnunar til að endurkrefja greiðsluþega um ofgreidda fjárhæð hafi greiðsla átt sér stað án þess að skilyrðum laganna væri fullnægt og í 5. mgr. 13. gr. er kveðið á um endurgreiðslu ofgreiddrar fjárhæðar vegna vísvitandi rangra, villandi eða ófullnægjandi upplýsinga. Í umsögn Skattsins eru reifaðar áhyggjur af því að fyrirkomulag greiðslna samkvæmt frumvarpinu, þar með talin þau tekjuviðmið sem lögð eru til grundvallar, kunni að valda því að talsvert verði af endurútreikningi bóta. Bendir Skatturinn í því sambandi á að ekki eru allar innlendar tekjur staðgreiðsluskyldar og slíkar tekjur liggja ekki fyrir fyrr en að liðnu tekjuári. Í því sambandi bendir nefndin á að ekki er gert ráð fyrir sambærilegu fyrirkomulagi og er í lögum um almannatryggingar, þar sem greiddar bætur byggjast á tekjuáætlun hvers árs og eru endurreiknaðar þegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir. Þess í stað er lagt til að viðkomandi greiðsluþega beri að tilkynna um allar breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á ákvörðun um stuðning og greiðslu hans. Þannig er gert ráð fyrir fyrirkomulagi sem byggist á upplýsingagjöf greiðsluþega og endurkröfuheimildum Tryggingastofnunar, ef ofgreitt er. Mun því ekki koma til endurútreiknings bóta með sama hætti og lög um almannatryggingar mæla fyrir um.

Þá um upplýsingaskyldu annarra aðila. Í 12. gr. frumvarpsins segir að þær stofnanir sem þar eru tilgreindar skuli láta Tryggingastofnun í té upplýsingar með rafrænum hætti eða á annan hátt að því marki sem slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögunum. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að samkvæmt lögum um almannatryggingar hefur Tryggingastofnun fræðsluskyldu gagnvart skjólstæðingum sínum um fyrirhugaða vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin leggur til breytingu þess efnis að við 12. gr. bætist sams konar fræðsluskylda Tryggingastofnunar um fyrirhugaða upplýsingaöflun.

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á nýju kerfi félagslegrar aðstoðar sem Tryggingastofnun verði falið að annast. Ljóst er að þörf verði á talsverðri undirbúningsvinnu áður en lögin geti komið til framkvæmda, en í umsögn Tryggingastofnunar segir að m.a. þurfi að innleiða nýjan greiðsluflokk og ferla í kerfi stofnunarinnar. Í því sambandi var bent á að nær ómögulegt væri fyrir stofnunina að ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu fyrir gildistöku laganna. Leggur nefndin því til breytingu á 19. gr. frumvarpsins þess efnis að lögin komi til framkvæmda 1. nóvember 2020. Þar sem gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. júlí 2020 verði greiðslur afturvirkar frá þeim degi og til þess dags þegar lögin koma til framkvæmda.

Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef reifað hér að framan.

Undir þetta rita hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir, með fyrirvara, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara, Halldóra Mogensen, með fyrirvara, Orri Páll Jóhannsson og Ólafur Þór Gunnarsson.



[18:20]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina yfir nefndarálitið. Já, ég er á nefndarálitinu með þeim fyrirvara, eins og ég hef áður komið inn á í dag, að nefndin hefur ekki haft nægilegan tíma til að vinna þau frumvörp sem nú eru til afgreiðslu hér á færibandi við lok þings, vegna þess að nefndin var einfaldlega upptekin við annað, hér ríkti heimsfaraldur kórónuveiru sem enn er í gangi. Það eru enn þá smit en við erum þó nokkurn veginn komin af stað aftur út í lífið og störf fastanefnda þingsins eru hafin að nýju. En því miður tók vinnan í kringum kórónuveiruna og faraldurinn u.þ.b. þrjá mánuði af störfum nefndarinnar, sem haft hefur áhrif á öll mál sem afgreidd eru úr nefndinni. Ég er því með þann fyrirvara við málið að það er ekki fyllilega unnið eins og þörf er á.

Ég geri einnig fyrirvara við að sá hópur sem ekki á rétt á neinum öðrum stuðningi, á engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum, skuli þurfa að þola skerðingu á þeim lágmarkslífeyri sem greiddur er út úr almannatryggingakerfinu, sem ekki er nægilegur til framfærslu, eins og allir vita, og er töluvert undir lágmarkslaunum. Þessi hópur, sem við ætlum að styðja svo hann búi ekki við alger hungurmörk, fær bara 90% af lágmarkslífeyri og ég geri athugasemd við það. Mér finnst snautlegt að við skulum ekki leyfa þessum einstaklingum að sitja við sama borð og aðrir sem fá lífeyri úr almannatryggingakerfinu. Það finnst mér bagalegt og tek undir ábendingar ASÍ þess efnis.



[18:23]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál sem varðar fáa einstaklinga en skiptir gríðarlega miklu máli. Það er frumvarp til laga um félagslegan viðbótastuðning við aldraða. Þarna er hópur sem dottið hefur út úr kerfinu og hefur þurft að lifa á — ég veit um dæmi um 70.000 kr. á mánuði, sem segir sig sjálft að er ekki hægt að lifa á, þannig að viðkomandi þarf að leita til sveitarfélaganna, jafnvel líka eftir mataraðstoð. En það sem er furðulegast við þetta frumvarp er það að ég styð það heils hugar, en það er samt meingallað. Það er eiginlega furðulegt í því samhengi vegna þess að flækjustigið í þessu máli er svo rosalega mikið og algjörlega óþarft. Verið er að setja 90% greiðslur í staðinn fyrir 100%. Það kallar á útreikninga. Það er kostnaður á bak við það, sem er mjög skrýtið miðað við hversu fáir einstaklingar eiga í hlut. Og það sem er líka furðulegt og okkur til háborinnar skammar er að við setjum aftur inn krónu á móti krónu skerðingu. Hvernig dettur okkur það í hug? Það er alveg með ólíkindum að við skulum vera aftur komin á sama plan og taka akkúrat þennan hóp fyrir og segja: Heyrðu, við setjum bara krónu á móti krónu skerðingu á þennan hóp aftur.

Síðan er hitt sem ekki hefur fengið nægilega umfjöllun, ég styð þetta frumvarp, en hér vantar inn öryrkja. Þetta á auðvitað gilda nákvæmlega eins um öryrkja sem eru í þessari aðstöðu. Það eru nokkrir öryrkjar í þeirri ömurlega aðstöðu að við uppreikning á örorkubótum þeirra er tekið tillit til búsetu og einstaklingur, ungt fólk sem fer á örorku og hefur einhverra hluta vegna farið með foreldrum utan í nám, lendir í þessu. Ég spyr: Af hverju í ósköpunum eru þetta fólk ekki haft með?

Ég fagna því að þetta frumvarp sé fram komið því að þá hljóta öryrkjarnir að fylgja með. Annað væri okkur til skammar.

Það kemur skýrt fram í þessu frumvarpi að kostnaður hjá Tryggingastofnun er fyrst 30 millj. kr. og síðan 40 millj. kr. á ári eftir það. Þessi kostnaður væri ekki til staðar ef við hefðum bara gert nákvæmlega sama eins og venjulega hjá Tryggingastofnun, það giltu bara sömu reglur og um 100% greiðslur. Allt annað myndi gilda. Og króna á móti krónu skerðing væri ekki þarna inni. Það væru bara nákvæmlega sömu reglur og gilda hjá öðrum eldri borgurum þessa lands. Þetta er auðvitað alveg stórmerkilegt fyrirbæri. Af hverju setjum við þessa eldri borgara í einhverja bása og segjum: Þú ert 90%, þú ert 100%? Og síðan tökum við öryrkjana og segjum: Þið fáið ekkert að vera með.

Ég hélt að við værum orðin þróaðri og komin lengra en svo í mannréttindum og virðingu fyrir veiku fólki og eldri borgurum þessa lands, að við gerðum slíka hluti. Ég myndi skilja það vel að við gerðum þetta vegna þess að þetta kostaði svo rosalega mikið, að við værum á þeim stað og að þjóðfélagið væri þannig að við hefðum bara á engan hátt efni á að gera þetta. En hvað segja tölurnar okkur? Þetta er ekki óyfirstíganlegur kostnaður. Þetta er bara spurning um sanngirni og að við virðum mannréttindi.

En eins og ég segi, ég mun styðja þetta mál þó að ég hafi fundið alla þessa ágalla á því vegna þess að ég veit að þetta fólk þarf á þessu að halda. Ég tel þetta bara fyrsta skrefið og mun berjast fyrir því að þetta verði bara fyrsta skrefið í þá átt að hjálpa þessum hópi og að á eftir komi allir hinir. Ef ríkisstjórnin sér ekki til þess þá mun ég pottþétt leggja fram mál um að einstaklingar, eins og öryrkjar sem standa fyrir utan, fái líka að koma þarna inn, að þetta sé á sama grundvelli, að allir séu jafnir, að við setjum ekki fólk í bása út frá því hvernig þeir komu til landsins.

Ef við ætlum að samþykkja að fólk sé hérna og að það eigi að hafa öll réttindi þá á það að hafa 100% réttindi, ekki 90%.



[18:28]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki taka langan tíma hér enda er hann naumt skammtaður núna í þinglokunum. Ég kem hingað fyrst og fremst til að fagna því sérstaklega að þetta mál sé nú vonandi að fá hér afgreiðslu. Ég hef haft þennan hóp svolítið í huga og til skoðunar alveg frá því að ég sat í velferðarnefnd fyrir allmörgum árum síðan og fór fyrst að gefa gaum að þessu gati sem væri í okkar öryggisneti þar sem væru lífskjör þess hóps sem hefur skert réttindi í almannatryggingakerfinu vegna búsetu um skamma stund í landinu. Ég þekki dæmi um fólk sem er í mjög bágri stöðu af þeim ástæðum, fólk sem hefur komið hingað til að vinna, jafnvel á miðjum aldri eða seinna, frá heimalandi með nánast engin réttindi og er svo hér að komast á efri ár og hefur áunnið sér afar takmarkaðan rétt í okkar kerfi.

Hér er afrakstur starfshóps sem var settur í það eftir að skoðað hafði verið í samræmi við stjórnarsáttmálann hvað væri hægt að gera til að bæta sérstaklega stöðu þeirra sem allra lakast stæðu í kerfinu og það er nákvæmlega þessi hópur. Og ef við ekki gripum til einhverra ráðstafana af þessu tagi þá værum við að dæma til hreinnar fátæktar, langt undir því sem nokkur annar hópur í samfélaginu myndi búa við, hluta þessa hóps og hann fer stækkandi á komandi árum. Þegar menn horfa til samspils almannatrygginga og lífeyrissjóða og lífeyrisréttinda, þá gekk gamla hugsunin í gamla einsleita samfélaginu út á það að menn myndu annars vegar vera með full réttindi í almannatryggingakerfinu að því marki sem vantaði upp á lífeyrisréttindi þeirra, en síðan tækju lífeyrissjóðirnir smátt og smátt við og bæru meiri og stærri hluta þess að tryggja mönnum framfærslu á efri árum.

Menn horfðu fram hjá því að samfélagið hefur síðan tekið stórstígum breytingum og það var alveg eðlilegt. Menn sáu það ekki fyrir hversu fjölþjóðlegt Ísland er orðið og hversu margir hafa flutt hingað á síðustu árum og/eða Íslendingar verið búsettir erlendis hluta ævi sinnar. Það hefur síðan leitt til þess að menn hafa nálgast málið hér með tilteknum hætti sem ég vil segja, öfugt við síðasta ræðumann, að ég er prýðilega sáttur við. Ég tel að hér sé vel unnið úr þessu máli. Ég er algerlega sáttur við að mönnum séu ekki tryggð 100% réttindi og það er fullkomlega eðlilegt að frá dragist réttur sem menn eiga vonandi í allmiklum mæli annars staðar, þ.e. hafi menn myndað réttindi í lífeyris- eða eftirlaunakerfum annarra landa, þá er fullkomlega eðlilegt að það dragist frá. Nema hvað? Auðvitað. Það er nákvæmlega það sem hér er á byggt. (Gripið fram í.) Jú, jú, ekki sé ég betur. (Gripið fram í: … 90%.) Já, 90%.

En það er nú mjög nálægt því að menn séu þá teknir inn með sama hætti. Og auðvitað er það þannig að þá er Ísland að taka á sig heilmikið umfram það sem því ber, t.d. skyldur í alþjóðlegu samhengi, í tvísköttunarsamskiptum og öðru slíku. Það er bara ósköp einfaldlega vegna þess að við viljum ekki hafa fólk hér sem í stórum stíl er á miklu lakari kjörum. Ef við gengjum alla leið væri miklu einfaldara að afnema öll ákvæðin um búsetuhlutfallið, eða ég sé ekki betur, og það væri náttúrlega algjör grundvallarbreyting. Þannig að sem fyrsti áfangi í því að taka á kjörum þessa fólks þá er ég ágætlega sáttur við þetta og ég tel að menn eigi að fagna því.

Auðvitað geta menn haft þá skoðun að ekkert sé nógu gott fyrr en það er fullkomið, eða 100%, en ég er ekki endilega þar. Ég er ekki maður sem grætur það að í okkar kerfi séu að einhverju marki tekjutengingar sem auðveldi okkur, á meðan við eigum þá ekki bara endalaust af peningum, að gera sem best við þá sem lakast eru settir. Ég hef satt best að segja, og ég hef sagt það áður, vaxandi áhyggjur af því hvernig menn tala orðið um þá hluti. Það er skiljanlegt að menn reyni að leita leiða til þess að bæta sérstaklega stöðu þeirra sem lakast eru settir. Ég ætla a.m.k. að fá að vera þar það sem ég á eftir í stjórnmálum, að vera sérstakur liðsmaður þess þegar tekið er á kjörum þeirra sem allra lakast standa. Þetta er óumdeilanlega framfaramál af þessu tagi. Það er að komast núna til framkvæmda í tíð þessarar ríkisstjórnar og ég er stoltur af því að vera liðsmaður hennar.



[18:33]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki ætlunin að koma hingað í andsvar enda um það samið að ekki væri farið í andsvör. Ég vona að hæstv. forseti líti ekki svo á að samkomulag sé rofið með því að maður fari í andsvar við hann. En ræða hæstv. forseta var með þeim hætti að það er ekki hægt annað en að bregðast við. Að sjálfsögðu styðjum við öll allar tilraunir ríkisstjórnarinnar til þess að forða fólki frá sárafátækt. Að sjálfsögðu gerum við það. Að sjálfsögðu. Og það að láta einhvern veginn líta út fyrir að sú sem hér stendur sé á móti því er ansi bíræfið. Fyrirvari minn á þessu snýr eingöngu að því að svo naumt sé skammtað að það sé ekki hægt að veita þessum hópi fullan stuðning. Þetta er lítill hópur eins og sést á nefndaráliti. Það er verið að tala um að þrír einstaklingar á ári eigi rétt á fullum stuðningi, þrír. Kostnaðurinn við það eru 14 millj. kr. á ári, herra forseti, 14 millj. kr. Þetta eru ekki slíkar fjárhæðir að við getum ekki leyft þeim sem eiga engan annan sjóð, fá engan annan stuðning — af hverju getum við ekki leyft þeim að fá 100% stuðning frá okkur? Hvers vegna ákveðum við að hafa það 90% af þessum lágmarkslífeyri sem er eins og við vitum ekki fullnægjandi í framfærslulegu tilliti? Hvers vegna ekki?



[18:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði hér fyrir mig sjálfan og lýsti ánægju minni með þetta mál og ég var ekki að svara fyrri ræðum nema að því eina leytinu til að ég lýsti mig, öfugt við síðasta ræðumann, mjög ánægðan með þetta mál en hann gagnrýndi ýmislegt í því. Annað var það nú ekki. Sú ræða sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir flutti var ekki tilefni þess að ég fór í ræðustólinn. Ég hafði ekkert um hana að segja.



[18:35]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það hér að ég styð þetta 100%. Ég hef barist fyrir þessu og ég er ofsalega ánægður með þetta. Við höfum tekið þetta fyrir í kjarahóp Öryrkjabandalagsins og ég hef hitt einstaklinga sem þetta á við um. Það sem ég var bara að gagnrýna voru þessi 90% vegna þess að ef það kostar 400 milljónir að hafa 90% þá eru 10% af því 40 milljónir í viðbót. En það er akkúrat kostnaðurinn við að flækja kerfið. Það sem ég var bara að meina er að það yrði örugglega ódýrara fyrir alla að hafa kerfið einfalt, að vera ekki að flækja kerfið út í eitt. Því einfaldara sem kerfið er, því skilvirkara er það og betra. Ég var bara að benda á það. Og hitt sem er kannski alvarlegast í þessu er það sem ég hef líka bent á, m.a. í nefndinni, að það vantar öryrkjana. Af hverju tókum við ekki öryrkjana með líka?



[18:37]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að fara og hann hefur alveg lögmætt sjónarmið í þeim efnum að hugsanlega væri einfaldara að leggja strax af stað með þetta sem 100% greiðslu. En ég held að ég skilji líka hvað höfundunum gekk til og hvers vegna niðurstaða starfshópsins var þessi. Menn vilja stíga aðeins varfærið til jarðar áður en þeir ganga út frá því að um alla framtíð verði þessi tiltekni hópur sem býr við skert réttindi vegna skerts búsetuhlutfalls að öllu leyti jafnsettur hinum. Ég held að það sé eitthvað sem menn þyrftu þá að leggjast mjög vel yfir áður en þeir gengju frá því þannig í byrjun. Við vitum alveg að ef við hefðum lagt af stað þannig þá yrði aldrei bakkað. Ég lít á þetta sem örlítið varúðarsjónarmið og að með þessu sé það undirstrikað að ekki sé sjálfgefið að íslenska tryggingakerfið taki alltaf, og óháð því hvað margir eiga í hlut og hve stór þessi hópur verður, skrefið alveg upp í topp, upp í 100%. Ég tel tiltölulega vel gert við þennan hóp þegar það munar þó ekki meira en 10%. Og ég veit vel að í vinnu og skoðun á þessu undanfarin ár voru menn jafnvel að leggja af stað með hugmyndir um mun lægra hlutfall. Þegar frumvarpið kom var ég mjög sáttur við að menn skyldu fara alveg í 90 %. Kannski þekkir hv. þingmaður til þess, ef hann veit um bakgrunn málsins, að á fyrri stigum voru menn jafnvel að velta fyrir sér lægra hlutfalli en þessu.



[18:38]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að málið sé bara ósköp einfalt. Við erum að mörgu leyti sammála en við erum bara að velta fyrir okkur þessum 90% eða ekki. Ég get ekki annað en fagnað 90% vegna þess að þarna eru einstaklingar að fara úr liggur við 0 í 90%. Það er bara frábært. Hugsið ykkur. Ég veit um einstaklinga sem myndu segja: Ég fæ frá 1. júní, vá. Ég fæ afturvirkt. Þetta eru einstaklingar sem höfðu það svo rosalega slæmt að það væri ekki verjandi á neinn hátt að mótmæla og ég fagna þessu alveg innilega. En eins og ég sagði sá ég þennan galla á því. Ég hefði frekar viljað að þessi aukakostnaður færi í vasa þeirra sem þurfa á því að halda heldur en í að búa til eitthvert kerfi sem kostar okkur rosalega mikið og verður svo kannski úrelt eftir smátíma.