150. löggjafarþing — 129. fundur
 29. júní 2020.
persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 446. mál (stofnanir á málefnasviði heilbrigðisráðherra). — Þskj. 622, nál. m. brtt. 1857, nál. 1859.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:06]

[10:57]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við munum sitja hjá í þessu máli. Það er helst vegna þess að ekki hefur verið gefinn nægjanlegur tími til að vinna málið á fullnægjandi hátt ásamt því að farið er fram hjá mikilvægum umsögnum, t.d. frá landlæknisembættinu. Hér er fjöldinn allur af hugbúnaðarlausnum sem ekki liggur fyrir hvernig á að leysa þannig að ég segi enn og aftur: Við munum sitja hjá.



[10:58]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni munum sitja hjá í þessu máli. Svo ótrúlega vill til að frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga var ekki unnið í samráði við Persónuvernd. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að bjóða Alþingi Íslendinga upp á það að ráðherra komi með slíkt frumvarp hingað inn og fari þannig gegn lögum um persónuvernd, því að ef einhvers staðar eru mikilvægar persónuupplýsingar á ferðinni þá er það í heilbrigðiskerfinu. Hér er verið að breyta ýmsum lögum en gleymdist að tala við þá stofnun sem á að hafa eftirlit og veit hvað mest um persónuvernd. Við munum því ekki geta greitt þessu frumvarpi atkvæði.



[10:59]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að taka undir orð hv. formanns velferðarnefndar. Við erum að greiða atkvæði um lagafrumvarp um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þar sem ekki var haft samráð við Persónuvernd. Það er alveg galið. Að sögn Persónuverndar fékk stofnunin reyndar einhvers konar skriflega tilkynningu um að eitthvert frumvarp væri í samráðsgáttinni en ekkert samband og samráð var haft við Persónuvernd á fyrri stigum þegar var verið að skrifa frumvarpið. Það er ekki í lagi, forseti. Þetta er að gerast trekk í trekk eins og ég sagði áðan. Við erum að fá mikilvæg frumvörp til velferðarnefndar þar sem ekki hefur verið gert mat á áhrifum á persónuvernd og þetta er á svig við þau lög sem við höfum sett okkur hér á Alþingi.



[11:00]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við verðum á gulu í þessu máli vegna þess að þetta er enn eitt málið sem er ágætlega unnið. Hvað þýðir það? Jú, aðalaðilinn í málinu fær ekki að koma að því, Persónuvernd, og þetta er mál um persónuvernd. Maður skilur ekki svona vinnubrögð og þess vegna er alveg með ólíkindum að málin skuli koma hvert af öðru "ágætlega unnin".



[11:00]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mig langar að setja þetta í samhengi. Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra var hann með leið til að bæta skaða sem fólk varð fyrir vegna lána, hann fór fína leið þar sem hann náði alveg 80 milljörðum af bönkunum með því að setja sérstakan bankaskatt, sem ég hrósaði á sínum tíma, en þegar átti síðan að skoða eftir á hversu vel hefði til tekist o.s.frv. þá var lagt fram um það frumvarp sem Persónuvernd lagðist alfarið gegn. Samt sem áður var það þvingað í gegnum þingið.

Persónuvernd og friðhelgi einkalífsins er ekkert sérstaklega hátt skrifuð hérna á Alþingi þegar kemur að því að ná öðrum markmiðum. Við sjáum mistökin sem voru gerð með appið fyrir ferðagjöfina. Þau voru vissulega leiðrétt eftir á, það er gott. Nú er þetta frumvarp hér og Persónuvernd er ekki einu sinni spurð um það hvort þetta sé í lagi. Friðhelgi einkalífs er ekkert sérstaklega hátt skrifuð hérna og það er mikilvægt að landsmenn átti sig á því. Þarna verðum við að standa í lappirnar. Þegar kemur að eignarrétti í stjórnarskránni er tvisvar búið að leggja fram frumvarp á þingi núna (Forseti hringir.) eftir áramót þar sem annað stangaðist klárlega á við hann og hitt mögulega. Það var stoppað. (Forseti hringir.) Við verðum að fara að virða þessi grundvallargildi í stjórnarskránni varðandi borgararéttindi.



[11:02]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir það sem fram hefur komið í umræðunni og kannski fá að viðhafa þau varnaðarorð að mér finnst vaxandi tilhneiging til þess hjá meiri hlutanum að geta ekki séð að persónuverndarsjónarmið séu sjálfstæð röksemd í málinu. Þetta er ekki eitthvað sem er skoðað eða kannað eftir á, þetta hefur sjálfstætt vægi um það hvort löggjöf er einfaldlega tæk til að fá að verða til. Það er með miklum ólíkindum að hlusta á það hérna inni að þau sjónarmið séu að engu höfð.



[11:03]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er sérkennilegt að heyra þessa umræðu. Við settum lög um persónuvernd árið 2018 og frá þeim tíma höfum við verið að laga málasvið ýmissa ráðuneyta að þeirri löggjöf og hér er verið að laga og sníða málefnasvið, sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið, að þeirri löggjöf um persónuvernd. Þetta frumvarp stenst auðvitað alla skoðun varðandi lög um persónuvernd, annars værum við ekki að flytja það hér. Það kemur mér mjög á óvart að hv. þingmenn telji að þetta lagafrumvarp, sem er verið að laga að málefnasviði heilbrigðisráðuneytisins og lögum um persónuvernd frá 2018, uppfylli ekki lög um persónuvernd. Það er bara fráleitt að fullyrða slíkt. Að sjálfsögðu uppfyllir frumvarpið lög um persónuvernd.



[11:04]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég verð að koma hingað upp vegna orða hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, framsögumanns málsins. Þetta frumvarp stenst nefnilega ekki skoðun með tilliti til persónuverndar þótt tilgangurinn hafi mögulega verið sá í upphafi. Fulltrúum Persónuverndar og landlæknisembættisins var boðið að koma með umsagnir og koma fyrir nefndina og alvarlegar athugasemdir komu frá báðum aðilum sem ekki var tekið tillit til við vinnslu málsins. Það stenst því miður ekki sem hv. þingmaður sagði, að þetta (LRM: Þetta er rangt.) stæðist algerlega lög um persónuvernd. Svo er ekki, því miður. (LRM: Rangt.)



[11:05]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Nú er ég ekki í nefndinni og veit ekki hvort þetta frumvarp stenst persónuverndarlög. En það sem kemur hér fram er að ekki hafi verið leitað umsagnar frá Persónuvernd um frumvarpið eins og það liggur fyrir núna. Það er ekki gott. Það eru persónuverndarlög í landinu, lög í landinu sem voru sérstaklega sett til þess að efla persónuvernd. Stjórnarskráin segir líka að við eigum að vernda friðhelgi einkalífsins, persónuvernd, þannig að það verður að skoða.

Þá get ég alveg hrósað hv. formanni atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Við höfum verið að fá mál til okkar sem stóðust mögulega ekki stjórnarskrána og verið að kalla inn sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að leiðbeina okkur með það og sú vinna hefur verið farsæl í atvinnuveganefnd. Þetta þarf að viðhafa í öðrum nefndum líka af því að grunnskylda okkar er að halda stjórnarskrána, m.a. hvað varðar friðhelgi einkalífsins og persónuvernd.



 1. gr. samþ. með 33 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AlbG,  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
27 þm. (AFE,  AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HallM,  HVH,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  SMc,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
3 þm. (BjarnB,  HKF,  ÞorS) fjarstaddir.

Brtt. í nál. 1857,1–5 samþ. með 32 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AlbG,  ATG,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
27 þm. (AFE,  AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HallM,  HVH,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  SMc,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
4 þm. (ÁslS,  BjarnB,  HKF,  ÞorS) fjarstaddir.

 2.–14. gr. (verða 2.–16. gr.), svo breyttar, samþ. með 33 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AlbG,  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BHar,  BN,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
27 þm. (AFE,  AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HallM,  HVH,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  SMc,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
3 þm. (BjarnB,  HKF,  ÞorS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:07]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Aðeins varðandi þessar greinar: Hér er verið að bæta við reglugerðarheimild til ráðherra til að reyna að setja undir lekann þar sem vantar skýra lagaheimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga. Reglugerðarheimild er ekki fullnægjandi lagastoð þegar um er að ræða jafn mikilvægar persónuupplýsingar og heilbrigðisupplýsingar og heilsufarsupplýsingar eru, þannig að ekki er hægt að greiða atkvæði með þessu.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.