150. löggjafarþing — 130. fundur
 29. júní 2020.
staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 708. mál (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar). — Þskj. 1216, nál. m. brtt. 1924.

[22:04]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um frumvarpið og fengið til sín gesti og tekið við umsögnum eins og greint er frá í nefndaráliti. Við fjölluðum um almenna þætti varðandi málið, en um er að ræða frumvarp sem er flutt til að fylgja eftir samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar frá síðasta ári sem fól í sér viðbætur við samning kirkju og ríkis frá 1997. Við erum því í raun og veru að tala um ákveðin skref í þá átt að undirstrika frekari aðgreiningu milli ríkis og kirkju en verið hefur og er frumvarpinu ætlað að stíga skref í þá átt.

Tvö atriði eru sérstaklega nefnd í nefndaráliti meiri hlutans sem komu til sérstakrar skoðunar. Annars vegar er rétt að geta þess að í umfjöllun um 6. gr. frumvarpsins, sem varðar breytingu á lögum um kirkjugarða o.fl., nr. 36/1993, þá vöknuðu spurningar um hvort nægilega hefði verið staðið að samráði við hin og þessi trúfélög og lífsskoðunarfélög vegna þessara breytinga.

Þarna er um það að ræða að aflagt verður það fyrirkomulag sem verið hefur að greiðsla renni frá kirkjugörðum eða kirkjugarðsstjórnum til að standa straum af kostnaði vegna prestþjónustu eða þjónustu forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga í útförum. Það þykir óeðlilegt að þessi skylda eða þessi fjárstuðningur komi í gegnum kirkjugarða og þó að meiri hluti nefndarinnar leggi ekki til breytingu á frumvarpinu hvað þetta varðar tökum við fram í nefndaráliti að það sé rétt að huga að því í framhaldinu og dómsmálaráðuneytið hugi að því hvernig standa beri að niðurgreiðslum til safnaða og trúfélaga vegna kostnaðar að þessu leyti. En með öðrum orðum, ekki er lögð til breyting á frumvarpinu að þessu leyti.

Í annan stað var annað atriði sem við tókum til umfjöllunar í nefndinni og það varðaði spurninguna um hvort stjórnsýslulög ættu áfram að gilda um innri mál kirkjunnar. En til að gera langa sögu stutta var það niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að það væri eðlilegt skref í þá átt að greina frekar á milli kirkju og ríkis að fella niður þá skyldu að stjórnsýslulög gildi um innri mál kirkjunnar.

Þriðja atriðið sem við tókum til skoðunar varðar stöðuna sem nú er uppi vegna sérstakra Covid-aðstæðna þar sem ekki hefur verið hægt að kalla saman kirkjuþing á reglulegum tíma. Meiri hluti nefndarinnar leggur til samkvæmt tillögu biskupsstofu að af þessu tilefni verði gerð breyting á frumvarpinu þannig að það komi nýtt ákvæði til bráðabirgða sem hljóði á þá leið að kirkjuráði sé heimilt að setja starfsreglur og gjaldskrá til bráðabirgða með samþykki forseta kirkjuþings. Þessar reglur og gjaldskrá skulu gilda til næsta fundar kirkjuþings, þó ekki lengur en sex mánuði frá þeim degi að forseti kirkjuþings samþykkir þær. Starfsreglur og gjaldskrá skulu undirritaðar af forseta kirkjuráðs og forseta kirkjuþings og birtar með sama hætti og starfsreglur kirkjuþings.

En þar sem hér er um að ræða viðbrögð við óvenjulegu bráðabirgðaástandi, sem þarf að taka á, leggjum við til að þetta bráðabirgðaákvæði falli úr gildi um næstu áramót, þ.e. 1. janúar 2021.

Undir þetta nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita sá sem hér stendur, Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.