150. löggjafarþing — 133. fundur
 28. ágúst 2020.
markmið í baráttunni við Covid.

[13:32]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hafi sett sér einhver markmið í baráttunni við heimsfaraldurinn. Þá á ég ekki við augljósa svarið um að markmiðið sé að sjálfsögðu að allt fari sem best, bæði hvað varðar heilbrigðisþáttinn og efnahagsmálin, heldur hvort ríkisstjórnin hafi sett sér markmið um það með hvaða hætti tekið verður á þessu ástandi, til að mynda og kannski sérstaklega varðandi veiruna sjálfa. Í upphafi faraldursins var kynnt það markmið að reyna að fletja kúrfuna, eins og það var kallað, þ.e. að smit yrðu ekki fleiri en svo að heilbrigðiskerfið réði við það. Er þetta enn markmiðið eða er markmiðið að koma alveg í veg fyrir smit í landinu? Á meðan slíkt liggur ekki fyrir, eða eitthvert annað markmið, er mjög erfitt fyrir stjórnvöld, svo ekki sé minnst á almenning í landinu og fyrirtækin, að gera ráðstafanir, gera áætlanir, gera plön. Þegar menn vita ekki að hverju er stefnt er hver einasti dagur óvissudagur og hver einasta tilkynning frá ríkisstjórninni til þess fallin að viðhalda óvissunni. Að sjálfsögðu verður alltaf óvissa í svona ástandi, ég geri mér grein fyrir því. En hefur ríkisstjórnin sett saman einhverjar sviðsmyndir þannig að hún viti og geti sagt almenningi að þróist hlutir með tilteknum hætti þá gerist ákveðnir hlutir, þá verði viðbrögðin með ákveðnum hætti? Ef slíkt lægi fyrir myndi það hjálpa til að mynda fyrirtækjunum í landinu að taka stórar ákvarðanir um hvernig þau haga sínum rekstri, en það myndi ekki síður hjálpa stjórnvöldum, skyldi maður ætla, að aðstoða almenning og fyrirtæki til samræmis við ástandið og þróun þess.



[13:34]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Auðvitað er það svo, eins og fram kom í ágætum umræðum hér í gær, að markmið stjórnvalda hafa tekið breytingum eftir því sem við öðlumst meiri þekkingu á faraldrinum og veirunni sem honum veldur. En leiðarljósin hafa frá upphafi verið skýr og ég held að hv. þingmaður eigi ekki að gera lítið úr því að leiðarljósin hafa frá upphafi verið þau að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar, verja líf og heilsu fólks og að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Það er auðvitað það sem Alþingi vann mjög ötullega að á vorþingi, þ.e. þessu síðara leiðarljósi, að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, m.a. með þeim margháttuðu aðgerðum sem gripið var til, til að styðja við atvinnulíf og almenning í landinu, og ég þarf ekki að rifja það upp.

Þegar hv. þingmaður vitnar til þess að í upphafi hafi verið talað um að verja heilbrigðiskerfið fyrir álagi þá er það alveg rétt. Hins vegar höfum við séð að sú bylgja sem við erum stödd í núna — sem við getum kallað aðra bylgju faraldursins, ég vildi óska að ég treysti mér til að kalla hana seinni bylgju en ég þori ekki að gera það — hegðar sér að einhverju leyti öðruvísi en sú fyrsta. Hvort sem það er vegna þess að veiruafbrigðið sé annað en það sem var hér í vor eða vegna þess að okkur takist betur upp í meðhöndlun veirunnar þá sjáum við a.m.k. að færri leggjast inn á sjúkrahús og sérstaklega á gjörgæsludeild. Að sjálfsögðu þýðir það að við munum þurfa að vega og meta stefnumótun okkar eftir því sem þekkingu okkar á veirunni og faraldrinum vindur fram. Hv. þingmaður kallar eftir markmiðum í sóttvarnaráðstöfunum. Þau eru óbreytt og hafa verið frá upphafi, þ.e. að forgangsraða í þágu lífs og heilsu. Við sjáum hins vegar ákveðnar breytingar frá fyrstu bylgju til þeirrar næstu.



[13:36]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég var nú ekki að biðja um sögulegt yfirlit heldur einhverjar upplýsingar um hvert stjórnvöld stefna núna miðað við það ástand sem hér er. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir um að það séu kenningar um að veiran hafi önnur einkenni nú en áður. En á sama tíma segir hæstv. ráðherra að við séum búin að læra svo mikið af reynslunni. Allt er þetta einhvern veginn þvers og kruss eins og stefna ríkisstjórnarinnar í viðureigninni við þetta ástand.

Því ítreka ég fyrri spurningu: Geta stjórnvöld ekki veitt almenningi meiri upplýsingar um hvert er stefnt og að ef ákveðnum áföngum er náð gerist tilteknir hlutir? Því ef ætlunin er að loka landinu alveg þar til t.d. bóluefni finnst, og það má færa rök fyrir því líka, munu fyrirtæki og almenningur gera aðrar ráðstafanir en ef ætlunin er einhver önnur. Er ekki tímabært, eftir þessa sex mánaða reynslu, að stjórnvöld veiti meiri upplýsingar um hvert sé stefnt og hvers megi vænta við tilteknar aðstæður?



[13:37]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á þær aðgerðir sem eru á landamærum og ég viðurkenni að ég hef ekki alveg áttað mig á afstöðu hans til þeirra aðgerða þótt ég hafi hlustað mjög vandlega á hann hér í umræðum í gær. Þær eru fyrst og fremst rökstuddar með því að við sjáum nú annars vegar innanlandssmit sem við höfum ekki náð tökum á sem allar líkur benda til að hafi komið í gegnum landamærin og hins vegar þróun á landamærum, sem hv. þingmaður þekkir því það er ekki eins og stjórnvöld séu að leyna upplýsingum, að virkum smitum fjölgar á landamærum og það má beinlínis rekja til þess að faraldurinn hefur verið í vexti í heiminum. Það kallar á mjög harðar sóttvarnaráðstafanir hér innan lands og þá standa stjórnvöld frammi fyrir vali. Hvort viljum við reyna að slaka á ráðstöfunum hér innan lands og herða á landamærum eða halda áfram hinum hörðu sóttvarnaráðstöfunum innan lands? Það er ekki einfalt val eins og hv. þingmaður áttar sig á. En ég held að það sé mikilvægt og (Forseti hringir.) hefði jafnvel átt von á því að við ræddum þá forgangsröðun stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi þegar horft er til þessara flóknu valkosta, sem ég hefði kannski átt von á (Forseti hringir.) að væru (Gripið fram í.)ræddir meira í gær.