151. löggjafarþing — 7. fundur
 12. október 2020.
ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 23. mál. — Þskj. 23.

[15:59]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/302 um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð og annarri mismunun sem byggist á því hvert þjóðerni viðskiptavinar er, hvar hann er búsettur eða hvar hann hefur staðfestu á innri markaðnum. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 311/2019, frá 13. desember 2019. Lagt er til að reglugerðinni verði veitt lagagildi hér á landi með svokallaðri tilvísunaraðferð á grundvelli sérlaga. Með því er tryggð rétt og fullnægjandi innleiðing reglugerðarinnar í íslenskan rétt í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar Íslands og jafnframt tryggt að ekki sé gengið lengra í innleiðingu en nauðsyn ber til. Þannig er í frumvarpi þessu ekki að finna neinar reglur sem ganga lengra en ákvæði reglugerðarinnar mæla fyrir um.

Markmið laganna og reglugerðarinnar er að draga úr mismunandi meðferð sem viðskiptavinir verða fyrir af ástæðum sem rekja má til búsetu, þjóðernis eða staðfestu. Slík mismunandi meðferð hefur verið algeng í netviðskiptum og kallast á ensku, með leyfi forseta, „geographical location blocking“ og reglugerðin alla jafna nefnd „geoblocking“-reglugerðin. Með því að ryðja slíkum hindrunum úr vegi megi auka viðskipti yfir landamæri innan innri markaðarins og þannig efla innri markað EES-svæðisins. Reglugerðin felur í sér sértækar reglur sem gilda í ákveðnum tilvikum. Í 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að seljanda sé óheimilt að hindra aðgang viðskiptavina að netskilfleti sínum af ástæðum sem tengjast, eins og ég hef áður nefnt, þjóðerni, búsetu eða staðfestustað viðskiptavinarins. Þannig verður seljenda óheimilt að beina viðskiptavinum að annarri útgáfu netskilflatar sem er frábrugðinn þeim netskilfleti sem viðskiptavinurinn leitaði fyrst aðgangs að hvað varðar útfærslu, tungumál eða aðra eiginleika af ástæðum sem má rekja til þjóðernis, búsetu eða staðfestustaðs viðskiptavinarins, nema viðskiptavinurinn hafi veitt samþykki sitt fyrir slíkum flutningi. Í þeim tilvikum sem viðskiptavinur samþykkir að vera beint áfram til annars netskilflatar seljenda skal sá sem hann leitaði upphaflega aðgangs að vera viðskiptavininum aðgengilegur áfram.

Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að seljendum sé óheimilt að setja ólík almenn skilyrði fyrir aðgangi að vörum eða þjónustu af ástæðum sem tengjast þjóðerni, búsetu eða staðfestustað viðskiptavina. Í þessu felst að almennir skilmálar seljenda þurfa að uppfylla skilyrði 4. gr. Í greininni eru tilgreindar þrjár tilteknar aðstæður þar sem undir engum kringumstæðum er réttlætanlegt að viðskiptavinum sé veitt mismunandi þjónusta. Í fyrsta lagi þegar viðskiptavinur óskar þess að kaupa vöru af seljenda sem annaðhvort er afhent í aðildarríki þar sem seljandinn bíður afhendingar samkvæmt almennum skilmálum sínum eða þær sóttar á stað sem viðskiptavinur og kaupandi koma sér saman um í ríki þar sem seljendur býður upp á slíka þjónustu. Í öðru lagi þegar viðskiptavinur vill kaupa rafrænt afhenta þjónustu, aðra en miðlun á höfundaréttarvörðu efni, t.d. gagnageymslu í skýi. Í þriðja lagi þegar viðskiptavinur óskar að kaupa þjónustu frá seljanda, aðra en rafrænt afhenta þjónustu, sem veitt er á tilteknum stað í aðildarríki þar sem seljandinn stundar starfsemi, t.d. ýmiss konar smásala eða sala aðgöngumiða á viðburði. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. kemur bann samkvæmt 1. mgr. ekki í veg fyrir að seljendur bjóði almenn skilyrði sem eru mismunandi milli svæða, m.a. ólík verð. Þannig getur almenn markaðssókn seljanda á tilteknu svæði falið í sér tilboð eða afslátt án þess að það sé endilega mismunun. Þá er loks í 5. gr. reglugerðarinnar kveðið á um að seljandanum sé óheimilt að setja ólík skilyrði varðandi greiðslur og greiðsluform sé það í samræmi við tilskipun um greiðsluþjónustu á innri markaðnum.

Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram mikilvæg undantekning frá gildissviði laganna. Þar kemur fram að lögin gildi ekki um seljendur sem eru undanþegnir virðisaukaskattsskyldu vegna þess að árleg velta þeirra er undir 2 millj. kr. á ári. EFTA-ríkin innan EES sömdu við Evrópusambandið um þessa undanþágu þegar reglugerðin var til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni. Undanþágan felur í sér að innleiðing reglugerðarinnar verður mun minna íþyngjandi fyrir smáa íslenska seljendur sem eru þá undanþegnir þeim skyldum sem fram koma í reglugerðinni, enda fælu þeir annars í sér töluverða byrði fyrir þá.

Lögin gilda aðeins í þeim tilvikum sem reglugerðin mælir fyrir um og ég hef fjallað um fyrr í ræðu minni. Reglugerðin hefur ekki áhrif á sérstakrar reglur sem kunna að gilda um tilteknar vörur eða þjónustu heldur gildir aðeins í þeim tilvikum sem lýst er óháð því hvert andlag kaupanna er hverju sinni. Reglugerðin felur ekki í sér skyldu fyrir íslenska seljendur að senda vörur utan, svo dæmi sé tekið. Hún felur í sér skyldu til að selja en kaupandi verður þá sækja vöruna. Þar af leiðandi miðast þetta að sjálfsögðu að meginstefnu til frekar við aðstæður á meginlandi Evrópu.

Það hefur verið spurt um það í vinnu við þetta mál hvort íslenskum áfengisframleiðendur verði heimilt að selja áfengi í netsölu á Íslandi verði frumvarpið að lögum. Það er ekki svo af því að reglugerðin gildir almennt óháð því hvað er keypt hverju sinni og sérreglur um tilteknar vörur gilda.

Áhrifin af þessari innleiðingu hér á landi verða kannski ekki ýkja mikil. Það eru ekki miklar líkur á að þetta verði íþyngjandi fyrir íslenska seljendur og á meðan á ferðatakmörkunum stendur eru litlar líkur á því. Markmiðið með þessu er m.a. að þeir sem selja vörur á Evrópska efnahagssvæðinu verði almennt með meiri flutninga yfir landamæri. Það hefur síðan bara gerst í Covid-ástandinu þannig að það má segja að að hluta til hafi markmiðið með þessari reglugerð náðst í því ástandi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[16:06]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að brjóta regluna, sem er sú að maður eigi ekki að spyrja spurninga sem maður veit ekki svarið við. Ég er að velta fyrir mér varðandi undanþágurnar sem hæstv. ráðherra nefndi. Þær voru víst settar til að koma til móts við litla aðila sem þetta yrði þá íþyngjandi fyrir. Ég er svolítið að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti útskýrt nánar á hvaða hátt þetta yrði íþyngjandi fyrir þá aðila, og þá sér í lagi hvað myndi hindra þá í að nýta þá straumlínulögun á viðskiptaferlunum sem eru líklega í boði vegna eðli netumferðar eða vegna þess að aðrir aðilar munu væntanlega gera ráðstafanir til að geta betur selt vörur og þjónustu yfir netið og yfir landamæri án þess að mismuna.

Í stuttu máli er ég að velta fyrir mér með hvaða hætti það sé of íþyngjandi fyrir litla aðila að mismuna ekki á grundvelli staðsetningar, samanber tilgang málsins. Mig grunar nú að ég misskilji eitthvað hér, en þá þætti mér vænt um að hæstv. ráðherra hjálpaði mér að skilja þann hluta aðeins betur.



[16:07]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi undanþága er í raun sett vegna þess að aðilar eru þá það litlir að það getur kostað einhverja aukavinnu sem ekki svarar kostnaði með tilliti til þeirrar lágu veltu sem þeir eru með. En þeir geta vissulega nýtt sér það sem hér er verið að innleiða. Ef þeir sjá ekki hag sinn í því vegna þess hversu smáir þeir eru þá er einfaldlega undanþága þannig að þeir þurfa ekki að gera það. Þeir vega það þá og meta. Ef þeir líta svo á að aðrir taki yfir viðskipti sem þeir annars gætu fengið þá myndu þeir væntanlega kjósa að láta þetta gilda um sína starfsemi. En þeir hafa þá alla vega svigrúm til að ákveða að gera það ekki vegna þess hversu lága veltu þeir eru með.



[16:09]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi við þetta mál með þeim fyrirvara að umræðan er nýhafin og fjallað verður meira um málið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd með tilheyrandi nefndaráliti, eða -álitum eftir atvikum, og auðvitað frekari umræðum hér á Alþingi. Í fljótu bragði sýnist mér þetta frumvarp vera gott. Ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra áðan og spurði hvers vegna undanþága væri gefin fyrir litla aðila. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg enn hver vandinn á að vera fyrir litla aðila, að mismuna ekki á grundvelli staðsetningar. En vel má vera að mér yfirsjáist eitthvað þar, enda er ég ekki sérfræðingur í málefnum örfyrirtækja eða mjög lítilla fyrirtækja. Mér finnst hins vegar alveg þess virði að nefna aðeins eðli málsins, eðli netumferðar og eðli þess að takmarka hana, vegna þess að það hefur verið í tísku í gegnum tíðina að skipta mörkuðum upp í ákveðin hólf, ekki vegna þess að það sé hagkvæmt fyrir neytendur heldur þvert á móti til þess að nýta það að þeir hafi ekki aðgang að stærri markaði með öllum þeim kostum sem fylgja stærri mörkuðum almennt. Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna samfélög séu svo umburðarlynd fyrir því. Það tíðkaðist hér mjög lengi, og getur svo sem verið að tíðkist enn, að fyrir tiltekna tölvuleiki eða annars konar afþreyingarefni væru sett upp alveg sérstök kerfi til þess að ekki væri hægt að nota vöruna, með góðu alla vega, innan annarra markaðssvæða. Með því fyrirkomulagi virka tölvuleikir sem gefnir eru út í Japan bara þar. En ef svo er farið til Bandaríkjanna eða Evrópu þarf að kaupa leikina aftur til þess að þeir virki fyrir bandaríska eða evrópska kerfið, eins og það var kallað í þá daga. Ég hef ekki rekist á þessa takmörkun nýlega og verð að viðurkenna að ég þekki ekki jafn mikið til þessara atriða og áður.

Þegar kemur að því að takmarka netumferð hefur mér oft fundist eins og yfirvöld almennt, og ekki síst á Íslandi, séu ekki alveg alltaf með puttann á púlsinum varðandi hvað þau eru að gera hverju sinni og hvaða áhrif það hefur sem þau gera. Þess vegna hef ég strax ákveðnar efasemdir við að þessi undanþága fyrir litla aðila sé endilega nauðsynleg. Það gæti rétt eins verið, með fyrrgreindum fyrirvara, að hér sé verið að gera meira mál úr en tilefni er til og mætti fella undanþáguna brott, þ.e. ef Evrópusambandið væri þeirrar skoðunar eða EFTA-ríkin.

Eftir sem áður finnst mér þetta líka ágætisáminning um að frelsið er gott. Mér finnst það mjög oft gleymast að frelsið er gott þegar rætt er um að takmarka netumferð eða flutninga fólks. Fólk vill einfaldlega fara á milli landa eða senda eitthvað á milli landa eða kaupa eitthvað yfir landamæri og eitthvað því um líkt. Frelsið er ekki kvöð, frelsið er ekki byrði, þvert á móti, það er andstæðan við byrði og er nokkuð sem við eigum að vinna að. Að mínu mati eigum við eftir fremsta megni að reyna að ná því einfalda markmiði að búa í frjálsari heimi. Það getur þó því miður takmarkað frelsi annarra á einhvern hátt, vegna þess að frelsið er stundum snúið þegar það er komið á markað. Það getur þjónað hagsmunum einstakra aðila, fyrirtækja, jafnvel þjóðríkja eða eininga og stofnana innan þess. Valdið til að koma á þeirri takmörkun getur verið, í það minnsta lagalega, hluti af frelsi þeirrar sömu einingar eða stofnunar. Sem dæmi getur fyrirtæki alla jafna mismunað á grundvelli staðsetningar, ef ekki eru lög til að fyrirbyggja það. Það dregur þá úr stærð markaðarins og getu fólks til að versla á stærri markaði og þar af leiðandi njóta stærra samkeppnisumhverfis og væntanlega meiri hagræðingar, framleiðslu og dreifingar, að öllu jöfnu alla vega.

Sömuleiðis verð ég að nefna að frá því að Píratar buðu fyrst fram til þings árið 2013 höfum við — og reyndar fyrrverandi þingmaður Pírata, Birgitta Jónsdóttir, sem var þingmaður fyrir Hreyfinguna og Borgarahreyfinguna þar áður — verið að kvarta undan því að við gerum ekki nóg til að reyna að vera leiðandi á sviðum eins og þessu. Og eins ánægður og ég er með að við séum t.d. komin með nýja persónuverndarlöggjöf og ánægður með þetta frumvarp, finnst mér á sama tíma að Ísland hafi á vissan hátt misst af lestinni, vegna þess að við ætluðum að vera best í þessu. Það var ákveðið árið 2010 að frumkvæði þáverandi hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að við ætluðum að vera leiðandi í upplýsinga- og tjáningarfrelsi, vernd uppljóstrara og þess háttar. En vegna þess að við erum svo lengi að brölta í gegnum þá málaflokka og tökum þessu kannski sem sjálfsögðum hlut, þá er Evrópusambandið aftur og aftur á undan okkur og EES líka. Mér finnst það leiðinlegt vegna þess að það þarf ekkert að vera þannig. Ísland gæti alveg verið fremst í þessum málaflokkum. Ég held einlæglega að það sem helst vanti hér upp á sé einfaldlega metnaður fyrir því. Það er ekkert mál að standa í pontu og segja: Mikið væri nú gott ef Ísland væri leiðandi á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. En til þess að komast þangað þurfum við átta okkur á því að það kostar vinnu og það þýðir að við þurfum að breyta hlutunum. Þetta eru ekki bara hugmyndir, þetta eru breytingar, þetta er fyrirkomulag og ferlar og þess háttar.

Dropinn holar steininn og smátt og smátt skánar þetta nú. Upplýsing yfirvalda, markaða og þjóðríkjasambanda og annarra skánar með tímanum þannig að ákvarðanirnar verða ekki jafn illa hugsaðar og áður. Það er gott. En ég vildi óska þess að við værum með háleitari markmið á Íslandi um að við ætlum að vera best. Við höfðum nefnilega þann orðstír í dágóðan tíma að hér væri gott að hýsa vefi. Hér væri gott að hýsa gögn og vinna með gögn, sem yfirvöld vildu oft halda leyndum, eða einhverjir óprúttnir aðilar. Við höfðum það orð á okkur að við værum leiðandi í heiminum í persónuvernd, friðhelgi einkalífsins og upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Við höfðum þann orðstír en því miður óverðskuldað. Og núna hefur sá orðstír, eftir því sem ég fæ best séð, dvínað mjög mikið og í rauninni ekki mikið eftir af honum nema í minningu fólksins sem tók þátt í þeirri baráttu og annarra sem unnu mikið í þeim málum á sínum tíma. Hluti af ástæðunni er að GDPR er komið fram, þ.e. persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins, sem tók náttúrlega svolítið athyglina á þeim tíma. Mér leiðist að kvarta svona, en því miður er höfuðástæðan sú að við samþykktum þetta hérna á þingi sem þingsályktun og gerðum síðan ekkert raunverulega við það í allt of langan tíma. Nú koma af og til inn frumvörp sem eru afleiðing af þeirri vinnu en allt of lítið og allt of seint, allt of hægt. Það held ég að gerist vegna þess að við gefum okkur að við séum framar en við raunverulega erum. Okkur finnst vera rosalega frjálslynd, okkur finnst ægilega göfug með því að heimila hitt eða leyfa annað. En til að vera leiðandi þá þurfum við að líta fram fyrir það sem okkur finnst vera „eðlilegt og hefðbundið og venjulegt“ og líta lengra en það til að vera framúrskarandi, til að vera best í einhverju, til að vera best í þessum málaflokkum. Ég gat ekki annað en komið aðeins hingað upp en læt frekari athugasemdir bíða í bili þar til málið er komið úr nefnd, sem ég vona að verði sem fyrst. Ég árétta að ég vildi óska þess að við gætum sýnt í verki þann metnað sem við sýnum stundum í orði þegar kemur að því að vera framarlega og leiðandi á þessum sviðum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.