151. löggjafarþing — 8. fundur
 13. október 2020.
mannanöfn, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 161. mál. — Þskj. 162.

[16:40]
Birgir Þórarinsson (M):

Forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér vegur að íslenskri nafnahefð. Nafnahefðin, sem er einstök á heimsvísu, er eitt af okkar sérkennum sem þjóðar og fær ávallt mikla og jákvæða athygli erlendis. Verði þetta frumvarp að lögum á það eftir að kollvarpa okkar einstöku nafnahefð og öllu sem henni við kemur. Hér er lagt til að allir geti tekið upp ættarnöfn að vild. Hver verður afleiðingin? Jú, föðurnafn og móðurnafn, okkar helsta sérkenni, munu hverfa smátt og smátt. Menn og konur munu taka upp ættarnöfn og henda föðurnafni eða móðurnafni. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra hefur heyrt sögur um það að einhver vilji ekki nota föðurnafn sitt eða móðurnafn, og byggir lagafrumvarp á samtölum um einstök dæmi út í bæ sem eiga að ganga framar margra alda gamalli nafnahefð í landinu.

Árið 1996 voru millinöfn heimiluð og nú bera flestöll börn millinafn. Í skólum eru þau nánast alltaf kynnt með millinafni en föðurnafni og móðurnafni sleppt. Að leyfa ættarnöfn að vild er örugg leið til þess að hætt verður að nota föðurnafn eða móðurnafn. Nær væri að banna ættarnöfn. Árið 1996 var heimilað að nota þrjú nöfn. Hagstofan og Þjóðskrá réðu ekki við það. Hvernig verður þetta þá þegar sama manneskjan mun bera tíu nöfn? Hvernig ætla menn að leysa það þegar kemur að útgáfu vegabréfa, svo að dæmi sé tekið? Það er krafa um að nafn í vegabréfi eigi að vera það sama og í þjóðskrá. Er hæstv. dómsmálaráðherra búinn að leysa það verkefni? Það hlýtur að vera, þetta er jú forgangsmál ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins á Covid-tímum. Mikilvægasta málið á eftir fjárlögum er að fá að taka upp ættarnöfn og heita eins mörgum nöfnum og maður vill og henda íslensku beygingarkerfi mannanafna í ruslið. Íslensk mannanöfn eru hluti íslensks máls og því er það stór þáttur í verndun málsins að íslensk mannanöfn samræmist íslensku beygingarkerfi.

Frú forseti. Það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. forsætisráðherra, sem er mikill unnandi íslenskunnar og er fyrrum menntamálaráðherra, skuli leggja blessun sína yfir þetta mál. Það þýðir ekkert að segjast vera íslenskuunnandi en gera svo ekkert í því þegar vegið er að íslenskri nafnahefð og íslensku. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn vegur að íslenskri nafnahefð, og ég skil ekki á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í þessu máli.

Í greinargerð með frumvarpinu er þess getið hvaða sérfræðingar veittu ráðgjöf við samningu frumvarpsins. Ekki var leitað til okkar helsta sérfræðings á þessu sviði, dr. Guðrúnar Kvaran, prófessors emeritus í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, sem var lengi forstöðumaður Orðabókar Háskólans og sviðsstjóri við Stofnun Árna Magnússonar og auk þess formaður Íslenskrar málnefndar. Dr. Guðrún vann við rannsóknir á íslenskum mannanöfnum í rúma þrjá áratugi. Það hefur sjálfsagt ekki verið leitað til hennar vegna þess að hún er alfarið á móti frumvarpinu og ég hef rætt það við hana. Þetta frumvarp er ekki liður í að styðja íslenska tungu sem á undir högg að sækja eins og margoft hefur verið bent á. Nöfn og beyging þeirra eru jafn mikilvæg og allur annar íslenskur orðaforði og riðlist beygingarkerfið fer að hrikta í stoðum íslenskrar tungu. Þetta er mikilvægasta málið á stjórnarheimilinu á Covid-tímum.

Það má heita eitt af sérkennum íslenskrar menningar hve litlum breytingum nafnaforði okkar tók frá upphafi landsbyggðar og langt fram eftir öldum. Þótt ýmis heiti hafi horfið úr tísku undanfarin þúsund ár og önnur verið tekin upp er meginstofninn í mannanöfnum enn hinn sami og á dögum Ingólfs Arnarssonar. Þetta eru mikil menningarverðmæti og eitt af því sem sameinar okkur sem þjóð. Íslensk mannanafnahefð felur í sér djúpan fróðleik um forna menningu. Hana ber því að varðveita og ekki á að hlaupa til eftir breytingum. Í Hagtíðindum eru fróðlegar tölfræðilegar upplýsingar um nafnaval Íslendinga. Þar kemur m.a. fram að um 80% nafngifta byggjast á rúmlega 200 nöfnum sem sýnir að ekki er knýjandi þörf á stórfelldum breytingum. Fólk er almennt fastheldið á nöfn og reynslan sýnir að gjarnan eru valin nöfn úr fjölskyldunni eða leitað í íslenskan menningararf eftir nýju nafni. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þeir sem vilja standa að lagabreytingum um mannanöfn geri sér grein fyrir því að breytingar á mannanafnalögum séu líklegar til að hafa meiri háttar áhrif á mannanafnahefðir. Ég er sannfærður um að það vill þjóðin ekki.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að mannanafnanefnd verði lögð niður. Ef ágreiningur verður um mál þá sker Þjóðskrá úr eða hægt verður að leita til Stofnunar Árna Magnússonar. Eru þá ekki komnar tvær nefndir? Ég spyr, frú forseti. Ef mannanafnanefnd verður lögð niður þá eigum við eftir að sjá mörg ný nöfn koma fram á sjónarsviðið sem við höfum ekki ímyndunarafl til að láta okkur detta í hug í dag að verði notuð. Sá menningararfur okkar sem felst í tungumálinu er einstakur. Það er t.d. stórmerkilegt að hægt sé að nota greiningarbúnað fyrir nútímamál óbreyttan á fornmálið. Þessu samhengi megum við alls ekki glata. Íslenskunni stendur ógn af örri þróun í upplýsinga- og samskiptatækni. Íslenskan á í vök að verjast. Íslenskan þarf ekki á þessu frumvarpi að halda. Menningararfur er eitthvað það sem tengir okkur við fortíðina, rætur okkar, og gengur inn í sjálfsmynd okkar. Hugmyndin um íslenskan menningararf er þannig nátengd hugmyndinni um íslenskt þjóðerni. Íslendingar voru í senn frjálslyndir og íhaldssamir þegar kom að nafngiftum eftir kristnitökuna. Íslensk menning var traust og kristinn siður samræmdist tungu okkar og menningu á ýmsa lund. Heiðin mannanöfn, jafnvel þau sem minntu á fornan átrúnað, nutu þess hve frjálslyndir og íhaldssamir Íslendingar reyndust vera eftir siðskiptin. Þannig glötuðu Þórsnöfnin ekki vinsældum sínum við kristni. Þegar Íslendingar kynntust kristnum bókmenntum fór að bera á nöfnum sem sótt voru til ýmissa kirkjulegra rita.

Áhugi þjóðarinnar á uppruna og merkingu nafna er ekkert nýmæli. Í Hauksbók sem var skráð snemma á 14. öld er þess getið að því fylgdi gæfa og sigur að draga af nöfnum guðanna nöfn sona sinna, svo sem af Þórs-nafninu. Þótti það líklegt til langlífis og heilla. Í Fóstbræðra sögu er látið liggja að því að heiti manns og eðli fari saman. Þar segir „Svo er hver sem heitir.“ Yfirleitt láta foreldrar sér annt um að velja börnum sínum góð eða fögur nöfn, þótt hitt vilji einnig brenna við að fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir því að annarleg nöfn geti haft slæm áhrif fyrir viðkomandi barn. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga á 19. öld hafði talsverð áhrif á nafngiftir og nöfn voru í auknum mæli sótt til fornbókmennta og goðafræði. Rétt væri að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þetta í huga nú þegar hann vill leggja niður íslenska nafnahefð.

Ég sagði það hér í upphafi að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn vegur að íslenskri nafnahefð. Með nýlegri samþykkt laga um kynrænt sjálfræði var ákvæði um að stúlkum skuli gefa kvenmannsnafn og drengjum karlmannsnafn fellt úr gildi. Mannanafnanefnd, sem er skipuð okkar færustu sérfræðingum, sagði um það mál að með þessu hefði verið vegið að íslenskri nafnahefð að því leyti að nú væri hægt, sem dæmi, að nefna dreng Þorgerði og stúlku Sigurð. Nú þegar karlmaður má heita Guðrún, hvernig á að beygja það? Veit hæstv. dómsmálaráðherra það? Þessi breyting hafði heilmikil áhrif á beygingarkerfið. Það var ekki nauðsynlegt að fara þessa leið. Það hefði verið hægt að gera málamiðlun, að við hlið skilgreindra kvenmanns- og karlmannsnafna mætti bæta við flokki nafna, þar sem fyrst og fremst væri um að ræða tökunöfn sem gefa mætti bæði stúlkum og drengjum. Hér hefði átt á líta til danskra nafnalaga sem fordæmis.

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í ágúst 2017 verkáætlun um máltækni fyrir íslensku árin 2018–2022. Með verkáætluninni er meðal annars stefnt að því að tryggja veg og viðgang íslenskrar tungu. Það kann því að skjóta skökku við að á Alþingi sé lagt fram frumvarp af hálfu dómsmálaráðherra og með blessun ríkisstjórnarinnar sem beinlínis vinnur gegn þessu. Er þetta erindi Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, að vega að íslenskri nafnahefð? Maður spyr sig. Með því að fella brott ákvæði þess efnis að nöfn stangist ekki á við íslenskt málkerfi er opnað fyrir möguleikann á því að tungumálið, og nöfn þar á meðal, fái að taka breytingum og þróast. Mikilvægt er að vernda og varðveita íslenska tungu. Þannig eru til reglur um stafsetningu og málfræði og því engin ástæða til að undanskilja mannanöfn. Andi frumvarpsins er frjálslyndur og kemur það beinlínis fram í frumvarpinu. Fólki er treyst til að viðhalda menningu og siðum sem hafa merkingu fyrir það sem hluta af stærri heild. Með sömu rökum hlýtur hæstv. dómsmálaráðherra væntanlega að vilja afnema reglur um stafsetningu og fela þjóðinni vald til að stafsetja orð eftir eigin höfði. Það verður ef til vill næst á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Það er mótsögn í að vilja varðveita íslenska tungu og fela síðan einstaklingum fullkomið frelsi til að stafsetja nafn sitt. Mannanafnanefnd hefur lagt áherslu á þetta.

Leitun er að foreldrum sem láta sig einu gilda hvaða nöfn þau gefa börnum sínum. Foreldrar vanda sig jafnan þegar kemur að því að velja barni nafn eða nöfn. Endanleg ákvörðun er sennilega oftast tekin í fullri sátt foreldra. Í undantekningartilvikum óska foreldrar eftir því að nota nafn eða nöfn sem ekki er að finna á skrá um leyfileg mannanöfn í íslensku eða rithátt þeirra. Í lögum um mannanöfn er farvegur þangað sem slíkum erindum er beint og úrskurðað um vafatilvik. Í flestum tilvikum er afgreiðsla fremur einföld en stundum bregður svo við að nöfnin sem sótt er um eru ekki í samræmi við lög og þeim er því hafnað. Höfnun er í eðli sínu sár, það skal sagt. En athygli vekur að jafnvel nöfn sem ekki hefur verið hafnað en ástæða hefur þótt til að láta reyna á eru oft alls ekki notuð þegar til kastanna kemur. Þetta hefur mannanafnanefnd bent á. Þá virðist sem almennt sé ekki kunnugt að flestir úrskurðir mannanafnanefndar snúa að rithætti nafna, hvort heimilt sé að rita íslenskt nafn andstætt íslenskri stafsetningu og málvenju. Mannanafnanefnd telur ljóst að þar ættu þeir almannahagsmunir að vernda íslenska tungu og málfar að vega þyngra en réttur einstaklingsins til að rita nafn sitt þvert á reglur og málvenjur.

Örfá dæmi um úrskurði mannanafnanefndar hafa verið áberandi í fjölmiðlum síðustu ár en þau gefa ekki rétta mynd af starfsemi nefndarinnar. Frelsi er hugtak sem oft bregður fyrir í umræðum um mannanöfn og í frumvarpinu er lögð áhersla á það. Gott og vel. En hvort gengur framar, fullkomið frelsi eða varðveisla íslenskrar nafnahefðar og íslenskrar tungu? Hvers vegna getum við þá ekki bara stafsett á þann hátt sem okkur líkar best? Hvað mælir gegn því að við notum aðra leturgerð en við erum vön? Leiðirnar eru vissulega fjölmargar en augljóst er að óhagkvæmni sem hlýst af ótakmörkuðu frelsi í þessum málaflokki leiðir til glundroða. Og það er sú vegferð sem ríkisstjórnin er á með þessu frumvarpi. Leið glundroða með okkar dýrmætasta menningararf, mannanafnahefðina og tungumálið.

Alþingi verður að starfa í samræmi við lög sem það hefur sjálft samþykkt og gilda í landinu. Nægir þar að vísa til heildarlaga um íslenskt mál, laga um örnefni, auglýsinga um stafsetningu og setningu greinarmerkja og námskrá handa leik-, grunn- og framhaldsskólum. Mannanafnanefnd hefur árum saman orðið fyrir aðkasti fyrir það eitt að fara að lögum. Hún hefur fengið lítinn stuðning, aðeins skammir fjölmiðla og annarra þeirra sem lítið vita um hvað málið snýst.

Frú forseti Ég legg til að frumvarpið verði lagt til hliðar og Alþingi feli nefnd sérfræðinga að fara yfir núgildandi lög og laga þau skynsamlega að breyttum tímum en þó með tilliti til varðveislu íslenskrar tungu. Frumvarp þetta er beinlínis skaðlegt íslenskri mannanafnahefð og íslenskri tungu og er Miðflokkurinn alfarið á móti því.



[16:55]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í hópi þeirra sem eru mjög hugsi yfir þessum málum öllum, bæði núverandi kerfi og eins því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég á afskaplega bágt með margt í núgildandi löggjöf. Ég er ekki alveg viss um að frumvarpið sem hér liggur fyrir færi okkur öll svörin en er tilbúinn að skoða það með jákvæðu hugarfari. En vegna ræðu nafna míns, hv. þm. Birgis Þórarinssonar, velti ég fyrir mér af hverju hann heldur að sú breyting sem felst í frumvarpinu leiði til þess að íslensk mannanafnahefð bíði skaða af. Hefðin er miklu eldri en löggjöf sem um þetta gildir. Mannanafnanefnd er tiltölulega nýtt fyrirbæri. Ég verð að játa að ég held að mannanafnahefðin lifi vegna þess að hún á hljómgrunn með þjóðinni en ekki vegna þess að einhver lagabókstafur segi eitthvað um það efni.



[16:57]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður er svolítið hugsi yfir þessum málum og frumvarpinu. Ég trúi því nú að það sé ekki eining innan Sjálfstæðisflokksins hvað þetta mál varðar. Ég hef rætt við marga Sjálfstæðismenn sem eru mjög undrandi yfir því hversu mikil áhersla er lögð á þetta mál hér, en það er kannski ekki það sem kemur fyrirspurn hv. þingmanns beint við. Hv. þingmaður spurði um það hvað ég telji að það sé sem vegi svo að mannanafnahefðinni og að hefðin sé svo rík. Ég byggi mína skoðun á niðurstöðu af því að hafa farið vandlega yfir þetta mál og rætt við okkar besta sérfræðing í þessum málaflokki, sem ég nefndi í ræðu minni, dr. Guðrúnu Kvaran, og átti gott samtal við hana um þetta mál. Hún er alfarið á móti þessu frumvarpi sem hún telur að muni vega að íslenskri mannanafnahefð. Gerð var ákveðin málamiðlun árið 1996, eins og ég nefndi þegar millinöfn voru leyfð. Það var kannski svolítið svar við ættarnöfnunum, að fólk fékk ekki að taka þau upp. En hver varð reynslan af því að taka upp millinöfnin? Jú, hún varð sú að nú er það bara mjög algengt að börn séu, t.d. í skólum, nefnd millinafninu einnig. Þá er föðurnafni eða móðurnafni sleppt og ég held einmitt að þetta sé klassískt dæmi um það. Verði t.d. ættarnöfnin leyfð, eins og lagt er til í þessu frumvarpi, munu föðurnöfnin og móðurnöfnin smátt og smátt hverfa úr íslenskri nafnahefð sem er okkar sérstaða og hefð sem við eigum að standa vörð um.



[16:59]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef líka hlýtt á Guðrúnu Kvaran og fleiri ræða ættarnöfnin og hvernig þau samræmast íslensku málkerfi. Í dag er það þannig að það eru töluvert rýmri heimildir til að taka upp ættarnöfn en voru hér lengst af á 20. öldinni og ég er ekki viss um að það hafi valdið neinum straumhvörfum í þessum efnum. Ég held að það sé rétt að hafa það í huga. Íslenska mál- og nafnahefðin hefur staðið býsna vel af sér þær breytingar sem átt hafa sér stað. Ég sé ekki fyrir mér, ólíkt hv. þingmanni, að þó að frelsi væri aukið á þessu sviði þá myndi það leiða til þeirra hörmunga fyrir íslenska mannanafnahefð sem hann telur. Ég held að í grunninn sé það þannig og verði áfram þannig að íslensk tunga og hefðir og venjur í sambandi við íslenska tungu lifi vegna þess að þau eiga hljómgrunn með þjóðinni, vegna þess að fólk velur að tala íslensku, fólk velur íslensk nöfn, ekki vegna þess að löggjafinn taki af skarið og banni hitt eða þetta. Ég held að þannig eigum við að nálgast þetta. Ég er til í að skoða frumvarpið með gagnrýnum augum. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að íslensk mannanafnahefð er miklu eldri og rótgrónari en lagabókstafurinn sem við erum að fást við í þessu tilliti.



[17:01]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Þetta er svo sannarlega rótgróin og afar mikilvæg og merkileg hefð sem við eigum í okkar mannanafnahefð og við verðum að standa vörð um hana. Það er nú einu sinni þannig að frelsið er svo sannarlega gott og gilt, en hér er bara um svo róttækar breytingar að ræða að þetta vegur að íslenskri mannanafnahefð. Okkar helsti sérfræðingur í þessum málaflokki hefur tjáð mér það, eins og ég nefndi áðan, og maður á svo sannarlega að taka mark á því fólki sem hefur eytt allri sinni ævi í þennan málaflokk. Ef við hlustum ekki á þá sem best til þekkja í þeim efnum þá finnst mér við vera orðin illa stödd.

Ég ætla svo sannarlega að vona að nefndin fari vandlega yfir það og spyrji: Er þetta það sem almenningur vill á Íslandi? Ég efast stórlega um það, hv. þingmaður, að svo sé. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur nefnt það að hún safni einhverjum sögum um einstaklinga sem vilja alls ekki láta nefna sig eftir föður eða móður. Ég tel að þetta sé bara mikill minni hluti þjóðarinnar og ég tel þetta ekki vera það mikilvægt innlegg inn í þetta að við eigum hér að umturna kerfi, mannanafnahefð í landinu sem er svo einstök að hún hefur vakið og vekur athygli ávallt úti um allan heim.

Ég segi bara eins og er, frú forseti, mér finnst það vera skylda Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um þessa hefð en ekki fara þessa leið sem nú er farin með því að umturna kerfi sem er gríðarlegt menningarverðmæti fyrir okkur sem þjóð.



[17:03]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Þegar kemur að öllu sem varðar íslenska tungu þá vill nú svo fara að skoðanir eru skiptar. Ég vil taka fram að almennt séð er litið svo á að nafnakerfi sé í nánum tengslum við tungu og menningu þjóða. Við getum t.d. horft til Kína. Við þekkjum ákveðið yfirbragð mannanafna þar, og ef horft er til frumbyggjaþjóða eins og Maoría sjá menn það sama. Og hvað með Rússa eða aðrar Austur-Evrópuþjóðir? Alls staðar er ákveðið kerfi sem hægt er að greina og við lítum svo á að það sé hluti menningar þessara þjóða.

Það er hollt að rifja upp söguna og sjá hvernig þetta hefur þróast í raun og veru hjá okkur. Í gamla daga eins og við segjum, á söguöld, voru nöfn býsna fjölbreytt og við þekkjum mörg dæmi um nöfn sem myndu ekki ganga í dag, eins og t.d. Ljótur, það gengi alla vega illa. Annað sem var mjög merkilegt var að þá báru menn viðurnefni. Ættfaðir minn í annan ættlegginn hét Þórólfur smjör Þorsteinsson og það var gjarnan notað; hann ferðaðist með manni sem var kallaður Hrafna-Flóki, það er annað viðurnefni. Hver man ekki eftir Auði djúpúðgu o.s.frv.? Þetta kerfi, ef við getum kallað það svo, þ.e. þessi viðurnefni, hvarf. Seinna komu svo millinöfn, eins og mitt, Ari Trausti. Það er ekki svo mjög gamalt, það varð í raun algengt eða leyft. Seinna bætast svo við þessi erlendu ættarnöfn sem við þekkjum mörg hver, Möller og annað slíkt sem komu gjarnan frá Danmörku. Þeir voru fyrirferðarmiklir, Danirnir. Norðmenn komu svo síðar, einkum í gegnum fiskveiðar og hvalveiðar, og þar komu enn önnur ættarnöfn. Svo gerðist það upp úr miðöldum að Íslendingar fóru sjálfir að búa sér til ættarnöfn, kenna sig við bæi eða fjörð eða eitthvað slíkt. Stundum var þetta órætt eins og Vídalín. Stundum voru þetta afbakanir á föðurnöfnum eins og Thorkelsson eða Thorlacius og gekk nokkuð langt en engu að síður voru einstaklingarnir fáir.

Síðan kemur ákveðin bylgja á 19. og 20. öld. Við munum eftir rímnaskáldinu Breiðfjörð. Svo voru tekin upp nöfn sem voru raunverulega föðurnöfn eins og Björnsson, Sveinn Björnsson, þetta varð að ættarnafni. Og svo komu allir Nordalarnir og Nordhal, með dh, og stundum var stafsetningin öðruvísi á þessum nöfnum og þessi hópur var allstór. Í minni ætt er ættarnafn, faðir minn var bókstaflega skírður Guðmundur Miðdal, þannig að ég gæti verið Ari Trausti Miðdal ef mér sýndist svo. En það sem svo gerist er það að hingað fara að koma innflytjendur á 20. öldinni og þeir voru gjarnan frá Mið-Evrópu og héldu nöfnum sínum ansi lengi þar til farið var að gefa út reglur um að menn skyldu taka upp íslensk nöfn. Páll Pampichler, Austurríkismaðurinn sem var hér mikilvirkur í tónlistinni, varð Pálsson því að hann bar sama nafn og faðir hans. Hann var hins vegar mjög ósáttur við þetta og í gegnum kunningsskap þá veit ég að hann gerði það af skömm sinni að sækja um nafnið Steinbítur Harðfisksson en fékk það ekki. Svo voru aðrir í þessum hópi sem þurftu ekki að breyta nafni eins og Vladimir Ashkenazy, sá mikilhæfi músíkant. Mitt ættfólk lenti í þessu móðurmegin og almennt var þetta illa séð. Svo var þessu hætt og það var kannski í kjölfar þess að það komu alltaf sífellt fleiri innflytjendur til landsins og nú er svo komið að hér búa yfir 50.000 útlendingar, innflytjendur, verðandi Íslendingar flestallir eða margir hverjir a.m.k., og þeir bera sín erlendu ættarnöfn. Svo kemur það fyrir að einn og einn af þeim vill taka upp íslenskt nafn, og gerir það, eða börn eða barnabörn gera það og búa sér til eitthvað sem er með kenninafninu dóttir eða sonur. Það beinir síðan sjónum okkar að efni þessa frumvarps.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gerði grein fyrir einum og öðrum íhugunarefnum sem eru á kreiki meðal þingmanna Vinstri grænna. Ég kem kannski meira persónulega að þessu og segi einfaldlega að ég vil halda í það meginkerfi sem er í landinu. Ég vil taka undir meginefni frumvarpsins að öðru leyti. Það sem ég á einfaldlega við er að ég vil ekki leyfa tilbúning á nýjum íslenskum ættarnöfnum, þ.e. að halda áfram þeirri hefð sem rétt var verið að byrja á á fyrri hluta 20. aldar, skulum við segja, þ.e. að leyft sé að menn taki upp ættarnöfn að vild, hvort sem þau nefnast svo íslensk eða ekki, það skiptir svo sem ekki öllu máli. Oft er talað um að örugglega sé hægt að treysta foreldrum fyrir því að gera þessa hluti vel og sjálfsagt er það rétt með langflesta. En við sem höfum fylgst með gerðum og ákvörðunum mannanafnanefndar, og séð þetta í fjölmiðlum, vitum að margar undarlegar fjólurnar hafa ratað þangað að eiginnöfnum barna. Ég þarf ekki að fara með nein dæmi, við þekkjum það öll. Það er alveg spurning hvernig þetta liti þá út með hin íslensku ættarnöfn.

Þá er einnig eitt atriði sem vert er að hugsa um, þ.e. hvernig merking erlendra ættarnafna, sérstaklega evrópskra, hverfur smám saman. Það er sjónvarpsþáttur sem skartar lögreglumanni sem á ensku er kallaður Inspector Thursday, ættarnafn hans er fimmtudagur. Ég þekkti konu í Þýskalandi sem bar ættarnafnið Ziegenhorn, eða geitarhorn. Fyrir flestum er þetta algerlega hlutlaust og ef við speglum þetta yfir á Ísland getum við alveg sagt sem svo að eiginnöfn okkar hafa oft á tíðum enga merkingu fyrir fólk. Það er eins og nafnið á ágætum félaga mínum, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé; nafnið hans þýðir raunverulega svartleggur en það er enginn sem tengir það við eiginnafnið Kolbeinn. Það eru væntanlega mjög fáir sem tengja mitt eiginnafn við fuglinn örn, en Ari er jú gamalt heiti á erni. Þetta er eitt af því sem myndi kannski gerast með ættarnöfn á Íslandi, mörg hver a.m.k., að þau yrðu smám saman merkingarlaus og skrýtnari fyrir bragðið og kannski er það allt í lagi. En þetta er samt sem áður ákveðin þróun, hvort sem um er að ræða eiginnöfn eða ættarnöfn, sem vert er að hyggja að.

Mín rök eru einfaldlega svona: Íslenskt mannanafnakerfi, eins og það er í stórum dráttum, er stoð undir menningararfi sem ég vil halda í sem rauðan þráð í menningu okkar. Þetta þýðir að segja má að hér verði þrír hópar fólks, þ.e. þeir sem eru synir, dætur, bur, með sitt eiginnafn. Svo er stór hópur sem heldur ættarnöfnum sínum sem innflytjendur þar til það fjarar út, ef það fjarar út. Og síðan eru það þau sem hafa þau ættarnöfn sem fyrir eru og halda þeim áfram eins og leyft hefur verið og er alveg sjálfsagt. Þannig að þetta snýr, að mínu mati, að þessu eina atriði sem eru ættarnöfnin.

Ég er hvorki hugsi yfir frumvarpinu í heild, eins og kom fram í andsvörum á undan, né heldur spái ég glundroða eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson hér á undan mér. Mín afstaða er einfaldlega skýr. Við höldum þessu eins og það er en leyfum ekki frekari ættarnafnasmíð. Það er eiginlega það sem um er að ræða.

Sett hefur verið hér í ræðustól eitthvert spurningarmerki við að Alþingi skipti sér af þróun mannanafna, og skulu mín lokaorð vera um það, af því sem við getum kallað menningarþróun. Á það get ég eiginlega ekki fallist vegna þess að allt starfsumhverfi menningarinnar, og þar með öll áhrifin á hana, er skilyrt af alls kyns lögum og reglum sem hér eru samþykktar og við höfum samþykkt að íslensk stafsetning skuli vera háð samþykki Alþingis eða aðkomu Alþingis.

Við höfum líka samþykkt að skylt sé að nota íslensku sem tungumál í stjórnsýslu og víðar og það má alveg halda því fram að þróun menningar sé flókið samspil milli gerða stjórnvalda, þess sem ýmis samtök gera og berjast fyrir, skólanna, einstaklinga, og alls konar umræðna í samfélaginu. Þetta samspil er þannig að Alþingi á jafnt heima í því eins og allir aðrir. Ég fellst ekki á að það sé brot á einhverjum lýðræðishefðum, siðfræði eða heimspeki eða lögfræði þess vegna að Alþingi skipti sér af þessum geira íslenskrar menningar.

Að lokum hlakka ég til að sjá það sem út úr vinnu hv. allsherjar- og menntamálanefndar kemur og mun e.t.v. taka þátt í þessum umræðum síðar.



[17:16]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við enn um frumvarp til laga um mannanöfn. Það er ekki í fyrsta skipti. Oft hafa átt sér stað reglulega skemmtilegar umræður um þetta mál. Hér hafa verið haldnar langar og miklar ræður um þetta allt saman og menn jafnvel haldið að hér væri verið að kollvarpa íslenskri nafnahefð. Það er ekki mín tilfinning eftir að hafa rýnt í þetta mál um leið og ég vil taka fram að ég tel mikilvægt að viðhalda íslenskum hefðum og verja íslenska tungu af því að við þurfum að verjast á ýmsum vígstöðvum, t.d. í sjónvarpi, útvarpi, í tölvuleikjum og öðru slíku og mér þykir ensk tunga vera farin að lita okkar mál fullmikið oft og tíðum.

En það er ýmislegt í frumvarpinu sem er jákvætt. Við búum og lifum í breyttu samfélagi. Það sem við tókum upp hér á síðastliðnu ári, þ.e. þegar einstaklingur hefur hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá þá er honum heimilað að nota nafn föður eða móður í eignarfalli eða kenninafn án viðbótarinnar -son, -dóttir eða -bur. Síðastnefnda endingin á kenninafni var heimiluð með sömu löggjöf. Sömuleiðis voru reglur um nafnabreytingu samhliða breytingum á skráningu kyns í þjóðskrá rýmkaðar. Þetta er einn af þeim hlutum sem við erum að mæta af því að við lifum í breyttu samfélagi og komin eru önnur viðmið og við samþykkjum aðra hluti en við gerðum hér áður og það er vel, það er gott. Málið okkar, samfélagið okkar á allt að þróast og íslensk mannanafnahefð er ein stoðin í samfélagi okkar. En engu að síður þurfum við að þora að breyta til og stíga skref áfram.

Mönnum hefur verið tíðrætt um ættarnöfn. Ég get tekið undir með þeim þingmönnum sem rætt hafa það hér á undan, en ég sé nú ekki beint ástæðu til þess að við förum að taka upp ættarnöfn í stórum stíl. Vera má að það sé bara eitthvað sem ég þekki ekki og vitna ég þá kannski til ræðu sem ég hef haldið hér áður þar sem ég taldi upplagt að sú sem hér stendur tæki upp ættarnafnið Þverdal og vísa ég þá í orð þingmannsins sem stóð hér í púlti á undan mér, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar og fleiri þingmanna, þar sem eitthvað var tekið úr umhverfi manna eða eitthvað í eiginleikum eða annað slíkt, og vísa ég þá ekki eingöngu til útlits míns heldur þess að ég bý við Þverfellsdal. En það er nú önnur saga og má segjast annars staðar en hér.

En það er eitt sem ég vil vekja athygli á í frumvarpinu, sem mér finnst vera jákvætt og ég er ekki viss um að hafi verið imprað á hér áður, að nú verður samkvæmt þessu heimilt með leyfi Þjóðskrár Íslands að fósturbarn, sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum, sé kennt til fósturforeldris. Þá þarf að leita samþykkis kynforeldra barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi, svo að ég vísi beint á blaðsíðu 3 í frumvarpinu. Þar kemur einnig fram að ef kynforeldri er ekki samþykkt breytingu á kenninafni getur Þjóðskrá Íslands engu að síður leyft breytinguna ef það er talið í samræmi við hagsmuni og vilja barns. Þetta tel ég vera mjög jákvætt og veit um hóp barna sem myndu vilja skoða þetta, og vinna þarf nánar með þetta. Það er því ýmislegt jákvætt í þessu. Eins kemur fram í frumvarpinu getur barn yngra en 15 ára með samþykki þeirra er fara með forsjá þess eða sérfræðinganefndar samkvæmt 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði breytt eiginnafni sínu og kenninafni samhliða breytingu á skráningu kyns. Breyting á nafni samkvæmt lögum þessum tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá.

Ýmislegt fleira er í þessu og margt jákvætt þannig að við skulum ekki vera hrædd við að ræða þessi mál og skoða þau áfram af því að við þurfum að aðlagast því hvernig hefðir verða til, hvernig samfélagið myndar þær og hvernig við samþykkjum þær. Hefðir verða ekki til og hefðir viðhaldast ekki nema við höfum þekkingu á þeim. Við erum ánægð með hefðina og við viljum viðhalda henni. Ef við viljum viðhalda íslensku mannanafnahefðinni þá hef ég ekki áhyggjur af því. Ég held að við viljum halda þessu áfram og í megindráttum halda okkur við málin eins og við höfum haft þau. Ég legg til að nefndin skoði þetta vel og farið djúpt ofan í þetta.

En eins og ég nefndi áðan, hæstv. forseti, koma ógnirnar við tunguna víða að, ef við getum talað um ógn sem slíka. Það er t.d. hvernig við förum með nöfn innflytjenda. Mér hefur verið bent á það að t.d. á fótboltaleikjum nota lýsendur fyrstu nöfn Íslendinganna, eiginnöfn Íslendinga, en tala svo alltaf um útlendinga eða þá sem koma annars staðar frá og nota þá eftirnafnið þeirra í lýsingum. Þarna er ekki samræmi. Ég veit um kennara sem hafa fengið nemendur inn í bekki til sín með sín nöfn náttúrlega — og eru nátengd þeim og þykir vænt um nöfnin sín — og aðstoða þá við að laga þau að íslenskri hefð og hjálpa þeim að beygja þau samkvæmt henni. Ég held að þetta sé líka hlutur sem við þurfum að skoða, hvernig við ætlum að fara með það. Ég bið nefndina um að skoða þetta vel, fara vel ofan í málið, eins og ég veit að nefndin mun gera.



[17:23]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Eins og forseti las svo ljúflega upp þá heiti ég Kolbeinn Óttarsson Proppé. Glöggir hlustendur átta sig kannski á því að ég ber tvö kenninöfn, er bæði kenndur við föður minn heitinn, Óttar, og eins ber ég ættarnafnið Proppé. Proppé er merkilegt ættarnafn, að mér þykir, enda er það um mína fjölskyldu. Við heitum hér Proppé, þau sem komin eru af eða tengd eru þeim sem komin eru af Claus Eggert Dietrich Proppé, sem kom til Íslands árið 1868. Hann var innflytjandi. Það væri því býsna mikill tvískinnungur ef ég stæði hér í dag gegn því að aðrir tækju sér upp ættarnafn eins og ég ber, jafnvel innflytjendur sem koma til landsins sem vilja halda því, nú eða þá fólk sem heitir einhverjum öðrum nöfnum í dag en vill kjósa sér ættarnafn. Það mun ég ekki gera, heldur mun ég styðja val fólks í þessum málum.

Eins og ég kom hér að, forseti, hef ég sjálfur þessi tvö kenninöfn þannig að ég held á þann hátt einnig við hinni gömlu íslensku nafnahefð að vera kenndur við föður. Svo eru ýmsir í kringum mig sem eru kenndir við eitthvað annað, við móður, og sumir sem eru í tengslum við mig hafa tekið upp þá skemmtilegu nýjung sem kom fyrir örfáum árum, að kenna sig bæði við föður og móður. Svona höfum við nú þróað og þroskast og tekið upp ýmsar nýjungar, sem er gott. Í grunninn höfum við haldið gamla kerfinu, sem er líka gott fyrir sagnfræðing eins og mig. Ég hef trú á því að það muni haldast þrátt fyrir að einhver muni nýta sér þau ákvæði þessara laga sem gefa þeim val. Ég mun því styðja þetta mál, með öllum þeim fyrirvörum að mögulega þurfi að laga eitthvað til, eins og gengur í þinglegri meðferð, það er oft sem eitthvað þarf að laga.



[17:25]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef haldið nokkrar ræður um þetta mál áður. Það hefur verið lagt fram af fleirum en hæstv. dómsmálaráðherra og það er mjög gott að sjá það lagt fram hér af ríkisstjórninni vegna þess að þá eru líkur á því að það fari áfram. Síðast var það fellt, eftirminnilega, á hátt sem mér þótti ekki Alþingi til sóma þá. Það er auðvitað hin gamalgróna hefð hér á Alþingi að hafna því sem stjórnarandstaðan leggur til, svo geta hlutirnir auðvitað flogið í gegn þegar meiri hlutinn leggur þá til þannig að það ber að fagna því að meiri hlutinn leggi þá til góða hluti eins og þetta.

Ég hlýddi áðan á ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar, hv. 3. þm. Suðurk., og hafði séð hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson líka á mælendaskrá. Annaðhvort hef ég misst af honum eða hann hefur ekki tekið til máls, ég heyrði alla vega ekki ræðu frá honum. En í ræðu hv. 3. þm. Suðurk. fannst mér birtast mjög áhugaverð sýn á hefðir, íslenska tungu og íslenska menningu og hvað það þýðir að aðhyllast hvort tveggja. Ég er nefnilega ekkert í sjálfu sér óskaplega ósammála hv. þingmanni um það að við eigum að halda í íslenska nafnahefð. Mér þykir vænt um hana. Það þýðir hins vegar ekki að ég vilji stjórna því hvað aðrir fullorðnir, sjálfstæðir einstaklingar kjósa að heita. Um það snýst málið. Það snýst ekki um það hvorum okkar þykir vænna um menninguna eða hefðirnar. Það er aukaatriði og kemur málinu ekki við, virðulegi forseti. Kannski eru það fréttir fyrir þá þingmenn sem hafa talað fyrr í dag. Það kemur málinu ekki við. Þetta snýst um það hver tekur ákvörðun um hvað. Það er alltaf sama sagan, þegar á að viðurkenna rétt einstaklingsins til að stjórna einhverju í sínu eigin lífi berjast íhaldssamari öfl gegn því frelsi á þeirri forsendu einni að þau fái ekki að ráða og hafa hlutina eins og þau vilja hafa þá. Það er það sem ég heyrði hér í ræðu hv. 3. þm. Suðurk. fyrr í dag. Hann vill ráða þessu. Hann vill stjórna þessu. Um það snýst málið, ekki hvor okkar elskar mannanafnahefðina meira eða hefur meiri sérfræðiþekkingu á íslenskri tungu eða mannanafnahefð.

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp og má vera hér uppi í dag vegna þess að ég er svokallaður hv. þingmaður. Ég ætla að setja mig svolítið á háan hest núna og tala sem hæstv. borgari, sem virðulegur einstaklingur. Kæri þingheimur, það kemur ykkur ekkert við hvað ég kýs að kalla mig, hvað ég heiti. Þetta er mitt nafn. Ég ákveð hverju ég trúi, þið ákveðið ekki hverju ég trúi. Ég hef þær skoðanir sem ég vil, þið ráðið þeim ekki. Þið getið komið hingað upp í pontu og skeggrætt hvað ykkur finnst um hinar og þessar skoðanir og hvort ykkur finnst að ég eigi að trúa þessu eða halda hitt. En það kemur málinu ekki við og, virðulegi forseti, ég á nafnið mitt og ég ákveð hvað það er, ekki hið háa Alþingi. Ef þessi ræða er haldin í nefnd eða fyrir framan sérfræðinga þá svara þeir jafnan: Já, það er alveg rétt, hæstv. borgari eða virðulegi einstaklingur eða hv. þingmaður, en þetta er nú bara skráning. Það, virðulegi forseti, er útúrsnúningur í skásta falli, afvegaleiðing, vegna þess að nafn er það sem við ákveðum sjálf að kenna okkur við og þegar við segjum við yfirvöld að við heitum þetta eða hitt, þá eru yfirvöld ekki að skrá það ef þau þverskallast við og setja einhverjar reglur um að nafnið mitt sem þau ætla að skrá eigi að vera eftir einhverjum ákveðnum hefðum eða reglum eða venjum, virðulegi forseti. Mér finnst svo ótrúlegt að frjálst fólk láti það yfir sig ganga að yfirvöld segi því hvað það megi heita. Við erum sem betur fer að vaxa upp úr því að leyfa yfirvöldum að segja hverrar trúar við megum vera eða hvaða skoðanir við eigum að hafa eða hverrar kynhneigðar eða hvers kyns við erum og eðlilega erum við að vaxa upp úr því vegna þess að við viljum vera frjáls og þetta er frjálslynt frumvarp, sem betur fer. Það er hreinlega fyndið að hlusta á hv. þm. Birgi Þórarinsson tala hér um frjálslyndi í frumvarpinu eins og það sé eitthvað varhugavert eða hættulegt. Ég læt hann nú svara fyrir það í sínum seinni ræðum ef hann svo kýs.

Virðulegi forseti. Mér fannst rétt að koma hingað upp líka sem borgari og benda hinu háa Alþingi á að hvað okkur á Alþingi finnst að fólk eigi að heita kemur málinu ekki við, okkar starf hér er m.a. að verja frelsi borgaranna, ekki að segja hvernig þeir eigi að haga lífi sínu eða nafni. Það er ekki hlutverk okkar. Ef aðeins eitt atriði kæmist að á þessu þingi þá myndi ég óska þess að það væri þetta. Við erum ekki vön því að tala hér oft um takmörk ríkisvaldsins eða takmörk yfirvalda, sem eru algjör forsenda þess að fólki sé frjálst að gera eitthvað. Það er annað en að hafa leyfi eða heimild. Auðvitað er þetta frumvarp samt þannig, eins og þau sem hafa komið áður, að einhverjar skorður settar eru settar þarna við og því ætla ég ekki að segja að frumvarpið sé fullkomið frekar en þau sem komu áður, en það þarf að vera ansi lélegt til að vera verra en það sem fyrir er.

Sömuleiðis má alveg nefna að auðvitað eru til einhverjar tæknilegar hindranir. Segjum að við þurfum að hafa einhvers konar latneskt stafróf í þjóðskránni eða segjum bara íslenskt stafróf. Ég held að það væri ekkert sérstakt vandamál að bæta við dönsku ö-i eða einhverju því um líku eða jafnvel latneskum útgáfum af arabískum stöfum, þeim maltnesku, eitthvað því um líkt. Tæknilega séð trúi ég ekki að það sé of mikið vandamál, né fyrir Íslendinga þá að lesa það þannig að það heyrist í öllum meginatriðum rétt, alla vega nógu nálægt til að móðga ekki fólk um of. Það er sjálfsagt að hafa einhverja reglugerð um það og einhverjar reglur og ferla um það að koma til móts við tæknilegar takmarkanir, segjum lengd nafna eða eitthvað því um líkt. Það eru bara tæknileg úrlausnarefni, virðulegi forseti, og aftur, koma málinu ekki við sem slíku. Við lendum ekki í vandræðum með þetta þegar kemur að heimilisföngum, við setjum bara einhverjar reglur og fólk er bara tiltölulega sátt við það. Það er ekki raunverulegt vandamál, virðulegi forseti, og það er enginn raunverulegur ágreiningur um það heldur. Þingmenn koma ekki hingað upp og heimta að íslensk nöfn séu skrifuð á kínversku eða arabísku ritmáli. Sem tæknimanni þætti mér það reyndar áhugavert úrlausnarefni en áhuginn nær ekki mikið lengra en það.

Þingmenn koma hingað upp til að ræða frelsið, það að einstaklingur í frjálsu samfélagi á sig sjálfan og ákveður sjálfur hverju hann trúir, hvaða skoðanir hann hefur, hverrar kynhneigðar hann er. Hann ákveður það síðasta reyndar ekki endilega, en það er þess sama einstaklings að segja öðrum það. Það er ekki annarra að segja þeim einstaklingi það, sömuleiðis hvers kyns hann er og sömuleiðis hvað hann heitir. Ef mér finnst ég einfaldlega heita eitthvað annað en yfirvöldum finnst þá bara heiti ég það. Mér er slétt sama um hvað yfirvöldum finnst um það. Ég skal hlusta á dr. Guðrúnu Kvaran vegna þess að ég hef áhuga á því sem hún segir, fræðilegan áhuga. Mér finnst hefðirnar áhugaverðar, mér finnst íslensk saga áhugaverð, mér finnst íslensk tunga mjög áhugaverð og ég vil að við höldum í hana. Þetta snýst ekkert um það, virðulegi forseti. Það snýst um það að einhvern veginn í ósköpunum tókst löggjafarvaldinu á Íslandi að sannfæra sjálft sig, og meiri hluta þjóðarinnar að því er virðist, um að það væri hlutverk ríkisins að ákveða hvað fólk ætti að heita. Það er svo fráleit hugmynd að ég veit ekki alveg hvernig hún komst nokkurn tímann inn í hugtakið lýðveldi hérna.

En ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, virðulegi forseti. Ég hef haldið þennan pistil eða sambærilegan nokkrum sinnum áður og kem til með að halda hann svo lengi sem þörf er á. En með þessum fyrrnefndu fyrirvörum styð ég þetta mál og geri fastlega ráð fyrir því að á því verði gerðar einhverjar tæknilegar breytingar eins og gengur og gerist og er algjörlega sjálfsagt. Mér fannst rétt að koma hingað upp og leiðrétta misskilning sem er svo tíður, að þetta snúist eitthvað um það hvað okkur finnist um nafnahefðirnar. Það er aukaatriði. Þetta snýst um það hvort við trúum því eða ekki að einstaklingar í þessu samfélagi eigi sín eigin nöfn. Ég trúi því. Þegar hv. þingmenn vilja koma hingað í pontu og fara að vega og meta hefðir og einstaklingsfrelsi þá finnst mér að þeir eigi bara að segja það berum orðum að þeim finnist fólk ekki eiga nöfnin sín, að þeim finnist ekki að fólk eigi að ráða eigin lífi vegna þess að það er bein rökfræðileg afleiðing þess sem þeir hafa sagt í pontu þegar þeir hafa haldið uppi því fráleita sjónarmiði. Það er ekki bara þetta, við búum á tímum þar sem sífellt er verið að reyna að draga fram frelsi einstaklingsins í mismunandi myndum. Það er gaman að sjá hér hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins og hv. þingmann Sjálfstæðisflokksins hér úti í sal einhvers staðar, maður sér reyndar ekki alveg allan salinn þessa dagana, eins og við þekkjum, og þarna er annar, bendir hæstv. ráðherra mér á. Gott og vel. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er frelsi einstaklingsins. Mér þykir svolítið vanta í málflutningi Sjálfstæðisflokksins að berjast fyrir frelsi einstaklingsins. Þess vegna er ákveðinn ferskur andblær að fá það frá hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að hér sé um að ræða eitthvað sem varðar einstaklingsfrelsið en ekki bara viðskiptafrelsið.

Ég get ekki annað en stært mig af því að sá sem hér stendur hefur lagt fram mál um að heimila heimabrugg. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki hafa mikinn áhuga á því, jafnvel þeir hv. þingmenn sem teljast til frjálslyndisarmsins í þeim flokki eins og hv. þm. Brynjar Níelsson, sem er reyndar ekki í salnum til að verja sig gegn þessu. Ég býst við því að hann komi hingað og haldi ræðu um það einhvern tímann á þessu þingi. Sjálfstæðisflokknum er meira annt um það að fólk geti selt áfengi. Ég er ekki á móti því frelsi. Ég myndi greiða atkvæði með slíku frumvarpi með fyrirvörum um útfærslu og þess háttar. Það er ekki aðalatriðið. Frelsið snýst ekki bara um að kaupa eitthvað eða selja eitthvað eða versla með eitthvað. Í þessu landi búa einstaklingar og einstaklingsfrelsi felst m.a. í því að við segjum sjálf öðrum, en ekki öfugt, hvers kyns við erum, hvaða skoðanir við höfum, hverrar kynhneigðar við erum og, virðulegur forseti, hvað við heitum. Ef það var ekki ljóst í þessari ræðu þá styð ég frumvarpið og þakka hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir að leggja það loksins fram.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.