151. löggjafarþing — 8. fundur
 13. október 2020.
íslensk landshöfuðlén, 1. umræða.
stjfrv., 9. mál. — Þskj. 9.

[18:06]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um íslensk landshöfuðlén. Frumvarpið var lagt fram á 150. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt nánast óbreytt en tekið hefur verið tillit til hluta þeirra athugasemda sem bárust umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í apríl sl. Megininntak frumvarpsins er það hvernig staðið skuli að umsýslu landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað til notkunar á netinu ásamt nafnaþjónustu fyrir höfuðlén og skráningu léna undir þeim.

Áður en ég hef yfirferð um efni frumvarpsins tel ég rétt að vekja athygli á því að í dag er ekki í gildi nein löggjöf um landshöfuðlénið .is eða önnur landshöfuðlén með beina skírskotun til Íslands.

Í ljósi þessa og þess að flest ríki sem við berum okkur saman við hafa sett lög um lénamál má segja að Ísland hafi dregist aftur úr öðrum þjóðum varðandi lagasetningu á sviði lénaumsýslu. Miðað við erlenda þróun og mikilvægi netsins í nútímasamfélagi er ærið tilefni til að setja lagalega umgjörð um landshöfuðlén sem hafa beina skírskotun til Íslands.

Við samningu þessa frumvarps var einkum litið til öryggissjónarmiða og var það haft að markmiði að setja lágmarksreglur til að stuðla að auknu öryggi. Frumvarp þetta gengur því skemmra en fyrri frumvörp sem lögð voru fram, til að mynda á 139. og 140. löggjafarþingi, um sama efni en náðu ekki fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að reifa helstu atriði frumvarpsins. Í I. kafla er gerð grein fyrir markmiðum þess, gildissviði, stjórn lénamála hér á landi, orðskýringum og persónuvernd. Lagt er til að markmið frumvarpsins sé að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum landshöfuðlénum og að styrkja tengsl þeirra við Ísland með því að kveða á um örugga, gagnsæja og skilvirka umsýslu þeirra. Svo sem fram hefur komið er talsverð áhersla lögð á öryggi í markmiðsákvæðinu enda eru öryggishagsmunir þeir hagsmunir sem helst hefur verið litið til við samningu frumvarpsins. Það er brýnt að aðgangur að íslenskum landshöfuðlénum sé góður en einnig að umsýsla sé örugg án þess að vera samfélaginu til ama eða tafa.

Gildissviðið afmarkast við rekstur landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað. Frumvarpið nær ekki til almennra höfuðléna enda hafa íslensk stjórnvöld ekkert með þau að gera. Íslandi hefur verið úthlutað landshöfuðléninu .is en ekki er útilokað að fleiri landslénum verði úthlutað til Íslands í framtíðinni.

Í II. kafla er að finna ákvæði um skráningarstofur, almenna heimild, tilkynningu um starfsemi og hlutverk skráningarstofa. Lagt er til að starfsemi skráningarstofa verði tilkynningarskyld en ekki leyfisskyld, svo sem fyrri frumvörp hafa gert ráð fyrir. Tilkynningarskyldan er mun minna íþyngjandi en leyfisskylda en tryggir þó yfirsýn stjórnvalda. Skilyrðin sem sett eru fyrir starfseminni hér á landi geta vart talist íþyngjandi en sum þeirra taka mið af öryggishagsmunum, svo sem að halda starfseminni hér á landi og koma í veg fyrir að rétthafaskrá og vinnsla hennar verði vistuð í skýi eða gagnaveri erlendis. Hlutverk skráningarstofa miðast við það hlutverk sem fyrirtækið Internet á Íslandi hf., ISNIC, hefur í dag.

Í III. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um skráningu léna, lokun, læsingu og afskráningu þeirra, úrræði lögreglu og réttindi og skyldur rétthafa. Ekki eru lagðar til breytingar á reglum um skráningu léna frá því sem nú er. Skráningin er rafræn að mestu leyti og setja skráningarstofur sjálfar reglur um skráningu léna. Ráðherra mun geta sett reglur um viðmið sem hafa skuli í heiðri við setningu reglna en mun ekki setja efnisreglur um skráningu enda gilda nokkuð fastmótaðar alþjóðlegar reglur um skráningu léna.

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum sérstaklega um ákvæði III. kafla frumvarpsins er varða úrræði eins og að loka skráðu léni, afskrá það, læsa því eða leggja hald á það. Í 10. gr. er að finna reglur sem eru í samræmi við reglur ISNIC en sem rétt þykir að setja í lög. Ég vek athygli á því úrræði að læsa léni en í því felst að ekki er hægt að flytja lén á milli rétthafa. Úrræði sem þetta hefur nýst og nýtist t.d. þegar mál er til meðferðar hjá Neytendastofu, t.d. á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.

Í 11. gr. eru lögð til úrræði handa lögreglu. Lagt er til að lögregla geti krafist þess, að undangengnum dómsúrskurði, að skráningarstofa loki léni sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni í ákveðnum tilvikum, t.d. ef rétthafi léns, umboðsmaður hans eða þjónustuaðili hefur náin tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða nýtir lénið í þágu slíkrar starfsemi. Þá er lagt til að lögregla geti, að undangengnum dómsúrskurði, lagt hald á skráð lén og rekið það í tengslum við rannsókn opinbers máls og öflun sönnunargagna. Framangreindar heimildir eru mjög íþyngjandi fyrir rétthafa og fela í sér mikið inngrip. Því er lagt til, svo sem fram hefur komið, að ávallt sé leitað atbeina dómstóla til að beita slíkum úrræðum.

Þá er mikilvægt, virðulegi forseti, að það komi hér fram í tengslum við réttindi og skyldur rétthafa léna, að rétthafi öðlast ekki beinan eignarrétt á léni heldur aðeins óbeinan eignarrétt, nánar tiltekið það sem kallast einkaafnotaréttur af léni.

Í IV. kafla frumvarpsins er að finna ýmis ákvæði, svo sem um eftirlit, dagsektir, rekstur landshöfuðléns á stríðstímum og við yfirvofandi hryðjuverkaárás og um fagráð.

Í ákvæði til bráðabirgða I er lagt til að ríkissjóður fái forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf., ISNIC. Þetta ákvæði er sett fyrst og fremst til að tryggja að félagið verði ekki selt út úr íslenskri lögsögu þótt gert sé ráð fyrir að ríkissjóður geti einnig beitt forkaupsréttinum ef innlent félag áformar að kaupa hlut í ISNIC.

Forkaupsréttur samkvæmt frumvarpinu heimilar ríkissjóði að ganga inn í tilboð sem gert hefur verið í félagið. Ríkissjóði er hins vegar ekki skylt að nýta réttinn. Rétt er að benda á að í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru skráningarstofur gjarnan reknar sem sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.



[18:14]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýringar hans á frumvarpinu, sem lagt er fram í annað sinn. Ég er að velta fyrir mér III. kafla, og þá sér í lagi 10. gr. og helst 11. gr., sem fjallar um lokun, læsingu og afskráningu léna og þess háttar. Þar er vikið að atriði sem komið hefur til umræðu áður og er kannski flóknara en virðist í fyrstu. Það varðar það að lén megi ekki brjóta í bága við landslög og þess háttar. Það þykir mér svolítið hættuleg braut vegna þess að það er ýmislegt bannað í íslenskum landslögum og það er ýmislegt efni ólöglegt á Íslandi sem ekki er ólöglegt annars staðar.

Ég ætla að nefna tvennt. Í 95. gr. almennra hegningarlaga er bannað að rægja eða smána, eða hvernig það er orðað, erlenda þjóðhöfðingja, fána ýmiss konar og þess háttar. Ég átta mig alveg á því að það kemur úr alþjóðasáttmálum og þess háttar, en refsiramminn þar er tvö ár, og sex ár ef brot er stórfellt. Það er snúið að hýsa vefsetur á íslensku léni og hvetja til þess að fólk brjóti þessi lög, eins og ég hef gert og mun gera. Ég hef gert það hér í pontu og mun gera það aftur. Ég hef hvatt fólk til að tala um Donald Trump Bandaríkjaforseta eins og ber að tala um hann, þ.e. á mjög slæman hátt, enda er hann hræðilegur forseti. En vandi minn er sá að sá mikilvægi þáttur af lýðræðislegri umræðu er strangt til tekið bannaður samkvæmt íslenskum lögum og refsiramminn er töluvert hár. Ég fæ því ekki betur séð en að strangt til tekið sé bannað að hvetja til þess að tala illa um Donald Trump eða álíka hrotta í öðrum þjóðríkjum.

Hitt atriðið skiptir ekki jafn miklu máli akkúrat núna en ég vík kannski að því í síðara andsvari.



[18:16]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna sem er kannski óbein hvað varðar túlkun laga á þessu sviði, hvort atbeina dómsvalds þurfi, eins og ég fór yfir, þegar kemur að því að loka og læsa, leggja hald á eða eitthvað slíkt. Það að gagnrýna þá sem sjálfsagt er að gagnrýna er kannski ekki endilega það sama og að hvetja til lögbrota, ég tek undir það með hv. þingmanni. Það er hægt að gagnrýna á málefnalegan hátt. Það getur verið að munur sé á okkur hv. þingmanni hvað það varðar en ég hef hins vegar ekki þá reynslu af honum. Ég hef því ekki stórar áhyggjur af þessu. En í einhverjum mjög sérstökum dæmum, sem hv. þingmaður getur vissulega tiltekið, þar sem sjónarmið hans er að lög á Íslandi séu röng og hann sé að berjast fyrir leiðréttingu þeirra, eru það samt lög á Íslandi. Ég bendi á að það þarf atbeina dómstóla til að ganga svo langt, enda er mjög mikilvægt að átta sig á því að það er verulega íþyngjandi að grípa inn í með þeim hætti sem heimilt er samkvæmt þessu frumvarpi. Þess vegna er mikilvægt að þar sé að baki úrskurður dómstóla.



[18:18]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar talsmaður málefnalegrar gagnrýni. Málefnaleg gagnrýni á hendur sumum, eins og t.d. Bandaríkjaforseta sem nú situr vonandi ekki mikið lengur, verður bara ansi ljót áður en hún verður ómálefnaleg. Má reyndar segja það um ýmsa þjóðhöfðingja. En ég átta mig á því að lög á Íslandi eru lög þótt ég sé ósáttur við þau sjálfur. Það er þess vegna sem ég hef áhyggjur af þessu. Ég hefði ekki áhyggjur ef ég tryði einhverju öðru. Hæstv. ráðherra nefnir réttilega að það þurfi atbeina dómsvalds. Það róar mig ekki mikið vegna þess að eins og hæstv. ráðherra bendir einmitt á eru landslög landslög og að mínu mati eru þau gölluð að þessu leyti.

Fleira kemur til. Ég átta mig á að þetta er tabú umræðuefni og ég er sjálfsagt farinn að þreyta samherja mína með því að vera sífellt að brydda upp á því upp á síðkastið en klám er bannað á Íslandi. Það er ekki bannað í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Refsiramminn er reyndar ekki tvö ár við dreifingu kláms á Íslandi en hins vegar myndi klám klárlega falla undir ólöglegt efni, held ég. Í b-lið 11. gr. kemur fram að ef lén er notað til að miðla ólöglegu efni eða efni sem hvetur til refsiverðrar háttsemi geti það varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum eða meira. Þótt klám sé auðvitað tabú umræðuefni og sitt sýnist hverjum um það og allt það, finnst mér svolítið mikilvægt að við vitum hvað við erum að banna og hvaða afleiðingar gjörðir okkar hafa hér á Alþingi. Þess vegna finnst mér við þurfa að spyrja upphátt: Þýðir þetta að það væri sem sagt hægt að afskrá lén á vefsíðu sem væri á .is-léni, eða þar sem höfuðlénið tilheyrði Íslandi á einhvern hátt, ef það hýsti klám eða ólöglegt efni af slíku tagi? Þetta er að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að skilgreiningin er mjög á reiki, svo að meira verði ekki sagt. Það er hluti af vandanum að þetta er ekki alveg nógu vel skilgreint, hvorki af dómstólum né samfélaginu né fræðimönnum. Í því liggur vandinn. Þess vegna finnst mér mikilvægt að hafa þetta skýrt.

Spurningin er: Er, þegar allt kemur til alls, (Forseti hringir.) ekki ráð að hækka refsirammann sem miðað er við í frumvarpinu og taka út eða draga aðeins úr heimildum til að loka lénum á grundvelli almennra hegningarlaga?



[18:20]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur nefnir hv. þingmaður hluti sem einmitt eru háðir skilgreiningu og mati. Aftur bendi ég á að atbeina dómstóla þarf til, það er ekki bara einhver einn aðili sem metur hvort um sé að ræða brot er varðar refsiverða háttsemi. Þessi mál eru hins vegar þess eðlis að ég tel sjálfsagt að nefndin kafi svolítið ofan í þetta og velti vöngum yfir tillögu hv. þingmanns, hvort hún geti nýst í stað þess texta sem er í frumvarpinu og þeirrar leiðar sem þar er farin. Ég treysti nefndinni til að skoða málið vel í meðförum Alþingis.



[18:21]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég taka undir það með hæstv. ráðherra að ég tel sjálfsagt að nefndin skoði aðeins það mál sem við vorum að ræða í andsvörum, sem varðar refsirammann sem miðað er við í frumvarpinu. En mér fannst rétt að koma hér upp og ræða aðeins frumvarpið sjálft. Ég ætla líka að fara aðeins meira út í þau atriði sem ég nefndi við hæstv. ráðherra, hvað varðar lokun, læsingu og afskráningu léna og þá sér í lagi í samhengi þeirra heimilda við almenn hegningarlög og ýmsa meinta galla í þeim, eða það sem ég tel vera galla, og hugsanlega ástæðu til að hinkra aðeins með svo ríkar heimildir til að loka, læsa og afskrá lén á þeim grundvelli.

Fyrst ég er byrjaður að tala um það vil ég segja að ég skil ósköp vel að það sé við hæfi að geta gripið til slíkra úrlausna þegar um er að ræða alvarlega glæpi eða þegar verið er að hvetja til alvarlegra glæpa, t.d. ofbeldisglæpa. Ég skil það mætavel og mótmæli því ekki. En við erum með í löggjöf ansi margt sem er bannað og við liggur tveggja ára fangelsisrefsing. Fyrir áheyrendur sem ekki vita er það víða þannig í íslenskri löggjöf að ýmsar heimildir, t.d. til að loka lénum í þessu tilfelli en einnig heimildir lögreglu til að beita ýmsum úrræðum, fara oft eftir refsirammanum. Jafnvel þótt enginn sé dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að drulla yfir Donald Trump þá hefur tveggja ára refsiramminn, sér í lagi sá efri sem er sex ár, þau áhrif að hann virkjar aðrar lagagreinar. Í því liggur vandi þess að þessir hlutir séu bannaðir í lögum og að við þeim liggi fangelsisvist. Það er í sjálfu sér ekki óttinn við að fólk fari í fangelsi fyrir að tjá sig um Trump, heldur ótti við að lagaheimildir séu virkjaðar þar sem annars hefði verið látið kyrrt liggja. Því er mikilvægt að við hreinsum almenn hegningarlög af brotum, jafnvel þó að þeim ákvæðum sé jafnan ekki framfylgt eða þó að þeim sé framfylgt á matskenndan hátt sem okkur þykir ekki vera stórt vandamál, samanber það sem hæstv. ráðherra segir, sem ég held að sé alveg rétt hjá honum, að sumt af þessu er mjög matskennt og kannski sér í lagi þau tvö atriði sem ég nefndi í andsvörum mínum við hæstv. ráðherra. Meira um það síðar.

Ég vil einnig nefna fyrirkomulag landshöfuðléns Íslands, eins og maður segir víst á alþingisíslensku. Ísland er enn sem komið er einungis með eitt landshöfuðlén, sem er .is. Ekki hafa allir í þeim tæknigeirum sem láta sig slíkar skráningar varða verið sammála um hvernig best sé að haga því fyrirkomulagi. Ég ætla þó að segja, og ég tel ekki mjög marga vera ósammála mér um það, að það er í hæsta máta skrýtið að einkafyrirtæki hafi stjórn yfir landshöfuðléni Íslands. Það er stórskrýtið. Ég þekki alveg þá umræðu og kunningjar mínir, sem koma úr þeirri átt, spyrja gjarnan: Hvert er vandamálið? Er fólk óánægt með ISNIC sem þjónustuaðila, er verðið of hátt? Eru reglurnar ekki nógu góðar? Er ekki tekið nógu mikið tillit til einhverra sjónarmiða og þess háttar?

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara þeim spurningum hér í pontu, mér finnst það ekki alveg við hæfi. En ég get líka alveg sagt að það myndu ekkert allir segja að þjónustan væri frábær og allt það. Það er ekkert sjálfsagt að einkafyrirtæki úti í bæ sé alltaf að standa sig gagnvart viðskiptavinum þegar það er með einokunarstöðu á markaði. Það segir sig sjálft og er óháð því hvaða fyrirtæki á í hlut og óháð því á hvaða markaði það er. Þetta er mjög skrýtið ástand eins og það er.

Nú eru sögulegu skýringarnar, sem ég hef heyrt fyrir því, þær að ríkið hafi einhvern veginn misst þetta úr höndunum á sér í gegnum eitthvert einkavæðingarbrölt í tengslum við háskólana. Ég man þá sögu reyndar ekki alveg nógu vel til að segja frá henni af einhverri ábyrgð, en það hljómar rosalega 2001. Það hljómar rosalega mikið eins og .com-tímabilið og ýmislegt það sem gekk á í þá daga, í árdaga internetsins góða.

Í öllu falli er punktur minn sá að ég tel alveg eðlilegt að það séu einhver lög um landshöfuðlén Íslands. Sömuleiðis verð ég aðeins að taka á því sem lagt er til í bráðabirgðaákvæði, sem er forkaupsréttur ríkisins á ISNIC ef það fer í sölu. Þegar þetta mál var síðast lagt fram komu frekar skýr mótmæli, m.a. frá því ágæta fyrirtæki ISNIC og sömuleiðis umsögn frá Magnúsi Zóphaníussyni og Sigríði Finsen þar sem sömu áformum var mótmælt og það tjáð að það myndi nú líklega enda fyrir dómstólum. Í þeirri orðræðu allri endurspeglast það sama og ég hef orðið vitni að í samtölum mínum við kunningja mína sem hafa skoðanir á þessu. Auðvitað finnst ISNIC ekkert vandamál vera til staðar. Auðvitað finnst ISNIC bara rosalega fínt að ISNIC hafi þetta landslén. Auðvitað finnst ISNIC þjónustan frábær og verðið sanngjarnt, auðvitað. Ég ætla ekki að gagnrýna neitt af þessu. Ég á ekkert sökótt við þetta ágæta fyrirtæki og hef reyndar ekkert nema gott um það að segja, alla vega ekki neitt sem ég myndi kæra mig um að tala um opinberlega. Allt þetta hlýtur að leiða okkur að því að það er eðlilegt að íslenska þjóðin hafi einhvern meiri aðgang að ákvörðunarvaldi í kringum þetta landslén en þann að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu, og væntanlega meiri hluta til að stjórna einhverju. Það er ekki þannig sem þetta getur virkað, virðulegi forseti. Mér finnst það alveg afleit pæling. Að því leyti er ég alveg sammála því að það eigi að vera einhver lög.

Hins vegar skiptir máli hvernig þau lög eru. Þá skiptir það að sjálfsögðu máli, ekki bara siðferðislega heldur lagalega, að komið sé til móts við hagsmuni ISNIC. Ég tel þennan forkaupsrétt alveg eðlilegan með þeim fyrirvara að eflaust gætu dómstólar skeggrætt það eitthvað betur en sá sem stendur hér og nú. En með hliðsjón af því að þetta er lénið sem þýðir Ísland þá þykja mér þessir ríku almannahagsmunir, sem þarf til að réttlæta forkaupsréttinn, frekar augljósir, bara mjög augljósir. Í samtölum mínum við félaga mína, sem hafa sterkar skoðanir á þessu, þá láta þeir oft eins og það sé eitthvert vafamál hvort þarna séu ríkir almannahagsmunir eða ekki. Mér finnst þeir bara mjög augljósir. Það er kannski hægt að kalla það augljósa almannahagsmuni. Ég er ekki alveg með það á hreinu. En það að .is sé í einkaeigu finnst mér vægast sagt skrýtið. Ég ætlast svolítið til þess að ISNIC beri virðingu fyrir því sjónarmiði að fólki finnist þetta mjög skrýtið. Ef við værum að setja þessa þjónustu á fót í dag myndum við aldrei hafa fyrirkomulagið svona. Þetta voru mistök sem voru gerð á sínum tíma, hvernig sem sú saga er, jafnvel þó að sú saga sem ég reyndi í ákveðnu ábyrgðarleysi að rifja hér upp áðan verði leiðrétt.

Þá ætla ég að víkja mér aftur að því sem ég nefndi í andsvörum við hæstv. ráðherra, og það hefur komið upp áður. Á sínum tíma voru hryðjuverkasamtök í Miðausturlöndum sem kölluðu sig Ríki íslams, kölluð ISIS eða Daesh á arabísku, skelfileg samtök, wahabísk eins og stjórnarfarið í Sádí-Arabíu, algjörlega hryllileg hugmyndafræði, snældugalin, stenst enga skoðun eins og við er að búast. Í öllu falli þá voru þessi hryðjuverkasamtök svolítið sérstök að því leyti að þau voru afskaplega fær í áróðursgerð. Það er áberandi, finnst þeim sem hafa skoðað svolítið þennan kima af vitleysunni og ógeðinu í heiminum, að hryðjuverkasamtök af þessari tegund eru oft með mjög lélegan áróður sem virðist ekki hugsaður til þess að ná neitt lengra en til helstu baráttumanna, helstu hersveitanna. En ISIS setti hins vegar fram alveg ofboðslega fágað efni, bara vel gert mynd- og hljóðefni sem var vel pródúserað, eins og sagt er í bransanum. Það er hryllilegt að sjá það vegna þess að þá óttast maður að það virki eins og þessi hryðjuverkasamtök vilja að það virki. Auðvitað vonar maður að þau áhrif séu sem minnst en við höfum því miður fregnir um annað. Eitt af því sem þau gerðu í áróðursskyni, eða einhverjir fylgjendur þeirra — sem er reyndar hugmyndafræðilega sama fyrirbærið, hryðjuverkasamtök gera ekki mikinn greinarmun á sjálfum sér og málstaðnum, frekar en al Kaída og öll hin — var að þau skráðu .is-lén. Fyrst var þessu léni lokað og því var lokað að sögn á þeim forsendum að starfsemin bryti í bága við landslög. Það var það fyrsta sem við fréttum. Einn hv. þingmaður á þeim tíma, þ.e. sá sem hér stendur, mótmælti því af þeirri ástæðu að um leið og við værum byrjuð að loka lénum á þeim grundvelli að þau mættu ekki stangast á við almenn hegningarlög, eða landslög almennt, þá værum við komin út á mjög hálan ís vegna þess að .is-lén væri til þess að hýsa vef sem væri til tjáningar. Tjáning er viðkvæmt og brothætt fyrirbæri þegar kemur að því að ætla að fara að loka og banna og læsa og þess háttar. Það þarf að hugsa hlutina svolítið til enda. Ekki átti sér stað mikil umræða í kjölfarið á þessu fyrr en það var útskýrt að þetta snerist meira um það að skráningin væri röng. ISIS er vissulega ekki .is heldur er .is Ísland. Á þeim forsendum var léninu lokað og það er fínt, virðulegur forseti. Það er engin hætta á því að úr því verði síðan einhverjar venjur sem geri yfirvöldum eða aðilum kleift að loka meira eða minna eftir geðþótta eða á grundvelli mjög vafasamra forsendna eins og tilfellið er ef við segjum einfaldlega að ekki megi hýsa neitt sem er ólöglegt eða bannað á .is-léni. Sá sem hér stendur var gagnrýndur þokkalega á sínum tíma fyrir að mótmæla því að þessu væri lokað, að .is-léni væri lokað á þeim forsendum að það bryti í bága við landslög. En ég minni þá bara á að það fyrsta sem ég sagði, áður en ég tók það fram, var að ef því væri lokað á þeim forsendum að .is stæði ekki fyrir ISIS heldur Ísland þá hefði ég ekkert við það að athuga, ég stóð við það og stend við það. Það skiptir hins vegar máli hvaða forsendur eru notaðar fyrir því að loka vefsetrum og lénum og þess háttar. Forsendurnar sem við setjum í lög eða reglur ISNIC, eða hvernig sem það er útfært, gefa fordæmi fyrir það hvað eigi að gerast í framtíðinni þegar upp koma gráar línur og matskennd atriði eins og það nákvæmlega hve mikið megi drulla yfir Trump áður en það sé orðið „alvarlegt“.

Nákvæmlega hvað er klám? Aftur biðst ég afsökunar á því, virðulegi forseti, að vera alltaf að tala um þetta óþægilega efni. En það er nú bara þannig að fólk er alls ekkert sammála um það hvað klám sé. Það sem einum þykir erótík þykir öðrum vera klám. Það er vandamál, virðulegi forseti, að eitthvað sé bannað, eitthvert efni sé ólöglegt, sem er ekki einu sinni á hreinu hvað er, alveg sama hvers eðlis það er. Það skiptir máli að við séum skýr í því hvað við heimilum eða bönnum og hvers vegna við gerum það þegar um tjáningu er að ræða. Gildir þá einu hvað fólki finnst um tjáninguna sjálfa, það þarf að vera skýrt hvað við erum að tala um. Það er ekki tilfellið þegar kemur að því að drulla yfir Trump og enn síður þegar kemur að skilgreiningunni á fyrirbærinu klámi. Ég skora á fólk að fletta aðeins í dómum Hæstaréttar eða fræðilegri umræðu eða almennri umræðu eða hvað sem er, það er enginn samhugur um það hvað fyrirbærið er og viðhorfin breytast á mjög skömmum tíma. Ekki á nokkrum áratugum heldur bara nokkrum árum eru allt í einu komnar allt aðrar hugmyndir um það hvað þyki „eðlilegt“ hér eða ásættanlegt annars staðar þegar kemur að kynferðislegu myndefni sem í daglegu tali er kallað klám.

Að þessu leyti hef ég örlitlar áhyggjur af því að heimildirnar, sem fylgja frumvarpinu, fyrir því að loka á lén eða taka þau úr sambandi og þess háttar séu grundvallaðar á aðeins of lágum refsiramma. Ég myndi vilja endurskoða það að óheimilt sé fyrir handhafa .is-léns að miðla ólöglegu efni vegna þess að mér finnst það hugtak óskýrt um of. Sömuleiðis þykir mér tveggja ára refsiramminn, sem miðað er við, í fljótu bragði of lágur. Þó tek ég að lokum undir með hæstv. ráðherra, ég vænti þess og vona að nefndin taki þetta til skoðunar og geri tillögur sem falla kannski betur í kramið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.