151. löggjafarþing — 11. fundur
 20. október 2020.
fjarskipti, 1. umræða.
stjfrv., 209. mál. — Þskj. 210.

[16:31]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um fjarskipti, sem lagt var fyrir á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú lagt fram í óbreyttri mynd, en þó með nokkrum smávægilegum leiðréttingum og uppfærslu. Gildandi fjarskiptalög þarfnast endurskoðunar enda hafa framfarir í fjarskiptatækni og fjarskiptaþjónustu verið miklar og fleygir enn fram.

Meginmarkmið frumvarpsins er að samræma landsrétt uppfærðu samevrópsku fjarskiptaregluverki tímanlega og tryggja sem best aðgengileg, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Enn fremur að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði. Frumvarpið byggir á efnisákvæðum nýlegrar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um setningu evrópskra reglna um fjarskipti, sem gjarnan er vísað til sem Kóðans. Um er að ræða nýja grunngerð er leysir af hólmi fjórar eldri Evróputilskipanir, sem gildandi íslensk fjarskiptalög byggja einkum á.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að lögfest verði reglugerðarsetningarheimild til innleiðingar á reglugerð um Evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta, BEREC, og stofnun honum til stuðnings. BEREC er mikilvægur samstarfsvettvangur sem falið er ráðgefandi hlutverk og er einkum ætlað að stuðla að samræmdri framkvæmd evrópsks fjarskiptaregluverks. Samhliða undirbúningi frumvarps til nýrra fjarskiptalaga hefur teymi sérfræðinga samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Póst- og fjarskiptastofnunar unnið að undirbúningi upptöku fjarskiptapakkans svonefnda, þ.e. Kóðans og BEREC-reglugerðar, í EES-samninginn. Samningaviðræður eru á lokastigi milli ESB og EFTA-ríkjanna innan EES um nauðsynlega aðlögun vegna upptöku gerðanna í samninginn.

Áform um endurskoðun löggjafar um fjarskipti voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda sumarið 2019 og heildstæð drög að frumvarpi til laga um fjarskipti í desember síðastliðinn. Um frumvarpsdrögin bárust 14 umsagnir og tekið var mið af þeim við frágang frumvarps sem svo var lagt fyrir Alþingi síðasta vor. Það gekk til umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr. sem óskaði umsagna um málið og bárust henni alls 13 umsagnir.

Af helstu breytingum og nýmælum frumvarpsins má nefna það nýmæli að kveða á um tímafresti til að ljúka markaðsgreiningum og efnisákvæði er varða álagningu kvaða sem fela í sér einföldun og er ætlað að draga úr fjölda álagðra kvaða og flækjustigi við málsmeðferð. Með frumvarpinu er hvatt til samstarfs markaðsaðila og til sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða og tilteknum ívilnunum heitið þeim sem byggja upp innviði. Fyrirtækjum sem eingöngu selja aðgang að innviðum í heildsölu og starfa ekki á smásölustigi má segja að sé ívilnað á þann hátt að á slík fyrirtæki er ekki unnt að leggja eins íþyngjandi kvaðir og á þau sem bæði selja heildsöluaðgang að innviðum og starfa á smásölustigi.

Ný kvöð bætist við sem felst í því að Póst- og fjarskiptastofnun getur, við tilteknar aðstæður ef aðrar kvaðir hafa ekki reynst fullnægjandi, svo sem um aðgang að mannvirkjum, lagnaleiðum, netum eða þjónustu, kveðið á um aðskilnað rekstrareininga fyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk. Þá skal fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverðan markaðsstyrk gefast kostur á að leggja fram tilboð um skuldbindingar varðandi sameiginlegar fjárfestingar, aðskilnað, starfsemi og almennar kvaðir. Slík tilboð geta leitt til þess að kvöðum verði létt af fyrirtækjunum að einhverju leyti.

Samkvæmt Kóðanum verða heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og SMS ákveðin fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið, en þetta mun einfalda stjórnsýslu hér á landi enda framvegis óþarft fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að framkvæma greiningu og taka ákvörðun um verð. Þessu tengt er vert að nefna að BEREC-reglugerðin kveður á um hámarkssmásöluverð á millilandasímtölum og SMS innan Evrópska efnahagssvæðisins sem er viðbót við þegar gildandi ákvæði um hámarksverð fyrir reiki á EES-svæðinu. Sú breyting kann að valda markaðsaðilum einhverjum tekjumissi en neytendur njóta á móti góðs af.

Í ákvæðum frumvarpsins endurspeglast aukin áhersla á aðgengi neytenda að upplýsingum og samanburði á verði og gæðum fjarskiptaþjónustu, svo og stöðlun viðskiptaskilmála. Lagt er til að hámarksbinditími samninga um fjarskiptaþjónustu við neytendur verði lengdur úr sex í 12 mánuði og að neytendavernd verði m.a. aukin með lögfestingu sérákvæðis um pakkatilboð.

Gert er ráð fyrir að þjónustutegundum innan alþjónustu fækki frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir í samræmi við breytta nálgun í Evrópuregluverkinu. Neytendum skuli þó eftir sem áður tryggður aðgangur að nothæfri nettengingu og símaþjónustu með tilgreindum gæðum á viðráðanlegu verði.

Frumvarpið gerir ráð fyrir fyrirsjáanleika til 20 ára að því er gildistíma tíðniréttinda varðar eða að lágmarki til 15 ára í samræmi við Kóðann. Þá er með frumvarpinu lagt til að opnað verði á framsal og leigu tíðniheimilda milli markaðsaðila.

Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun fái heimild til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota á fjarskiptalögum, en samkvæmt gildandi lögum getur stofnunin einungis lagt á dagsektir. Með frumvarpinu eru jafnframt lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, en Kóðinn geymir ný ákvæði um eftirlit og stofnanafyrirkomulag á fjarskiptamarkaði.

Síðast en ekki síst er Kóðanum m.a. ætlað að stuðla að hagkvæmri uppbyggingu 5G-kerfa í Evrópu en þau verða, auk ljósleiðarakerfa, grunnstoð fyrir fjórðu iðnbyltinguna og hlutanetið. Við Íslendingar höfum verið meðal forysturíkja á síðustu árum í uppbyggingu fjarskiptainnviða og er fullur vilji til þess að svo verði áfram. Hagkvæm uppbygging og öryggi eru þeir lykilþættir sem stjórnvöld leggja nú áherslu á. 5G-kerfi verða miðtaugakerfi samfélags framtíðar og er í frumvarpinu tekið mið af þeim vaxandi kröfum sem mörg ríki telja sig nú knúin til að gera í því skyni að efla öryggi innviða sinna, þar á meðal 5G farnetsþjónustu. Alþjóðlega er í þessu sambandi lögð áhersla á áhættugreiningu og að þjónustan megi ekki verða of háð einum birgi eða framleiðanda búnaðar og að gera þurfi sérstakar öryggiskröfur vegna afmarkaðra hluta fjarskiptakerfa.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um öryggishagsmuni vegna uppbyggingar farneta sem byggir á skýrslu og tillögum starfshóps þriggja ráðuneyta, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Ákvæðið var útfært í samráði við utanríkis-, dómsmála- og forsætisráðuneyti og tekur m.a. mið af evrópskum ráðleggingum frá því í lok janúar á þessu ári um hvernig standa beri að því að bæta öryggi 5G-farneta. Fylgst hefur verið með þróun þessara mála undanfarna mánuði í öðrum ríkjum Evrópu og gefur hún ekki tilefni til breytinga á ákvæðinu.

Þar sem við hefur átt hafa upplýsingar verið uppfærðar, í endurfluttu frumvarpi, til samræmis við áorðna þróun frá því að mælt var fyrir því síðasta vor. Breytingar á efnisákvæðum eru smávægilegar.

Á meðal skilgreindra verkefna fimm ára fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2019–2023 er að innleiða nýtt heildarregluverk í fjarskiptum svo fljótt sem kostur er. Lagt er til að gildistaka nýrra fjarskiptalaga verði í ársbyrjun 2021 og uppfærðar meginefnisreglur á fjarskiptamarkaði öðlist þar með gildi á svipuðum tíma og Kóðinn mun gera á meginlandi Evrópu.

Ýmis ákvæði gildandi fjarskiptalaga, nr. 81/2003, og frumvarpsins eiga rætur að rekja til annarra EES-gerða um fjarskipti sem gilda munu samhliða nýja fjarskiptapakkanum. Í greinargerð með ákvæðum frumvarpsins er uppruna einstakra ákvæða gerð skil.

Ljóst má vera að heildarendurskoðun fjarskiptalöggjafar kallar á endurmat gildandi reglna og reglugerða og í kjölfarið setningu nýrra reglna og reglugerða og er undirbúningsvinna komin af stað.

Frumvarpið er brýnt. Eftirspurn er eftir því meðal markaðsaðila og verði það samþykkt mun það stuðla að aukinni samkeppnishæfni Íslands, aukinni neytendavernd og framþróun á íslenskum fjarskiptamarkaði.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.



[16:40]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum eytt töluverðum tíma í að ræða netöryggismál hér á Alþingi og samþykktum fyrir stuttu lög um netöryggi. Það fer ekkert á milli mála að þetta er stórt mál í sjálfu sér og verður æ mikilvægara eftir því sem tíminn líður. Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd, sem mun fjalla um þetta ágæta frumvarp, og líka í utanríkismálanefnd og mig langar aðeins að fá ráðherra til að bregðast við einföldum spurningum eða hugleiðingum mínum. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á að farnetskerfi á landsvísu séu eða geti orðið mjög háð búnaði frá einum framleiðanda…“ — Þarna er verið að girða fyrir það, eins og horfir kannski að sumu leyti nú í uppbyggingu 5G-farnetkerfisins, að það verði einn eða fáir sem verði mjög ríkjandi í kerfinu. Hér er verið að fela matið á þessu í hendur Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá er spurningin: Er það rétti farvegurinn? Er það matsaðilinn? Eða á það að vera einhver hópur ráðuneyta eða þjóðaröryggisráð sem metur þetta í raun og veru?

Og áfram er sagt í frumvarpinu:

„Að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu…“ — Það er líka lagt í hendur þessara aðila að meta ákveðna þætti í netöryggismálum. Og þá spyr ég: Er ekki alveg eins rétt að þjóðaröryggisráð komið að því líka? Þetta eru nú ekki flókin atriði.

Mig langar að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þessu.



[16:42]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ágætisspurningar og vangaveltur. Það er rétt, sem þingmaðurinn segir, að þetta er mikið að vöxtum, frumvarpið er heil bók með greinargerð og skýringum. Ákvæðið sem hv. þingmaður spyr út í er í raun og veru ákvæði 87. gr. frumvarpsins. Í máli mínu kom fram að það eru þrjú ráðuneyti sem koma að samningu þess auk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. dómsmála-, utanríkis- og forsætisráðuneyti. Sérfræðingar þessara ráðuneyta starfa nú í raun með sérfræðingum Póst- og fjarskiptastofnunar að þessu mati, hvar hugsanlegir veikleikar eða áskoranir eru þar sem menn þurfa að velta vöngum yfir og gera sérstakar kröfur til búnaðar tiltekinna hluta í kerfinu öllu, það þarf að vera frá aðilum sem við störfum í varnar- og öryggissamstarfi við. Og einnig hitt að tryggja með hvaða hætti við getum tryggt að búnaður verði ekki fyrst og fremst frá einum aðila því að það er kannski stærsta ógnin í öllu, að verða svo háður einum framleiðanda að allt kerfið sé háð einu stórfyrirtæki. Ég held að sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar séu fremstir meðal jafningja í að meta þann þátt í það minnsta.



[16:44]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og er honum vel sammála. Eflaust eru sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar tæknilega séð hershöfðingjarnir í þessu máli. En ég spyr engu að síður — af því að ég var að nefna þjóðaröryggisráð, ég veit að búið er að víkka út, ef ég má orða það þannig, starfssvið þess ráðs, öryggismál eru orðin miklu meira en bara það sem við höfum venjulega tengt því, sem tengist vörnum og hernaði og öðru slíku — hvort það væri ekki eitthvert hlutverk þjóðaröryggisráðs sem tengdist þessu netöryggi í fjarskiptalögunum. Ég gæti alveg séð fyrir mér það hlutverk. Þar koma aðeins fleiri við sögu en fulltrúar ráðuneyta Póst- og fjarskiptastofnunar. En þetta er atriði sem við eigum eftir að fjalla um í nefndinni. Við gerum það auðvitað, en mig langar að fá skoðanir ráðherra á þessu.



[16:46]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að netöryggismál eru klárlega þjóðaröryggismál og heyra þar af leiðandi þar undir einnig, þau snúast ekki bara um tækni, en tæknin er kannski stór þáttur. Að mati erlendra fræðimanna og nálgun ráðuneytisins, sem sér sannarlega um tækniuppbygginguna og stýrir þeirri uppbyggingu, þá snúast þau fyrst og fremst um áhættustýringu. Þess vegna er það upplegg okkar að ekki sé ásættanlegt að allir íhlutir miðtaugakerfis samfélags framtíðarinnar, svo maður taki háleitt til orða, séu frá sama framleiðanda og þar af leiðandi við öll algerlega háð þekkingu og þjónustu viðkomandi aðila. Það virðist vera almenn sátt um það í kerfinu að einingar þurfi að vera frá mismunandi framleiðendum og í frumvarpinu er hvatt til samstarfs, sem er nýjung í hinu evrópska regluverki, það sé ekki eingöngu litið á samkeppni heldur einnig samstarf og samvinnu fyrirtækjanna. Það er líka almennt miðað við að sumir hlutar farnetskerfanna séu viðkvæmari en aðrir og þess vegna þurfi að gera mismiklar kröfur til öryggis og trausts og þess vegna koma tvö ráðuneyti að; utanríkisráðuneyti vegna öryggishagsmuna og dómsmálaráðuneytið vegna almannahagsmuna, almannavarna, út af þessum þáttum.

Það geta hins vegar vel verið mismunandi skoðanir á því hvernig skilgreina eigi kröfur til öryggisíhluta og trausts á framleiðendum og í hvaða hlutum farnetskerfa megi nota íhluti sem ekki er borið fullt traust til. Ráðuneytið hefur auðvitað fylgst með þessari tækniþróun og umræðu í nágrannaríkjum okkar með það að markmiði að tryggt sé að hér verði byggt upp farnetskerfi sem við og samstarfsríki okkar getum borið fullt traust til.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.