151. löggjafarþing — 11. fundur
 20. október 2020.
bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum, 1. umræða.
stjfrv., 211. mál (lokauppgjör). — Þskj. 212.

[16:48]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. Þau lög voru sett hér á Alþingi í kjölfar umræðu um aðbúnað barna á vistheimilinu Breiðavík á ofanverðri 20. öld. Með lögum nr. 26/2007 var mælt fyrir um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn og þannig skapaðar forsendur til samfélagslegs uppgjörs vegna aðbúnaðar barna á vistheimilum á árum áður. Í kjölfarið voru sett lög nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum, sem falla undir lög nr. 26/2007. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga er skilyrði þess að unnt sé að krefjast sanngirnisbóta að fyrir liggi skýrsla vistheimilanefndar um viðkomandi stofnun og að auki innköllun sýslumanns.

Vistheimilanefnd vann vandaðar skýrslur um fjölda vistheimila og í kjölfarið voru greiddar sanngirnisbætur til einstaklinga á grundvelli umsóknar. Síðasta skýrsla vistheimilanefndar frá árinu 2016 fjallaði um Kópavogshæli. Var nefndinni falið að lýsa starfsemi hælisins að því er varðaði vistun fatlaðra barna sem þar dvöldust. Í skýrslunni komu einnig fram tillögur nefndarinnar um framhald hvað varðar aðrar stofnanir þar sem fötluð börn voru vistuð. Vistheimilanefnd hefur kannað almennt starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn en aðeins fjallað um vistun fatlaðra barna á einni opinberri stofnun, Kópavogshælinu.

Markmið þessa frumvarps er að gera kleift að ljúka bótauppgjöri vegna fatlaðs fólks sem vistað var á barnsaldri á öðrum stofnunum sem hið opinbera bar ábyrgð á. Ekki er talin ástæða til að leggja í jafn ítarlegar og tímafrekar úttektir á þeim stofnunum sem út af standa og í fyrri málum eða að gefa út fleiri skýrslur vistheimilanefndar heldur er litið svo á að nægileg vitneskja sé fyrir hendi í þeim skýrslum og rannsóknum sem unnar hafa verið um tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi stofnana og um það sem fór úrskeiðis eða betur mátti fara. Því má segja að með skýrslum vistheimilanefndar hafi þegar farið fram ákveðið uppgjör við fortíðina og þannig skapast grundvöllur til að taka á einfaldari og fljótlegri hátt en áður afstöðu til erinda frá því fólki sem var vistað á barnsaldri á stofnunum fyrir fatlað fólk og telur sig hafa orðið fyrir illri meðferð og ofbeldi í þeirri vistun.

Með frumvarpinu er stefnt að því að ljúka megi samfélagslegu uppgjöri vegna þeirra stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður, það verði gert á einfaldari og fljótlegri hátt en áður, sem gæti orðið til verulegra hagsbóta fyrir þessa einstaklinga þar sem unnt verður að skoða og afgreiða mál þeirra á mun skemmri tíma en til þessa.

Meginefni frumvarpsins er fjórþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að í lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur, verði ekki lengur vísað til laga nr. 26/2007, þ.e. laganna um vistheimilanefnd, og skýrsla vistheimilanefndar verði ekki skilyrði þess að tilteknar bótakröfur verði teknar til meðferðar. Lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, verði felld brott. Ekki er talin þörf á frekari könnunum nefndar samkvæmt lögunum og eins og ég sagði áðan má líta svo á að nægjanleg vitneskja sé fyrir hendi um almennan tíðaranda, viðhorf og uppbyggingu og starfsemi. Í öðru lagi verði nánar afmarkað hvaða kröfur verði unnt taka til meðferðar, bæði hvað varðar tegund stofnana, tímabil og hvernig meðferð bótakrafna skuli háttað. Lagt er til að miðað verði við sama tímamark og gert var varðandi Kópavogshælið, þ.e. til 1. febrúar 1993, að ekki skipti máli hvort viðkomandi stofnun hafi starfað lengur en til 1993. Ekki skiptir heldur máli þótt enn sé við lýði annars konar starfsemi undir sama heiti, svo sem sambýli eða búsetukjarni. Tillaga um þetta tímamark byggist á jafnræðissjónarmiðum og eins þeim breytingum sem urðu á búsetumálum fatlaðs fólks og þjónustu við fötluð börn í tengslum við gildistöku laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992 og árunum þar í kring. Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að greiða bætur í einu lagi án tillits til bótafjárhæðar. Gildandi lög kveða á um að bætur greiðist út á allt að 36 mánuðum. Loks er lagt til að lögum nr. 47/2010 verði markaður ákveðinn líftími. Þau falli brott að þremur árum liðnum frá gildistöku breytinganna. Gert er ráð fyrir að megnið af bótauppgjöri fari fram á komandi ári og ætti þriggja ára tímabil að reynast nægur tími til að ljúka afgreiðslu mögulegra kærumála og hnýta aðra lausa enda. Með því verði lokið eins og frekast er unnt samfélagslegu uppgjöri við þetta tímabil í sögu þjóðarinnar.

Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað á bilinu 414–469 millj. kr. sem skiptist í fjóra þætti. Í fyrsta lagi eru það sanngirnisbætur sem áætlað er að taki til 80 til 90 einstaklinga og komi að mestu til greiðslu árið 2021. Sé tekið mið af bótagreiðslum vegna Kópavogshælis má gera ráð fyrir að meðalbætur verði tæplega 5 millj. kr. og heildarbótagreiðslur um 390–440 millj. kr. Í öðru lagi er kostnaður vegna starfstengiliðar vistheimila í að hámarki 12 mánuði, 15–20 millj. kr. Í þriðja lagi er áætlað að kostnaður vegna starfa úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur verði 4 millj. kr. sem dreifist á þetta þriggja ára tímabil. Og loks er gert ráð fyrir kostnaði við aðkeypta sérfræðiráðgjöf, um 5 millj. kr.

Ákveðin óvissa var um afdrif þessa frumvarps þar sem það var á þingmálaskrá á síðasta vorþingi en það var ákvörðun mín að fresta framlagningu þess vegna heimsfaraldurs. Mikil óvissa var þá um þingstörf og ýmis önnur mál máttu víkja vegna brýnna mála sem tengdust heimsfaraldri. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna málsins í fjárlagafrumvarpinu en tillaga um viðbótarútgjöld verður lögð fram fyrir 2. umr. fjárlaga með væntingum um að þingið muni ljúka afgreiðslu málsins.

Frú forseti. Ég tel að með því að flytja þetta frumvarp sýni ríkisstjórnin í verki að hún taki alvarlega það sem fram hefur komið í umræðum og skýrslum vistheimilanefndar að víða hafi verið pottur brotinn í aðbúnaði, umönnun og velferð fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum á árum áður. Ég ætla ekki að fara út í upplestur úr fyrri skýrslum, ég vænti þess að hv. þingmenn hafi kynnt sér efni þeirra því að þar liggur fyrir gríðarlega mikið efni og margar sláandi lýsingar. Þessu frumvarpi er ætlað að ljúka með sómasamlegum hætti uppgjöri sanngirnisbóta til þeirra sem voru vistuð á barnsaldri á stofnunum fyrir fötluð börn og þar með eins og frekast er unnt samfélagslegu uppgjöri vegna þessa.

Ég hygg að allir þingmenn geti verið sammála um að hér er um að ræða mikilvægt mál sem er nauðsynlegt að taka til umræðu og þinglegrar meðferðar og ég vonast að sjálfsögðu eftir því að Alþingi geti sameinast um að ljúka þessum málum með þeim hætti.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari.



[16:57]
Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að kynna þetta frumvarp og hef spurningar til hennar um nokkur atriði. Það kom eins og reiðarslag yfir þjóðina fyrir rétt um 13 árum þegar þetta mál kom fyrst upp á borðið í tilefni af sjónvarpsþætti, þar sem fjallað var um tiltekið heimili úti á landi þangað sem börn voru send á vegum ríkisins til dvalar og meðferðar, ef svo mætti segja, og í ljós kom að þar var ýmis misbrestur á. Síðan eru liðin mörg ár, frumvarp var lagt fram og greiddar hafa verið sanngirnisbætur eins og hæstv. ráðherra hefur farið yfir, og þetta er svokallað lokauppgjör.

Einnig hafa komið fram umsóknir frá öðrum aðilum, ekki margar, vegna ýmissa annarra heimila sem ekki voru á vegum ríkisins, voru einkaheimili eða einhvers konar sjúkrastofnanir og sveitaheimili í einkaeigu sem tóku við börnum, oft á vegum opinberra aðila, ríkisins, sveitarfélaga, barnaverndarnefnda eða félagslegra aðila. Fram hafa komið upplýsingar um að meðferðin þar hafi í einstaka tilfellum hugsanlega ekki verið nægilega góð. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er ætlunin, þó að þetta heiti lokauppgjör, að taka þetta eitthvað til meðferðar? Ekki er um mörg tilvik ræða, ekki um mörg heimili að ræða, en er ekki rétt, vegna þess að þetta hefur (Forseti hringir.) gengið vel hingað til, að klára þetta mál algerlega?



[16:59]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Ég tók það ekki fram hér en vistheimilanefnd hefur fjallað um töluvert margar stofnanir. Það var vistheimilið á Breiðavík sem ég nefndi en einnig Heyrnleysingjaskólann, vistheimilið Kumbaravog, skólaheimilið Bjarg, vistheimilið á Silungapolli og í Reykjahlíð, heimavistarskólann á Jaðri, upptökuheimili ríkisins á tveimur ólíkum tímabilum, meðferðarheimilið í Smáratúni og á Torfastöðum, og svo Kópavogshæli sem er þá nýjasta skýrslan. Þau heimili sem ætlað er að ná til hér eru ekki eingöngu heimili sem voru rekin af ríkinu heldur heimili sem voru þá rekin, með leyfi ríkisins, af sveitarfélögum eða einstaklingum. Við teljum okkur hafa nokkuð góða yfirsýn yfir hvaða staðir þetta voru og ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari mjög ítarlega yfir þann lista en þar er um að ræða á annan tug heimila og af þeim sökum vonumst við til að hægt sé að kalla þetta lokauppgjör. En ætlunin er sú að taka til þá aðila sem dvöldust sem börn á heimilum sem ýmist voru rekin af ríki, sveitarfélögum eða með leyfi opinberra aðila. Það kann þá að rúma það sem hv. þingmaður spyr um. Ég skil mætavel áhyggjur hans í þessum efnum, þær eru sambærilegar mínum. Ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari nokkuð ítarlega og nákvæmlega yfir þennan þátt.



[17:01]
Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Þetta hefur tekið 13 ár — mikil vinna, miklir fjármunir — og það lítur út fyrir að við séum loks að lenda þessu en yfir 1.000 umsóknir hafa borist. Ég held að óhætt sé að segja að þetta hafi verið unnið vel og menn eru ánægðir með hvernig staðið hefur verið að málum af hálfu ríkisins. Eins og hæstv. ráðherra sagði er þar fyrir utan um að ræða á annan tug aðila sem tóku börn til fósturs á vegum opinberra aðila. Ég tel að ekki sé hægt að setja punkt, frú forseti, við þessi mál í fortíðinni fyrr en búið er að klára það allt algerlega. Ef það er svona lítið sem stendur út af, fá tilvik, fáir aðilar og fá heimili, og búið að leggja alla þessa vinnu í þessi mál, þarf þess þá heldur að klára þetta alfarið. Það væri sómi að því fyrir okkur, fyrir löggjafarsamkunduna og fyrir ríkisvaldið, að þetta verði klárað. Þessi börn, ég hef heyrt dæmi þess, voru sannarlega send á þessa staði á vegum opinberra aðila og þó að um einkaheimili hafi verið að ræða þarf að klára málið og rannsaka það. Auðvitað er langt um liðið og þetta er erfitt, en ekkert erfiðara en þau mál sem voru hér fyrir upphaflega í þessu máli. Ef þetta eru svona fá tilvik og fá heimili þá hvet ég hæstv. ráðherra til að setja endapunktinn í þessu máli og klára það alfarið. Það er skömm fyrir okkur sem þjóð að hafa þetta í fortíðinni. Við verðum að klára þetta alla leið.



[17:03]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi, og það væri mikill sómi að því fyrir Alþingi, að ljúka þessum málum með myndarlegum hætti. Það er fjallað um þetta í greinargerðinni. Þar er vitnað í skýrsluna um Kópavogshæli. Ég vil taka undir með hv. þingmanni, mjög mikil vinna hefur verið lögð í margar af þessum rannsóknum. Þar er verið að fjalla um sjálfseignarstofnanir en líka stofnanir sem er álitamál hvernig eigi að skilgreina, hvort kalla eigi þær sambýli eða einkaheimili, fjölskylduheimili. Hér er vitnað sérstaklega til þess að fötluð börn voru vistuð á einkaheimilum til lengri og skemmri tíma. Ég vil sömuleiðis segja að þess eru dæmi að fötluð börn hafi verið vistuð langdvölum á sjúkrahúsum, einfaldlega vegna þess að það voru engin önnur úrræði. Þetta er svo sannarlega ekki einfalt mál að ná utan um. Ég veit líka að það eru margir einstaklingar sem bíða eftir þessu frumvarpi, sem hafa fylgst með þeirri vinnu sem hefur staðið yfir í 13 ár og hafa sagt mér, og vafalaust einhverjum öðrum hv. þingmönnum, sína reynslusögu. Ég ætla ekki að neita því að ég legg á það mikla áherslu að við getum einmitt lokið þessu með sómasamlegum hætti fyrir Alþingi og þannig gert upp við það fólk sem var vistað á þessum heimilum sem börn, fötluð börn.



[17:04]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta gríðarlega góða mál sem tengist nauðsynlegu og þörfu uppgjöri okkar sem samfélags við þær misgjörðir og þá vanrækslu sem börn bjuggu við. Við skulum halda því til haga og muna að þau börn sem bjuggu við verstu aðstæðurnar voru þau börn sem voru í erfiðustu félagslegu aðstöðunni, þ.e. bjuggu við fátækt, voru börn einstæðra mæðra, fötluð börn o.s.frv. sem áttu erfitt bakland.

En hv. þm. Karl Gauti Hjaltason kom eiginlega inn á það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra um, þ.e. um afstöðu hennar varðandi þau börn sem myndu lenda utan þess sem lagafrumvarpið á að ná utan um og hvort lokauppgjörið sem talað er um í lagafrumvarpinu sé endanlegt eða hvort það sé að hennar mati rými fyrir þingið til að útvíkka þetta hugtak um lokauppgjör og hvort það sé þá eitthvert rými enn þá til að ná yfir þau börn sem voru vistuð á einkaheimilum af hálfu barnaverndanefnda í sveitarfélögum sem vissulega eru opinberir aðilar sem höndluðu með börn og þeirra örlög.

Að einhverju leyti hefur hæstv. forsætisráðherra svarað þessari spurningu hér í andsvari við hv. þingmann. En ég myndi gjarnan vilja heyra skoðun hennar á því hvort enn þá sé rými fyrir þingið til að stíga þarna inn í og útvíkka hugtakið eða koma með öðrum hætti að því að kanna þessi börn og hagi þeirra og hvort þurfi að fara í nánara uppgjör gagnvart börnum sem lenda utan laganna.



[17:07]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom að hér áðan er verið að horfa til þeirra vist- og meðferðarheimila sem voru rekin af ríki eða sveitarfélögum eða af hálfu einkaaðila en ávallt með aðkomu ríkisins, þ.e. með leyfi ríkisins. Bara svo að það sé skýrt er ekki verið að horfa til þeirra sem voru sendir til einkaheimila af öðrum einkaaðilum. Það væri náttúrlega illmögulegt að ná utan um það. Þarna er verið að horfa til þeirra ráðstafana sem hið opinbera greip til enda er það þar sem skylda okkar liggur, þ.e. að gera upp við framgöngu hins opinbera gagnvart þessum börnum á sínum tíma, en þau voru auðvitað líka send á einkaheimili. Það er horft til þess í skilningi laganna frá 2007, þ.e. vist- og meðferðarheimila sem voru rekin af ríki eða sveitarfélögum eða af hálfu einkaaðila á grundvelli opinbers leyfis. Og það var auðvitað töluvert um það.

Eins og ég fór yfir hér áðan er búið að vinna ítarlegar skýrslur um ýmsar aðrar stofnanir sem gefa okkur í raun og veru þennan grundvöll til að standa á. Og það var niðurstaða mín eftir að hafa farið yfir skýrsluna um Kópavogshælið — og það er eitthvað sem mér finnst líka mikilvægt að þingið ræði og að sjálfsögðu þarf þingið að fara vel yfir þetta mál því að þetta er mikilvægt mál — að ekki væri þörf á fleiri rannsóknarnefndum heldur skiptir máli að viðurkenna það sem við höfum þegar gert, sem er mjög ítarlegt og sýnir svo vel í raun og veru hvers við getum vænst. Vafalaust hefur það verið eitthvað mismunandi á milli heimila en eigi að síður getum við dregið allalmennar ályktanir af þeim skýrslum sem liggja fyrir. Mér fannst skilaboðin sem ég vildi senda með þessari ákvörðun vera að við vildum ljúka þessu uppgjöri, að við vildum ekki verja fleiri árum í rannsóknir, að við hefðum nóg gögn til að byggja á.



[17:09]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svar hennar. Ég er sammála henni í því að nauðsynlegt er að setja einhvers staðar punkt fyrir aftan þá gríðarlega góðu og ítarlegu vinnu sem hefur farið fram á aðbúnaði barna sem voru á heimilum sem þau voru send á af hálfu opinberra aðila. Ég vil kannski nota tækifærið til að beina því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að horfa til þess hvort lagafrumvarpið sem hér um ræðir gefi einhver tilefni til þess að vera einhvers konar fordæmi fyrir þá sem vísað var á einkaheimili af hálfu barnaverndarnefndar í viðkomandi sveitarfélagi og telja sig eiga einhvern rétt.

Eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á er vinnan sem hefur átt sér stað búin að vera löng og ströng, ítarleg og góð en erfið. En um leið hefur hún verið nauðsynleg til að bæta vinnubrögð í barnaverndarmálum og þeim málefnum sem snúa að góðum aðbúnaði hjá börnum og líka vanrækslu. Ég myndi því gjarnan vilja heyra kannski örstutt undir lokin hjá hæstv. forsætisráðherra, þó að við höfum lítinn tíma, hvernig hún sér þá vinnu sem búið er að fara í, hvort hún muni ekki nýtast okkur í þeirri lagaumgjörð sem við erum að reyna að bæta hér alla daga, vonandi, á þingi.



[17:11]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Kannski fyrst almennt um umgjörð mála sem lúta að uppgjöri ríkisins við þá sem hafa verið órétti beittir. Ég tel að við byggjum á mjög góðri reynslu af því hvernig tekist hefur til og ég held að töluverð þekking sé á þeim málum innan stjórnkerfisins. Ég tel því að við byggjum á sterkum grunni. Það er m.a. líka ástæða þess að mér fannst mikilvægt að koma með þetta mál inn. Þetta er mikilvægt mál, þetta er réttlætismál og það er líka mikilvægt að við missum ekki niður samfelluna í því starfi sem hefur verið unnið hingað til hvað varðar þessi mál.

En ef hv. þingmaður er að velta fyrir sér lagaumgjörðinni sem við erum með núna, hvað varðar börn núna, held ég að þar sé auðvitað líka úrbóta þörf þó að ótrúlega margt hafi breyst til batnaðar frá því sem var. Félags- og barnamálaráðherra er með mál á þingmálaskrá í vetur sem lúta að því hvernig tryggja megi velsæld barna og styðja betur við allt umhverfið í kringum börnin okkar sem ég held að sé mikið framfaramál. Þingið fær því í vetur ekki bara tækifæri til að takast á við örlög barna í fortíðinni heldur líka örlög barna til framtíðar. Og ég held að þar séu heilmikil tækifæri til úrbóta þótt auðvitað hafi gríðarlega margt gott gerst í þessum málum á undanförnum árum og áratugum.



[17:13]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt heldur árétta örlítið það sem hér hefur komið fram og bæta kannski eilitlu við. Hér áður fyrr voru svokölluð ólátabörn eða ólátaunglingar oft send í sveit. Það var talið styrkja þau og efla og gera þau að mönnum, eins og sagt var. Þess vegna þótti á þessum tíma kannski ekki tiltökumál þótt hið opinbera sendi eða ráðlagði það að senda krakkana, börn sem voru kannski erfiðari en mörg önnur, á heimili á vegum ríkisins. Það þótti ekkert stórmál hér á sjötta áratug síðustu aldar. Enginn vissi kannski nákvæmlega eða gerði sér rellu yfir því á þeim tíma hvað þar fór fram og hvað gerðist meðan á þessari dvöl stóð. Við vorum vakin upp við illan draum 2. febrúar 2007 þegar í Kastljóssþætti Ríkisútvarpsins var fjallað sérstaklega um heimilið í Breiðavík og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ríkisstjórnin flutti mjög fljótlega frumvarp um að þetta yrði skoðað. Þá kom í ljós, frú forseti, að víðar var pottur brotinn á þessum heimilum sem voru oftast nær rekin á vegum ríkisins eða opinberra aðila annarra. Meðferð á börnum var oft misjöfn og einkenndist af mikilli hörku oft á tíðum og jafnvel misþyrmingum og þaðan af verra. Það er kannski allt of langt mál að fara nákvæmlega út í það. Það hefur verið gert síðustu 13 árin með mjög vönduðum hætti, að ég tel.

Nú horfum við fram á það að þessu máli sé senn að ljúka. Það voru tekin, held ég, átta heimili í byrjun og svo var bætt við tveimur eða þremur. Þetta var Breiðavík, þetta var Heyrnleysingjaskólinn, Kumbaravogur, Bjarg, Reykjahlíð, Jaðar, Silungapollur, Upptökuheimili ríkisins, Unglingaheimili ríkisins. Síðar var bætt við, held ég, Landakotsskóla og Kópavogshæli. Þetta fékk allt saman vandaða meðferð á grunni laga sem voru sett hér síðar, 2010, og skipuð sérstök nefnd og fulltrúi í ráðuneytinu og síðan var einu ákveðnu sýslumannsembætti falið að greiða út bætur eftir mati og álitum. Þetta hefur allt gengið í gegnum þessi ár öllsömul. Nú horfum við fram á að þessu sé lokið.

Það sóttu mjög margir um, aðilar sem höfðu dvalið á þessum heimilum, og fengu úrlausn sinna mála eða einhvers konar úrlausn, oft og tíðum í formi bóta, sanngirnisbóta svokallaðra, en einnig faglega aðstoð og þeim var leiðbeint um það hvar þau gætu leitað að faglegri aðstoð. Ég hrósa öllum framgangi þessa máls eins og hann lítur út. Þótt ég þekki alls ekki öll tilvik eða hvort einhver sé óánægður þá tel ég að við höfum staðið sig eins vel að þessu og við gátum. Það var hins vegar 69 umsóknum hafnað, miðað við þessa skýrslu sem ég er hér með. Það var auðvitað af ýmsum ástæðum, kannski vegna einhvers misskilnings o.s.frv. Þarna sitja samt eftir tugir tilvika eða umsókna þar sem um er að ræða börn sem, eins og ég nefndi í andsvörum áðan, voru send á vegum opinberra aðila, barnaverndarnefnda, félagsmálayfirvalda o.s.frv. eða samkvæmt ráðgjöf þeirra, börn sem voru í höndunum á opinberum aðilum eða í umsjá þeirra, á einkaheimili eða einhvers konar millistig þar á milli. Þau voru, eins og sum dæmi sanna, send fram og til baka á heimili og síðan tekin þaðan aftur og send á eitthvert annað heimili. Ég hef heyrt sögur af því. Þetta eru örfá tilvik. Ég vil skora á hæstv. ráðherra sem tók svo ansi vel í fyrirspurn mína í andsvari hér áðan varðandi það hvað skuli gera fyrir þetta fólk. Eigum við bara að segja að þessu sé lokið núna og skella á eftir okkur?

Ég held að það sé um svo stórt mál að ræða sem við erum búin að afgreiða að langmestu leyti að við getum ekki verið þekkt fyrir það, frú forseti, að skilja þennan litla hóp eftir. Það þarf að halda áfram þessari vinnu, hún gæti verið í höndunum á þessari nefnd eða einhverjum öðrum aðilum sem skipaðir væru til þess, og skoða þessi fáu tilvik sem eftir eru, rannsaka þau eins og hægt er þó að langt sé um liðið í mörgum tilvikum. Þessir aðilar njóti einnig þess að ríkið vilji greiða fyrir einhvers konar sanngirnisbætur eða afgreiða málið á faglegan hátt með tilvísun til sérfræðinga eða eitthvað slíkt. Við getum ekki verið þekkt fyrir annað en að klára mál alveg.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að þessu máli verði sinnt og við skiljum ekkert eftir í þessum efnum. Við höfum ekki efni á því. Þetta var það mikið áfall þegar í ljós kom hvernig var í pottinn búið víða, sem betur fer alls ekki alls staðar og alls ekki í öllum tilvikum, langt í frá, ég ætla ekki að mála þetta svo svart, en í mörgum tilvikum var það þannig. Við verðum að klára málið, fara með það alla leið.



[17:19]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og vil segja að það er alltaf erfitt að draga einhverja línu í sandinn, eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason hefur farið yfir. Hér er verið að horfa til barna sem voru geymd víða, bæði á einkaheimilum og heimilum reknum af sveitarfélögum og opinberum ríkisheimilum, en með því fororði að sú starfsemi hafi verið með leyfi ríkisins. Það er því spurning hvar á að draga slíka línu. Og af því að hv. þingmaður hvatti mig til að skoða þetta nánar þá held ég að næsta skref í þessu máli sé að nefndin taki þessar spurningar til skoðunar.

Ég er sammála hv. þingmanni, ég held ekki að hér sé um stóran hóp að ræða. Ég vil líka benda á að þau heimili sem ég taldi upp áðan hafa verið rannsökuð með mjög vönduðum hætti og ég vil taka undir með hv. þingmanni, mér hefur fundist vel að þessu verki staðið almennt, bæði hvað varðar þær rannsóknir og skýrslur sem hafa verið gerðar en líka hvað varðar framkvæmd laganna af hálfu hins opinbera. En það hefur einungis verið fjallað um vistun fatlaðra barna á einni opinberri stofnun sem er Kópavogshælið. Hins vegar teljum við okkur hafa nokkuð góða sýn yfir það hvar þau voru vistuð. Ég held að það sé mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki það til skoðunar sem hv. þingmaður hefur sagt. Ef það mál kallar á frekari skoðun þá erum við í forsætisráðuneytinu að sjálfsögðu boðin og búin til samtals við nefndina um það.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir umræðuna, frú forseti, og vona að þetta mál hljóti jákvæðar viðtökur í þinginu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.