151. löggjafarþing — 13. fundur
 21. október 2020.
fasteignalán til neytenda og nauðungarsala , 1. umræða.
frv. ÓÍ o.fl., 34. mál (nauðungarsala og eftirstöðvar). — Þskj. 34.

[15:51]
Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir um frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um nauðungarsölu. Frumvarpið er að eðli til svokallað lyklafrumvarp og er nú lagt fram á yfirstandandi þingi en hefur áður tvívegis verið lagt fram. Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna. þ.e. hlutaðeigandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef örvænt er um að önnur úrræði dugi. Frumvarpið er þannig mikilvægur liður í að dreifa áhættu í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántakenda. Með frumvarpinu er leitast við að reisa vörn í þágu heimilanna.

Herra forseti. Flutningsmenn frumvarpsins eru, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson, allt þingmenn Miðflokksins.

Frumvörp sem stefna að sama markmiði og frumvarp þetta hafa verið lögð fram a.m.k. sjö sinnum áður, það síðasta af minni hálfu á 150. löggjafarþingi og þar áður á því 149. Frumvarpið er nú endurflutt lítillega breytt, m.a. í ljósi ábendinga í umsögnum á fyrri árum. Það er upphaflega komið til að frumkvæði Hagsmunasamtaka heimilanna og er reist á sömu rökum og færð voru fyrir hinum fyrri frumvörpum sem ég hef lagt fram á síðustu tveimur þingum, en aftur á móti er farin nýstárleg leið við útfærslu þess með hliðsjón af nýlegri lagaþróun.

Herra forseti. Með frumvarpinu er gerð tillaga um hófsamlega breytingu sem getur þó haft mikla þýðingu fyrir neytendur í greiðsluerfiðleikum sem leiða til þess að þeir missa húsnæði sitt á nauðungarsölu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagsmunasamtökum heimilanna eru mál sem varða eftirstöðvar fasteignalána í kjölfar nauðungarsölu meðal þeirra algengustu sem rata inn til samtakanna og eru jafnvel dæmi um, samkvæmt upplýsingum þeirra, að neytendur séu enn krafðir um meintar eftirstöðvar þótt þær hafi fengist að fullu greiddar við nauðungarsölu. Þar sem nú er gerð sú krafa, í 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, að bjóða verði önnur úrræði áður en krafist er nauðungarsölu er líklegt að allt annað sé fullreynt áður en til þess kemur og verður að miða við að þá þegar liggi fyrir það mat lánveitanda að neytandi hafi ekki fyrirsjáanlega greiðslugetu til að standa undir þeim skuldbindingum sem á húsnæði hans hvíla. Í slíkum tilvikum er jafnan óhætt að álykta að skilyrði greiðsluaðlögunar séu sjálfkrafa uppfyllt hvað varðar niðurfellingu veðskulda umfram verðmæti fasteignar, sem er það sem þetta mál snýst um. Er það því til þess fallið að stuðla að skilvirkari úrlausn mála að eftirstandandi veðskuldir vegna fasteignalána skuli falla niður í kjölfar nauðungarsölu á hinni veðsettu fasteign neytanda, auk þess sem það myndi deila áhættu af lántöku á sanngjarnan hátt milli lántaka og lánveitanda.

Herra forseti. Nokkur orð um markmið þessa frumvarps, en það er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, eins og það heitir, þ.e. hlutaðeigandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær. Frumvarpið er þannig mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántaka. Það er einnig markmið frumvarpsins að stuðla að skilvirkri innleiðingu og framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17 frá 4. febrúar 2014 um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði o.fl. Alþingi samþykkti, með þingsályktun 18. nóvember 2019, að stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn, yrði aflétt. Efnisákvæði tilskipunarinnar hafa að mestu leyti verið lögfest hér á landi með lögum um fasteignalán til neytenda, sem ég gat um áðan. Með hliðsjón af þeim ábendingum sem hafa borist um framkvæmd laganna er stefnt að því að skerpa enn frekar á lögunum um fasteignalán til neytenda, eins og ég kem hérna að nánar á eftir, með það að markmiði að efla og skýra betur réttindi neytenda á þessu sviði.

Forseti. Nokkur orð til að skýra það úrræði sem hér er beitt til að ná þeim markmiðum sem ég hef lýst: Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði nokkurs konar efndaígildi. Þetta orð á sér latneskt heiti í fræðunum, datio in solutum, þ.e. efndaígildi í fasteignalánum. Það lýsir sér þannig að kröfusambandi kröfuhafa og skuldara lýkur með öðrum hætti en upphaflega var stefnt að með því að kröfuhafi viðurkennir aðra greiðslu sem fullnægjandi. Þannig gerir frumvarp þetta ráð fyrir því að kröfuhafa samkvæmt samningi um fasteignalán, þar sem endurgreiðsla lánsins er tryggð með veði í hinni keyptu fasteign, verði gert að samþykkja að afhending umræddrar eignar í hans hendur teljist fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara sem jafngildi því að skuldbindingin hafi verið efnd að fullu.

Miðað er við það, herra forseti, að á þetta reyni ekki nema í neyð, t.d. þegar greiðslufall hefur orðið af hálfu skuldara og lögbundinn réttur kröfuhafa til að leita fullnustu í kröfum sínum hefur orðið virkur.

Í skýrslu sem út kom á vegum hins alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækis London Economics frá árinu 2012, um úrræði til handa neytendum í fjárhagsörðugleikum, er ítarlega fjallað um efndaígildi á borð við það sem hér um ræðir. Þar kemur fram að sambærileg úrræði hafi lengi þekkst í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og hafi frá fjármálahruni rutt sér til rúms í Evrópu, einkum á Spáni. Jafnframt koma fram, í viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar frá 1. júní 2015, um vanskil og nauðungarsölur, nánari leiðbeiningar um hvernig fara skuli með slík mál. Af þessum evrópsku reglum má ráða að gerðarbeiðandi eigi að gæta fyllsta meðalhófs í slíkum aðgerðum gagnvart neytanda.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að nauðsyn þessarar lagasetningar og þeim kostum sem henni fylgja. Brýn nauðsyn þess að lögfesta úrræði á borð við það sem frumvarp þetta mælir fyrir um kom bersýnilega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 þegar gengi krónunnar hríðféll með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánssamningar urðu skuldurum ofviða. Verðlagsáhrif gengisfallsins höfðu sambærilegar afleiðingar fyrir verðtryggða lánssamninga, sem ruku upp úr öllu valdi eins og menn þekkja. Úrræðaleysið sem blasti við neytendum af hálfu stjórnvalda olli fordæmalausu uppþoti í samfélaginu sem dró dilk á eftir sér. Nauðsynlegt er að læra af reynslunni og innleiða raunhæf úrræði til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig. Að fenginni reynslu úr fjármálahruninu yrði til mikilla bóta að styrkja stöðu skuldara fasteignaveðlána með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Auk þess að færa skuldurum í hendur nauðsynlegt úrræði til að mæta ófyrirséðum fjárhagsörðugleikum myndi sú áhættudreifing sem í því felst hvetja lánastofnanir til að ástunda vandaðri lánastarfsemi en ella. Þannig er frumvarpið til þess fallið að gera að verkum að hagsmunir lánveitanda og neytanda færu saman umfram það sem nú er með því markmiði annars vegar að neytandi geti staðið undir afborgunum af fasteignaláni sínu og hins vegar að raunverulegt virði fasteignar verði ekki miklum mun minna en virði lánssamningsins heldur sambærilegt. Þannig yrði dregið úr líkum á myndun fasteignabólu í líkingu við þá sem varð á árunum fyrir hrun. Til langs tíma litið leiddi breytt umhverfi að þessu leyti til vandaðri lánastarfsemi, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Enn fremur má vísa til svars dómsmálaráðherra við fyrirspurn um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti og svars félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn um nauðungarsölur og greiðsluaðlögun þar sem kom fram að á undanförnum tíu árum hefðu a.m.k. 9.195 fasteignir einstaklinga verið seldar nauðungarsölu eða vegna greiðsluaðlögunar. Þessar upplýsingar komu fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hér á Alþingi. Án efa hafa fleiri fjölskyldur misst heimili sín eftir öðrum leiðum sem ekki liggja fyrir um neinar opinberar tölur.

Litlar varnir hafa verið reistar í þágu heimilanna þrátt fyrir þessa reynslu. Til vitnis um það segir í skýrslu dómsmálaráðherra, um framkvæmd sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu, þetta var á 149. löggjafarþingi, að ekki sé gætt sérstaklega að því hvort lánveitandi hafi fullnægt skilyrðum 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda við framkvæmd nauðungarsölu. Með frumvarpinu er ætlunin að gera úrbætur á þessu neytendum til hagsbóta.

Herra forseti. Nokkur orð um hina lagalegu útfærslu á þessu úrræði: Þar er til máls að taka að samkvæmt 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda er lánveitendum skylt að gefa neytendum kost á úrræðum, svo sem endurfjármögnun eða skilmálabreytingu láns, sem gætu leyst úr greiðsluerfiðleikum neytenda, áður en krafist er nauðungarsölu. Þannig er sá vilji löggjafans ljós að skipa nauðungarsölu þann sess að vera úrræði til þrautavara þegar um slík tilvik er að ræða og allar aðrar leiðir reynast ófærar, þar á meðal samningaleiðin. Þegar svo ber undir hlýtur fjárhagur neytanda jafnan að vera bágborinn með tilliti til skuldastöðu og er því málefnalegt að veita úrræði til að leysa neytanda sem svo er ástatt um undan slíkum byrðum, líkt og hefur verið leitast við í seinni tíð, í fyrsta lagi með lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, frá 2010, í öðru lagi með breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., líka frá 2010, og í þriðja lagi með lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, frá 2014.

Í þeim tilvikum þegar allt annað hefur verið fullreynt áður en krafist er nauðungarsölu má jafnan telja óhætt að álykta að skilyrði greiðsluaðlögunar séu sjálfkrafa uppfyllt hvað varðar niðurfellingu veðskulda umfram verðmæti fasteignar. Er það því til þess fallið að auka mjög á skilvirkni úrlausnar mála í slíkum tilvikum að samkvæmt frumvarpinu verði tekin upp sú meginregla að eftirstandandi skuldir vegna fasteignalána falli niður í kjölfar nauðungarsölu á fasteign neytanda. Við þessa útfærslu frumvarpsins hefur verið tekið mið af athugasemdum sem hafa komið fram á fyrri stigum, þar á meðal frá embætti umboðsmanns skuldara með vísan til laga um nauðungarsölu.

Samkvæmt 57. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, getur veðkröfuhafi sem ekki fær kröfum sínum fullnægt við nauðungarsölu ekki krafið skuldara um greiðslu eftirstöðva krafna sinna nema að því leyti sem hann getur sýnt fram á að markaðsvirði eignar á þeim tíma þegar nauðungarsala fór fram hefði ekki nægt til greiðslu þeirra. Þetta getur aðeins átt við í þeim tilvikum þegar söluverð eignar á nauðungarsölu er undir markaðsvirði hennar. Séu veðkröfurnar einnig undir markaðsvirði eignarinnar leiðir ákvæðið til þess að skuldari verður laus allra mála. Þetta gildir óháð tegund kröfu og á jafnt við um alla skuldara, hvort sem þeir eru lögaðilar eða einstaklingar. Séu veðkröfurnar aftur á móti hærri en markaðsverð hinnar veðsettu eignar getur skuldari setið uppi með að skulda enn þann hluta þeirra sem var umfram markaðsverðið og hefur glatað veðtryggingu í eigninni vegna nauðungarsölunnar. Sé um að ræða kröfur sem upphaflega stofnuðust vegna fasteignalána til neytanda myndi meginákvæði frumvarpsins sem hér er mælt fyrir leiða til þess að skuldari yrði þá engu að síður laus allra mála. Frumvarpið nær þó ekki til annarra tegunda krafna, enda er það ekki markmið þess heldur nær það eingöngu til krafna sem hafa stofnast á grundvelli fasteignalána til neytenda.

Verði frumvarpið að lögum gengur það því framar ákvæði 57. gr. nauðungarsölulaga þegar kröfur byggðar á samningi um fasteignalán til neytanda eiga í hlut. Ákvæðið heldur hins vegar gildi sínu gagnvart öðrum kröfum, til að mynda kröfum sem byggjast á samningi um fasteignalán til lögaðila. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að málsgrein bætist við 57. gr. nauðungarsölulaga þessu til skýringar. Til þess að stuðla að skilvirkari framkvæmd 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda eru enn fremur lagðar til ákveðnar breytingar á lögum um nauðungarsölu til að tryggja betur að skilyrði þeirrar greinar séu uppfyllt og vísast þar til 2.–5. gr. frumvarpsins.

Herra forseti. Þegar þessi mál eru uppi er ekki úr vegi að vekja athygli á yfirlýsingu stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, frá 6. október sl., þar sem þess er krafist að heimilin verði varin fyrir afleiðingum kórónuveirufaraldursins ekki síður en fyrirtæki. Í yfirlýsingunni segir að enginn, ekki ein einasta fjölskylda, eigi að eiga á hættu að missa heimili sitt af völdum Covid-19. Þau segja heimili landsins ekki vera afgangsstærð heldur meðal hornsteina samfélagsins. Hagsmunasamtökin leggja áherslu á að stjórnvöld dragi lærdóm af skelfilegum afleiðingum bankahrunsins og verji heimili landsins áður en skaðinn er skeður. Þá má bæta því við að það er auðvitað eðlilegt, af hálfu stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, að taka þetta upp með þessum hætti þegar við blasir mikill tekjusamdráttur hjá fjölda fólks og atvinnumissir sömuleiðis hjá fjölda fólks.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna segir í sinni ályktun að enda þótt margir hafi orðið atvinnulausir eftir hrunið hafi það ekki verið eini vandi þeirra þúsunda sem misstu heimili sín eftir hrun heldur frekar stökkbreyttar afborganir húsnæðislána, m.a. vegna verðtryggingar. Þetta reyndist þúsundum fjölskyldna ofviða þrátt fyrir að fólk væri í vinnu og yki við sig vinnu í viðleitni til að standa undir lánum.

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að þegar liðin séu tólf ár frá því að forsætisráðherra bað guð að blessa Ísland sé við hæfi að minna á skelfilegar afleiðingar aðgerðaleysis og vanhugsaðra aðgerða stjórnvalda fyrir heimili landsins. Þau mistök sem gerð voru þá mega aldrei endurtaka sig, segir í yfirlýsingu stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.

Í þessari yfirlýsingu, sem ég hef gert að umræðuefni, segir um aðgerðir vegna veirufársins að stjórn hagsmunasamtakanna krefjist þess að sett verði þak á verðbætur lána heimilanna í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Segja samtökin að sú aðgerð myndi ein og sér hjálpa mörgum heimilum. Samhliða því segja þau að stöðva verði nauðungarsölur á heimilum a.m.k. út næsta ár svo að þau heimili sem verða fyrir hvað mestum tekjumissi fái tækifæri til að vinna sig út úr tímabundnum erfiðleikum í því skjóli sem heimilið er. Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess jafnframt að þau, sem eini hlutlausi aðilinn á Íslandi með sérþekkingu á sviði neytendaverndar heimilanna á fjármálamarkaði, fái aðkomu að öllum ákvörðunum stjórnvalda um lausnir fyrir heimilin.

Ég ætla hér að taka undir þessar óskir og kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég get sjálfur borið vitni um það hvílík sérfræðiþekking er þar fyrir hendi á þessu málefnasviði.

Herra forseti. Mér hefur með fyrirspurnum til ráðherra á Alþingi tekist að afla upplýsinga um fjölda þeirra heimila sem tekin voru af fjölskyldum í eftirleik hrunsins, eins og rakið hefur verið hér að framan. Þá sést af svari við fyrirspurn sem ég lagði fram, um vægi húsnæðisliðarins í vísitölunni, að hann hefur á umliðnum árum að segja má reynst hin eiginlega vísitala, þrátt fyrir að vera ákveðin af opinberri skrifstofu úti í bæ án tillits til hagrænna sjónarmiða. Lunginn af verðbótaálagi á lán, miðað við það svar sem fram kom frá hæstv. fjármálaráðherra, verður rakinn til húsnæðisliðarins en ekki til almennra verðbreytinga sem vísitölunni var ætlað að endurspegla.

Ekki er rými hér til að rekja allan þann tillöguflutning sem ég hef leyft mér að hafa uppi hér á Alþingi um varnir í þágu heimilanna. Þó skal getið um frumvarp sem ætlað er að þrengja svo að vísitölunni að hún heyri sögunni til og ég ræði um aðgerðir sem saman mega kallast tangarsókn gegn vísitölunni og felast í afnámi húsnæðisliðar, afnámi áhrifa óbeinna skatta auk annarra aðgerða.

Herra forseti. Ég hef rakið efni, markmið og inntak þess frumvarps sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um nauðungarsölu. Það er alveg ljóst að heimilunum gæti verið alvarlegur háski búinn í því efnahagsástandi sem myndast hefur vegna hins alþjóðlega veirufaraldurs sem hefur lagst á okkur af miklum þunga. Það er alveg nauðsynlegt, herra forseti, að reistar séu fullnægjandi varnir í þágu heimilanna. Hér er gerð tillaga um hófsama en markvissa aðgerð sem í senn leiðir til þess að jafna á milli aðila áhættunni og hins vegar að stuðla að aukinni ábyrgð og vandaðri meðferð við útlán. Þetta er ekki bara hagsmunamál heimila. Þetta er hagsmunamál samfélagsins alls.



[16:18]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta mál, markmiðið er mjög gott, með leyfi forseta: „Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær.“ Þess vegna er þetta kallað lyklafrumvarp, fólk skilar lyklunum ef skuldirnar hafa vaxið veldisvexti, eins og verðtryggðar skuldir sem við sáum sérstaklega í hruninu og þessar sem voru tengdar erlendum gjaldmiðli. Fólk er því ekki taka þessa áhættu inn í framtíðina þannig að lífið endi í rúst. Það getur bara skilað lyklunum, bankinn eignast fasteignina en lántakandinn gengur laus frá borði, getur átt sér framtíð.

Þetta er ekki ný hugmynd. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar frá 2013 var með þetta á borðinu hjá sér. Ég er að hugsa hver raunveruleikinn sé á bak við þetta. Ég trúi því alveg að hv. þm. Ólafur Ísleifsson vilji þetta og myndi setja kraft sinn í það, enda hefur hann gert það með því að láta frumvarpið verða að veruleika. Það gerist ekkert af sjálfu sér. En ég er að hugsa um stuðningsmenn hans á málinu. Þar eru hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Þorsteinn Sæmundsson sem voru í ríkisstjórninni sem var með lyklafrumvarpið sem eitt af kosningaloforðum sínum. Hv. þm. Ólafur Ísleifssonar kemur úr Sjálfstæðisflokknum, ef ég man það rétt, hefur alla vega stutt hann eitthvað og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason líka. Ég er með kosningabæklinginn þar sem segir: Tækifæri til að byrja upp á nýtt. Þeir sem ekki ráða við greiðslur af íbúðarhúsnæði eigi að fá tækifæri á að „skila“ lyklum í stað gjaldþrots. Svo var stofnuð ríkisstjórn og ég var lesa stjórnarsáttmálann, af því að ég mundi eftir þessu, og þar er sagt að heimilin skuli vera í forgangi. Það náðist ekki að afnema verðtrygginguna, eins og var lofað, og lyklafrumvarpið náðist ekki í gegn, eins og var lofað. Það náðist að bjarga þeim sem hvort eð er náðu að bjarga sér út úr hruninu, ekki þeim sem töpuðu eignum sínum. Ég þurfti að berjast við ríkisstjórnina um að stöðva nauðungarsölu, sem ég hef lagt til aftur núna. (Forseti hringir.) Hver heldur hv. þingmaður að raunverulegi viljinn sé í þessu? Því að sporin hræða varðandi vilja þeirra sem eru á þessu máli, fyrir utan kannski hv. þingmann.



[16:20]
Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir andsvarið. Ég er afar stoltur af meðflutningsmönnum mínum á frumvarpinu. Þetta eru valinkunnir menn og af góðu kunnir. Ég er líka þess meðvitaður að ég er ekki sá fyrsti sem hefur haft forgöngu um lyklafrumvarp á Alþingi. Ég gat þess einmitt sérstaklega, ég man ekki hver talan var, en ég held ég hafi nefnt að þetta væri kannski í sjöunda sinn sem slíkt frumvarp er lagt fram. Það var kannski á tímum áður en við tveir vorum af kjósendum leiddir hingað inn í þennan sal. Hv. þingmaður er hins vegar búinn að vera hérna eitthvað lengur en ég, en ég er ekki til frásagnar um einhverja fortíð á Alþingi eða einhverra ríkisstjórna sem ég átti enga aðild að og voru ekki á mína ábyrgð.

Þetta mál er, eins og ég gat um, unnið í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilanna og þar er sú mikla sérfræðiþekking sem ég gerði hér að umræðuefni sem gerir það að verkum að þegar stjórnvöld eru að fjalla um þessi mál þá tel ég, eins og ég gat um í ræðu minni, að þau geri vel í því að kalla þau að borðinu og leita sjónarmiða þeirra og ábendinga, ekki bara þegar allt er frágengið heldur á fyrstu stigum. Sú leið sem þarna er farin felst í raun og veru í því að breyta aðalatriðum, tiltekinni grein í lögum um fasteignalán til neytenda, lög sem eru frá 2016, og síðan að gera samsvarandi breytingar á lögum um nauðungarsölu. Þetta er mjög vandað og mjög gott frumvarp og ég vona að það fái þann stuðning hér á hinu háa Alþingi sem það svo sannarlega verðskuldar.



[16:23]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég get einmitt uppfrætt hv. þm. Ólaf Ísleifsson um söguna. Þegar ég kom hingað inn árið 2013 þurfti ég, með stuðningi Hagsmunasamtaka heimilanna sem fræddu mig um stöðu skuldara, stöðu heimilanna, stöðu þeirra sem voru að missa húsnæði sitt, að berjast við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, og Bjarna Benediktsson, núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Ég barðist fyrir því að stöðva nauðungarsölur sem á endanum hafðist svo. En ég þurfti að koma aftur og aftur upp í pontu og benda Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á að hún hefði heimild og meira að segja heimild til að fara sjálf í mál fyrir neytendur. Ég hefði ekki vitað þetta nema vegna þess að Hagsmunasamtök heimilanna voru búin að vinna vinnuna og bentu mér á það, þess vegna gat ég komið hingað upp og þrýst á það.

Sporin hræða því svolítið. Svo sé ég á mælendaskrá náttúrlega þann hv. þingmann sem flutti málið og svo hv. þingmenn Birgi Þórarinsson, Karl Gauta Hjaltason og Sigurð Pál Jónsson. Enginn af þeim var í ríkisstjórninni sem stóð sig ekki hvað varðar þann þátt í hjálp við heimilin sem fólst í að stöðva nauðungarsölur, sem var svo gert eftir dúk og disk eftir mikinn þrýsting frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Verðtryggingin var ekki tekin af eins og var lofað. Lyklafrumvarpið var ekki klárað eins og var lofað. Þeir sem fengu björgina voru þeir sem náðu að halda í húsin sín en ekki þeir sem töpuðu þeim. Og enginn af þeim þingmönnum sem stóð vaktina þá og eru á þessu frumvarpi ætla að tala í þessu máli. Það væri gott að spyrja þá hér í þingsal hvort þeim sé alvara með þetta og hvers vegna þeir gerðu það ekki síðast. Þetta er það sem ég er að reyna að benda á. Það er sagan. Þess vegna segi ég að sporin hræði.



[16:24]
Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég verð að segja við hv. þm. Jón Þór Ólafsson að honum yfirsést nú ýmislegt í þessari sögu sem hann er að rekja hérna. Það eru alvarlegar eyður í þessari söguskýringu. Ég ætla að leyfa mér að benda hv. þingmanni í fyrsta lagi á stærstu eyðuna og það var leiðréttingin. (JÞÓ: Og leiðréttingin gagnaðist hverjum?) Leiðréttingin. (JÞÓ: Ekki þeim sem töpuðu húsunum sínum.) Leiðréttingin. (Gripið fram í.) Leiðréttingin sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beitti sér manna mest fyrir og varð að veruleika í ríkisstjórn sem hann hafði forystu fyrir. (JÞÓ: Og gerði það vel.) Leiðréttingin fól það m.a. í sér, fyrir utan það að hún hafði fjárhagslega þýðingu fyrir fólk, að hún var fallin til þess að bæta fyrir sárasta sviðann hjá mörgum. Hún fól líka í sér mikilvæga viðurkenningu á því að þetta verðtryggingarkerfi hefði gjörsamlega farið úr öllum böndum.

Það er auðvitað mjög ágætt að rifja upp söguna. Ég vil hins vegar segja það líka og vekja athygli hv. þingmanns á því að hv. þingmaður áttar sig auðvitað á að ekki er sjálfgefið að þó að þingmenn leggi fram frumvarp fái þeir að mæla fyrir því. Það er samkomulag á milli stjórnmálaflokka hér á Alþingi um að valin eru úr málum þrjú, fjögur mál sem eru svokölluð áherslumál og Miðflokkurinn valdi þetta mál sem eitt af sínum þremur eða fjórum áherslumálum. (Gripið fram í.)Þess vegna er ég að mæla fyrir því hér í dag, vegna þess að Miðflokkurinn, undir forystu þeirra manna sem hv. þingmaður nefndi, hefur ákveðið það. Ég tel að það sé fullur hugur og ég tel að þetta staðfesti það, og sömuleiðis sagan, og þá vísa ég aftur til leiðréttingarinnar, að það er fullur hugur að baki þessu frumvarpi.



[16:27]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni, hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, fyrir ágæta ræðu og fyrir að hleypa þessu mikilvæga máli úr hlaði, svokölluðu lyklafrumvarpi. Ég vil nota tækifærið og þakka framsögumanni einnig fyrir þrautseigju í þessu máli, sem hefur verið lagt nokkrum sinnum fram af öðrum þingmönnum á fyrri þingum, og þá ítarlegu og góðu vinnu sem liggur að baki frumvarpinu. Auk þess ber að sjálfsögðu að þakka Hagsmunasamtökum heimilanna sem hafa einnig komið að þeirri vinnu og ég vil nota tækifærið hér til þess en ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps.

Eins og við þekkjum hefur fjármálaþjónusta veruleg áhrif á líf einstaklinga og heimila í landinu og það er því hagsmunamál samfélagsins að neytendur taki vel upplýstar ákvarðanir og þær séu verndaðar á fullnægjandi hátt misfarist eitthvað í tengslum við kaup á fjármálaþjónustu, einkum svokölluð neytendalán, og þar ber hæst húsnæðislán. Húsnæði er oftast stærsti einstaki útgjaldaliður einstaklinga og heimila og enn sem komið er búa flestir hér á landi í eigin húsnæði og svokölluð séreignarstefna hefur ríkt hér á landi í næstum 100 ár. Stærstu fjármagnsskuldbindingar langflestra einstaklinga og fjölskyldna tengjast húsnæði þeirra, fyrst í formi skulda vegna öflunar húsnæðisins sem breytist síðan, ef vel gengur, í mikilvægustu eignamyndun þeirra þegar fram líða stundir og húsnæðislán eru stærsta varan, ef svo má að orði komast, á viðskiptabankamarkaðnum.

Í frumvarpinu kemur fram að það sé mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántaka. Það er gríðarlega mikilvægt og markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum fasteignalána þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign sem sett er að veði fyrir láninu, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær, eins og segir orðrétt í greinargerð með frumvarpinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að veð að baki húsnæðisláni sé eingöngu bundið við fasteignina og því ekki hægt að ganga að öðrum eignum þeirra sem taka húsnæðislán. Það er mjög mikilvægt, herra forseti, í okkar huga í Miðflokknum sem stöndum að þessu frumvarpi að mál þetta fái góða framgöngu í þinginu og verði samþykkt, ekki síst í ljósi þeirra efnahagslegu þrenginga sem samfélagið okkar er komið í vegna kórónuveirufaraldursins og hætta á nauðungarsölum eykst vegna þess.

Það er fróðlegt þegar rætt er hér um þetta mikilvæga mál að skoða skýrslu sem gerð var á vegum forsætisráðuneytisins árið 2013 um neytendavernd á fjármálamarkaði. Þar voru settar fram tillögur um hvernig styrkja mætti stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán. Margt athyglisvert kemur þar fram sem vert er að gefa gaum í tengslum við þetta mál. Það er nauðsynlegt að bæta og skýra stöðu einstaklinga gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem veita einstaklingum lán og auka ábyrgð þeirra gagnvart þessum hópi neytenda. Og það er einmitt það sem er verið að gera í þessu frumvarpi.

Í eftirmálum efnahagshrunsins hér á landi hefur talsvert verið rætt um hallann á stöðu neytenda gagnvart lánveitendum og einkum á fjármálamarkaði. Hrun fjármálakerfisins hér á Íslandi og afleiðingar þess vörpuðu einmitt ljósi á veika stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum og starfshættir fyrirtækjanna í aðdraganda hrunsins voru ámælisverðir og á köflum ólögmætir eins og dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán bera með sér. Almenn óánægja og vantraust ríkti í garð fjármálastofnana meðal landsmanna af þeim ástæðum og vegna almenns skuldavanda einstaklinga og heimila.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, og ég veit að við erum það flestöll hér, að bankar eigi að vera samfélagsvænar stofnanir. Þeir eiga að hafa siðferðileg viðmið. Á það hefur skort, sérstaklega í aðdraganda efnahagshrunsins. Þeir eiga að hafa að leiðarljósi virðingu og heilindi gagnvart viðskiptamönnum. Þetta lýtur allt að trausti almennings á bönkunum. Það er aukin vitundarvakning um nauðsyn þess að styrkja neytendavernd á fjármálamarkaði og í eftirmálum efnahagshrunsins hrapaði traust almennings til fjármálastofnana. Það var 7% árið 2012 samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup og heil 3% árið 2009. Gleymum því ekki að lán geta einnig virkað sem ákveðið öryggisnet, þ.e. að leyfa fjölskyldum að fá lán á meðan þær bíða eftir betri aðstæðum, þegar þær hafa t.d. orðið fyrir atvinnumissi, heilsubresti eða jafnvel sundrun fjölskyldu.

Mikilvægir þættir til að tryggja neytendavernd á sviði fjármálamarkaða eru heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja og lánastofnana, öflugt regluverk sem takmarkar áhættu af starfsemi slíkra aðila fyrir almenning og opinbert eftirlit sem tryggir framfylgni regluverksins. Meginþáttur í neytendavernd á fjármálamarkaði felst í að fjármálakerfið gegni hlutverki sínu, sé skilvirkt og gegnsætt og heilbrigðir viðskiptahættir séu viðhafðir. Það er meginþátturinn í neytendavernd. Aðstöðumunur ríkir milli neytenda og fjármálastofnana. Við þekkjum það. Þetta frumvarp lýtur m.a. að því að taka á því með sanngjörnum hætti. Aðstöðumunurinn lýtur einnig að því að fjármálastofnanir búa yfir ákveðinni sérfræðiþekkingu í skjóli þess hlutverks að vera lánveitandi í atvinnuskyni. Þá eru neytendurnir misjafnlega í stakk búnir til að skilja til fulls þá áhættu sem felst í lánasamningum, t.d. að geta borið saman ólíkar vörur sem fjármálastofnanirnar eru að bjóða upp á og vanmeta oft og tíðum afleiðingar vanskila og brota á skilmálum. Í stuttu máli má því segja að ríkari kröfur verði gerðar til aðgæsluskyldu gagnvart lánveitanda.

Tilteknir hópar kunna að eiga erfiðara með að átta sig á þeirri alvöru og skuldbindingu sem felst í lántöku, t.d. hvað ber að varast og má þar einkum nefna ungt fólk sem í mörgum tilfellum er að kaupa sína fyrstu eign og taka sitt fyrsta lán. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2013, sem ber yfirskriftina Fjármálaþjónusta á krossgötum kemur fram að efling neytendaverndar á fjármálamarkaði sé mikilvæg fyrir virkni markaðarins og samkeppnislegt aðhald. Hins vegar geti neytendur aðeins veitt samkeppnislegt aðhald ef þeir eru meðvitaðir um rétt sinn og verð og gæði þjónustunnar.

Nú snýst neytendavernd einkum um ítarlega upplýsingagjöf og gagnsæi og er það sagt önnur af tveimur helstu nálgunum við neytendavernd á fjármálamarkaði. Forsenda þess að tekin sé upplýst ákvörðun við lántöku er sú að réttar og fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir, bæði frá neytanda og lánveitanda. Lánveitandi þarf að veita upplýsingar um kostnað við lántökuna, greiðsluáætlun, útlánavexti og aðra þætti, t.d. hvort þeir séu hindranir við endurfjármögnun, uppgreiðslugjöld sem eru allt of há á Íslandi, hvaða þýðingu það hefur ef lán eru verðtryggð o.s.frv. Það skiptir verulegu máli að lántaki sé upplýstur nægilega vel um þessa mikilvægu þætti.

Íslenskur fjármálamarkaður einkennist af fákeppni, því miður. Á slíkum markaði er hætt við að stærstu fyrirtækin öðlist sameiginlega markaðsráðandi stöðu sem einkennist af því að fyrirtækin taka gagnkvæmt tillit hvert til annars í stað þess að keppa af metnaði við hvert annað. Engir erlendir bankar eru á íslenskum markaði en mögulega gætu þeir aukið samkeppni og þar af leiðandi bætt kjör neytenda og vonandi eigum við eftir að upplifa það innan ekki svo skamms tíma að hér hefji erlend fjármálastofnun starfsemi. Ég held að það sé hollt og gott fyrir íslenska fjármálakerfið, t.d. er allt of hár fjármagnskostnaður við lántöku hér á landi.

Staða neytenda á lánamarkaði hér er að mörgu leyti verri en í nágrannaríkjunum vegna þess hve fjármagnskostnaður við lántöku er hár, sem og raunvextir og árlegur heildarkostnaður. Þó að raunvextir séu óvenjulágir núna þá mun það breytast innan ekki svo langs tíma. Samkeppniseftirlitið hefur skilgreint hina þrjá stóru viðskiptabanka í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu á fjármálamarkaði. Stóru bankarnir þrír eru því hver fyrir sig í lykilhlutverki í viðskiptalífinu. Framboð á lánamarkaði hér er fremur lítið. Í Danmörku er framboðið t.d. töluvert meira. Þar er boðið upp á önnur lánaform, t.d. svokölluð vaxtalán og möguleg lán með verðtryggingarþaki þannig að lán hækki ekki yfir eða umfram umsamin mörk og áhættunni af verðbólguskoti þannig dreift á milli lánveitanda og lántaka. Þetta er það sem er grundvallaratriðið í þessu máli, að dreifa áhættu milli lánveitanda og lántaka.

Herra forseti. Ég ítreka að ég vona sannarlega að þetta frumvarp fái framgöngu á þinginu vegna þess að það er ákaflega mikilvægt, eins og ég nefndi í upphafi, ekki síst vegna stöðunnar í þjóðfélaginu í dag. Það er hætta á því að við sjáum aukningu í nauðungarsölu, margir hafa misst sína atvinnu og lífsviðurværi og erfiðleikar hjá mörgum fjölskyldum. Þess vegna er þetta frumvarp afar tímabært og enn og aftur virkilega vel unnið. Ég vil þakka enn og aftur framsögumanni, Ólafi Ísleifssyni, fyrir góða vinnu við þetta frumvarp, enda hefur hann mikla og góða þekkingu á þessu sviði og reynslu.

Það er mikilvægt að til framtíðar verði í auknum mæli leitast við að koma í veg fyrir alvarlegan greiðsluvanda einstaklinga, svo sem með aukinni áherslu á forvarnir og önnur úrræði sem hafi það m.a. að markmiði að auka fjármálalæsi almennings og ná til einstaklinga áður en þeir hafna í svo alvarlegum greiðsluvanda að þeir standi frammi fyrir gjaldþroti. En það er líka rétt að geta þess, eins og segir á bls. 3 í frumvarpinu, að gengið er út frá því að á þetta ákvæði reyni ekki nema í neyð, t.d. þegar greiðslufall hefur orðið af hálfu skuldara og lögbundinn réttur kröfuhafa til að leita fullnustu á kröfum sínum hefur orðið virkur. Það er rétt að hafa þetta í huga.

En að lokum, herra forseti, segi ég enn og aftur að ég vona að málið fái framgang hér og hv. þingmenn taki vel í það og dvelji ekki í einhverjum atriðum sem skipta þetta mál engu.



[16:42]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Hér er til umræðu svokallað lyklafrumvarp, en svipað eða sambærilegt frumvarp hefur margoft áður verið lagt fram hér á Alþingi. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson endurflytur það nú eftir að hafa lagt það fram á síðasta þingi. Það hlaut ekki afgreiðslu þá en ég geri mér vonir um að augu manna hafi smám saman opnast fyrir því hvers lags grundvallarmál við ræðum hér.

Frumvarpið varðar breytingar á tvennum lögum, þ.e. lögum um nauðungarsölur og lögum um fasteignalán til neytenda. Ég er meðflutningsmaður í þessu máli og hef í hyggju að reifa nokkur sjónarmið og leggja inn í umræðuna. Frumvarp sem þetta var ítrekað lagt fram eftir bankahrun, þegar við horfðum upp á það að fjölskyldur voru bornar út af heimilum sínum í tugþúsunda tali. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu nú, þegar búast má við að þjóðartekjur taki skarpa sveiflu niður á við, má segja að frumvarpið gegni hlutverki einhvers konar öryggisventils til að koma í veg fyrir að fólk sé hundelt eftir að hafa lent í vanskilum. Það hefur nefnilega ekki nægt lánastofnunum í gegnum tíðina að hirða heimilið af fólki, það er elt árum saman með eftirstöðvar krafnanna sem þá samanstanda oftast og auðvitað mestmegnis af vöxtum, dráttarvöxtum og innheimtukostnaði sem ekki fékkst greiddur af andvirði fasteignarinnar sem seld var nauðungarsölu.

Það er grundvallarsanngirnismál að setja punkt aftan við það þegar fólk missir heimili sitt. Það á ekki að líðast að allslaust fólk sé leitað uppi eins og um stórglæpamenn sé að ræða og sérfræðingar í innheimtu, fólk sem sérhæfir sig í slíkri innheimtu, notist við og hafi öll þau ráð sem réttarkerfið hefur upp á að bjóða til að hundelta allslaust fólk.

Herra forseti. Áður en fjármálahrunið varð 2008 var úrræði eins og við ræðum hér þekkt í Bandaríkjunum en síðan hefur það verið tekið upp víða í Evrópulöndum. Við höfum hins vegar ekki tekið upp þessa aðferð við skuldaskil fasteignalána til neytenda á Íslandi þrátt fyrir bitra reynslu. Ég tel að samþykkt þessa frumvarps muni bæta mjög og tryggja stöðu heimila í ljósi þess sérstaklega að um 9.200 fasteignir í eigu einstaklinga voru seldar nauðungarsölu hér á landi á næstu tíu árum eftir bankahrunið, eins og fram hefur komið og kom fram í svari við fyrirspurnum hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, flutningsmanns þessa frumvarps, til hæstv. dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Í þessum tölum birtist okkur hvernig ríkisstjórnin 2009–2013 vanrækti heimilin með þessum afleiðingum, það birtist í þessum tölum. Við þurfum að standa með heimilunum.

Herra forseti. Er þetta þarft mál? Já, þetta er þarft mál ef bara þessar tölur eru skoðaðar. Hvernig hefur framkvæmdin verið? Þar tala ég af nokkurri reynslu þar sem ég vann við þetta í áratugi. Framkvæmdin eftir nauðungarsölur hefur verið sú að ófullnægðir kröfuhafar, þ.e. þeir sem ekki fá kröfu sína greidda að fullu, hafa margir hverjir haldið áfram að innheimta eftirstöðvar kröfunnar eftir söluna. Þannig hafa lánastofnanir oft og tíðum hundelt þetta fólk eftir að heimili þess hefur verið selt á nauðungarsölu. Þannig hefur fólk verið krafið um eftirstöðvar lánsins, jafnvel þótt veðandlagið, þ.e. heimilið, fasteignin, hafi verið selt.

Í raun og sanni erum við hér að tala um ábyrgð. Hingað til hefur ábyrgðin eingöngu verið lögð á lántakanda. Ef hann greiðir ekki hefur lánveitandi ýmis úrræði eins og þetta, að fara nauðungarsöluleiðina, taka sinn hlut eða andvirði fyrir kröfunni og halda síðan áfram, ef eitthvað stendur eftir, sem oft er sökum verðtryggingar, vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, að hundelta viðkomandi eftir nauðungarsöluna kannski árum saman, hirða bæði laust og bundið í eigu skuldarans, setja hann á vanskilaskrá með tilheyrandi óþægindum fyrir viðkomandi í áraraðir.

Við erum einnig að tala um hvar áhættan liggur. Þá kem ég aftur að því hver sé ábyrgð og áhætta lánveitandans, bankastofnunarinnar. Lánveitandinn lánar kannski 50% eða 70% af andvirði fasteignar upphaflega. Hann tekur með því tiltölulega litla áhættu vegna þess að lánið má hækka töluvert og fasteignin má lækka töluvert áður en hann fer að sjá fram á raunverulegt tap á hluta af sinni kröfu nema hann samþykki að fara ofar í andlaginu eða aftar og taka þá áhættu. Hann tekur enga slíka áhættu, hann er ekki látinn sæta neinni ábyrgð þegar hann ákveður að lána viðkomandi. Þetta er spurning um ábyrgð og áhættu að mínu mati. Það er tími til kominn að lánastofnanir taki einhvern hluta áhættunnar og ábyrgðarinnar á sínar herðar.

Herra forseti. Þetta er einfalt. Lánastofnun lánar með veði í fasteign. Lánveitandi getur að mestu séð fyrir hvort hún dugir til eða ekki og þar þurfa að gerast einhverjir stórir atburðir, eins og gífurleg lækkun fasteignamats eða fasteigna, sem verður til þess að lánveitandi lendi í einhverju tapi og yfirleitt er það tap bundið í öðrum kostnaði eins og t.d. í innheimtukostnaði, dráttarvöxtum, og sá kostnaður leggst yfirleitt á á síðari stigum innheimtu. Á seinustu stigum innheimtuferilsins gerist það að krafa hækkar mjög hratt. Sjálf krafan er kannski enn frekar hófleg, kannski ári eftir hún lendir í vanskilum, en allt það sem við bætist vex með miklum ólíkindum. Það er sú krafa sem við erum að tala um. Er réttlætanlegt að hún standi úti ef lánveitandinn hefur tekið þá áhættu að lána mjög hátt upp í veðandlag fasteignar? Er það réttlætanlegt? Ég segi: Já, við verðum að fella ábyrgð á lánveitanda líka. Hann verður að taka einhverja áhættu af gjörðum sínum og ákvörðunum sínum. Það er ekkert til of mikils mælst.

Herra forseti. Lærum af þeim þjóðum sem hafa tekið upp sambærilega reglu og þetta frumvarp hefur að geyma. Leggjum ábyrgðina á fleiri bök. Bak þeirra sem misstu heimili sín er brotið eftir síðustu holskeflu. Látum það ekki gerast aftur.



[16:51]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hingað upp til að mæla nokkur orð um frumvarp um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og nauðungarsölu. Þetta er í raun og veru hið svokallaða lyklafrumvarp sem hefur verið lagt fram oft áður, eins og hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna. Reyndar er þetta endurunnið, lagfært og mjög vandað frumvarp sem 1. flutningsmaður, hv. þm. Ólafur Ísleifsson, mælti fyrir hér áðan.

Þetta er fyrst og fremst frumvarp til varnar heimilunum og um leið, eins og hefur komið fram, til hagsbóta fyrir þjóðfélagið. Þeirri einhliða áhættu lántaka sem hefur ríkt til margra ára er aðeins breytt í þessu frumvarpi og við getum sagt að þarna sé sett inn þátttaka lánveitanda í áhættu. Yfirleitt eru lántakendurnir í mjög veikri stöðu gagnvart lánveitendum. Það hefur nú bara verið þannig og oft verið mjög mikil óánægja með það. Það er óréttlátt því að auðvitað er lántaka, hvernig sem hún er og ekki síst í lántökum vegna fasteigna sem er ein stærsta fjárfesting sem fjölskylda eða einstaklingur tekur sér yfirleitt fyrir hendur, samningur á milli tveggja aðila. Og við samninga ætti að vera skýrt að báðir njóti góðs af. En sporin hræða.

Nú erum við í kreppu vegna Covid-19 veirunnar, atvinnuleysi hefur aukist og á sjálfsagt eftir að aukast enn. Þar með er geta þeirra sem eru að borga af lánum minni, ég tala nú ekki um þeirra sem verða atvinnulausir. Því finnst okkur sem leggjum fram þetta frumvarp nauðsynlegt að það komist í gegn. Verðbólgan hefur kannski ekki stokkið af stað en hún er samt komin yfir verðbólgumarkmið. Þau eru 2,5% en verðbólgan er komin yfir 3% og nálgast 4%. Við getum ekki alveg séð hvað gerist í nánustu framtíð en eins og staðan er núna eru hlutirnir allavega að verða mjög alvarlegir efnahagslega. Því er þetta mjög brýnt.

Þó að frummælandi hafi farið mjög vel í gegnum frumvarpið langar mig aðeins að grípa niður í nokkur atriði. Í greinargerð stendur m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Hagsmunasamtökum heimilanna eru mál sem varða eftirstöðvar fasteignalána í kjölfar nauðungarsölu meðal þeirra algengustu sem koma nú inn á borð samtakanna og eru jafnvel dæmi um að neytendur séu enn krafðir um meintar eftirstöðvar þótt þær hafi fengist að fullu greiddar við nauðungarsölu.“

Þetta er akkúrat það sem frumvarpið fjallar um, þ.e. að klippa á það að þegar viðkomandi skilar inn lyklunum sé settur punktur á eftir.

Og aðeins um markmið frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær.“

Þetta er akkúrat það sem ég var að segja með öðrum orðum hérna rétt á undan. Svo aðeins um nauðsyn og kosti lagasetningarinnar, með leyfi forseta:

„Brýn nauðsyn þess að lögfesta úrræði á borð við það sem frumvarp þetta mælir fyrir um kom bersýnilega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 þegar gengi krónunnar hríðféll með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánssamningar urðu skuldurum ofviða. Verðlagsáhrif gengisfallsins höfðu sambærilegar afleiðingar fyrir verðtryggða lánssamninga. Úrræðaleysið sem blasti við neytendum olli fordæmalausu uppþoti í samfélaginu sem dró dilk á eftir sér. Nauðsynlegt er að læra af reynslunni og innleiða úrræði til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig. Að fenginni þeirri reynslu yrði til mikilla bóta að styrkja stöðu skuldara fasteignaveðlána með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Auk þess að færa skuldurum í hendur nauðsynlegt úrræði til að mæta ófyrirséðum fjárhagsörðugleikum myndi sú áhættudreifing sem í því felst hvetja lánastofnanir“ — hvatning er nefnilega ágætisorð — „til að ástunda vandaðri lánastarfsemi en ella.“

Skilningur minn á orðinu hvatning er að maður gangi frekar til þess verks sem nauðsynlegt er ef hvatning er fyrir hendi. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og ég segi hefur frummælandi gert góða grein fyrir frumvarpinu sem og þeir sem hafa flutt ræðu hér á undan. Ég vona og trúi því að frumvarpið nái fram að ganga og verði að lögum frá hinu háa Alþingi svo að varnir heimilanna gagnvart lánastofnunum verði betri.



[16:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fínasta tillaga sem hér er verið að ræða, svokallað lyklafrumvarp, og ég sé ekkert annað fyrir mér en að styðja framgang þess máls að sjálfsögðu. Það hefur verið hávært kall um þetta úr samfélaginu frá því eftir hrun og nokkrum sinnum verið reynt að koma þessu máli í gegn en ekki gengið. Ég persónulega er með viðbótarhugmynd við svona frumvarp sem felst í því að einungis væri hægt að ganga að veðhluta hvers láns fyrir sig. Ef ég kaupi íbúð og tek lán fyrir 80% af andvirðinu geri ég veð fyrir 80% af húsnæðinu. Ef það er gert upp með nauðungarsölu eða einhverju svoleiðis er einungis gengið að 80%, lánið sé einungis fyrir þeim hluta sem það er veitt fyrir. Ég held alltaf mínum 20% hlut, það er ákveðin deiling á áhættu þar á milli. Þetta þýðir að ég myndi alltaf halda þeirri inneign sem ég lagði í íbúðina í upphafi. Það væri ákveðið þrep fyrir fólk til að halda áfram ef það lendir í vandræðum, a.m.k. einu sinni, að það sé ekki að fórna upphafshlut sínum líka.

Þingsályktunartillaga var samþykkt í upphafi 142. þings, sem var sumarþingið á kjörtímabilinu 2013–2016. Þetta var eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar þá og var samþykkt af þó nokkrum þingmönnum, hæstv. forseti þingsins var einmitt framsögumaður málsins í nefnd. Í tillögunni var m.a. atriði um lyklafrumvarp sem átti að klára og vinna vel. Með þessu greiddu ríkisstjórnarflokkarnir atkvæði og ýmsir aðrir, það var samþykkt með 31 atkvæði en 12 greiddu ekki atkvæði og 20 voru fjarstaddir. Það er eins og gengur og gerist, það var í raun ríkisstjórnin sem samþykkti þetta. Það voru fluttar breytingartillögur við málið, t.d. breytingartillaga frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem var felld. Hún fjallaði um að settur yrði á fót sérfræðihópur sem ætti að undirbúa frumvarp til laga um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Núverandi formaður Miðflokksins og þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sem var þá forsætisráðherra, hafnaði þessari breytingartillögu, sem er mjög áhugavert miðað við núverandi pólitík.

Maður veltir því fyrir sér, miðað við hverjir eru núna í ríkisstjórn og hverjir stóðu að þessari tillögu sem fól m.a. í sér lyklafrumvarp, hvernig muni fara fyrir þessu máli. Ég vona að það fari alla leið í gegn. Ég myndi fylgjast mjög áhugasamur með atkvæðagreiðslu um þetta mál með tilliti til fyrri mála og sögu þessa hluta málsins sem var afgreitt með þingsályktun á 142. þingi. Sú þingsályktun er úreld. Henni var lokið á 146. þingi með skýrslu forsætisráðherra þá, með þeim orðum að fimm frumvörp hefðu verið samin og lögð fram til að uppfylla skilyrði þingsályktunarinnar sem var samþykkt á 142. þingi. Á meðal þeirra frumvarpa var ekki frumvarp um setningu lyklalaga, sem er áhugavert. Mér finnst þetta spila á mjög áhugaverðan hátt inn í arfleifð hrunsins, inn í núverandi ástand og þá möguleika sem við sjáum fram á ef efnahagsástandið heldur áfram að vera eins og það er og atvinnuástand lagast ekki, að þá sé tvímælalaust þörf á einhverju eins og þessu máli.



[17:04]
Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur tekist um þetta frumvarp og byrja kannski á því að þakka síðasta ræðumanni fyrir áhugaverðar hugmyndir og ábendingar um leið og ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að gefa mér tilefni og tækifæri til að koma því hér á framfæri að þetta mál er hér vegna þess að það er forgangsmál af hálfu Miðflokksins.

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Páll Jónsson rifjaði upp að þetta mál eða sambærileg mál hafi áður komið fram. Þetta er í þriðja sinn sem ég flyt málið en það er að nokkru leyti öðruvísi en það birtist hér á fyrri tíð vegna þess að það tekur mið af nýlegri lagaþróun, eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu, og sömuleiðis er það með sínum hætti samofið evrópskum réttarreglum, eins og ég gat um í framsöguræðu minni.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson lagði m.a. áherslu á það sem hann kallaði forvarnir gegn því að fólk rati í greiðsluerfiðleika. Það er mjög mikilvægur þáttur í málinu öllu og ber að taka undir það og styrkja rétt neytenda á þessu sviði og reyndar að styrkja stöðu neytenda almennt. Frumvarpið er mjög eindregið í þá átt.

Þá hlýt ég að geta þess að mjög athyglisvert var að hlusta á hv. þm. Karl Gauta Hjaltason mæla hér af sinni löngu embættisreynslu sem sýslumaður og lögreglustjóri, hvernig hann beinlínis lýsti því hvernig hann hefði sjálfur horft upp á fólk hundelt af hálfu kröfuhafa eftir að heimilið hafði gengið því úr greipum og hafði verið boðið upp. Það er í raun og veru ekki boðlegt. Frumvarpið er náttúrlega lyklafrumvarp, það snýst um að þegar fólk er búið að láta af hendi andlagið fyrir veðinu, eins og það heitir, þ.e. húsnæðið, verði það ekki krafið um meira. Það skili bara lyklunum og málunum sé lokið með því.

Herra forseti. Mig langar að segja hér að við höfum ærið tilefni til að reisa varnir í þágu heimilanna. Reynslan úr hruninu talar sínu máli. Verðtryggingin æddi yfir landið, eyðandi og brennandi heimilin ofan af fólkinu. Hún var að störfum allan sólarhringinn, meðan fólkið svaf. Foreldrarnir máttu þúsundum saman leiða börnin við hönd sér út af heimilunum vegna þess fyrirkomulags sem við höfum hér.

Þess vegna hef ég, herra forseti, fyrir utan þetta lyklafrumvarp sem ég flyt hér í þriðja sinn, flutt frekari tillögur, m.a. um það sem ég kalla tangarsókn gegn verðtryggingunni. Það er mjög mikilvægt að farið sé vandlega ofan í það sem heitir vanskilaskrá, hvað þurfi til að hrinda manni fjárhagslega fyrir björg sem það raunverulega er að rata inn á slíka skrá. Einnig starfsemi fjárhagsupplýsingastofu. Það liggur fyrir skýrsla um húsnæðisliðinn sem ég veit ekki til að hafi verið rædd hér. Það hlýtur að koma að því að sú skýrsla verði rædd. Það er (Forseti hringir.) nauðsyn að rétta hlut heimilanna og reisa fullnægjandi varnir í þágu þeirra.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.