151. löggjafarþing — 13. fundur
 21. október 2020.
atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa, 1. umræða.
frv. OH o.fl., 35. mál. — Þskj. 35.

[17:10]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Flutningsmenn þessa frumvarps um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum, eru auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson og Helga Vala Helgadóttir.

Hér á landi nutu alls 18.443 atvinnulausir einstaklingar atvinnuleysisbóta úr almenna bótakerfinu í lok septembermánaðar en 3.319 höfðu minnkað starfshlutfall samkvæmt hlutabótaleið. Þetta kemur fram á síðu Vinnumálastofnunar. Samtals voru þetta 21.762 einstaklingar. Í þessum tölum eru ekki þeir sem nú eru á uppsagnarfresti og því er fyrirséð að atvinnuleysi mun aukast á næstunni.

Ég vil, herra forseti, fara aðeins yfir atvinnuleysistölurnar eins og þær birtast eftir landsvæðum því að það er nokkuð ljóst að byrðarnar vegna heimsfaraldursins leggjast misþungt á landshlutana. Til dæmis var atvinnuleysi í september 8,4% á Suðurlandi, á Austurlandi var það 5,2%, á Norðurlandi eystra 6,6%, á Norðurlandi vestra 3,8%, á Vestfjörðum 3,7%, á Vesturlandi 6,3%, á Suðurnesjum 19,6% og á höfuðborgarsvæðinu 10,1%. Þetta gerir samtals 9,8% atvinnuleysi á öllu landinu.

Þegar tölurnar á síðu Vinnumálastofnunar eru skoðaðar betur og eftir landsvæðum og kyni kemur í ljós að á öllum landsvæðum nema á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega fleiri konur atvinnulausar en karlar. Ekki er mikill munur á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru 9,8% karla atvinnulausir en 10,3% kvenna. Mestur er munurinn á Suðurnesjum þar sem 22,5% kvenna eru atvinnulausar en 17,7% karla. Á Suðurlandi eru 9% kvenna atvinnulausar en 7,9% karla, á Austurlandi eru það 6,3% kvenna en um 4,5% karla. Svona er þetta og munurinn er sums staðar ekki mikill. En eins og ég sagði áðan er hlutfallslegt atvinnuleysi meðal kvenna meira í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu. Það er sannarlega athyglisvert vegna þess að atvinnuþátttaka kvenna var lægri fyrir. Það hallar því í raun enn meira á konur í þessari atvinnukreppu þótt sannarlega sé vandinn mikill hjá báðum kynjum og á landinu í heild.

Laun fyrir fullt starf eru í kringum 800.000 kr. á mánuði, samkvæmt framreiknuðum tölum frá Hagstofu Íslands um laun fyrir árið 2018, og á Íslandi eru atvinnuleysisbætur áunnin réttindi launafólks. Fyrirkomulagið byggist á grunngildum norrænnar jafnaðarstefnu og var komið á hérlendis fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálaflokka sem tóku slaginn fyrir almenning. Atvinnuleysistryggingar eru hagkvæmar frá þjóðhagslegu sjónarmiði hvernig sem á það er litið, einnig miðað við hagstjórnarleg markmið. Grunnatvinnuleysisbætur eru nú 289.510 kr. á mánuði. Að auki eru greiddar 11.580 kr., eða 4% af grunnatvinnuleysisbótum, með hverju barni sem er yngra en 18 ára. Með lögunum nr. 37/2020 voru greiðslur með hverju barni hækkaðar í 6% til bráðabirgða til 31. desember 2020, eða í 17.371 kr. Var það gert að tillögu Samfylkingarinnar.

Herra forseti. Samfylkingin lagði fram mjög margar tillögur til breytinga til að bæta hag þeirra sem verst verða úti í þessu þessum heimsfaraldri. Þetta var eina tillagan sem var samþykkt, en þó það. Staðan er samt sú að fólk sem er komið á grunnatvinnuleysisbætur þarf að vera með þrjú börn á framfæri sínu til að ná því að komast yfir lágmarkstekjutrygginguna samkvæmt lífskjarasamningunum. Það sér hver maður að það verður að styðja heimilin í landinu sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og mjög miklu tekjutapi.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar út í allt að þrjá mánuði í upphafi hvers bótatímabils sem er alls 30 mánuðir samkvæmt lögunum. Tekjutengda tímabilið hefur verið lengt tímabundið í sex mánuði frá 1. september 2020. En allir þeir sem fengu grunnatvinnuleysisbætur fyrir þann tíma fá aðeins þrjá mánuði tekjutengda. Með frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er ætlunin að tryggja að allir sem voru atvinnulausir 1. september 2020 fái tekjutengdar bætur í sex mánuði, enda felur lengd tímabilsins í sér illskiljanlega og órökstudda mismunun standi hún óbreytt. 12.000 manns voru á grunnatvinnuleysisbótum í ágúst. Margítrekað var bent á að verið væri að skilja þau eftir. Á það var ekki hlustað og mismununin er látin standa. Það bólar ekki enn á frumvarpi frá ríkisstjórninni til að leiðrétta og stöðva þessa mismunun. En það þarf að gera og það leggjum við í Samfylkingunni til með þessu frumvarpi.

Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 456.404 kr. á mánuði. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabilið verður langt. Eftir skatt eru grunnatvinnuleysisbætur 242.700 kr. og tekjutengdar bætur geta mest orðið 348.500 kr. eftir skatt. Af þessum tölum má sjá að fjárhagslegt tjón einstaklings sem missir vinnuna er verulegt og hefur mikil áhrif á rekstur heimilis hans og fjölskyldu. Með hlutabótaleiðinni er atvinnurekendum gert kleift að halda ráðningarsambandi við starfsmenn sína. Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðið verði lækkað aftur í allt að 25% starfshlutfall enda getur það skipt verulegu máli fyrir atvinnurekanda að halda ráðningarsambandi við t.d. fjóra starfsmenn með reynslu og þekkingu innan fyrirtækis, í stað tveggja fái ákvæðið að standa óbreytt. Lagt er til að hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021 því að augljóslega mun taka tíma að byggja upp starfsemi að nýju eftir djúpa atvinnukreppu en afar mikilvægt er að góð viðspyrna náist. Það tryggjum við með því að fyrirtækin geti haldið ráðningarsamningi við sem flesta starfsmenn með reynslu og þekkingu sem geta endurreist starfsemina á sem stystum tíma.

Augljóslega mun sá sem þarf að framfleyta sér á atvinnuleysisbótum draga verulega úr neyslu sinni. Mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur því einnig neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu sem aftur fækkar störfum. Kreppan í kjölfar Covid-19 faraldursins bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Grunnatvinnuleysisbætur eru mun lægri en lágmarkslaun og lágmarkstekjutrygging. Til að dreifa byrðunum telja flutningsmenn frumvarpsins afar mikilvægt að tekjutengda tímabilið verði lengt um þrjá mánuði fyrir alla, grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar í 95% af lágmarkslaunum og rétturinn til atvinnuleysistrygginga lengdur um eitt ár. Auk þess verði framlag með hverju barni hækkað varanlega og hlutabótaleiðin framlengd til 1. júní 2021 með heimild til 25% hlutastarfa.

Atvinnumissir er alvarlegra mál í kreppu en í góðæri. Fjöldi fólks missir vinnuna á sama tíma, störfum fækkar, erfiðara verður að finna aðra vinnu og líkurnar á langtímaatvinnuleysi aukast. Slæmar félagslegar og heilsufarslegar aukaverkanir langtímaatvinnuleysis eru þekktar. Þær eru kostnaðarsamar fyrir fjölskyldur og samfélagið allt. Þegar fram líður verður mikilvægast að fjölga störfum. Það mun taka tíma. Atvinnuleysisbætur má hins vegar hækka strax. Mikilvægt er að atvinnuleitendur finni starf þar sem menntun þeirra og reynsla nýtist sem best. Að öðrum kosti er hætta á að verðmæt menntun og sérhæfing glatist.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af Samtökum atvinnulífsins, að hækki atvinnuleysisbætur muni atvinnulausum fjölga og því sé mikilvægt að halda atvinnuleysisbótum lágum. Þegar störfum fækkar þúsundum saman í heimsfaraldri sem veldur miklum erfiðleikum í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar eru slíkar fullyrðingar augljóslega rangar, herra forseti. Engin ný störf verða til með því að skapa neyð á heimilum þeirra sem missa vinnuna við þessar aðstæður. Auk þess sýna rannsóknir að atvinnuleysi er ekki meira í löndum sem búa við öflugar atvinnuleysistryggingar. Stór hluti þeirrar upphæðar sem ríkið notar til að hækka atvinnuleysistryggingar skilar sér beint til baka í sköttum og auknum efnahagsumsvifum.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni viljum dreifa byrðunum. Við teljum að það sé í raun engin sátt í samfélaginu um að láta þau sem missa vinnuna í þessum heimsfaraldri bera þyngstu byrðarnar. Auðvitað eigum við að létta undir með þeim og við leggjum til að það verði gert með þeim hætti sem ég hef farið yfir hér. Við eigum að jafna leikinn og við eigum að standa með þeim sem eiga í miklum erfiðleikum og hafa orðið fyrir miklu tekjufalli. Og við eigum að líta sérstaklega á landshluta og sveitarfélög í miklum vanda.

Ef þau 12.000 sem voru komin á grunnatvinnuleysisbætur í ágúst og höfðu aðeins fengið þriggja mánaða tekjutengt tímabil væru t.d. allt saman fólk á góðu kaupi gæti kostnaðurinn verið rétt tæpir 5 milljarðar við að tryggja það réttlæti að allir fengju sex mánaða tekjutengt tímabil en ekki bara sumir eins og ríkisstjórnin leggur til. Það getur aldrei orðið dýrara vegna þess að hámark er á tekjutengdu bótunum og við vitum hverjar grunnatvinnuleysisbæturnar eru.

Þegar við horfum á milljarðana sem farið hafa í að laga efnahag fyrirtækja, sem okkur í Samfylkingunni finnst sjálfsagt að gera og nauðsynlegt að gera, eru þessir 5 milljarðar ekki há upphæð í því samhengi, þ.e. til að tryggja jafnræði meðal þeirra sem misst hafa vinnuna og láta ekki skipta máli hvenær einhver hefur misst vinnuna.

Herra forseti. Ég legg það til að þetta frumvarp gangi til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.



[17:26]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, sem þingflokkur Samfylkingarinnar stendur gervallur að. Með frumvarpinu er ætlunin að tryggja að allir sem voru atvinnulausir 1. september 2020 fái tekjutengdar bætur í sex mánuði, enda ekki hægt að skilja með góðu móti eða rökstyðja þá mismunun sem búið yrði við stæðu ákvæðin óbreytt.

Þær upphæðir sem um er vélað þekkja flestir af umræðunni. Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er rúmar 456.000 kr. á mánuði. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabilið verður langt. Eftir skatt eru grunnatvinnuleysisbætur tæplega 243.000 kr. og tekjutengdar bætur ríflega 348.000 kr. Af þessum tölum má sjá að fjárhagslegt tjón einstaklings sem missir vinnuna er verulegt og hefur hamfaraáhrif, má segja, á rekstur hvers heimilis og fjölskylduna. Eftir því sem fram kom hjá hv. flutningsmanni, og kemur sömuleiðis fram í greinargerð með frumvarpinu, eru meðallaun fyrir fullt starf í kringum 800.000 kr. á mánuði, samkvæmt framreiknuðum tölum frá Hagstofunni. Fallið er því mikið og áfallið mikið. Ég held að ekki þurfi að fjölyrða um afstöðu þorra fólks til atvinnuleysis, sem er í huga hvers manns átakanlegt, meiri háttar áfall og hlutskipti sem enginn vill þurfa að búa við. Atvinnuleysi er eitthvað sem við erum öll sammála um að við þurfum að berjast gegn af öllum þeim mætti sem okkur er gefinn.

Herra forseti. Hvað sem öðru líður þá eigum við ekki að nota atvinnuleysisbótakerfið sem refsivönd gegn þeim sem verða fyrir því áfalli að missa vinnuna. Svoleiðis gerum við ekki. Við höfum aðrar og betri leiðir til að auka hvata til vinnu, virkar vinnumarkaðsaðgerðir, ráðningarstyrki til fyrirtækja, starfsþjálfunarsamninga og önnur nátengd úrræði. Það eru til alls konar leiðir og við leggjum einmitt til ábyrga leið í plagginu okkar góða.

Íslendingar þekkja vissulega atvinnuleysi í sögulegu samhengi. Það næsta í tíma, í huga okkar flestra, er auðvitað efnahagshrunið fyrir rúmum 12 árum. Efnahagsvandinn í kjölfarið hefur haft víðtækar afleiðingar. Atvinnuleysi jókst á Íslandi eins og víðast annars staðar, skapaði aðstæður sem flestum eru enn í fersku minni.

Afleiðingar atvinnuleysis geta verið miklar og varðað einstaklinga og fjölskyldur og samfélagið í heild sinni. Atvinnuleysi getur haft áhrif á líkamlega og andlega heilsu ásamt því að félagsleg staða og tengslanet atvinnulausra bíður hnekki. Síðan í heimskreppunni á fyrri hluta síðustu aldar hafa rannsóknir stöðugt sýnt fram á þetta. Áhrifin eru meiri í ákveðnum hópum en öðrum. Ungt fólk bregst við slíkum aðstæðum með öðrum hætti en eldra fólk, ungt fólk spjarar sig misjafnlega. Því miður bitnar atvinnuleysi kannski fyrst á ungu fólki sem starfar í mörgum tilvikum ekki við sérhæfð störf, það bitnar á þeim sem eru í almennum störfum. Hvernig því fólki reiðir af fer eftir því hvort það á kost á því að fara í námstengd úrræði og að félagslega kerfið og þeirra félagslega net haldi. Bent hefur verið á að karlmenn fari ekki vel út úr atvinnuleysi, sérstaklega karlmenn á aldrinum 30–55 ára, og þeir sem búa við andlega skerta heilsu, andlega veikleika, fyrir eru líklegri en aðrir til að missa vinnuna. Þess vegna er svo brýnt að beita úrræðum snemma til handa atvinnulausum og takast á við það andlega álag sem áfallinu fylgir auk hins efnalega.

Herra forseti. Sex mánuðir án atvinnu er skilgreint sem langtímaatvinnuleysi en íslenskt fræðafólk, sem tekist hefur á við þetta efni, bendir á að það ætti að skilgreina eftir styttri tíma. Það fólk hnykkir á því að það sé sláandi hversu fljótt atvinnuleysi hefur áhrif á sjálfstraust fólks og að eftir nokkurn tíma hætti þessir einstaklingar gjarnan markvisst í atvinnuleit og einangrist félagslega. Mikið hefur verið skrifað um atvinnuleysi og íslenskir aðilar hafa tekið virkan þátt í því og íslenskir fræðimenn og rannsóknaraðilar hafa skoðað þessa hluti frá mörgum sjónarhornum. Þar ber flest að sama brunni. Niðurstöður sýna að mikilvægt er að atvinnulausir haldi virkni með námi, starfsþjálfun, ráðgjöf eða öðrum leiðum og hafi traust félagslegt net. Þetta tíundum við í okkar ábyrgu leið að sé mikilvægt við þær aðstæður sem við búum við. Að hafa áhyggjur af peningum er eitt þeirra atriða sem fólk hefur hvað mestar áhyggjur af og í flestum tilfellum taka fjárhagsáhyggjur við í kjölfar atvinnumissis.

Nokkuð hefur verið rannsakað hvort munur sé milli kynja á því hvernig fólk upplifir atvinnuleysi og virðast niðurstöður vera nokkuð mismunandi. Svo horft sé til viðhorfa og rannsókna í stærra samhengi sýndu mælingar í Bretlandi, í kjölfar bankahrunsins, t.d. að andleg líðan karla mældist verri en kvenna í atvinnuleysi eins og áður hefur komið fram. Konur voru hins vegar líklegri til að sjá tækifæri í atvinnuleysi, t.d. meiri samveru með börnum. Það átti þó eingöngu við ef konurnar upplifðu ekki miklar fjárhagsáhyggjur samfara atvinnuleysi, það gefur augaleið.

Rannsókn sem gerð var í Svíþjóð og á Írlandi sýndi hins vegar nokkuð aðra niðurstöðu þar sem atvinnuþátttaka kynja spilaði m.a. stórt hlutverk. Í Svíþjóð er atvinnuþátttaka kvenna mikil. Niðurstöður þar sýndu að atvinnuleysi hefði jafn neikvæð áhrif á andlega líðan kvenna og karla. Á Írlandi er atvinnuþátttaka kvenna lægri en í Svíþjóð og þar mældist andleg líðan karlmanna verri en líðan kvenna. Í Bandaríkjunum var síðan gerð enn ein rannsóknin. Hún sýndi að atvinnuleysi hefði ekki aðeins áhrif á andlega líðan karla og kvenna heldur gæti atvinnuleysi aukið líkur á hjónaskilnaði.

Herra forseti. Svo að aftur sé horfið að efni þessa góða frumvarps, þessa mikilvæga frumvarps okkar í Samfylkingunni, er ástæða til að árétta og ítreka enn og aftur að samfélagið á Íslandi stendur frammi fyrir dæmalausum aðstæðum sem eiga sér ekki hliðstæðu. Við einblínum á að þetta sé tímabundið ástand og lögð er á það áhersla í samtalinu að við ætlum að moka okkur saman í gegnum þennan skafl. Það hefur líka verið klifað á því að við sérstakar aðstæður þurfum við að beita sérstökum úrræðum. Við einmitt þessar aðstæður er skynsamlegt að við dreifum byrðunum á okkur öll. Ójöfnuður fylgir aðstæðum sem þessum, það segir sagan okkur. Hækkun atvinnuleysisbóta er því úrræði sem er raunhæft, sem er nauðsynlegt, til að ná þeim markmiðum að hindra að ójöfnuður aukist úr hömlu. Við skulum hafa það algjörlega á hreinu að fólk hefur lögvarinn rétt til atvinnuleysistrygginga sem gengur framar hvers kyns sjónarmiðum um fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs. Á endanum ber ríkið alltaf ábyrgð á því að tryggja að þessi réttindi séu virt og það er fráleitt að ýja að einhverju öðru. Við getum hækkað atvinnuleysisbætur og lækkað tryggingagjald eins og okkur sýnist svo lengi sem það er þjóðhagslega skynsamlegt.

Herra forseti. Kreppan í kjölfar Covid bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Grunnatvinnuleysisbætur eru mun lægri en lágmarkslaun. Til að dreifa byrðunum telja flutningsmenn þessa frumvarps afar mikilvægt að tekjutengda tímabilið verði lengt í þrjá mánuði, grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar í 95% af lágmarkslaunum og rétturinn til atvinnuleysistrygginga lengdur um 12 mánuði. Auk þess verði framlag með hverju barni hækkað varanlega og hlutabótaleiðin framlengd til 1. júní 2021. Þetta er kjarni málsins, herra forseti, og aðstandendur þessa frumvarps trúa því og treysta að rauði þráðurinn sé vel skiljanlegur og að samstaða náist hér á hinu háa Alþingi um að bregðast við eftir efninu og dreifa byrðunum í þeim erfiðleikum sem við glímum við og snerta alla þjóðina, að við berjumst saman gegn þeirri boðflennu og þeim vágesti sem nú knýr dyra, sem er ójöfnuður.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.