151. löggjafarþing — 14. fundur
 22. október 2020.
tekjustofnar sveitarfélaga.

[10:52]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, hefur farið yfir nokkur atriði er varða tekjustofna sveitarfélaganna að undanförnu og fjárhagslegan sveigjanleika þeirra til að bregðast við afleiðingum af aðgerðum ríkisstjórnar í sóttvörnum. Staða mála hjá sveitarfélögum er vægast sagt alvarleg ef stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Til að byrja með bendir Kristrún á að rekstur sveitarfélaga hafi ekki verið losaralegur á undanförnum árum. Sveitarfélögin hafi skilað álíka rekstrarjöfnuði og ríkissjóður ef frá eru taldar einskiptistekjur ríkissjóðs vegna slitabúa föllnu bankanna. Sveitarfélög landsins hafa almennt verið vel rekin þrátt fyrir að naumt sé til þeirra skammtað, vel rekin þrátt fyrir að flutningur á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga sé 18% af útgjaldaaukningu þeirra frá 2010. Ríkið gerir meira að segja aðhaldskröfu á framlög sín til sveitarfélaganna vegna málefna fatlaðra, aðhaldskröfu á laun.

Það er markmið stjórnvalda að gefa í upp úr niðursveiflunni, að koma með innspýtingu og drífa allt af stað aftur. En á sama tíma sýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að fjárfesting sveitarfélaga verður langt undir sögulegu meðaltali. Niðurstaðan er að þótt fjárfestingar ríkisins tvöfaldist á næsta ári miðað við árið 2019 minnkar fjárfesting bæði sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Heildarfjárfestingin hjá hinu opinbera verður 15 milljörðum minni en fyrir tveimur árum síðan og sambærileg við árið í ár. Það er nú öll innspýting hins opinbera sem á að koma okkur út úr kreppunni. Ríkisstjórnin varpar bara ábyrgðinni á hallarekstri yfir á sveitarfélögin. Það er ábyrgðarlaust og glæfralegt og vinnur gegn yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar, það bitnar á grunnþjónustu við íbúa þessa lands, það bitnar á viðkvæmustu hópunum og grefur undan grunnstoðum sveitarfélaga.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig getur sveitarstjórnarráðherra varið jafn glæfralega og ábyrgðarlausa stefnu gagnvart sveitarfélögum landsins?



[10:54]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það væri mjög áhugavert að taka hér málefnalega umræðu um stöðu sveitarfélaganna og nauðsynlegt. En nálgun hv. þingmanns er auðvitað mjög ómálefnaleg þegar hann segir að það sé stefna ríkisstjórnarinnar sem stefni sveitarfélögunum í einhvern vanda, þegar allir vita við hvað menn eru að fást við í þessu samfélagi, sem er heimsfaraldur, Covid. Það er alveg hægt að taka hér málefnalega umræðu um hvernig íslenska sveitarstjórnarstigið er byggt upp, á sjálfstæðum tekjustofnum, það var gert hér í fyrra svari í dag, og hversu ólíkt það er því sem til að mynda gerist annars staðar á Norðurlöndum. Hv. þingmaður fullyrti að hér væru öll sveitarfélög vel rekin. Það er einfaldlega hægt að fara í gegnum töfluna, en hópur sem var að störfum í allt sumar setti fram líkan, og það er augljóst að sveitarfélögin standa mjög misjafnlega. Það er augljóst af þeim lestri að sum sveitarfélög gætu staðið sig mun betur og jafnvel stærsta sveitarfélag landsins sem ætti þó að hafa mestu hagræðingarmöguleikana í krafti stærðar. Margt bendir til þess að ef það sveitarfélag eitt og sér þurfi að treysta á byggingarréttartekjur til þess að vera í plús þá sé eitthvað verulega að í þeim rekstri. Mér finnst þessar fullyrðingar hv. þingmanns ganga býsna langt.

Það er hins vegar allt önnur umræða að taka hér málefnalega umræðu um það hvernig við getum aukið opinberar fjárfestingar. Það gætum við gert í þinginu. Við gætum aukið þær og að því hefur ríkisstjórnin stefnt. Ég veit að slíkur áhugi er til staðar, ég heyri það alla vega hjá einstökum þingmönnum fjárlaganefndar. Það mætti líka velta fyrir sér hvort við getum nálgast það að taka umræðu um það, af því að sveitarstjórnarstigið er eins og það er, hvort ríkið eigi að koma þar að í einhverri opinberri fjárfestingu og búa til einhvern slíkan fjárfestingarsjóð. (Forseti hringir.) Við ættum að skoða slíka hluti til að hvetja til fjárfestinga sveitarfélaganna. Hér hefur verið rætt um að þau geti ekki nálgast lánsfé. (Forseti hringir.) Það eru 75 milljarðar í Lánasjóði sveitarfélaga á mjög góðum kjörum sem sveitarfélögin geta sótt í en sækja ekki í.



[10:56]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stefna stjórnvalda birtist í fjármálaáætlun, og ég spyr: Hvernig getur það verið meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar að sveitarfélög dragi úr opinberri fjárfestingu í efnahagslegri niðursveiflu? Hvernig gengur að segja: Innspýting með vinstri hendinni og samdráttur með þeirri hægri? Hvers konar stefna er það eiginlega, bæði betra einhvern veginn? Það er ekki heil brú í þessari áætlun ríkisstjórnarinnar, að bæta við hérna, minnka þarna, aðhald á fatlaða, lífskjaraskerðing fyrir aldraða, uppsagnarstyrkir til fyrirtækja, meiri framkvæmdir hjá ríkinu og minni hjá sveitarfélögum. Þetta er svo sannarlega ríkisstjórn með breiða skírskotun, ekki til hægri og vinstri heldur út og suður. Þær eru kaldar kveðjurnar sem ráðherra sendir byggðum landsins, og það er stórskuldug framtíð. Það kæmi mér ekki á óvart að það myndi styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar í áformum þeirra um lögþvingaðar sameiningar ef sveitarfélög þurfa að skuldsetja sig fyrir rekstri og verða enn háðari ölmusu frá ríkinu um hitt og þetta.



[10:57]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hvernig fór fyrri umræða þessa andsvars við óundirbúnum fyrirspurnum fram? Ég hvatti hv. þingmann til að fara í málefnalega umræðu. Hann kemur hér með niðurskrifaðar á blað, sem hann hefur væntanlega setið yfir í gærkvöldi, allar þær dylgjur (Gripið fram í.) sem hann ætlaði að vera með (Gripið fram í.) hér (BLG: Þetta eru athugasemdir við svarið sem þú varst með.) (Forseti hringir.) og hafa ekkert með það að gera (Gripið fram í.) sem ég var að hvetja til. Hann heldur sig bara við upptalningu á einhverri þvælu. Ég skal standa hér í pontu og taka sérstaka umræðu við hv. þingmann, vilji hann það, (Gripið fram í.) um stöðu sveitarfélaganna, um alla þá hluti sem hér eru. Ég er til í þá málefnalegu umræðu (Gripið fram í: … samningur milli sveitarfélaganna og ríkisins.) Og svo er nýbúið að ganga frá yfirlýsingu og samkomulagi við sveitarfélögin, annars vegar um opinber fjármál og yfirlýsingu þar að lútandi um stuðning að umfangi upp á eina 5 milljarða. Ef við metum þær aðgerðir sem hingað til hefur verið farið í eru þær sennilega nær 15 milljörðum. Ég er til í þá umræðu, hv. þingmaður, þó að mér sýnist, þegar ég sé undir iljarnar á þingmanninum, að hann sé það ekki.