151. löggjafarþing — 18. fundur
 12. nóvember 2020.
brottvísun fjölskyldu frá Senegal.

[10:32]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er skemmtileg tilbreyting að heyra Sjálfstæðismenn tala síðustu daga um mikilvægi þess að Ísland sé frjálst og opið og tækifærin sem felast í að bjóða erlent fólk velkomið hingað til að efla íslenskt samfélag og atvinnulíf, það er frábært. Það er mikilvægt að laða til okkar fólk til að láta þjóðina halda áfram að vaxa og dafna þannig að hér verði fjölbreytt og samkeppnishæft samfélag. Miðað við yfirlýsingarnar hélt ég skamma stund að verið væri að gera einhverjar kerfisbreytingar í útlendingamálum. Kerfið er þunglamalegt og óbilgjarnt í garð fólks utan EES sem flyst hingað og óvinveitt umsækjendum um alþjóðlega vernd. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að reyna að laga það, þvert á móti, og því vakti þetta ákveðna von. En það kom á daginn að fagnaðarlætin snerust um að nú á að leyfa efnuðum Íslendingum utan EES að koma hingað og vinna fjarvinnu fyrir erlend fyrirtæki í allt að sex mánuði án þess að greiða tekjuskatt á Íslandi. Ríkisstjórnin er sem sagt að opna fyrir eins konar Covid-ferðamennsku hratt og örugglega. Það er ágætishugmynd en á sama tíma eru fréttir um fjölskyldu frá Senegal sem hefur búið hér í sjö ár. Fjölskyldufaðirinn hefur stundað vinnu, borgað tekjuskatt í samræmi við það og lagt til samfélagsins. Dætur þeirra fæddust hér á landi, hafa alist hér upp alla tíð og aldrei komið til útlanda, herra forseti. Eldri stúlkan, sex ára, talar góða íslensku og er að læra að lesa með bekkjarfélögum sínum í Vogaskóla. Hér eru tvö ríkisfangslaus börn sem þekkja ekkert annað en íslenskt samfélag, en þau eru hins vegar ekki velkomin og ég spyr: Er hæstv. ráðherra jafn opinn fyrir því að greiða götu þeirra hratt og örugglega?



[10:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Vandinn í umræðu um þessi mál er einmitt þegar menn gera eins og hv. þingmaður, að rugla öllu saman sem snertir þennan málaflokk og setja í eina skál og hræra mjög hratt og kippa síðan einhverju upp og segja: Er þetta í lagi? Menn verða að geta gert greinarmun í umræðu um þessi mál á milli þeirra sem eru að flýja heimkynni sín, flýja stríðsástand, sækjast eftir alþjóðlegri vernd, og geta rætt um reglurnar sem við ætlum að láta gilda um þann málaflokk og síðan útlendingalögin í víðara samhengi, þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist vegna EES-samstarfsins og hvernig við ætlum að taka á t.d. dvalarleyfum og atvinnuréttindum þeirra sem eru utan EES. Þetta er sitthvor umræðan, sitt málið hvort. Að vísa til breytinga sem við erum að gera núna til þess að gera fólki sem vill koma tímabundið, vera hérna allt að hálfu ári og vinna frá Íslandi vegna starfa sem það hefur í útlöndum og vegna launa sem koma þaðan og rugla því saman við fjölskyldu frá Senegal sem leitar hér eftir alþjóðlegri vernd er auðvitað bara einhvers konar skrum í umræðunni. Þessi mál eiga ekkert sameiginlegt.

En við skulum endilega ræða það hvernig við gætum t.d. opnað fyrir möguleika okkar Íslendinga til að njóta krafta sérfræðinga sem vilja koma hingað, prófessora sem eru utan EES og vilja kenna við háskólana, vilja vera hérna kannski árlangt eða eitthvað slíkt, eða ræðum um aðra sérfræðinga sem vilja koma hingað og vinna. Helsti þröskuldurinn í vegi fyrir því, hv. þingmaður, er forgangsréttarákvæði kjarasamninga.

Mál einstakra fjölskyldna verða síðan að fá málsmeðferð, skjóta málsmeðferð. Ég ætla bara að segja alveg eins og er: (Forseti hringir.) Ég þekki ekki öll smáatriðin í þessu máli en ég tek eftir því að börnin hafi fæðst hér og ég spyr mig: Hvers vegna í ósköpunum hefur þessi staða skapast? (Forseti hringir.) Mér finnst það óeðlilegt.



[10:37]
Logi Einarsson (Sf):

Ég átti nú hálft í hvoru von á að hæstv. fjármálaráðherra myndi fara að ræða um að dýpka umræðuna eins og hann gerir gjarnan þegar hann veit ekkert í sinn haus. Hér er það hann sem grautar saman allri umræðu. Ríkisstjórnin hefur haft þrjú ár til þess að laga kerfið sem snýr að útlendingum og fólki sem hingað kemur. Hún hefur ekkert gert nema að leggja í þrígang fram frumvörp sem eru afturför.

Að flýja heimkynni sín? Varla eru þessir Covid-ferðamenn, sérfræðingarnir, prófessorarnir, að flýja heimkynni sín. Fjölskylda frá Senegal er ekki að óska eftir alþjóðlegri vernd, hún er að sækja um dvalarleyfi. Þetta er fólk sem hefur verið þátttakendur í íslensku samfélagi. Fjölskyldufaðirinn hefur unnið hér, hann hefur borgað skatta til samfélagsins. Og börnin eru búin að vera hérna í sex ár, eins og hæstv. ráðherra sagði, og ég skil heldur ekki af hverju þau fá ekki að vera hérna áfram.



[10:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Alþingi er ekki úrskurðarnefnd í málefnum útlendinga, það er bara ekki þannig. Hér gilda lög og reglur og við eigum þá að ræða um það hvort við viljum breyta lögunum, hvort við viljum breyta reglunum, hvort eitthvað sé bogið við framkvæmd laganna. Ég ætla bara að upplýsa hv. þingmann um það að ég er ekki með þetta mál til úrskurðar í mínu ráðuneyti. Þetta er málaflokkur á forræði annars ráðherra og ég þekki bara ekki málavöxtu þessa tiltekna máls. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er eitthvað bogið við það að fólk sem hefur búið svo lengi hér á Íslandi sé enn með sín mál óleyst, ég get vel tekið undir það. En ræðum þá hvers vegna það er. Á hvaða forsendum kom þetta fólk í upphafi til Íslands? Á hvaða grundvelli hóf það búsetu á Íslandi? Hver var staða þess þá? Hvernig hefur hún breyst yfir tíma o.s.frv.? Við getum alveg rætt þetta og spurt okkur hvort lögin þurfi að taka breytingum. En það er hv. þingmaður sem er að blanda þessu máli saman við öll hin tilvikin sem við erum að berjast fyrir breytingum á, t.d. til þess að við fáum öflugt fólk til að vinna að uppbyggingu þessa samfélags.