151. löggjafarþing — 18. fundur
 12. nóvember 2020.
staða innanlandsflugs.

[10:55]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar við þetta tækifæri að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um innanlandsflug og stöðu þess. Ég tók mál upp í umræðu um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025, þann 6. október sl., við hæstv. samgönguráðherra sem sneri að því hvernig á því stæði að gjaldtaka af innanlandsflugi hefði ekki verið lækkuð til samræmis við það sem var gert í Keflavík strax og Covid brast á. Samgönguráðherra benti þá á það réttilega að fyrrverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra ætti að þekkja það að Isavia er auðvitað á forræði fjármálaráðherra, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Isavia heyrir undir fjármálaráðuneytið hvað rekstur varðar. […] Það hafa engin skilaboð farið frá samgönguráðuneytinu um það hvernig stjórn eða stjórnendur Isavia eiga að haga sér í einstökum málum sem varða viðskiptavini þeirra.“

Af þessu verður ekki ályktað annað en að samskiptin hafi farið í gegnum fjármálaráðuneytið hvað þetta varðar. Staðan er sú núna að meira og minna öll gjöld hafa verið felld niður í Keflavík, sem má segja að sé eðlilegt í því ótrúlega ástandi sem flugið býr við þessa mánuðina og misserin. En í innanlandsflugi hefur verið tekið fullt gjald allan þann tíma en veittir ákveðnir greiðslufrestir sem nú eru liðnir að megninu til.

Mig langar við þetta tækifæri að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna var sú ákvörðun tekin að gjaldtaka af innanlandsflugi héldist óbreytt á meðan hún var felld niður á Keflavíkurflugvelli? Í öðru lagi: Kemur til greina að endurskoða þetta og þá jafnvel með afturvirku uppgjöri gjaldenda?



[10:57]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að sú ákvörðun að fella niður gjöld á Keflavíkurflugvelli kemur í raun og veru frá Isavia. Hugmyndin var rædd við ráðuneytin eftir að þetta hafði borið á góma í stjórn og meðal stjórnenda Isavia og við höfum í sjálfu sér ekki tekið neina sjálfstæða ákvörðun um að halda áfram gjaldtöku á innanlandsflug. Við höfum hins vegar verið að gera aðra hluti í innanlandsfluginu eins og loftbrúin er til vitnis um, til að greiða fyrir ódýrari samgöngum með flugi fyrir landsmenn sem búa í ákveðinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég er svo sem alveg opinn fyrir því að skoða eftir aðstæðum þörfina fyrir breytingar á gjaldskrá Isavia tímabundið vegna Covid-ástandsins. En ég held hins vegar að ef við ætlum að ræða innanlandsflugið í einhvers konar stærra samhengi þá þurfum við að taka fleira með í reikninginn og spyrja okkur út í þessa þróun sem hefur verið undanfarin ár, hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að hún haldi áfram eða hvort loftbrúin muni kannski brúa bilið, stoppa upp í þetta gat, mögulega vinda ofan af þeirri þróun sem hefur verið.

Þetta segi ég vegna þess að maður finnur svo sterkt fyrir því þegar maður fer um landið hversu gríðarlega mikilvægar flugsamgöngurnar eru fyrir fólkið sem býr langt frá höfuðborgarsvæðinu. Það getur haft veruleg áhrif á vilja fólks til að flytja vegna atvinnu út á land og hefur líka mikil áhrif á vilja fólks sem hefur alist þar upp til þess að búa þar áfram ef (Forseti hringir.) samgöngur við höfuðborgarsvæðið eru mjög erfiðar, þær eru einn af þáttunum sem skipta verulega miklu máli. Ég er ekki undirbúinn (Forseti hringir.) fyrir nánari greiningu á þessu máli en ég er alveg tilbúinn til að skoða þetta.



[10:59]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir gott svar. Loftbrúin er í sjálfu sér lengri tíma aðgerð og stígur ekki inn í þetta Covid-ástand sem nú er uppi í innanlandsfluginu. En það er hárrétt sem hæstv. ráðherra kemur inn á, að þessi langtímaþróun á innanlandsfluginu sé þyngri en tárum taki, og gjaldtakan á innanlandsflugið auðveldar ekki þá stöðu. Ég vil bara grípa boltann á lofti frá hæstv. ráðherra hvað það varðar að þessi mál verði skoðuð sérstaklega. Þó að ekki hafi verið tekin sérstök ákvörðun um að fella niður gjaldtöku á innanlandsfluginu, þá er í núverandi ástandi það að gera það ekki, af því ég tel mig vita að um þetta hafi verið rætt, líka ákvörðun. Þannig að ég vil bara hvetja hæstv. ráðherra til að taka þetta til skoðunar hið snarasta því að núverandi staða er bæði ósanngjörn og óbærileg. Og sannast sagna er staða innanlandsflugsins fullkomlega í köku víða um landið, hvað marga flugleiðir varðar.



[11:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég get bara sagt það að við samgönguráðherra höfum reglulega rætt þessi mál og ég veit að samgönguráðherra hefur töluverðar áhyggjur af innanlandsfluginu, bæði af þeim leiðum sem hafa gengið án beins ríkisstuðnings en hinar leiðirnar hafa líka verið til skoðunar. Mér finnst hv. þingmaður vera að benda á málaflokk sem skiptir miklu að við pössum upp á. Staðan er einfaldlega sú að mörgum þykir dýrt að styðja við flugsamgöngur um landið, en þegar betur er að … (Forseti hringir.) — Ég hef eiginlega, virðulegi forseti, haft rautt ljós allan tímann, finnst mér.

(Forseti (SJS): Já.)

Ég skal ljúka máli mínu með því að segja að það getur verið dýrara að gera ekkert í þessum málum en að reyna að styðja við flugsamgöngurnar. Kostnaðurinn af því sem getur gerst, ef heilu byggðirnar flosna upp, getur verið gríðarlega mikill.

(Forseti (SJS): Forseti biður hæstv. ráðherra velvirðingar á því að hann skyldi þurfa að tala á rauðu ljósi. En það var nú reyndar einu sinni farin heil fundaferð um landið á rauðu ljósi. )