151. löggjafarþing — 18. fundur
 12. nóvember 2020.
þrífösun rafmagns.

[11:09]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Sú sem hér stendur er mikil áhugamanneskja um eflingu byggða um allt land. Þess vegna vakti það mikla lukku þegar hæstv. iðnaðarráðherra sagði í samtali við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur í umræðu um fjármálaáætlun fyrr í haust, með leyfi forseta:

„Varðandi þrífösun rafmagns erum við að fara í meiri háttar framkvæmdir núna. Og með þessari nálgun, að greiða flýtigjald, er okkur í raun að takast að fara í jarðstrengjavæðingu í dreifikerfinu á fimm árum í stað 15. Þannig að við áætlum að ná því á þeim tíma, sem er mikið framfaraskref því að ekki er langt síðan menn sáu ekki fram úr því að geta klárað verkefnið nema á 15 árum en ekki fimm.“

Áformin eru góð en eitthvað annað virðist vera í gangi í raunheiminum. Eðlilega hafa menn um allt land kallað eftir þrífösun því að það eykur möguleika manna til atvinnuuppbyggingar, sem aftur styrkir byggðir. Velti ég fyrir mér víðfeðmum sveitum eins og Fljótsdalshéraði og Jökuldal þar sem langt er á milli bæja og vegalengdir miklar. Samkvæmt upplýsingum sem sú sem hér stendur hefur aflað sér virðist nú stefna í að þessu verði ekki náð á þessum tilgreindu fimm árum. Vil ég því spyrja hæstv. ráðherra hvort möguleiki sé að skilaboðin hafi ekki náð alla leið til þeirra sem vinna eiga verkin. Þá langar mig til að velta því upp hvort ekki sé upplagt að nota ferðina þegar ljósleiðari er lagður og gera þetta um leið. Þessi tilteknu sveitarfélög sem ég nefndi eiga töluvert langt í land, en menn eru tilbúnir með kaplana, eftir því sem ég best veit. Þetta er mikið verk sem þarf að ganga hratt fyrir sig. Ég velti fyrir mér hvort við getum ekki farið betur með fjármunina með því að nýta ferðina.



[11:11]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þær ákvarðanir sem við höfum tekið gera það að verkum að þetta verkefni mun ganga þrisvar sinnum hraðar, ef svo má segja, en við gerðum ráð fyrir. Staða þrífösunar í landinu í heild sinni er að 78% kerfisins eru þriggja fasa og þar af 67% með jarðstrengjum. Á Austurlandi er hlutfallið vissulega lægra, 60% og þar af eru um 53% kerfisins í jarðstrengjum. Dreifikerfi raforku á Austurlandi, sem er á hendi Rariks, er það yngsta í dreifikerfinu.

Þegar við fórum af stað með ljósleiðaraverkefnið, þegar ég var aðstoðarmaður innanríkisráðherra, var mikið lagt upp úr því að reyna að nýta þessi samlegðaráhrif. Það gekk ekki nægilega vel framan af, því miður. Rarik fullyrðir að þau skoði alls staðar mögulega samlegð með ljósleiðara, og bæði fjarskiptafélögin og sveitarfélögin fá upplýsingar um áform Rariks þannig að þessi samlegðaráhrif ættu að vera tryggð í meira mæli. En það er mikill kostnaðarmunur á lagningu ljósleiðara og raforkujarðstrengja og þar af leiðandi kann að vera erfitt fyrir fyrirtæki að elta ljósleiðaravæðinguna alltaf. Það má því vel vera að við getum gert betur í að tryggja að verkefnið nái fram að ganga með þessum hætti. En við höfum samt metnaðarfyllri áætlun núna, við breyttum í raun aðeins um hugsun, nálgun, um það hvernig þetta yrði gert. Við erum auðvitað að setja nýja peninga í þrífösunina til að þetta gangi hraðar fyrir sig, þannig að við setjum flýtigjaldið og framkvæmdirnar fari af stað. Við erum þannig að falla frá þeim áformum sem Rarik hefur hingað til haft um að horfa að mestu leyti á aldur þessara lína. (Forseti hringir.) Það er mikið framfaraskref að ná því fram en hvort við getum gert enn betur — ég er að sjálfsögðu opin fyrir athugasemdum um slíkt.



[11:14]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör og hvet hana til dáða. Þarna er sannarlega nýr peningur og er þá ekki upplagt að nota nýja peninginn enn þá betur og nota ferðina ef okkur er nokkur kostur á því? Ég skynja að menn eru áhugasamir um það og vona ég að það gangi fram.

En ég get ekki látið hjá líða að koma hér upp og eiga orðastað við hæstv. ráðherra án þess að nefna jöfnun flutningskostnaðar raforku og kalla eftir því hvernig þau mál standa. Nú stendur ferðaþjónustan vissulega höllum fæti, á virkilega erfitt víða um land, en þetta tel ég vera eitt stærsta atvinnuþróunarmálið í strjálbýli á Íslandi. Það er alveg undarlegt hvað okkur hefur gengið hægt í þessu, einhver skref hafa náðst en ég kalla eftir því að við stígum fast til jarðar og höldum áfram. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessara mála.



[11:15]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað varðar mikilvægi þess að jafna dreifikostnað raforku. Ég hef sagt það í riti og ræðum úr þessum stól að í mínum huga sé þessi munur einn helsti og stærsti galli raforkukerfisins sem við höfum hér. Jöfnunargjaldið, sem var sett á laggirnar 2015, átti að duga en það dugar ekki. Það munar um 1.000 milljónum. Eins og staðan er núna þarf 2.000 milljónir til að jafna muninn. Við höfum nokkrar mögulegar leiðir í því en í fjármálaáætlun 2021–2025 gerum við ráð fyrir auknum framlögum til jöfnunar dreifikostnaðar raforku. Gert er ráð fyrir hækkun sem nemur um 730 millj. kr. Það er þá annars vegar 13% hækkun á jöfnunargjaldi raforku, þar sem við erum að uppfæra það með tilliti til verðlags, og hins vegar sérstakt framlag úr ríkissjóði upp á 600 milljónir. Langar mig að geta hakað við þetta, klárað þetta og jafnað að fullu? Vissulega. Það er stórt skref að setja þetta mikla nýja fjármuni í að hækka hlutfallið, sem er í dag um 50%, en við höfum sett okkur markmið um miklu hærri prósentu. Með þessum breytingum (Forseti hringir.) náum við um 85% sem er heilmikil breyting. En ef hægt er á þessum tímum að finna viðbótarfé (Forseti hringir.) til að klára þá mun ég styðja það. En þetta er vissulega meiri háttar breyting frá því sem nú er.