151. löggjafarþing — 18. fundur
 12. nóvember 2020.
aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi, fyrri umræða.
þáltill. RBB o.fl., 239. mál. — Þskj. 257.

[12:23]
Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Herra forseti. Staða mannréttinda í Póllandi vekur bæði ugg og hrylling. Afnám sjálfsagðra réttinda kvenna yfir eigin líkama er gríðarlegt bakslag í kvenréttindum og um leið gríðarleg afturför mannréttinda í landi sem er í Evrópu og er aðildarríki Evrópuráðsins eins og Ísland og hefur þar með undirgengist alþjóðasamninga og sáttmála um réttindi kvenna og mannréttindi. Þessi dapurlega og í raun ömurlega þróun sem staðið hefur yfir á valdatíma stjórnarflokksins Lög og réttur, í þá átt að skerða harkalega réttindi kvenna og réttindi hinsegin fólks, hefur náð ákveðnu hámarki, eða skulum við frekar segja ákveðnum botni, með úrskurði stjórnlagadómstóls Póllands þann 22. október sl. um nær algjört bann við fóstureyðingum nema ef sannað þykir að konan eða stúlkan hafi orðið fyrir nauðgun, hvort sem er af hálfu ættingja eða ókunnugs, eða sannað þykir að líf konunnar eða stúlkunnar sé í hættu.

Úrskurðurinn hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð mannréttindasamtaka og kvenréttindasamtaka í Póllandi og í Evrópu en líka hjá almenningi í Póllandi sem hefur frá því að úrskurðurinn féll mótmælt stanslaust um allt Pólland undir forystu grasrótarkvennahreyfingarinnar Strajk Kobiet. Hundruð þúsundir og allt að milljónir mótmælenda hafa mótmælt víðs vegar í borgum landsins á borð við Varsjá, Lodz, Poznan, Gdansk og Kraká síðastliðnar vikur. Um er að ræða langfjölmennustu mótmæli sem sést hafa í landinu frá árinu 2015 þegar últra hægri íhalds- og þjóðernisflokkurinn Lög og réttur náði meiri hluta í ríkisstjórn Póllands.

En þetta eru ekki bara fjölmennustu mótmæli frá því 2015 heldur eru mótmælin nú þau fjölmennustu frá því þegar stjórnmálaaflið Samstaða felldi stjórn kommúnista á níunda áratugnum. Þessi mótmæli eiga sér stað nú þrátt fyrir Covid-19 sem geisar í Póllandi líkt og annars staðar í Evrópu, enda er þörfin til að mótmæla sterk hjá mótmælendum, mjög sterk. Það er verið að mótmæla freklegri feðraveldismenningu sem telur sig geta ráðið yfir líkama og sjálfsákvörðunarrétti kvenna um leið og komið er illa fram við konur og sjálfsögð réttindi þeirra, allt í skjóli trúarofstækis, andstyggilegs popúlisma, afturhalds og djúpstæðrar kvenfyrirlitningar. Enda eru slagorð pólsku mótmælendanna nú í Póllandi að Pólland sé orðið að kvennahelvíti. Við þetta kvennahelvíti svokallaða bætist niðurlægjandi framkoma pólsku ríkisstjórnarinnar við hinsegin fólk, flóttafólk og minnihlutahópa sem pólska ríkisstjórnin dregur réttindi af stöðugt. Samfélagið hefur fengið nóg, kyrja pólskir mótmælendur.

Herra forseti. Í samtölum mínum við pólskar konur í kvenréttindasamtökum þar í landi og hér á Íslandi hefur ótti og reiði verið allsráðandi. Ótti þeirra er undirliggjandi í því hvernig pólskar konur og stúlkur eiga að geta ráðið yfir sínum eigin líkama við þessar pólitísku aðstæður og hvernig þær eiga að geta fengið þá lífsnauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem þungunarrof er, kjósi kona eða stúlka það. Stuðningur frá erlendum vinveittum ríkjum til þeirra er þeim lífsnauðsynlegur.

Því er það, herra forseti, spurning um líf eða dauða hvort konur og stúlkur fái löglega og faglega heilbrigðisþjónustu á meðgöngu þegar þær kjósa að undirgangast þungunarrof eða hvort þær eru neyddar til þess að gera það á ólöglegan hátt. Sú ólöglega leið getur einfaldlega verið lífshættuleg konum og stúlkum eða valdið líkamlegum skaða um alla ævi. Þetta hefur mannréttindastjóri Evrópuráðsins, Dunja Mijatovic, bent á og hún hefur gagnrýnt harðlega úrskurð stjórnlagadómstólsins fyrir að skerða sjálfsögð mannréttindi kvenna en líka vegna ógnarinnar sem steðjar með úrskurðinum að heilsu þeirra.

Það er því í fullri og einlægri samstöðu með réttindabaráttu pólskra kvenna og kvenréttindum í Evrópu sem ég legg þessa þingsályktunartillögu fram um að Alþingi Íslands feli heilbrigðisráðherra að tryggja að einstaklingar sem ferðast hingað til lands, í því skyni að gangast undir þungunarrof, fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Þetta verði bundið því skilyrði að viðkomandi megi ekki gangast undir þungunarrof vegna lögbundinna hindrana í heimalandinu og uppfyllir skilyrði í lögum um þungunarrof, nr. 43/2019. Þá þurfi viðkomandi að geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu.

Herra forseti. Aðstæður til að bjóða konum sem ferðast til Íslands upp á þessa þjónustu eru góðar. Nýlokið er heildarendurskoðun á lögum um þungunarrof, einmitt lög nr. 43 sem samþykkt voru árið 2019, en yfirlýst markmið þeirra er að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Ísland er þar að auki aðili að fjölmörgum alþjóðasamningum, m.a. samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, Istanbúl-samningnum, og kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem m.a. er kveðið á um rétt kvenna til heilbrigðisþjónustu.

Með hliðsjón af því er markmið þessarar þingsályktunartillögu að tryggja að einstaklingum, sem hafa erlent ríkisfang og hafa ekki dvalið hér á landi til lengri tíma en geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu, séu veitt þau réttindi sem lög nr. 43/2019 tryggja. Með því væri verndaður réttur þeirra sem ekki geta notið sjálfsforræðis yfir eigin líkama, í ljósi laga eða niðurstöðu dóma í heimalandi þeirra.

Með þessari þingsályktunartillögu er tekin afgerandi staða með kvenréttindum í Evrópu. Aðgengi að þungunarrofi er ekki jafnt innan Evrópska efnahagssvæðisins, til að mynda má ekki framkvæma þungunarrof á Möltu nema líf konunnar sé í hættu. Þannig mun þingsályktunartillagan ná yfir þessi tvö lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins, Möltu og Póllands. Þó að það væri óskandi að geta tekið á móti fleiri konum eða einstaklingum sem ekki hafa þessi réttindi í heimalandi sínu eru flutningsmenn frumvarpsins meðvitaðir um það bakslag sem er í sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir líkama sínum í Evrópu sem verður að sporna við. Það er í krafti evrópskrar samvinnu á vettvangi heilbrigðisþjónustu á Íslandi hægara um vik að tryggja konum og einstaklingum með evrópska sjúkratryggingakortið þá sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu sem felst í þungunarrofi, ef konur eða stúlkur kjósa svo sjálfar.

Herra forseti. Aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðgöngu eru grundvallarmannréttindi. Með því að tryggja aðgengi erlendra borgara, sem annars hafa ekki löglegan rétt til þessarar þjónustu, tæki Ísland afgerandi stöðu með réttindum þeirra, ekki bara hérlendis heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi og gæfi skýr skilaboð um að íslenska þjóðþingið og íslensk heilbrigðisyfirvöld standi með réttindum kvenna í Evrópu og um allan heim.

Ég vil líka í þessu samhengi benda þeim þingmönnum, sem hafa komið hér upp í ræðustól Alþingis og flutt ræður sem ekki hefur mátt veita andsvör við eða skrifað greinar í Morgunblaðið, sem er orðið eina málgagn Donalds Trumps í Vestur-Evrópu, um að hér muni landið fyllast af pólskum konum og stúlkum til þess að fara í þungunarrof, á það að ef við ætlum að standa með frelsi og lýðræði í Evrópu þá þurfum við að taka afstöðu, og það afgerandi afstöðu, með réttindum og heilbrigði kvenna í Evrópu. Þessi þingsályktunartillaga er afstaða með kvenréttindum í Evrópu og með því að við tökum afstöðu gegn uppgangi fasisma og valdahyggju og yfirgangi karla yfir líkama kvenna sem þær eiga sjálfar og ráða yfir sjálfar.

Þetta er nauðsynleg barátta vegna þess að við sjáum það í Evrópu núna að bakslagið gegn sjálfsögðum réttindum kvenna er að harðna. Við sáum það í fréttum í gær frá Póllandi þegar vopnaðir nýnasistar gengu um götur Varsjárborgar til þess að mótmæla sjálfsögðum réttindum pólskra kvenna yfir sínum eigin líkama. Sjaldan hefur andstaðan við kvenréttindi verið vopnuð svo afdráttarlaust eins og hún sást í gær. Og þetta eru sumir þingmenn í íslenska þjóðþinginu að styðja með sínum gunguhætti og skrifum og þar með að taka afstöðu með uppgangi þessarar pólitíkur í Evrópu.

Ég vil þakka þeim 18 þingmönnum sem eru flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu því að þeirra afstaða er skýr. Þau taka afstöðu með réttindum kvenna, með mannréttindum, með frelsi og lýðræði í Evrópu og fyrir það ber að þakka.



[12:34]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og fyrir að vekja athygli á mannréttindum almennt í löndunum í kringum okkur. Við gerum aldrei nógu mikið af því að mínu mati og rödd okkar Íslendinga á að heyrast hvað þetta varðar á alþjóðavettvangi. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir það. Hv. þingmaður leggur áherslu á að sýna samstöðu og það er gott og vel en síðan eru náttúrlega skiptar skoðanir á því hvernig við sýnum þessa samstöðu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort að við vinnslu þessarar tillögu hafi verið leitað álits hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi á því hvort hægt sé að taka á móti þessum konum eins og lagt er upp með í tillögunni. Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann í fyrra andsvari hvort hún sjái fyrir sér að þessar aðgerðir yrðu framkvæmdar á einkastofu, hvort sá möguleiki hafi verið skoðaður. Ég kem í næsta andsvari aðeins að kostnaði vegna tillögunnar.



[12:36]
Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið og fyrir góð orð þegar kemur að því að standa vörð um mannréttindi. Ég veit að hv. þingmaður er líka áhugasamur um mannréttindi og vörslu þeirra. Já, ég hef verið í samtölum við heilbrigðisstarfsfólk. Það er kannski rétt að geta þess að það er erfitt um vik að áætla hversu margar konur eða stúlkur myndu leita hingað til lands. En það ber líka að geta þess að það er hægara um vik fyrir konur og stúlkur frá Póllandi að leita frekar til nágrannalandanna. Ég veit sömuleiðis að það hefur verið komið upp ákveðnum móttökumiðstöðvum, sem eru staðsettar í Amsterdam í Hollandi, Prag í Tékklandi og í Berlín í Þýskalandi, sem bjóða pólskum konum og stúlkum aðstoð við að leita eftir löglegri og faglegri aðstoð þegar kemur að þungunarrofi, kjósi þær að gera svo.

Seinni spurningin var væntanlegan um kostnað. (BirgÞ: Um einkastofur.) Mér er ekki kunnugt um að einkastofur framkvæmi þungunarrof á Íslandi. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um að fela heilbrigðisráðherra að tryggja að einstaklingar sem hingað koma til að undirgangast þungunarrof geti það, kjósi viðkomandi að gera svo.



[12:38]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil þá koma aðeins að kostnaðinum. Þar sem ég sit í fjárlaganefnd hef ég verulegar áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og þeirri miklu skuldasöfnun sem núna skellur á ríkissjóð, u.þ.b. milljarður á dag eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur staðfest. Ég held því að alveg nauðsynlegt sé í umræðum um þessa tillögu að ræða aðeins þann kostnað sem hugsanlega gæti fallið á ríkissjóð vegna málsins, ef hv. þingmaður gæti farið aðeins yfir það. Auk þess er ekki vitað, eins hv. þingmaður nefndi, hversu margar konur kæmu hingað. Ef svo færi að þær yrðu mjög margar, sér hv. þingmaður fyrir sér að það yrði einhvers konar kvóti? Ég held að það sé alveg ljóst að heilbrigðiskerfið gæti ekki sinnt verulegum fjölda. (Forseti hringir.) Yrði einhver kvóti lagður til og hvernig yrðu konur (Forseti hringir.) hugsanlega valdar til þess að fá að koma hingað, ef út í það færi?



[12:39]
Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Eins og ég kom inn á áðan er erfitt um vik að áætla þann fjölda kvenna og stúlkna sem hingað kæmu til að fá þessa heilbrigðisþjónustu og því um leið erfitt um vik að áætla kostnað. En þegar talað er um kostnað ríkissjóðs við þessa þingsályktunartillögu vil ég benda á það að konur af pólskum uppruna, konur frá Póllandi sem hingað hafa komið til að vinna á Íslandi, hafa greitt í ríkissjóð skatta og gjöld og hafa verið ómissandi þáttur í uppgangi ferðaþjónustunnar undanfarin ár, ómissandi þáttur í því að halda hér uppi ákveðnum atvinnugreinum. Þær hafa verið ómissandi þáttur vinnuafls á Íslandi og greitt framlag sitt í ríkissjóð Íslands. Á þetta vil ég benda þeim þingmönnum sem eru hræddir eða óttaslegnir yfir kostnaðinum sem falla mun á ríkissjóð vegna tillögunnar.



[12:40]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi. Mér sýnist þetta vera eindregin stuðningsyfirlýsing við konur í Póllandi, vegna þeirrar hörðu löggjafar sem þar er í sambandi við þungunarrof, að þetta sé hreinlega stuðningur og yfirlýsing um að viðkomandi sé á móti þeirri löggjöf. Ég er það líka. Ég tók eftir því þegar hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir talaði áðan að hún horfði beint á mig þegar hún talaði um einstaka karlmenn í þingsalnum og nýnasista og ég veit ekki hvað. Ég ætla ekki að taka það til mín, ég styð ekki nasista. (RBB: … ekki beint til þín. ) Ég vil ekki ráða yfir líkama kvenna, það kemur ekki til greina, það hefur aldrei verið inni, þær ráða sér alveg sjálfar.

En ég vil spyrja út í þessa þingsályktunartillögu vegna þess að það eru mörg „ef“ í þessu. Heilbrigðisráðherra á að tryggja þeim sem koma hingað heilbrigðisþjónustu ef farið verður út í þetta en það er ekkert vitað hvað þeir yrðu margir, hvort þeir verða 1.000, 10.000, 50.000 eða hvað. Segjum að 5.000 myndu vilja koma inn á einu bretti. Það er ekki vitað hvernig við ætlum að tryggja það, hvernig ráðherra á að tryggja það eða hver á að vita hvernig þetta verður. Maður veit það ekki en maður óttast að rosalegur fjöldi gæti komið. Þá hef ég oft velt fyrir mér, við erum að gera um 1.000 fóstureyðingar á Íslandi á ári: Hvað verður um fóstrið, í sambandi við þessar erlendu konur? Sumar vilja kannski jarða það. Hvernig verður þeim málum háttað? Er lausn á því í þingsályktunartillögunni?



[12:43]
Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú biðja hv. þingmann afsökunar á því ef mínu skarpa augnaráði var beint til hans og í hans átt þegar ég var að tala um nýnasista. Að sjálfsögðu var ég alls ekki að beina þeim orðum mínum að hv. þingmanni. Ég held að hann viti ósköp vel að ég hef ekki verið að því, alls ekki. Ég biðst bara afsökunar ef hann hefur tekið þessi orð mín eitthvað til sín. Uppgangur nýnasisma í Evrópu liggur þungt á mér og við höfum því miður verið að sjá þá ægilegu þróun undanfarin ár.

Varðandi fjöldann: Þetta er þingsályktunartillaga um að fela heilbrigðisráðherra síðan útfærsluna, að tryggja aðgang erlendra borgara sem hingað ferðast í því skyni að þessari þjónustu. Löggjafarvaldið fer ekki með útfærslu á framkvæmdinni. Einn tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er einmitt að fela heilbrigðisráðherra að tryggja þeim þjónustuna. Það er í raun og veru lykilorð í því hvernig útfærslan verður.

Herra forseti. Ég held að ég og meðflutningsmenn á þessari þingsályktunartillögu deilum alls ekki ótta þingmannsins um að hér flæði yfir mörg þúsund konur og stúlkur til að undirgangast þungunarrof. Ég hef satt að segja engar áhyggjur af því að heilbrigðiskerfið á Íslandi geti ekki ráðið við það. Ég held að það verði ekki raunin vegna þess að það hefur komið í ljós að þingmenn annarra ríkja hafa líka lýst yfir vilja sínum til þess að þeirra ríki bjóði fram sína aðstoð.



[12:45]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir svarið en hún svaraði ekki spurningu minni um það hvernig eigi að leysa þau vandamál þegar búið er að eyða fóstri. Hvað á að gera við fóstrið? Ég spyr vegna þess að ég veit ekki hvaða lagalegi grundvöllur liggur fyrir, hvort megi flytja það á milli landa, hvað megi gera, hvernig eigi að leysa það. Við verðum að vita það vegna þess að við getum ekki bara verið með plan A, við verðum að vera með plan B og C. Það er svo margt sem við vitum ekki í þessu samhengi. Við vitum ekkert hvort margir koma eða fáir og þess vegna verðum við líka að vera búin undir það að margir gætu komið. En ég hef ekki hugmynd um það. Það hefur komið fram, og ég veit ekki hvort það er rétt og ég hef ekki kynnt mér það, að þörfin gæti verið milli 150.000–200.000 fóstureyðingar á þessu svæði. Ef það er rétt og við fáum 10% af henni þá erum við að fá fjölda, ef við fáum 5% þá erum við líka að fá gífurlegan fjölda. Við vitum ekkert en við (Forseti hringir.) verðum líka að vera með plan B og C, er það ekki?



[12:46]
Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Herra forseti. Til að svara spurningunni sem fram kom í fyrra andsvari og hv. þingmaður ítrekaði hér í seinna andsvari um hvað verður um fóstur þá vil ég bara að minna á það að fósturvísir sem er eytt í þungunarrofi er ekki barn. Ég held að við ættum að forðast umræður um það hvað verður um fóstur og hver er lagalegur grundvöllur fyrir því, mér finnst það ekki tengt málinu. Þingsályktunartillagan fjallar um það að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að tryggja einstaklingum sem hingað ferðast til að undirgangast þungunarrof þá sjálfsögðu þjónustu sem lýtur að réttindum kvenna og stúlkna til að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðgöngu. Kjósi þær að gangast undir þungunarrof er þetta viðunandi heilbrigðisþjónusta sem viðkomandi konur, stúlkur og einstaklingar kjósa og vilja fá.



[12:47]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki jafn áhyggjufullur og þeir hv. þingkarlar sem hafa raðast hér á undan mér í andsvör við hv. þingkonu. Ég er einn af meðflutningsmönnum málsins og þakka fyrir tækifærið til þess, af því að þetta er fyrst og fremst og umfram allt kannski mikilvæg yfirlýsing frá löggjafarþingi Íslands um að við stöndum með sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Þar er ekki vanþörf á þegar verið er að þrengja að honum um allan heim. Það er ekki óvart eða einhvern veginn, heldur er með skipulögðum hætti verið að berjast gegn þessum réttindum í Evrópu. Þetta gerist ekki af sjálfu sér í Póllandi og á Möltu. Þetta er vegna þess að fólk kemur þangað með peninga og það markmið að þrengja að þessum réttindum.

Mig langar að spyrja þingmanninn, vegna þess að hún situr í utanríkismálanefnd og kvenréttindi eru meðal aðaláherslna Íslands í utanríkismálum, sérstaklega í þróunarsamvinnu þar sem frjósemisréttindi kvenna eru efst á lista hvað varðar þau réttindi sem þarf að berjast fyrir í fátækari ríkjum heims: Hvernig ríma svona hugmyndir við það? Ætti það ekki að liggja beint við fyrir Ísland að vera kyndilberi fyrir þennan málstað?

Hér hefur verið blásinn upp ótti við það að íslenskt heilbrigðiskerfi kikni undan álagi við það að hér flæði yfir landið konur í leit að þungunarrofi. Þetta endurspeglar ekki fjöldann sem er líklegur til að nýta sér þá þjónustu. Og þetta endurspeglar heldur ekki veruleikann á heilbrigðisstofnunum eða veruleika kvenna sem framkvæma þungunarrof vegna þess að á Íslandi fara 80% þungunarrofs (Forseti hringir.) fram með lyfjagjöf, yfirleitt taka konur bara pillu heima hjá sér. Er ekki dálítið verið að (Forseti hringir.) dramatísera þetta úr öllu hófi miðað við allan raunveruleika kvenna sem velja að binda enda á þungun?



[12:50]
Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Þessi þingsályktunartillaga rímar mjög vel við málflutning Íslands á alþjóðavettvangi og áherslur Íslands í utanríkismálum undanfarin ár og hvernig við höfum talað á alþjóðavettvangi og þess þá heldur að Ísland og íslenska þjóðþingið taki einarða og skýra afstöðu með kvenréttindum vegna einmitt þeirrar stöðu sem við höfum á alþjóðavettvangi, vegna þess að önnur ríki líta til okkar sem fyrirmyndarríkis þegar kemur að jafnréttismálum og réttindum kvenna. Þess þá heldur að við gefum þau skýru skilaboð til Evrópu og til annarra ríkja að við séum tilbúin til þess að halda hér vörð um réttindi og standa gegn því að verið sé að skerða réttindi kvenna.

Ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að benda á, að meiri hluti þungunarrofs fer fram í heimahúsum kvenna. Þær fá lyfjagjöf, fara heim til sín og bíða svo eftir því að lyfið virki. Það er kannski meira andlegt álag á þær konur en beinlínis á heilbrigðisstarfsfólk með einhverjum beinum inngripum, eins og hefur komið fram að margir þingmenn hér óttast.



[12:52]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar í seinna andsvari að spyrja aðeins út í söguna. Þegar við afgreiddum lög um þungunarrof fyrir tveimur árum voru raddir hér í þingsal sem vildu stíga skref aftur á bak miðað við þau lög sem við vorum að kveðja, vildu fara aftur fyrir 1974 og þrengja lögin frá því sem þá náðist fram. Þá er kannski nærtækast að nefna þingmennina sem lögðu til að stytta tímarammann sem konur gætu nýtt sér þessa heilbrigðisþjónustu úr 22 vikum, sem allir læknar og allir vísindamenn sögðu að væri hinn eðlilegi viðmiðunarpunktur, niður í 18 eða 20 vikur, eftir því hver hélt á. Um þetta voru greidd atkvæði hér í salnum. Hæstv. fjármálaráðherra studdi t.d. að þrengja þetta niður í 20 vikur, sem hefði þýtt að Ísland hefði horfið aftur (Forseti hringir.) til þess tíma þegar konur þurftu að leita til Bretlands til að sækja sér þessa þjónustu vegna þess að hún var bönnuð á Íslandi. (Forseti hringir.) Skuldar Ísland ekki heiminum, sem hjálpaði konum fyrir 1974, að að veita þá þjónustu konum (Forseti hringir.) sem ekki geta sótt sér hana í dag?

(Forseti (BN): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk. )



[12:53]
Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek bara undir þessa áminningu um söguna og sögu íslenskra kvenna sem þurftu að leita til útlanda eftir þeirri heilbrigðisþjónustu sem þungunarrof er.

Mig langar líka aðeins að minna á samband Íslands og Póllands. Það er gott og djúpstætt. Hér búa um 8.100 konur frá Póllandi á aldrinum 15–90 ára og þá eru ótaldar pólskar konur sem hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt, sem bætast við þessa tölu. Þessar konur hafa verið ómissandi þáttur íslensks samfélags, eins og ég minnti á hérna áðan, undanfarin ár og áratugi. Við skuldum þeim líka að standa af öllu afli með réttindum kvenna í heimalandi þeirra. Það er skuld okkar við pólskar konur.



[12:55]Útbýting: