151. löggjafarþing — 18. fundur
 12. nóvember 2020.
meðferð einkamála, 1. umræða.
frv. ÞSÆ o.fl., 101. mál (rökstuðningur við málskostnaðarákvarðanir). — Þskj. 102.

[17:13]
Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér mál sem ég held að ég hafi flutt tvisvar sinnum áður en nú í aðeins breyttri mynd. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og varðar rökstuðning við málskostnaðarákvarðanir.

Upphaflega lögðum við fram þetta mál í því formi að við myndum setja sérstaka skyldu til að rökstyðja málskostnaðarákvarðanir í málum er vörðuðu tjáningu, meiðyrðamál og slíkt. Það var gert til að bregðast við því að fjársterkir aðilar eiga það oft til að fara í meiðyrðamál við fjölmiðla, meira að segja vitandi að þeir muni tapa málinu, vitandi að þeir hafi engan rétt að sækja í raun og veru, en tefja viðkomandi fjölmiðil, valda honum kostnaði og hafa af honum fé. Það hefur tíðkast og eru dæmi um slíkt að þó að fjölmiðill eða einstaklingur sem hefur tjáð sig hafi unnið málið, tjáning hafi verið metin réttmæt, hafi viðkomandi samt sem áður verið látinn bera eigin málskostnað. Það er auðvitað vond staða að þegar fólk er sýknað af kæru sem beinist að tjáningu fólks, beri það samt sem áður umtalsverðan kostnað af því að hafa verið kært fyrir að tjá sig. Þetta hefur kælandi áhrif á tjáningarfrelsi í landinu, virðulegi forseti, ef þeir sem verða fyrir svona mega eiga von á því að bera umtalsverðan kostnað, meira að segja þó að þeir vinni málið, lögfræðikostnað og annað.

Til eru fjölmörg dæmi um dóma þar sem hinn stefndi vann málið í öllum efnisatriðum en var eftir sem áður látinn bera allan málskostnað. Þekktasta dæmið og kannski það sem fólk kannast best við í þessum málum er málið Egill Einarsson, eða Egill Gillz, gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni. Eins og þekkt er var birt ljósmynd af stefnanda ásamt texta þar sem hann var kallaður nauðgari. Krafist var ómerkingar á myndinni og ummælunum á grundvelli þess að þetta hefði falið í sér ærumeiðingu. Málskostnaður var felldur niður á báðum dómstigum þótt hinn stefndi hafi unnið málið. Ég held að hann hafi verið upp á einar 3 milljónir. Þannig að þó að tjáningin hafi verið samþykkt sem lögmæt tjáning þá var hún mjög dýr tjáning og mætti auðvitað segja að hún hafi falið í sér févíti eða refsingu, að þurfa að borga svona mikinn kostnað, að þurfa að eyða svo miklum tíma fyrir dómi o.s.frv.

Upphaflega var þetta frumvarp lagt fram til að bregðast við þessari stöðu. Þetta kemur endurtekið fyrir. Við höfum mörg dæmi um mál þar sem viðkomandi hefur unnið meiðyrðamál en hefur samt sem áður þurft að borga það dýrum dómum. Það er auðvitað ekki gott.

Ég ætla að leyfa mér að drepa aðeins niður í greinargerð með frumvarpinu, virðulegi forseti. Ég flyt þetta mál aftur og vil útskýra þá breyttu nálgun sem við erum núna með í málinu. Hún felur í sér að við leggjum til að í stað þess að dómstólum sé skylt að koma með rökstuðning við málskostnaðarákvarðanir, þ.e. einungis þegar kemur að tjáningu, þá eigi það einfaldlega við um öll dómsmál. Að dómarar þurfi að koma með rökstuðning við málskostnaðarákvarðanir. Við leggjum það til til að gæta jafnræðis. Það geta verið ýmis önnur tilvik þar sem þetta getur skipt verulegu máli. Við gerum þetta á þeim grunni að þau grundvallarviðmið og grundvallarprinsipp réttarríkisins gilda á Íslandi eins og annars staðar að einstaklingar eiga rétt á að fá rökstuðning fyrir ákvörðun dómstóla. Svo er auðvitað hin almenna regla að sá sem tapar dómsmáli í öllum meginatriðum eigi að bera kostnað hins sem vann málið í öllum meginatriðum.

Markmið þessa frumvarps er að tryggja að rökstuðningur fylgi ákvörðunum dómara um málskostnað, til að mynda þegar vikið er frá meginreglunni um að sá sem tapar máli skuli greiða málskostnað. Hingað til, og það er vandamálið sem við erum að reyna að leysa með þessu frumvarpi, hafa að jafnaði engar skýringar fylgt slíkum ákvörðunum og erfitt hefur verið að átta sig á þeim atriðum sem lögð hafa verið til grundvallar.

Ýmis atriði eru nú þegar lögfest um málskostnað í lögum um meðferð einkamála. Málskostnaði hefur verið lýst sem nokkurs konar skaðabótum þess aðila sem vinnur mál, en hugsunin að baki reglum um að annar aðili greiði hinum málskostnað er að gera þann aðila sem vinnur mál skaðlausan af málarekstri sínum. Samkvæmt 130. gr. laga um meðferð einkamála getur dómari tekið ákvörðun um að annar aðili skuli greiða hinum málskostnað, að annar aðili greiði hluta málskostnaðar hins eða að málskostnaður verði látinn falla niður, og þannig beri hvor aðili um sig eigin málskostnað. En eins og ég sagði áðan er meginreglan sú að sá aðili sem tapar máli í öllu verulegu skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað.

Hins vegar hefur verið algengt á síðastliðnum árum að málskostnaður falli niður í vissum málaflokkum, jafnvel þó að annar aðilinn tapi málinu í öllu verulegu. Þar má sem dæmi nefna þegar einstaklingar höfða mál á hendur tryggingafélögum og íslenska ríkinu og öðrum stjórnvöldum. Hið sama kann að vera uppi þegar veruleg vafaatriði eru í máli þótt niðurstaða máls hafi orðið öðrum aðila í vil. Sömuleiðis er algengt að dómarar víki frá meginreglunni um skiptingu málskostnaðar í meiðyrðamálum þar sem annar aðilinn stefnir hinum fyrir brot gegn 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga, eða til ómerkingar ummæla samkvæmt 241. gr. sömu laga.

Það er áhugavert að í slíkum málum er líklegra en ella að málskostnaður verður felldur niður. Þetta á sérstaklega við um þau mál þar sem stefndu eru sýknuð af kröfum stefnanda. Það er vandamál, virðulegi forseti. Það er vandamálið sem við erum að reyna að leysa með þessu frumvarpi.

Í 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála eru talin upp atriði sem skulu koma fram í forsendum dóms þegar leyst er úr efnishlið máls með dómi. Samkvæmt f-lið málsgreinarinnar skal í forsendum greina rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði. Í h-lið sömu málsgreinar segir að í forsendum skuli greina málskostnað, en þó er ekki sérstaklega tilgreint að niðurstaða um málskostnað skuli vera rökstudd. Algengt er að ákvarðanir dómara um málskostnað séu annaðhvort lítið eða ekkert rökstuddar, jafnvel þó að um umtalsverð fjárhagsleg réttindi málsaðila geti verið að ræða. Þannig getur niðurfelldur málskostnaður þess aðila sem vann málið hlaupið á milljónum króna. Vegna þess hve stuttur rökstuðningur við málskostnaðarákvarðanir er alla jafna verður að líta svo á að þau rök sem liggja að baki málskostnaðarákvörðunum komi einfaldlega ekki fram.

Að réttarfar og málsmeðferð séu opinber er meginregla í einkamálaréttarfari. Að gera þann hluta dóma sem snýr að málskostnaði gagnsærri og ítarlegri er til stuðnings þeirri meginreglu. Það er einnig mat okkar að þetta sé í samræmi við ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar og við ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar. Að forsendur og rökstuðningur dóma skuli vera aðgengileg er nauðsynlegur hluti af þeirri réttindavernd sem 1. mgr. 6. gr. sáttmálans veitir.

Ég segi í lok greinargerðarinnar, með leyfi forseta:

„Ætlunin með frumvarpi þessu er m.a. að fá fram í dagsljósið rökstuðning í þeim málum þar sem er líklegra en ella að málskostnaður verði felldur niður, t.d. í meiðyrðamálum, enda munu þá ákvarðanir um málskostnað sæta mun ítarlegri gagnrýni en áður og mögulegrar endurskoðunar á æðri dómstigum. Í slíkum málum er líklegra en ella að málskostnaður verði felldur niður.“

Við leggjum til þá breytingu, virðulegi forseti, að þegar mál verður ekki fellt niður eða því vísað frá dómi eða lokið með sátt eða áritun þá skuli greina í forsendum rökstudda ákvörðun um málskostnað.

Virðulegur forseti. Lokaorð greinargerðar frumvarpsins eru að samþykkt þess stuðli að auknu réttaröryggi, auknu gagnsæi og því að auðveldara verði að greina ríkjandi réttarvenjur, réttarríkinu og tjáningarfrelsinu til heilla.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.